17.11.1986
Neðri deild: 12. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 925 í B-deild Alþingistíðinda. (784)

147. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Flm. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns aðeins ítreka þann skilning sem fram kom hjá hv. 3. þm. Reykv. í ræðu hans hér áðan að vitaskuld geta alþingiskosningar ekki orðið síðar en í aprílmánuði þegar kjörtímabilið rennur út. Ég held að það sé alveg augljóst mál að alþm. eru kjörnir til fjögurra ára og ég held að það sé mjög hæpið að nokkrum þm. detti í hug að Alþingi hafi á einhverjum tíma samþykkt stjórnarskrá og í henni felist að Alþingi ætlist til þess að það verði lagt niður svo og svo langan tíma í staðinn fyrir að rétt sé að kjósa að fjórum árum liðnum. Venjan er nú sú og almennur málskilningur að auðvitað kjósa menn að nýju þegar kjörtímabil rennur út. Engin bein ákvæði eru í stjórnarskránni eru um að Alþingi eigi að leggja niður. Þvert á móti er skýrt kveðið á um það í stjórnarskránni að Alþingi fari með löggjafarvaldið þó svo heimild sé til þess að ríkisstjórn geti, ef sérstök nauðsyn ber til, gefið út brbl., en ég fæ ekki séð að hægt sé að túlka þessi ákvæði stjórnarskrárinnar með þeim hætti að Alþingi geti undir einhverjum sérstökum kringumstæðum lagst niður, t.d. vegna þess að menn nenni ekki að undirbúa kosningar á réttum tíma, og síðan skuli allt löggjafarvald falið ráðherrum. Ég kannast ekki við að hafa gefið þessari ríkisstjórn svo mikið umboð og þekki raunar engan almennan þingmann nema fáa sem gætu hugsað sér slíkt. En hins vegar hefur verið sterk tilhneiging hjá þeim sem í hinum háu stólum sitja að taka til sín meira vald í einstökum málum en Alþingi hefur gefið þeim og er það síst til fyrirmyndar.

Ég skal svo ekki fara nánar út í þetta mál. (Gripið fram í.) (Forseti: Forseti biður hv. þingdeildarmenn um að gefa hv. ræðumanni möguleika á því að tala fyrir máli sínu.) (Menntmrh.: Hann heldur sig ekki við umræðuefnið.) Ég veit að hæstv. menntmrh., sem einu sinni var hæstv. forseti þessarar deildar, skildi á þeim tíma sem hann sat í forsetastólnum að ógerningur væri að ná máli fram í þinginu nema í tíma væri til þess tekið hvenær ætla mætti að þinglausnir yrðu. Með þeim formála sem ég hef nú verið að gera á mínu máli er ég að leggja áherslu á að sú nefnd sem þetta frv. fær til meðferðar hraði störfum sínum svo að tími vinnist til þess að það fái afgreiðslu nægilega tímanlega til að hv. Ed. geti einnig gert góða athugun á málinu og vinnist tími til að afgreiða það á þessu þingi.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er flutt af þeirri ástæðu að á s.l. vetri gaf hæstv. sjúrvrh. út reglugerð um Fiskveiðasjóð, en í þeirri reglugerð fólst það m.a. að jafnhátt lán skyldi veita úr sjóðnum til nýsmíða fiskiskipa hvort sem í hlut ætti skip sem smíðað væri hér á landi eða skip sem smíðað væri erlendis. 50% lán skyldi veitt í báðum tilvikum. Þetta reglugerðarákvæði er að mínu viti í beinni andstöðu við margyfirlýstan vilja Alþingis um hið gagnstæða og þess vegna hef ég á þskj. 157 endurflutt frv. til l. um breytingu á lögum um Fiskveiðasjóð Íslands ásamt þeim hv. 5. þm. Reykv. Jóni Baldvini Hannibalssyni, hv. 3. þm. Reykv. Svavari Gestssyni og hv. 12. þm. Reykv. Pétri Sigurðssyni. Efni þessa frv. er í stuttu máli að taka af skarið um

að óheimilt sé að ákveða með reglugerð eða samþykkt stjórnar Fiskveiðasjóðs að munur á lánum til skipa smíðaðra hér á landi og erlendis sé minni en hér er kveðið á um eða 15%. Lagt er til að lán til skipa, sem smíðuð séu hér á landi, megi nema allt að 75% sem er í samræmi við þær ályktanir sem Félag dráttarbrauta og skipasmiðja hefur samþykkt og með sama hætti gert ráð fyrir að lán til skipa, sem smíðuð eru erlendis, megi hæst vera 60% kostnaðareða matsverðs. Auðvitað er það álitamál hvort rétt sé að miða við 60% varðandi hin erlendu skip á meðan svo stendur á sem nú er, að við höfum engin viðbrögð sýnt gegn þeim framleiðslustyrkjum sem erlendar skipasmíðastöðvar hafa fengið. Það er auðvitað hægt að rökstyðja að nægilegt sé að 50% matsverðs eða kostnaðarverðs skips skuli lánuð ef um erlenda smíði er að ræða, en við göngum ekki svo langt hér til þess að reyna að ná samkomulagi um þetta mál og eigum von á því að frv. þetta geti gengið greiðlega gegnum þingið.

Ég vil, herra forseti, víkja að skipasmíðaiðnaðinum og starfsaðstöðu hans í heild í tilefni af þessu frv. og styðst þar ekki síst við ályktanir Félags dráttarbrauta og skipasmiðja, en aðalfundur þess var haldinn síðustu dagana í októbermánuði.

Á þessum aðalfundi kom fram að á síðustu árum hefur starfsfólki í skipaiðnaði fækkað talsvert og sárafáir hafið nám í skipasmíði undanfarin þrjú ár. Á sama tíma hafa nýsmíðar nánast legið niðri og meginviðfangsefni stöðvanna verið viðgerðir og endurbætur. Þetta er í samræmi við fyrri reynslu, að þegar nýsmíði liggur niðri fækkar starfsfólki og viðgerðir og endurbætur aukast. Skipaviðgerðir hafa raunar vaxið sérstaklega á undanförnum mánuðum og má þakka það betri stöðu útgerðarinnar.

Hins vegar kom skýrt fram á fundinum að þrátt fyrir góða verkefnastöðu skipasmíðastöðvanna hafa flestar þeirra aðeins verkefni í sjónmáli til tveggja eða þriggja mánaða. Það er því alger misskilningur að verkefnastaða stöðvanna nú gefi tilefni til þess að beina verkefnum við skipasmíðar og viðgerðir til útlanda eins og gert hefur verið.

Fundarmenn voru sammála um að enn stefni í eina flóðbylgju í innflutningi skipa ef ekki verður gripið til ákveðinna aðgerða í málefnum skipasmíðaiðnaðarins. Jafnframt færist nú mjög í aukana að skip séu send til útlanda til viðgerða og endurnýjunar. Fundurinn samþykkti ítarlega ályktun þar sem sérstaklega var tekið mið af þessum atriðum.

Í ályktuninni er bent á eftirfarandi leiðir til að leysa þann vanda sem nú er við að etja í íslenskum skipasmíðaiðnaði. 1. gr. þeirrar ályktunar hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Tryggt verði að innlend lán og heimildir til erlendrar lántöku vegna nýsmíða, endurbóta eða viðgerða á fiskiskipum verði ekki veitt án undangenginna útboða á verkþáttum þar sem borin eru saman verð þeirra sem þjónustuna bjóða og viðurkenndar viðskiptalegar aðferðir eru viðhafðar.“ Ástæðan fyrir þessari samþykkt Félags dráttarbrauta og skipasmiðja er augljóslega sú að það virðist vera orðin regla hér á landi nú að menn festi kaup á fiskiskipum erlendis án þess að íslenskum skipasmíðastöðvum sé gefinn nokkur kostur á því að bjóða í slík verkefni. Það virðist vera orðin viðtekin venja og virðist ekki skipta máli hvort fyrir slíkum kaupum á skipum erlendis frá standi opinberir sjóðir og hafi þar öll tök a málunum eða einstaklingar. Þetta er algerlega óþolandi staða, einkanlega með tilliti til þess að skipasmíðaiðnaðurinn hefur ekki farið fram á það fram að þessu að með opinberum aðgerðum verði honum bættar upp þær niðurgreiðslur og framleiðslustyrkir sem erlendar skipasmíðastöðvar njóta eða með því að sérstakt gjald verði sett á þau fiskiskip sem smíðuð eru erlendis, en sá háttur virðist mjög viðhafður erlendis. Gott dæmi um það er sú staðreynd að þegar Slippstöðin á Akureyri varð hlutskörpust í alþjóðlegu útboði á kassavæðingu og lengingu allmargra skuttogara frá Nova Scotia brugðust þingmenn þar mjög hart við og gerðu harða hríð að okkur Íslendingum fyrir þá sök að hér væri skipasmíðaiðnaðurinn styrktur verulega með opinberu fé og af þeim sökum hefði okkur tekist að ná svo hagstæðu útboði. Auðvitað var þessi misskilningur leiðréttur, en þetta sýnir glögglega hversu stjórnmálamenn í öðrum löndum gæta vel að þessum iðnaði, enda ógerningur að hugsa sér að hér á landi sé rekin meiri háttar útgerð án þess að fullnægjandi þjónusta sé jafnframt og þekking í landinu til að sinna nauðsynlegum viðgerðum og endurbótum fyrir þennan flota.

Við flm. höfum ekki í þessu frv. lagt til að sú regla verði upp tekin í Fiskveiðasjóði varðandi nýsmíði fiskiskipa að lánsbeiðandi sýni fram á að hann hafi gefið íslenskum skipasmíðastöðvum tækifæri til að bjóða í nýsmíðina, en auðvitað hlýtur það að verða umhugsunarefni hvort ekki sé nauðsynlegt að sá háttur sé upp tekinn ef það á að vera regla og venja að opinberir sjóðir hafi meiri áhuga á því að leysa verkefni þeirra sem vilja leita erlendis en hinna sem láta á það reyna hvort innlendar stöðvar séu sambærilegar erlendum í verði, en við vitum að þær eru það í verkþekkingu og verkgæðum.

Ég vil líka í þessu sambandi geta þess að fyrir skömmu fór fram annað útboð varðandi endurbætur á skipum frá Kanada og það var mikið gleðiefni fyrir okkur Íslendinga og við vorum stoltir yfir því að Slippstöðin á Akureyri varð númer tvö í því alþjóðlega útboði, var með næstlægsta tilboðið annað skiptið í röð. Það er okkur líka mikið ánægjuefni að Kanadamenn hafa leitað hingað með enn frekari verkefni vegna þess að þeir telja að verð á vinnu íslenskra skipasmíðastöðva sé ekki hátt borið saman við þá verkþekkingu og gæði sem þar er um að tefla.

Í öðru lagi segir í ályktun Félags dráttarbrauta og skipasmiðja, með leyfi hæstv. forseta:

„Veittar verði sambærilegar bankaábyrgðir vegna skipaiðnaðarverkefna innanlands og veittar eru þegar verkefnin eru unnin erlendis.“

Svo mörg eru þau orð. Ég sé ekki, herra forseti, að um það þurfi að fara mörgum orðum hversu óeðlilegt sé að viðskiptabankar hér á landi, ég tala ekki um ríkisbankar, skuli vera viljugir og sýna því mikinn áhuga að tryggja hagsmuni erlendra skipasmíðastöðva, vilja ganga í ábyrgðir fyrir útgerðarmenn til að geta gert upp við erlendar skipasmíðastöðvar á sama tíma og íslenskum skipasmíðastöðvum er ógerningur að ná sambærilegum samningum. Ég hygg að slík afstaða peningavaldsins þekkist hvergi í víðri veröld nema hér á landi.

3. gr. ályktunar Félags dráttarbrauta og skipasmiðja er svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ávallt verði tryggt 80% lánshlutfall til allra skipaiðnaðarverkefna sem unnin eru hér á landi svo sem leitast hefur verið við að gera með sérstakri lánveitingu Byggðasjóðs til endurbótaverkefna að undanförnu.“

Ég vil um þetta segja að ekki er nóg með að peningastofnanir hér á landi hafi verið fúsar til að veita ábyrgðir vegna endurbóta og viðgerða sem fara fram erlendis heldur hefur líka komið í ljós að slíkum aðilum hefur verið gert auðveldara fyrir en þeim sem versla við íslenska að fá erlend lán ýmist til lengri tíma en eins árs eða þá innan ársins til að geta gert upp við skipasmíðastöðvarnar erlendis. Á sama tíma hefur það verið hlutverk skipasmíðastöðvanna hér á landi í sumum tilvikum að veita útgerðarmönnum greiðslufresti, sem er auðvitað sjálfsagt og eðlilegt hjá þeim stöðvum sem það geta, en það hlýtur að vera mjög miklum takmörkunum háð hversu öflugar stöðvarnar eru í slíkri fyrirgreiðslu.

Það hefur náðst fram fram að þessu að 80% kostnaðar við meiri háttar viðgerðar- eða endurbótaverkefni hefur verið lánað hér a landi ef verkið hefur verið unnið í innlendri skipasmíðastöð og hafa þær lánveitingar farið í gegnum Byggðasjóð. Ég hygg að það sé allra mat að framkvæmdin hafi verið mjög til sóma. Það er líka ánægjuefni að þessi sérstöku lán hafa innheimst mjög vel. Útgerðirnar hafa staðið vel í skilum með þessi lán.

Þessi lánafyrirgreiðsla er hugsuð þannig að skipasmíðastöðvarnar hafi viðunandi samkeppnisstöðu gagnvart erlendum stöðvum varðandi lánsfyrirgreiðslu. Ég vil taka fram í þessu samhengi að þær 150 millj. sem í frv. til lánsfjárlaga eru ætlaðar til þessa verkefnis eru hvergi nærri nógar. Á þessu ári voru lánaðar nær 200 millj. í þessu skyni og auðvitað er óhjákvæmilegt að á næsta ári verði sú tala hækkuð a.m.k. hlutfallslega og helst meir vegna þess að á yfirstandandi ári voru hér mikil verkefni frá Kanada sem drógu úr getu skipasmíðaiðnaðarins til að sinna þeim verkefnum sem féllu til hér á landi þannig að ég tel nauðsynlegt að það komi skýrt fram að þessar 150 millj. kr. eru ónógar og ég lít eingöngu á þær sem bráðabirgðatölu.

Í 4. gr. ályktunar Félags dráttarbrauta og skipasmiðja segir svo, herra forseti:

„Framleiðslulán til skipaiðnaðarfyrirtækja verði aðgreind frá hinum endanlegu lánveitingum til kaupa.“

Svohljóðandi grein er gerð fyrir þeirri hugsun sem býr að baki þessum orðum í drögum að ályktun aðalfundar félagsins, með leyfi hæstv. forseta:

„Nauðsynlegt er að innlendur skipaiðnaður búi við svipaðar aðstæður og erlendir samkeppnisaðilar að því leyti að lánafyrirgreiðsla til verkefna í vinnslu, framleiðslulán, fari fram á einum stað, hjá einum sjóði. Lánin nemi 80% af kostnaði og lánstíminn verði 7-8 ár. Lánveitendur útgerðarfyrirtækjanna, sem lána þeim hin endanlegu fjárfestingarlán eða stofnlán, endurkaupi síðan framleiðslulánin að hluta eða öllu leyti og breyti þeim í það lánsform sem þeir nota. Sá hluti lánsins sem ekki yrði endurkeyptur yrði þá samkeppnislán þannig að lánshlutfallið yrði sambærilegt við erlent lánshlutfall, 80%, þótt þessi hluti lánsins héldi áfram að vera til 7-8 ára.“

Ég vil bæta því við það sem hér stendur að nú er starfandi svokallaður útflutningslánasjóður sem hýstur er í Landsbankanum en er í eigu Landsbanka, Seðlabanka og Iðnaðarbanka. Hlutverk þessa sjóðs er að veita sérstök framleiðslulán til iðnaðarverkefna sem unnin eru hér á landi til að bæta stöðu þessara iðnfyrirtækja gagnvart erlendum iðnaði. Ég tek tekið sem dæmi: Ef t.d. yrði keypt færiband í verksmiðjutogara og þetta færiband yrði smíðað hér á landi mundi útflutningslánasjóðurinn lána 50% til smíði þess. Þetta er hugsað sem sérstakt framleiðslulán.

Ég hef spurst fyrir um hvernig á því stóð að skipasmíðaiðnaðurinn skyldi ekki koma inn í útflutningssjóðinn þannig að hann mundi einnig veita sérstök lán til að bæta samkeppnisstöðu hans og var mér sagt að það væri af þeim sökum að verkefnin í skipasmíðastöðvunum væru svo fjárfrek, þar væri um svo háar fjárhæðir að tefla að ógerningur væri að færa það verkefni inn í útflutningslánasjóðinn heldur yrði að taka á málefnum skipasmíðaiðnaðarins með sérstökum hætti.

Nú hefur það verið gert í gegnum Byggðasjóð. Ég get vel fallist á að það sé kannske ekki verkefni Byggðasjóðs sérstaklega að greiða fyrir þessum iðnaði, en þá er á hitt að líta að enginn annar sjóður í landinu virðist tiltækur til að taka þetta verkefni að sér og í öðru lagi er erfitt að sjá að.aðrar atvinnugreinar standi strjálbýlinu nær, hinum dreifðu byggðum, en einmitt skipasmíðaiðnaðurinn, þessi hliðargrein sjávarútvegsins sem óhjákvæmileg er ef við viljum halda hér uppi nútímafiskveiðum. Þetta mál hlýtur því að verða til athugunar og mikil spurning hvort ekki sé nauðsynlegt að taka þetta sérstaka atriði fyrir á þessu þingi, hvernig rétt sé í framtíðinni að standa að því að eðlileg framleiðslu og samkeppnislán falli skipasmíðaiðnaðinum í skaut.

Í ályktunum Félags dráttarbrauta og skipasmiðja er lagt til að nálgast það markmið með þeim hætti að lögum um Fiskveiðasjóð verði breytt á þann veg að skipaiðnaðurinn tilnefni einn mann í stjórn sjóðsins á meðan hann er framleiðslulánasjóður skipaiðnaðarins. Ég er ekki sannfærður um að þessi leið sé rétt. Eins og lög um Fiskveiðasjóð eru nú er hann hugsaður sem stofnsjóður sjávarútvegsins. Ég get fremur fellt mig við það, sem fram kemur í öðrum stað í ályktunum Félags dráttarbrauta og skipasmiðja, að framleiðslulánin fari fram á einum stað, í einum sjóði, en síðan komi stofnsjóður sjávarútvegsins inn í, sem í þessu tilviki er Fiskveiðasjóður, og yfirtaki þann hluta framleiðslulánanna sem eðlilegt er að líta á sem stofnlán af þeim hluta sem eðlilegt er að lána af heildarframkvæmd.

Hér er, herra forseti, ályktað um að lánshlutfall Fiskveiðasjóðs til nýsmíða innanlands verði hækkað a.m.k. upp í 75%, en það er einmitt lagt til í því frv. sem hér liggur fyrir.

Í sjöunda lagi segir í ályktun Félags dráttarbrauta og skipasmiðja:

„Veitt verði sérstök samkeppnislán, óafturkræf að hluta, til þess að mæta einstökum undirboðstilboðum frá erlendum skipasmíðastöðvum.“

Þessi ályktun er að sjálfsögðu samþykkt vegna þeirrar tregðu sem hefur verið á því að skipasmíðaiðnaðurinn fái eðlilega fyrirgreiðslu og geti gengið að fjármagni vísu og þannig bætt samkeppnishæfni sína gagnvart erlendum keppinautum. Þessi grein ályktunarinnar er svo rökstudd í drögunum, með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar um er að ræða beinar erlendar niðurgreiðslur á einstökum verkum, eins og tíðkast upp á síðkastið, t.d. í formi endurgreiðslu á vöxtum, er óhjákvæmilegt að gerðar verði hliðstæðar gagnráðstafanir. Það er óþolandi að erlendar skipasmíðastöðvar, sem í krafti opinbers stuðnings bjóða hagstæð lán, geti gengið að því sem vísu að íslenskur skipasmíðaiðnaður sé ekki í aðstöðu til að bjóða hliðstæð kjör. Á þennan hátt hafa stór verk, sem eru undirstaða tæknivæðingar og stöðugleika í innlendum stöðvum, verið hrifsuð hvert á fætur öðru úr höndum íslenskra aðila. Vaxtaendurgreiðslur má flokka undir „dumping“ sem í öllum iðnvæddum löndum mundi verða svarað á viðeigandi hátt. Félag dráttarbrauta og skipasmiðja telur að rétt sé að meta slík tilvik hverju sinni og ef nauðsynlegt reynist að grípa til þessara sérstöku ráðstafana.“

Svo mörg voru þau orð. Ég sé ekki ástæðu til að bæta þar neinu við. Ég hef, herra forseti, fram að þessu ekki tekið undir að rétt sé að styðja skipasmíðaiðnaðinn með þessum hætti. Hins vegar hlýtur maður að endurskoða þá afstöðu sína þegar fyrir liggur að jafnvel opinberir sjóðir ganga svo gersamlega fram hjá íslenskum stöðvum að þeim er ekki einu sinni gefinn kostur á að bjóða í þau verkefni sem þó eru fyrir hendi. Nú er mér sagt að sex fiskiskip séu í smíðum erlendis og ég veit að ekki eitt einasta þeirra hefur verið boðið út á innlendum markaði þannig að íslenskum stöðvum hefur ekki verið gefinn kostur á því að bjóða í smíði þessara skipa. Auðvitað geta einstök verkefni verið svo hagstæð að erfitt er fyrir okkur að keppa við þau. Við getum tekið sem dæmi það heildarútboð sem gert var í sambandi við vélaskipti og endurbætur á Japanstogurunum í Póllandi því þar var um svo miklar niðurgreiðslur að ræða að það var mikið álitamál og kannske óverjandi að þar yrði gripið inn í, enda hef ég ekki heyrt að að því hafi sérstaklega verið fundið af talsmönnum Félags dráttarbrauta og skipasmiðja, en það breytir á hinn bóginn ekki því að við höfum verið mjög kærulaus að þessu leyti í málefnum þessa iðnaðar.

Herra forseti. Mál mitt hefur að vísu orðið kannske óþarflega langt, en það skýrist af því að mér er mikið niðri fyrir varðandi þennan iðnað og vil biðja um að þessu frv. verði vísað til sjútvn. og 2. umr.