19.11.1986
Efri deild: 13. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 996 í B-deild Alþingistíðinda. (857)

141. mál, kosningar til Alþingis

Haraldur Ólafsson:

Hæstv. forseti. Í þessu frv. er gert ráð fyrir verulegum breytingum á lögum um kosningar til Alþingis. Að sumu leyti lítur þetta vel út á yfirborðinu og að mörgu leyti held ég að flestir geti tekið undir það að sú aðferð sem almennast er nú notuð, þ.e. prófkjörin, hefur algjörlega gengið sér til húðar.

Ég held að ég geti tekið undir svo til allt sem hv. 6. landsk. þm. hafði að segja um þetta mál við umræðuna á mánudaginn var. Prófkjörin eru þegar orðin hreinn skrípaleikur. Þau eru komin út í þá sjálfheldu að það er ekkert sem getur bjargað þeim annað en að leggja þau niður í því formi sem þau eru nú. Þetta er ekki einungis orðin spurning um að óhemju fjármagni er veitt til þeirra sem veldur því að annaðhvort verða menn að vera mjög efnum búnir til þess að geta tekið þátt í stjórnmálabaráttu eða þá, sem er langtum lakara, að hafa á bak við sig aðila, samtök eða jafnvel fyrirtæki sem fara beinlínis að kosta kosningabaráttu einstakra aðila. Þá held ég að fulltrúalýðræðið sé komið út í algjöra ófæru, reyndar fúafen, ef fjársterkir aðilar í þjóðfélaginu fara beinlínis að velja sína menn inn á löggjafarsamkunduna.

Ég held að þetta sé atriði sem menn hafi ekki veitt nægilega athygli hvert geti leitt og ég vara eindregið við því að þessari aðferð verði haldið áfram nema með einu skilyrði, því skilyrði að sett verði lög um framkvæmd prófkjara, og það gæti verið í sambandi við mjög nauðsynlega löggjöf um starfsemi stjórnmálaflokka sem hlýtur að koma til. Það er aldeilis með fádæmum að stjórnmálaflokkar landsins sem eru hornsteinar lýðræðis, sem eru stofnanir sem hafa gífurleg völd og áhrif, sem velta miklum fjármunum, skuli ekki hafa neina skyldu til að upplýsa um starfsemi sína eða fjármögnun og í raun og veru hafa ekki neinum skyldum að gegna við þjóðfélag að þessu leyti sem aðrar stofnanir þurfa að inna af hendi. Verði farin sú leið að setja lög um prófkjör eða val frambjóðenda væri eðlilegast að það væri í sambandi við löggjöf um stjórnmálaflokkana.

Hvað er það þá sem um er að ræða? Hér er í rauninni lagt til að prófkjörin verði færð inn á kjördaginn. Ég var lengi mjög spenntur fyrir írsku aðferðinni sem einmitt byggir á þessu og sömuleiðis hafa kosningaaðferðir Dana vakið athygli mína. Ég sé þó ýmsa vankanta á þessari aðferð en ég vil taka það skýrt fram að ég tel þessa aðferð betri og heppilegri en það kraðak prófkjara sem nú fer fram um land allt og hefur farið fram fyrir undanfarandi kosningar. Og þegar ég tala um kraðak á ég við það að það er ekki einasta að það sé mismunandi frá kosningum til kosninga hvaða aðferð er notuð eða mismunandi aðferðir flokka, heldur getur sami flokkur haft margs konar aðferðir við undirbúning sömu kosninganna. Þetta er náttúrlega aldeilis fráleitt og í sumum tilvikum, sem ég þarf ekki að nefna vegna þess að allir þekkja við hvað er átt, er beinlínis fundin upp prófkjörsaðferð sem gerir sitjandi þingmönnum mjög erfitt fyrir og raunverulega krefst þess að þeir berjist innbyrðis, en það er náttúrlega algjörlega andstætt öllum reglum, því auðvitað er það styrkur flokka að standa saman og geta haft áhrif á þann hátt að vilji kjósenda nái fram að ganga án þess að örlítill meiri hluti geti jafnvel komið í veg fyrir að maður, sem væri með mjög mikið fylgi í annað sæti, lenti niður í 4., 5. eða 6. sæti á listanum. Þetta er náttúrlega alveg fáranlegt fyrirkomulag.

Nú stendur það í stjórnarskrá að þingmaður skuli einungis bundinn af sannfæringu sinni. En langflestir þingmenn munu nú sennilega einhvern tíma hafa fórnað a.m.k. broti af sannfæringu sinni fyrir flokkinn sinn og verður ekki hjá því komist. Það kerfi að einangra menn í baráttu innan síns flokks fyrir sæti á framboðslistum getur leitt til þess að flokksbönd riðlist mjög verulega. Og þar sem þingræði ríkir hefur þetta vissar hættur í för með sér. Ef menn fara að spila mjög mikla einleiki í undirbúningsbaráttu undir kosningar getur það leitt til þess að þeir verði annaðhvort að slá mjög af þegar til alvörunnar er komið, þ.e. inn á þing, ég tala nú ekki um ef menn lenda í þeirri erfiðu stöðu að vera stjórnarþingmenn, eða að þingið verður bókstaflega óstarfhæft vegna þess að hver og einn fer sína leið. Þetta atriði hefur ekki svo mikið að segja þar sem þingræði er ekki, þar sem mjög skýr greinarmunur er á milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds. Í Bandaríkjunum getur þetta gengið þó að margir séu farnir að ræða um að þar sé komið í mikið óefni hvað þetta snertir og flokkarnir eru raunverulega ekki annað en nafnið tómt og hver þingmaður siglir meira og minna annaðhvort eigin sjó eða þá í kjölfar einhvers öflugs leiðtoga.

Þar sem þingræði hins vegar er eru flokkarnir nauðsynlegir til þess að unnt sé að marka nokkuð ákveðna og mótaða stefnu eitthvað verulega fram í tímann. En í sambandi við þetta held ég að við ættum að hafa í huga orð Max Webers sem mikið

hefur skrifað um einmitt hlutverk stjórnmála og stjórnmálamanna. Hann sagði einhvern tíma að stjórnmálamönnum mætti skipta í tvennt: þá sem lifa á stjórnmálum og þá sem lifa fyrir stjórnmál. Og ég held að við ættum að vara okkur örlítið á því í okkar litla og að mörgu leyti samstæða samfélagi að ekki séu allt of margir sem beinlínis lifa á stjórnmálum. Og ég held að ef sú þróun yrði sem ég impraði á í upphafi máls míns gæti svo farið að við sætum uppi með allstóran hóp manna sem væri farinn að lifa á stjórnmálum í stað þess að lifa fyrir þau.

Nú er það svo að þeir sem á þing setjast þurfa oft og tíðum að taka þátt í afgreiðslu mála á þann hátt að ekki er nákvæmlega í samræmi við það sem þeir gjarnan vildu og ég hef þegar rætt um hvernig þetta getur birst. Þegar ég fyrst settist inn á Alþingi sem varaþingmaður fyrir sex árum var þar góðkunningi minn fyrir sem hafði setið í nokkur ár hér, ég held ein 7-8 ár, og hann sagði: Þú veist það að stjórnarþingmaður, sem ekki er ráðherra, þarf aðeins að kunna tvennt. Það er að þegja og rétta upp hægri höndina.

Nú er þetta að vísu dálítið kuldaleg lýsing en ef við rýnum aðeins nánar í þetta er það kannske þetta sem er grundvöllur þess að við getum búið við þingræðisskipulag, að við getum rætt málin innan flokkanna, þar sé mótuð stefna. Það er oft sagt að átökin á Alþingi fari fram í þingflokksherbergjunum, ekki þingsölunum, og ég held að þegar upp í þingsalina kemur reyni a.m.k. stjórnarþingmenn í flestum tilfellum að sætta sig við þá niðurstöðu sem orðið hefur í hinum lokuðu þingflokksherbergjum.

Ef hins vegar rís upp sú stétt manna sem byggir á mjög sterkum aðilum utan flokkanna, hjá fyrirtækjum, hjá samtökum og öðrum slíkum, gæti svo farið að þingflokkarnir yrðu áhrifalausir og hvert einasta mál gæti lent í miklum hrakningum vegna þess að samstaða flokkanna innbyrðis væri með öllu rofin. Ég bendi aðeins á að þetta atriði er nú mikið rætt, m.a. í Bandaríkjunum, enda þótt þeir búi við aðra skipan en við, en til þess að stjórnmálaöfl í landinu færist ekki algjörlega út frá því sem við gætum kallað hið „ideala“ eða hugmyndafræðilega, þar sem menn stefna að ákveðnu þjóðfélagsformi, ákveðinni þjóðfélagsgerð, að það gleymist ekki heldur komi í staðinn það sem kalla mætti hagsmunapot sem aðeins lítur til næstu mánaða eða í mesta lagi til næsta fjárhagsárs.

Að endingu, hæstv. forseti, lýsi ég yfir ánægju minni með þær umræður sem hafa farið fram um þetta frv. Ég tel margt í því athyglisvert en ég er ekki tilbúinn að styðja það vegna þess að ég tel að það verði að kanna miklu nánar hvort við getum ekki fengið betri og heppilegri leið við val og kjör frambjóðenda flokkanna.

Og ég vil einnig minna á það í lokin að í þeim kosningalögum sem verða í gildi við næstu alþingiskosningar er mjög harkalega vegið að sérframboðum og aukaframboðum. Um það má deila en á hinn bóginn var það hugsað sem aðferð til þess að koma í veg fyrir of mikinn klofning, of mörg smábrot sem ekki er talið æskilegt að eigi of greiðan aðgang að Alþingi. Ég held að þetta megi samræma þannig að öll sjónarmið verða að njóta nokkurs verulegs stuðnings á landsmælikvarða til þess að þau eigi erindi inn á löggjafarsamkomuna.