18.11.1986
Sameinað þing: 18. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 993 í B-deild Alþingistíðinda. (853)

154. mál, afnám einokunar ríkisins á innflutningi áfengis

Flm. (Bessí Jóhannsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka undirtektir við mál mitt og tek það fram, eins og skýrt hefði átt að koma fram í minni ræðu, að ég er enginn sérstakur brennivínspostuli og er alls ekki þeirrar skoðunar að neysla áfengis eða annarra vímuefna eigi að aukast hér á landi. Þvert á móti. Ég tel að það verði skylda okkar í vaxandi mæli að hafa uppi fyrirbyggjandi aðgerðir á öllum aldursstigum gegn þeim vágesti sem áfengi eins og önnur vímuefni er.

Eins og fram kom hjá hv. 2. þm. Reykv. er þarna fyrst og fremst um að ræða tilflutning á því hver á að sjá um sölu og innflutning á þessu efni.

Vitanlega tekur sinn tíma að vinna hugmynd sem þessari fylgi. Ég átta mig vel á því. Við skulum horfa aftur í tímann og líta til þess þegar það þótti af mörgum sjálfsagt að höft væru á sölu mjólkur, bifreiða, símtækja og útvarpstækja svo að nokkuð sé nefnt. Það er tiltölulega nýskeð að við getum farið út í búð og keypt okkur síma. Fyrir fáeinum mánuðum var það þannig að ef einhver álpaðist til þess að kaupa síma í útlöndum og ætlaði að koma með hann inn í landið, þó ódýrt tæki væri, því að þau tæki eru ódýrari erlendis eins og flest annað í þessu þjóðfélagi, var hann orðinn brotlegur við lög.

Ég er sammála hv. 2. þm. Austurl. um að það sé fyllilega tímabært að gera heildarúttekt á þessum málum og vænti þess að fjmrh. taki jákvætt í efni þessarar þáltill.