20.11.1986
Sameinað þing: 19. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1012 í B-deild Alþingistíðinda. (871)

62. mál, samfélagsþjónusta

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Herra forseti. Efni þessarar þáltill. á þskj. 62 tel ég vera mjög athyglisvert. Það var ekki löngu eftir að ég kom í dómsmrn. sem þetta mál kom þar til umræðu þar sem þessi skipan hefur verið tekin upp annars staðar á Norðurlöndum, sérstaklega í Danmörku. Ég óskaði eftir því að það yrði sérstaklega athugað hvernig reynslan hefði orðið af því þar og einnig í Noregi. Það hefur verið gert, en hins vegar eru aðstæður nokkuð aðrar hér í þessu fámenni hjá okkur en meðal fjölmennari þjóða og margt sem kemur þar til með að hafa áhrif.

Það er nokkur vandi að finna störf sem þarna geta komið til greina þar sem þetta má ekki koma í staðinn fyrir annað vinnuafl. Ekki er talið æskilegt að þetta sé í samkeppni á vinnumarkaði, heldur þurfi að reyna að finna upp einhver störf sem eru til gagns en sem ekki eru þá innt af hendi af öðrum. Það er alveg augljóst mál að út af fyrir sig er þetta ekki ódýrara fyrir þjóðfélagið en það kerfi sem við höfum, en hins vegar hef ég mikinn áhuga á þessu. Ég vil ekki taka undir orð hv. 7. þm. Reykv. að dómsmrn. sé eitthvað sérstaklega refsiglatt. Því er lögð sú ákveðna skylda á herðar að framkvæma fullnustudóma sem upp eru kveðnir og undan því getur það ekki vikist. Hins vegar neita ég því ekki að í hvert skipti sem einhver dæmdur kemur til mín, þá er fyrsta hugsunin sem kemur fram í minn huga sú: Hvað er hægt að gera til þess að koma í veg fyrir að það hendi fólk að lenda í þessari stöðu? Hvað er hægt að gera til þess að fyrirbyggja það? Ég hef bent á orsakarvald sem er ákaflega stór í því sambandi og hef lagt áherslu á að þar yrði reynt að draga úr. En það hefur nú ekki verið vel séð af öllum.

Hv. 2. þm. Austurl. ræddi um frv. til fangelsismála sem boðað var að ég mundi flytja hér á þessu þingi og vék nokkuð að aðdraganda þess máls, sem er nefndarkosning á Alþingi til að fjalla um þessi mál. Ég ætla ekki að fara að rekja störf þeirrar nefndar, enda er það Alþingi sem kaus hana en ekki ráðuneytið sem skipaði hana. Starf hennar hefur tvímælalaust gengið hægar en allir sem að því stóðu óskuðu eftir, en í haust voru mér gefnar vonir um að hennar starfi mundi ljúka með heildstæðu frv. þar sem fjallað væri um öll svið fangelsismálanna. Ég vona enn þá að slíkt frv. verði afgreitt af nefndinni og reiknaði ég þá með því að hún mundi skila því til ráðuneytisins og ég mundi þá gera mitt til að það kæmi sem fyrst inn á Alþingi. Ég mun leggja áherslu á að það nái fram að ganga.

Að lokum vil ég bara ítreka það að mér hefur þótt þessi hugmynd um samfélagsþjónustu mjög athyglisverð. Það hefur verið reynt að fylgjast með því í ráðuneytinu hvernig það gengur erlendis. Því verður haldið áfram og að sjálfsögðu mun nefnd sú sem fær þetta mál til meðferðar geta fengið upplýsingar um það í ráðuneytinu. En hins vegar eru ýmsir erfiðleikar sem fylgja því að hrinda því í framkvæmd hér hjá okkur.