20.10.1986
Efri deild: 4. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í B-deild Alþingistíðinda. (93)

24. mál, lánsfjárlög 1987

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Ég skal ekki lengja umræður um of.

Það hefur margt athyglisvert komið fram í þessum umræðum, m.a. og kannske sér í lagi varðandi umræðurnar um Ríkisútvarpið sem virðast hafa komið ýmsum í opna skjöldu, m.a. þeim sem standa að þessu frv. til lánsfjárlaga, og ber auðvitað að fagna því ef hv. þm. Framsfl. hafa vaknað af þyrnirósarsvefni í þessu efni og rjúka nú upp til handa og fóta að bera af sér þá ábyrgð sem þeir hljóta að bera á því sem í þessu frv. til lánsfjárlaga stendur.

Ég hef hins vegar orðið var við það og það kemur engum á óvart og það veit hæstv. fjmrh. að allar yfirlýsingar um að skerða þjónustu Ríkisútvarpsins, fá hana í hendur einkaaðilum, allar slíkar hugleiðingar koma alveg sérstaklega illa við fólk á landsbyggðinni sem hefur af þessu miklar áhyggjur því að það hefur einfaldlega ekki trú á því, ég held það sé alveg sama í hvaða flokki það er, að einkaaðilar muni keppa að því að gera stöðvar sínar að stöðvum allra landsmanna. Það hefur enga trú á því vegna þess mikla kostnaðar sem þar kemur til nema þá meiningin sé, eins og hv. 9. þm. Reykv. kom hér að áðan, að selja allt heila klabbið, dreifikerfið þar með talið, í hendur þessara aðila og þá sjálfsagt á sanngjörnu verði sem hlyti að verða beint framhald af því. En við skulum vona að á þessu verði breyting þar sem hér hafa komið fram það hörð viðbrögð af hálfu þm. Framsfl. þannig að á þessu verði nokkur leiðrétting.

Við fyrri hluta þessarar umræðu svaraði hæstv. fjmrh. fsp. varðandi 18. gr. frá hv. þm. Ragnari Arnalds, þ.e. hvað átt væri við með niðurlagi hennar „Jafnframt falla niður óuppgerðar markaðar tekjur vegna ársins 1985 til Framkvæmdasjóðs fatlaðra skv. 2. tölul. 35. gr. laga nr. 41/1983.“ Hæstv. ráðh. svaraði því til að hér væri um að ræða umframtekjur af erfðafjárskatti miðað við það sem fjárlög hefðu gert ráð fyrir. Fjárlög gerðu ráð fyrir 25 millj. kr. af erfðafjárskatti í Framkvæmdasjóð fatlaðra, en 35. gr. laganna um málefni fatlaðra er einmitt um það að tekjur Erfðafjársjóðs renni beint í Framkvæmdasjóð fatlaðra.

Hæstv. fjmrh. kom ekki með ákveðna tölu um hver sú upphæð væri sem þarna yrði tekin af Framkvæmdasjóði fatlaðra og sett í ríkissjóð. Ég stóð í þeirri meiningu að umræðu væri hér lokið og lagði því fram beina fsp. til hans í Sþ. um hver þessi upphæð væri, enda átti ég kannske ekki von á því að hann hefði þau svör á reiðum höndum nákvæmlega hver upphæðin væri, þær umframtekjur sem af erfðafjárskatti hefðu komið og ættu að fara í ríkissjóð í staðinn fyrir Framkvæmdasjóð fatlaðra. Ég ætla því að víkja að þessu máli með örfáum orðum.

Ég veit að viðbrögð stjórnarnefndar um málefni fatlaðra við þessari grein hafa verið mjög hörð. Stjórnarnefndin hefur sent fagráðuneytum sínum, sem eiga öll aðild að stjórnarnefndinni, þ.e. menntmrn., félmrn. og heilbr.- og trmrn., kröfu um að ráðuneytin sjái til þess að þessi upphæð verði greidd í Framkvæmdasjóð fatlaðra og nefndin að segja komist í að deila þessu fjármagni út á þessu ári, enda þörf ærin. Ég veit ekki nákvæmlega hver þessi tala er, ég býst við að hæstv. fjmrh. geti upplýst það hér á eftir, en hér er um að ræða upphæð sem nemur um það bil hálfri þeirri upphæð sem ætluð er til Framkvæmdasjóðs fatlaðra á s.l. ári og það er ekkert smáræði miðað við þau miklu verkefni sem þar eru á ferðinni.

Landsþing Þroskahjálpar var haldið um s.l. helgi og gerði ákveðna ályktun um þetta þar sem m.a. var sérstaklega vikið að framlögum í heild til Framkvæmdasjóðs fatlaðra og hver skerðing hefði orðið á honum á síðustu árum. Áður en Framkvæmdasjóður fatlaðra tók gildi 1. jan. 1984 voru það annars vegar Framkvæmdasjóður öryrkja og þroskaheftra og hins vegar Erfðafjársjóður sem veittu fjármagn til sömu framkvæmda. Í þessari skýrslu kemur fram hvert var raungildi framkvæmdafjár á þessum árum sem Framkvæmdasjóður öryrkja og þroskaheftra og Erfðafjársjóður voru í gildi, 1980-1983. Raungildi framkvæmdafjárins á ári var 157 millj. miðað við verðlag 1. des. 1985. En síðustu árin, 1984-1986, aðeins 94 millj. að raungildi á ári. Hér er í raun og veru um miklu meiri skerðingu að ræða en ég hafði áttað mig á, en ég veit að þessi skýrsla, sem unnin er af Bjarna Kristjánssyni, forstöðumanni á Akureyri, og Friðrik Sigurðssyni þroskaþjálfa, er byggð m.a. á upplýsingum og tölum beint frá starfsmönnum hæstv. fjmrh. í Fjárlaga- og hagsýslustofnun. Ef menn bera þetta saman við upphæðina sem var veitt til Framkvæmdasjóðs fatlaðra á s.l. ári, 80 millj. kr., er sú tala meira að segja 14 millj. fyrir neðan meðaltalsupphæðina 1984-86 að raungildi.

Ég ætla ekki að fara út í neinar deilur um hverju er hér um að kenna, stjórnarstefnu eða öðru slíku, en ég hlýt, vegna þess að ég þekki nokkuð til velvilja hæstv. fjmrh. til þessa málaflokks og veit það af eigin reynslu, að óska eftir því við hann að þessari heimildargrein, sem er neðst í 18. gr., verði sleppt og Framkvæmdasjóður fatlaðra fái þessar tekjur svo sem hann á að fá samkvæmt lögum.

Ég ætla ekki að orðlengja um þetta frekar. Ég treysti á að eindregin áskorun aðalþings Þroskahjálpar, eindregin áskorun frá stjórnarnefnd um málefni fatlaðra verði tekin til greina og þessu fé réttilega skilað aftur á þann stað þar sem það á heima því að verkefnin eru óþrjótandi og skerðingin hefur verið svo mikil á síðustu árum að hér væri aðeins um litla uppbót að ræða á því. Ég trúi ekki öðru fyrr en ég tek á því að hæstv. ráðherra komi a.m.k. vel til móts við þessar kröfur og óskir þessara samtaka.