18.11.1986
Sameinað þing: 17. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 934 í B-deild Alþingistíðinda. (789)

48. mál, lífeyrisréttindi fyrir alla landsmenn

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég tók eftir því að hv. 3. þm. Reykv. talaði um að menn hefðu talað um þessi mál í þoku oft á Alþingi. Ég vil sérstaklega bera það af mér að ég hafi talað um þessi mál í þoku vegna þess að ég og fleiri þm. Alþfl. höfum flutt afdráttarlausa tillögu um það hvernig við viljum skipa þessum lífeyrissjóðsmálum í einum sameiginlegum lífeyrissjóði og um raunhæfa leið til þess að koma því í kring sem að okkar dómi er langtum raunhæfari, betri og öruggari en þær þreifingar sem hér er verið að lýsa og hafa verið kák að undanförnu og allt lítur út fyrir, samkvæmt því sem fjmrh. hefur sagt, að verði haltrandi líka í framtíðinni.