20.11.1986
Sameinað þing: 19. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1063 í B-deild Alþingistíðinda. (918)

166. mál, sjúkra- og iðjuþjálfun

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég kem í þennan ræðustól aðeins til að lýsa eindregnum stuðningi við till. og láta í ljós von um að hennar bíði betri örlög en á undanförnum þingum þar sem hún hefur fengið að sofna í nefnd eins og reyndar fjölmargar aðrar þjóðþrifatillögur. Þegar ég hins vegar ætlaði áðan að punkta eitthvað niður um rökstuðning fyrir þessu máli vafðist mér tunga um tönn, eða kannske væri réttara að segja fingur um pennaskaft, því að það er með þetta mál eins og reyndar mörg önnur svipuð að mér finnst nærri því nóg að segja eins og börnin: Af því bara, og vísa svo til rökstuðnings í grg.

En mig langar að undirstrika það sem hér er lagt til um tengsl við kennslu í heilsurækt í efstu bekkjum grunnskólans. Það er að mínum dómi svo augljóst mál að við verðum að fara að sinna öllu forvarnarstarfi miklu meira og þá ekki síst fræðslu og heilsurækt í grunnskólum landsins. Ég ætti e.t.v. ekki að segja það hér vegna þess að ég á eftir að kynna mér það mál betur, en sá grunur bærist óneitanlega með mér að ekki sé nógu gott lag á íþróttakennslu í skólum, það sé allt of mikil áhersla á alls konar keppni og tilraunir til að koma blessuðum börnunum og unglingunum yfir hesta og kistur og spotta og hver veit hvað en of lítil áhersla á alhliða þjálfun líkamans við hæfi hvers og eins. Ég held að það mætti endurskoða námsskrá skólanna með tilliti til þess.

Ég vildi aðeins hnykkja á þessu um leið og ég lýsi yfir stuðningi við till. og tek eindregið undir orð hv. flm. og grg. hér um gildi forvarnarstarfs sem er á allan hátt hagkvæmt bæði fyrir einstaklinga og þjóðfélagið í heild.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.