18.11.1986
Sameinað þing: 18. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 988 í B-deild Alþingistíðinda. (849)

154. mál, afnám einokunar ríkisins á innflutningi áfengis

Flm. (Bessí Jóhannsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um afnám einkasölu ríkisins á innflutningi og sölu áfengis og tóbaks.

Eins og segir í grg. með till. er hún flutt sem liður í þeirri stefnu að færa sem flest verkefni, sem nú eru í höndum ríkisvaldsins, til atvinnulífsins. Í stefnuyfirlýsingu núv. ríkisstjórnar kemur fram í kaflanum Endurskipulagning í stjórnkerfi og peninga- og lánastofnunum þar sem rætt er um stjórnkerfið, með leyfi forseta:

„Markmið slíkra stjórnkerfisbreytinga er að einfalda opinbera stjórnsýslu, bæta hagstjórn og samræma ákvarðanir í opinberri fjárfestingu, draga úr ríkisumsvifum og efla eftirlit löggjafans með framkvæmdarvaldinu.“

Til þess að draga úr ríkisumsvifum þarf ríkisstjórnin að færa verkefni frá opinberum aðilum til einkaaðila m.a. með því að selja ríkisfyrirtæki og bjóða út verkefni.

Umsvif ríkisins hafa vaxið mjög á undanförnum áratugum. Ríkisvaldið hefur tekið að sér sífellt fleiri málaflokka í stað þess að fela þá einkaaðilum. Nú er það svo að höfuðágreiningur í stjórnmálum er um það hversu mikil ríkisafskipti skuli vera og hvernig þeim skuli beitt. Þeir stjórnmálamenn sem aðhyllast frjálshyggju í stjórnmálum vilja að afskipti ríkisvaldsins séu sem allra minnst og um leið að einkarekstur sé sem mestur og frjálsastur.

Stefna núv. ríkisstjórnar er í mörgu í anda frjálshyggju eins og sést vel á stefnuyfirlýsingu hennar. Ríkisstjórnin hefur sýnt ýmsa ágæta tilburði til að draga úr ríkisumsvifum. Má þar nefna: Fyrirtæki hafa verið seld, svo sem Landssmiðjan og Umferðarmiðstöðin. Hlutur ríkisins í einkafyrirtækjum hefur verið seldur svo sem í Iðnaðarbankanum (27%), í Flugleiðum (20%) og í Eimskipafélagi Íslands (25%). Rekstri óarðbærra fyrirtækja hefur verið hætt og hluti af áður hefðbundnum rekstri hefur verið færður til einkaaðila. Má þar nefna þætti af þjónustu Pósts og síma. Þessari þróun þarf markvisst að halda áfram. Þessi till. styður hana.

Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins var stofnuð til þess að annast sölu svokallaðra Spánarvína árið 1922. Á þeim tíma mótaðist stefnan í efnahagsmálum mjög af auknum ríkisrekstri. Stefnubreyting varð með stjórn Íhaldsflokksins árið 1924, en hún fylgdi frjálshyggju í efnahagsmálum og afnam ýmsar leifar af ríkisrekstri, m.a. einkasölu ríkisins á áfengi og tóbaki árið 1926.

Árið 1927 myndaði Framsfl. ríkisstjórn. Þá jukust mjög ríkisafskipti á öllum sviðum. Má þar nefna síldareinkasölu 1928, tóbakseinkasölu 1931, lög sem tóku gildi 1. jan. 1932, einkasölu af viðtækjum 1930 og einkarétt til útvarpsreksturs með lögum frá 1929, en útvarpsrekstur hófst 1930.

Margvísleg rök voru höfð til að styðja þessa stefnu. Má þar einkum nefna tryggari tekjuöflun og auðveldara eftirlít með innflutningi og dreifingu. Vitanlega var það þó í raun skipulagshyggja sósíalismans sem réð hér ferðinni, vantrú á einstaklingum, frjálsu markaðskerfi og oftrú á skömmtunarstefnu pólitískra gæðinga. Segja má að þessi stefna hafi ráðið ferðinni allt fram til 1950, en í heild einkenndist sjötti áratugurinn af miklum vöruskorti og haftastefnu sem fylgdi mikið brask og pólitísk spilling.

Það var fyrst með viðreisnarstjórninni 1959 sem þáttaskil urðu. Þá var horfið frá haftastefnu til blandaðs hagkerfis sem einkenndist af sterkum frjálshyggjustraumum. Grunnurinn að því velferðarþjóðfélagi sem við búum við nú var að verulegu leyti lagður á árunum milli 1960 og 1970.

Ljóst er að það mun taka nokkurn tíma að fá stjórnmálamenn til að skila aftur þeim völdum, sem þeir hafa tekið sér í efnahagsmálum, til atvinnulífsins. Sala á áfengi og tóbaki er þar engin undantekning. Samt er hér um að ræða vöru sem lýtur í grundvallaratriðum sömu lögmálum og aðrar vörur.

Felldur hefur verið niður einkaréttur hins opinbera á ýmsum sviðum, bæði hvað varðar sölu útvarpsviðtækja og til útsendingar útvarps. Einkasala á áfengi og tóbaki fer að verða eins og nátttröll í samtímanum. Hún er í hróplegu ósamræmi við þá hugarfarsbreytingu sem átt hefur sér stað hjá almenningi á undanförnum árum og endurspeglast í stefnu núverandi ríkisstjórnar eins og ég gerði að umtalsefni hér að framan.

Meginrökin fyrir afnámi einkasölu áfengis og tóbaks önnur en sú stefna að ríkisvaldið skuli hafa sem minnst með rekstur fyrirtækja að gera eru:

1. Það sparast umtalsvert fé og starfsmönnum hins opinbera fækkar við að hætta rekstri Áfengisverslunar ríkisins. Hvaða einkafyrirtæki dytti í hug að vera með jafnmarga starfsmenn við afgreiðslu áfengis mánudaga og föstudaga? Óþarft er að láta opinbert fyrirtæki vera með innflutning og birgðahald fyrir umboðsmenn. Mikill kostnaður fylgir slíku birgðahaldi.

2. Bætt þjónusta við notendur þessarar vöru. Hér í Reykjavík er það svo að fólk sem býr í nágrenni útsölustaða kemst vart heim til sín á föstudögum vegna örtraðar bifreiða.

3. Ríkissjóður tapar engu í tekjum við það að innheimta innflutningsgjöld af þessum vörum sem öðrum og þó þessi breyting væri gerð er samt unnt að halda áfram því eftirliti sem menn telja nauðsynlegt við sölu á þessum varningi.

Hvað varðar smásölu tóbaks er hún algerlega frjáls. Sala á áfengi fer nú aðeins fram í ákveðnum útsölum Áfengisverslunar ríkisins. Í þáltill. er gert ráð fyrir breytingu a þessu þannig að verslun með áfengi væri einnig algerlega frjáls. Það má einnig um hana segja að engin þörf er á að ríkisvaldið sé að vasast í rekstri sem einkaaðilar geta vel annað.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns er þessi till. flutt sem innlegg í þá stefnu að flytja verkefni frá ríkisvaldinu til einkafyrirtækja. Hún byggir á þeirri staðreynd að rekstur fyrirtækja er betur kominn á markaðnum en hjá opinberum aðilum.

Herra forseti. Ég legg til að þáltill. verði vísað til 2. umr. og allshn.