03.12.1987
Sameinað þing: 25. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1436 í B-deild Alþingistíðinda. (1023)

134. mál, heildarendurskoðun erfðalaga

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Á 106. og 107. löggjafarþingi fluttum við nokkrir þm., þeir hv. þáv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson, Guðmundur Einarsson, Guðrún Agnarsdóttir og Jón Baldvin Hannibalsson ásamt mér, frv. til laga um breytingu á erfðalögum, nr. 8/1962, sem gerði ráð fyrir skilyrðislausri heimild eftirlifandi maka til að sitja í óskiptu búi að því er tiltók íbúðarhúsnæði og húsbúnað sem til var við lát maka. Mál þetta hlaut verulega umfjöllun á báðum þingum og lyktaði árið 1985 með lagabreytingu sem hv. allshn. varð sammála um að leggja til. Sú lagabreyting fól það í sér að annað hjóna eða bæði geta ávallt mælt svo fyrir í erfðaskrá að það þeirra sem lengur lifir skuli hafa heimild til að sitja í óskiptu búi með niðjum beggja hvort sem þeir eru fjárráða eða ófjárráða. Ber skiptaráðanda þá að gefa út leyfi til setu í óskiptu búi til eftirlifandi maka eftir umsókn hans nema ákvæði 8. gr. standi í vegi fyrir því, en sú grein fjallar um gjaldþrotaskipti.

Sá áhugi sem þessum málum var sýndur meðan á meðförum þingsins stóð bar því vitni að margir töldu sig eiga hagsmuna að gæta yrði sú lagabreyting gerð að ekki þyrfti leyfi barna til setu í óskiptu búi. Því miður þarf enn leyfi stjúpbarna, en ekki var gert ráð fyrir því í hinu upphaflega frv. Hitt er ljóst að mikilvægt er að fólk noti sér þá heimild sem fékkst með lagabreytingunni, en til þess þarf að gera erfðaskrá eða láta búa út yfirlýsingu um vilja hvors hjóna um sig til þess að sá makinn sem lengur lifir geti setið í óskiptu búi.

Árið 1985 eða á 108. löggjafarþingi beindi ég fsp. til þáv. hæstv. dómsmrh. um hvað gert hefði verið eða áætlað væri að gera til að kynna fólki þau réttindi til setu í óskiptu búi sem fengust með lögum nr. 29/1985. Í sannleika sagt varð fátt um svör og ekki sýnilegt að ráðherra teldi það skyldu ráðuneytisins að upplýsa fólk um þessa lagabreytingu.

En allan þann tíma sem þetta mál var í meðferð þingsins kom öðru hverju sú yfirlýsing að fyrir dyrum stæði heildarendurskoðun á erfðalögum, nr. 8/1962. Vissulega er ástæða til að hvetja til hennar og þess vegna hef ég borið fram fyrirspurn til hæstv. dómsmrh. á þskj. 139 sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„1. Hvað líður undirbúningi að heildarendurskoðun á erfðalögum nr. 8/1962, með síðari breytingum?

2. Hefur verið skipuð nefnd til að annast það verk?

3. Sé svo, hvenær er áætlað að verkinu ljúki?"