20.11.1986
Sameinað þing: 19. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1033 í B-deild Alþingistíðinda. (888)

Ákvörðun um fullvirðisrétt

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég held að hér hafi slysalega til tekist og að þessi reglugerð sé illframkvæmanleg nema með mjög mikilli blóðtöku fyrir sauðfjárbændur. Þessi lög eru gölluð, það þurfti ný búvörulög en blóðtakan er of hröð. Markaðshyggjan hefur að mínum dómi ráðið um of við framkvæmd laganna. Það er rangt að gera þá ríku ríkari og þá fátæku fátækari. 2/3 af búvöruframleiðslunni eru framleiddir af þriðjungi bænda. 2/3 bænda framleiða þriðjung búvöruframleiðslunnar.

Nú er verið að reyna að koma minni bændunum út úr hefðbundinni búvöruframleiðslu svo að stóru bændurnir þurfi ekki að taka á sig nema sem minnsta skerðingu. Ég nefni dæmi: Bóndinn á Stóru-Giljá hefur fullvirðisrétt upp á 950 ærgildi og það er miklu meira en hann þarf að nota. Bóndinn á Litla-Felli hafði fullvirðisrétt upp á 73 ærgildi og nú fékk hann bréf upp á 69 ærgildi og það er minna en hann þarf að nota. Þetta er í sauðfjárframleiðslunni. Í mjólkurframleiðslunni .. . (Gripið fram í.) Hann hefur búmark upp á 1450 og slapp með 3% og stendur enn í 950. - Ég held að það þurfi að hjálpa stórbændunum til þess að minnka við sig, ekki að fara illa með þá heldur að hjálpa þeim við það, og þá er nóg pláss fyrir flest það fólk sem er í sveitunum. En það flytur burtu ef því er meinað að hafa hefðbundinn búskap. Það á að hafa aukabúgreinar til stuðnings búi sem gefur of litlar tekjur og þetta má allt gera hagrænt og halda uppi ódýrri framleiðslu og stóru búin framleiða í fæstum tilfellum ódýrari vöru.

Ég held að það sé nauðsynlegt að fresta framkvæmd þessarar reglugerðar, setja upp nýja reglugerð í vor sem tæki mið af búmarkinu að einhverju leyti, búmarki allt frá 1980. Árið 1980 var réttasta búmarkið og það var eign bænda. Núverandi reglugerð tekur einungis mið af tveggja ára framleiðslu og verðlaunar þá sem drógu ekki saman, hegnir þeim sem urðu við tilmælum stjórnvalda.