20.11.1986
Sameinað þing: 19. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1037 í B-deild Alþingistíðinda. (893)

Ákvörðun um fullvirðisrétt

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Á tveimur mínútum er ógerlegt að ræða þessi mál þannig að gagni megi koma.

Við setningu þeirrar reglugerðar sem dagsett er 29. okt. s.l. er enn fylgt reglu sem ég hef harðlega gagnrýnt, reglu um að miða fullvirðisrétt við framleiðslu áranna 1984 eða 1985 en að engu leyti við búmark sem bændur höfðu treyst á og töldu sig eiga rétt til að væri virt. Með þessum aðgerðum er farið aftan að bændum. Þeim er hyglað sem aukið hafa framleiðsluna eða haldið fullri ferð í framleiðslu, en hinum er refsað sem hafa dregið saman framleiðslu sína og farið að tilmælum stjórnvalda á undanförnum árum við að draga framleiðsluna saman. Ég tel að með þessu sé verið að kollvarpa trausti bænda á framleiðslustjórnun í landbúnaði þegar ekki er samhengi í aðgerðum. Ég tel að með þessu sé um leið verið að kollvarpa trausti bænda á framtíðina. Það hefur verið sagt hér ýmislegt sem ég get tekið undir um það efni.

Hæstv. ráðh. sagði í þessari umræðu að bændur þurfi ekki að örvænta, hvorki í haust né næsta haust. Ég vænti þess að það sé ekki hægt að ásaka hæstv. ráðh. um ókunnugleika á þessum málum. Því miður er ég samt hræddur um að þetta sé ekki rétt hjá hæstv. ráðh. Ég er einmitt hræddur um að bændur séu nú farnir að örvænta.

Tímasetningar ætla ég ekki að ræða hér. Þær eru nokkuð í samræmi við annað í framkvæmd þessara mála, því miður. En það er einkennilegt að í reglugerðinni, sem gefin er út fyrir fáum dögum eða 29. okt., segir að athugasemdir megi gera við útreikninginn fyrir 1. des., en gera einnig athugasemdir eða óskir um úrbætur til búnaðarsambands fyrir 1. okt. 1987. En einmitt í gærkvöld heyrði ég auglýsingar frá landbrn. þess efnis að ef bændur óskuðu eftir einhverjum leiðréttingum skyldu þeir gera búnaðarsambandi sínu viðvart fyrir næstkomandi mánaðamót. Það er alveg þvert ofan í þá reglugerð sem þó er nýsett. Veit maður ekki á hverju er von þegar þannig er að málum staðið.