18.11.1986
Sameinað þing: 17. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 949 í B-deild Alþingistíðinda. (809)

152. mál, afstaða Íslands til stöðvunar kjarnorkuvígbúnaðar

Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir svörin, en ég verð að segja að ég fellst ekki á þau rök sem hann setur hér fram. Það er margt við þessi mál að athuga.

Það hefur borið við í sölum Alþingis að rökum um eftirlit er hampað af hæstv. ráðh. En eftirlit er frekar spurning um tæknileg atriði en pólitísk. Það hefur verið sýnt fram á að eftirlitið er mjög auðvelt með þeirri tækni sem menn ráða yfir núna. Það er hægt að fylgjast með því sem gerist á jörðu með gervihnöttum, koma upp jarðskjálftamælum með gagnkvæmum samningum stórveldanna og vilja þeirra sem með þessi mál fara. Allt er þetta spurning um vilja.

Hæstv. utanrrh. minntist á að það væri ekki jöfnuður í vígbúnaði stórveldanna. Það hefur löngum tíðkast sú kúnst að bera saman tölur og fjölda vopna af ýmsum stærðum og gerðum, en í raun og veru skiptir það sáralitlu máli því að sá vígbúnaður sem við höfum hér á jörðinni er miklu meiri en dugar til að eyða öllu lífi og það margfaldlega þannig að sú röksemd er að mínu mati einskis verð.

Ég er ekki sammála hæstv. utanrrh. um að hugmyndir um frystingu séu orðnar úreltar og ég held að allar þjóðir heims eigi að leggjast á eitt til að þrýsta á stórveldin, bæði stórveldin og önnur kjarnorkuveldi, þar á meðal Kína, sem ekki tekur þátt í þeirri umræðu sem fram fer í heiminum um afvopnun. Ég held einmitt að það sé raunsæi að koma slíkum hugmyndum á framfæri og lýsa þannig vilja þjóðanna. Samþykkt Alþingis skiptir þar engu minna máli en samþykki annarra þjóða. Ég vona að Alþingi muni samþykkja tillögu sem hér liggur fyrir þinginu um breytta stefnu og fara sömu leið og þjóðþing Noregs og Danmerkur og breyta þar með stefnu íslensku ríkisstjórnarinnar.