07.12.1987
Efri deild: 16. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1494 í B-deild Alþingistíðinda. (1098)

181. mál, stjórn fiskveiða

Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Aðeins vegna þeirra ummæla sem hér hafa fallið um meðferð þessa máls tek ég fram að það er ekki í fyrsta skipti sem plögg sem eru svipuð frv. sem hér er lagt fram koma fyrir augu þm. Það er mjög langt síðan frumdrögum að þessu frv. var dreift meðal allra þm. og í síðustu viku var einnig dreift öðrum drögum. Menn hafa rætt hér um þetta mál eins og það standi til í dag að fara að afgreiða það frá deildinni. Ég sé ekki betur en að það séu allir möguleikar fyrir hv. þm. að tjá sig um málið bæði við 1. umr. og einnig eftir að það kemur frá nefnd og á meðan það verður í nefnd. Ég get því ekki séð að það ætti að saka þótt umræðan hefjist í dag.

Ég skal, herra forseti, reyna að greiða fyrir umfjöllun um málið af minni hálfu með því að hafa sem stysta framsögu um það. Það er hins vegar full ástæða til þess að hafa um það mjög langt mál því hér er um afar þýðingarmikið frv. að ræða sem snertir hagsmuni hvers einasta byggðarlags í landinu og þar með nánast hvern einstakan þjóðfélagsþegn. Hins vegar hefur verið mjög mikil umfjöllun um málið í þjóðfélaginu að undanförnu. Hin ýmsu hagsmunasamtök hafa fjallað um það og ég vænti þess að einstökum þingflokkum hafi gefist tækifæri til þess að fjalla ítarlega um það þótt ég sé ekki að draga úr því að ítarleg umfjöllun verði þar eftir sem áður á næstu dögum.

Frv. sem hér kemur fram byggir að miklu leyti á þeirri reynslu sem við höfum af stjórnun fiskveiða á undanförnum árum. Fyrir árið 1984 voru afgreidd heimildarlög til að stjórna fiskveiðum með öðrum hætti en áður hafði verið gert og sambærileg lög voru síðan sett fyrir árið 1985. Síðan verður breyting á en fyrir árið 1986 og 1987 voru sett lög þar sem öll meginatriði stefnunnar voru tekin inn í löggjöf. Löggjöfin sem hafði verið þar á undan var rammalöggjöf sem veitti ráðherra mjög víðtækar heimildir en hins vegar varð breyting á með lögunum fyrir 1986 og 1987. Það frv. sem hér kemur fram byggir að miklu leyti á þeim lögum en hins vegar verða þar margvíslegar breytingar þar sem miðað er við að taka helstu galla af því kerfi sem ríkt hefur. Við skulum hins vegar gera okkur fulla grein fyrir því að fiskveiðistjórnun með þeim hætti sem nauðsynlegt er að reka hana verður aldrei gallalaus. Það virðist vera um það víðtæk samstaða að það þurfi að stjórna fiskveiðunum og þess vegna ætti það ekki að vera deilumál.

Núverandi fiskveiðifloti er stærri en afrakstursgeta fiskistofnanna þolir, en samt er ásókn í fjölgun skipa og það er mikil ásókn í að stækka skipin. Það er því alveg ljóst að það er þörf á tvenns konar takmörkunum, annars vegar takmörkunum á því að flotinn stækki og hins vegar takmörkunum á veiðiheimildum þess flota sem við eigum. Þá vakna að sjálfsögðu upp þær spurningar hvers konar stjórnun eigi að vera. Þar hefur einkum verið rætt um tvö meginkosti. Í fyrsta lagi almennar sóknartakmarkanir, þ.e. heildarkvóta í veiðunum með einhvers konar skrapdagakerfi sem svo hefur verið nefnt eða sérstakar veiðiheimildir til einstakra aðila er nefnt hefur verið kvótakerfið.

Það er nauðsynlegt að spyrja sig í því sambandi hvor leiðin sé líklegri til þess að ná þeirri takmörkun á heildarafla sem stefnt er að í fyrsta lagi og í öðru lagi hvaða leið sé líkleg til að stuðla að hagkvæmri sókn. Það er enginn vafi á því, að mínu mati, að seinni leiðin, þ.e. sérstakar veiðiheimildir til einstakra aðila, hefur mikla kosti og öll úttekt sem gerð hefur verið á málinu færir að því rök. Ég nefni þá úttekt sem fram hefur farið á vegum Háskólans, Þjóðhagsstofnunar og annarra aðila. Það er álit þeirra að þessi leið sé áberandi miklu hagkvæmari. Það er því enginn vafi að við höfum stefnt í rétta átt á undanförnum árum og það er nauðsynlegt að byggja á þeim grunni áfram.

Þegar rætt er um það hvaða fyrirkomulag fiskveiðanna er hagkvæmast er að sjálfsögðu nauðsynlegt að reyna að gera sér grein fyrir því hverju sú stjórnun sem við bjuggum við áður, hefði hún verið framlengd, hefði skilað. Menn hafa í því sambandi bent á að afli hafi farið verulega fram úr þeim viðmiðunarmörkum sem sett voru á sínum tíma og þess vegna hafi stjórnunin ekki tekist eins og stefnt var að og einnig hafi hún ekki verið nægilega hagkvæm.

Við hljótum að spyrja okkur hvernig ástandið væri ef við hefðum haldið áfram á sömu braut. Það er enginn vafi á því að hefði verið haldið áfram með svokallað skrapdagakerfi hefðu jafnframt komið upp margvísleg vandamál og menn hefðu kallað á sveigjanleika í kerfinu. Ef t.d. stjórnvöld hefðu viljað standa við þau viðmiðunarmörk sem sett eru á hverjum tíma og stöðvað veiðarnar þegar heildarkvótum hefur verið náð hefðu komið upp margvísleg vandamál og ég á von á því að það hefði verið erfitt að standast þann þrýsting. Því hefur t.d. verið haldið fram að einstakir landshlutar hafi farið illa út úr þessari stjórnun. Þar hefur m.a. verið vitnað til Suðurnesja og því haldið fram að sá landshluti hafi farið verr út úr þessari stjórnun en margir aðrir. Í því sambandi er rétt að rifja það upp að vetrarvertíðar á Suðurnesjum hafa því miður verið mjög rýrar á undanförnum árum. Og ef þeir aðilar hefðu þurft að taka þátt í samkeppni um heildarkvóta er ég ekki í nokkrum vafa um að sá landshluti hefði farið enn verr út úr skiptingunni en raun ber vitni. Að sjálfsögðu er ekkert hægt að fullyrða um þetta mál, en allar líkur benda til að svo hefði orðið.

Það hefur að sjálfsögðu verið reynt víða í heiminum að skipuleggja fiskveiðar með þeim hætti að takmarka aðeins heildarsókn og heimila áframhaldandi stækkun fiskiskipaflota. Þótt það hafi oft verið nefnt áður og ég hafi oft vitnað til þess er frægasta dæmi slíks skipulags lúðuveiðar í Alaska sem ég nefni enn á ný. Þeim er þannig háttað að þar var aðilum heimilað að stunda þær veiðar og ótakmarkaður aðgangur að þeim sem endaði með því að það er heimilt að veiða lúðu einn dag í mánuði. Þá veiðist allmikil lúða og markaðirnir fyllast af þeim fiski. En auðvitað er hér um mjög óhagkvæmar veiðar að ræða og óhagkvæmar markaðslega líka.

Ég minni jafnframt á þau vandamál sem Efnahagsbandalagið stendur nú frammi fyrir. M.a. höfum við í fjölmiðlum orðið vör við þá miklu ólgu sem er í Danmörku. Þeir veiða einmitt úr heildarkvótum, og nú eru allar veiðiheimildir löngu búnar og þar af leiðandi er lítill sem enginn afli í Danmörku sem kemur sér illa fyrir fiskiðnað þeirra og að sjálfsögðu jafnframt fyrir þá sem stunda veiðarnar. Það er því enginn vafi á því að hinar ýmsu þjóðir sjá nú smátt og smátt kosti þess að stýra veiðum með kvótum á skip eða einstökum veiðiheimildum til aðila, hvort sem viðmiðunin er skip eða með öðrum hætti. Öll þróunin er í þessa átt, hvort sem okkur líkar það betur eða verr.

Auðvitað er hér um mikla breytingu að ræða. Það er mikil breyting að þurfa að ganga í gegnum það að hin einstöku byggðarlög geti ekki fjárfest í skipum eftir því sem aðilar telja hagkvæmt. Það er mikil breyting, sem þarf að sætta sig við, að draga úr veiðiheimildum einstakra skipa. Þetta er hins vegar staðreynd og þar kemur til mikil tækni sem hefur gengið yfir heiminn og okkar land. Þessi tækni er nýtt til veiða og gerir það að verkum að flotinn verður svo afkastamikill að ekki ræðst við nema með takmörkunum. Heildartakmarkanir koma þar vissulega til greina en þær eru miklu óhagkvæmari og þess vegna verður ekki hjá því komist, ef við berum þjóðarhag fyrir brjósti, að takmarka veiðarnar miðað við einstaka aðila.

Ég vildi þá, herra forseti, snúa mér að frv, og fara stuttlega yfir helstu atriði þess. Meginatriði þess koma að sjálfsögðu fram í hinum einstöku greinum.

Í 1. gr. frv. er fjallað um að fiskistofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar og markmið laga þessara að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.

Hér er um nýmæli að ræða og má að sjálfsögðu um það deila hvort slíkt ákvæði sé í sjálfu sér nauðsynlegt. Ég hef aldrei verið í neinum vafa um að við eigum þetta land og við eigum gögn þess og gæði. Ég býst við að allir Íslendingar séu sammála um það og þurfi ekki að vera í neinum vafa þar um. Hitt er svo annað mál að það er oft ítrekað í löggjöf og þar tekið fram og það er ekkert nema gott um það að segja og góður svipur á því að ítreka þessa sjálfsögðu hluti.

Það er að sjálfsögðu markmið þessara laga að vernda fiskistofnana og reyna að nýta þá á sem hagkvæmastan hátt þannig að byggðin í landinu öllu geti verið sem traustust. Ég er ekki í neinum vafa um að það kvótakerfi sem við höfum búið við tryggir byggðina í landinu miklu betur en önnur regla í sambandi við stjórn fiskveiða. Við munum ekki leysa þetta mál með hömlulausri samkeppni milli einstakra aðila, einstakra skipa, milli staða innan landshlutanna og landshlutanna sjálfra. Það mun ekki stuðla að traustri atvinnu og byggð í landinu. Það mun miklu frekar verða til þess að hún veikist og leggist niður á einstökum stöðum. Þess vegna er skipulag veiðanna grundvallaratriði ef við viljum treysta atvinnuna og byggðina í landinu. Það sem á eftir fer í frv. byggir á þessum staðreyndum.

Í 2. gr. frv. kemur fram að sjútvrh. skuli á ári hverju ákveða í reglugerð þann afla sem veiða má úr helstu botnfisktegundum. Aflinn hefur farið vaxandi á undanförnum árum þó hann hafi alls ekki náð því hámarki sem áður var. Afli á árinu 1981 var t.d. 460 þús. lestir en á árinu 1983 var hann kominn niður fyrir 300 þús. tonn. Á árinu í ár var stefnt að 350 þús. tonna afla eða um það talað, en þó virðist vera að hann muni fara yfir 380 þús. lestir. Það hafa að vísu verið nefndar tölur allt að 390 þús. lestir, en ég vil leyfa mér að efast um að sá afli muni nást.

Það er enginn vafi á að miðað við að sterkustu árgangarnir eru tiltölulega ungur fiskur er mikilvægt að dregið verði úr afla á næsta ári þannig að ungviðið fái betur að vaxa upp. Það þýðir að sjálfsögðu að tekjur sjávarútvegsins minnka og þar með tekjur samfélagsins í heild og mun því á okkur reyna eins og oft áður hvort við getum staðið undir því að draga úr veiðinni og leggja nokkuð á okkur til að styrkja fiskistofnana. Það hefði vissulega verið æskilegt að sá niðurskurður yrði allverulegur. Það er hins vegar ekki hægt að ákveða hvað hann skuli vera mikill fyrr en fyrir hyggur hvaða heimildir verði til að stjórna veiðunum. Ég hef nefnt tölur eins og 10% í þorskveiðinni og finnst mörgum að þar sé um lágmark að ræða. Hitt er svo annað mál að við verðum að meta jafnframt hvað við getum lagt á þjóðfélagið í þessu sambandi og hvað við getum lagt á þá aðila sem eru að reyna að skaffa fisk á markaðina. Það er mikil eftirspurn eftir fiski um þessar mundir og því mjög hagkvæmt að selja fisk á hinum ýmsu mörkuðum. Það er að sjálfsögðu lykilatriði ekkert síður en fiskistofnarnir. T.d. er það svo að síldarstofnarnir eru nú í örum vexti sem betur fer og það eru líkur á að hægt verði að auka síldveiðina eitthvað á næstu árum, en það er til lítils ef markaðir eru ekki fyrir hendi.

Í 4. gr. er fjallað um stærð fiskiskipaflotans þar sem kemur fram að þau skip komi eingöngu til greina við veiðarnar sem leyfi fengu til botnfiskveiða á árinu 1985 og ekki hafa horfið varanlega úr rekstri, einnig ný og nýkeypt sambærileg skip sem koma í stað skipa sem leyfi fengu 1985. Enn fremur skip þau sem sérstök veiðileyfi hafa fengið skv. ákvæði til bráðabirgða II í lögum nr. 97, um botnfiskveiðarnar 1986–1987, en þar er um að ræða svokölluð raðsmíðaskip.

Það hefur verið mikil ásókn og margar fyrirspurnir um hvort ekki sé heimilt að fjölga skipum. Í því sambandi má nefna aðila sem misst hafa skip sín fyrir þennan tíma, aðila sem hafa úrelt skip sín fyrir þennan tíma og byggðarlög sem hafa lent í margvíslegum vandkvæðum. Lögin gera ekki ráð fyrir að slíkt sé heimilt, en heimila hins vegar að eldri skipum sé skipt út og flotinn endurnýjaður. Þar er hins vegar gert ráð fyrir að um sambærileg skip sé að ræða þannig að afkastageta flotans aukist ekki.

Hér er um mjög vandmeðfarið mál að ræða því að tækni fer vaxandi og allur aðbúnaður og meðferð á afla hafa breyst. Það hafa því verið settar sérstakar viðmiðunarreglur í þessu sambandi sem mörgum þykja þröngar vegna þess að aðbúnaður manna hafi breyst mikið og meira pláss þurfi fyrir áhöfnina og einnig þurfi mun meira pláss fyrir aflann ef eigi að koma við þeirri breyttu meðferð sem nú tíðkast á aflanum, en þar hefur orðið mikil breyting til batnaðar sem betur fer.

Hitt er að sjálfsögðu aðalatriðið að það sé reynt að sporna sem mest við því að flotinn stækki og verði afkastameiri, en það er erfitt að koma í veg fyrir það og að sjálfsögðu ekki æskilegt að koma í veg fyrir að ný tækni og breytt vinnubrögð séu tekin í notkun, en það setur meiri þrýsting á stjórnunina sjálfa og þær veiðitakmarkanir sem eru settar á einstök skip. Ef afkastageta flotans eykst verulega þýðir það einfaldlega að meir reynir á aflamörkin og þá veiðidaga sem heimilaðir eru.

5. gr. fjallar um aflamark og sóknarmark og það álag sem leggst á útfluttan sjávarafla ef hann er fluttur óunninn úr landi, en 8. gr. fjallar jafnframt um sóknarmarkið og vildi ég gera grein fyrir þessum greinum frv. saman.

Það hefur verið höfð sú skipan að hin einstöku skip hafa getað valið á milli aflamarks og sóknarmarks. Þessi skipan var tekin upp sem eins konar málamiðlun milli þeirra sjónarmiða að það væri ekki mögulegt að festa skipin í þær viðjar sem viðmiðunin á árunum 1981–1983 hneppti hin einstöku skip í. Þar hefðu orðið miklar breytingar og þess vegna þyrftu skipin og þeir aðilar sem gera þau út að hafa möguleika til að vinna sig frá þeirri viðmiðun. Sóknarmarkið hefur verið leið þessara aðila til að gera það og einnig hefur það verið leið þeirra sem einhverra hluta vegna hafa lent í óhöppum og erfiðum rekstri á þessum viðmiðunarárum og þeir hafa því getað bætt sinn hlut allverulega.

Hins vegar hefur þessi sveigjanleiki orðið til þess að fleiri og fleiri hafa valið þennan kost og talið sér hag af því að stunda veiðarnar samkvæmt sóknarmarkinu. Það hefur orðið til þess að veiðin hefur farið fram úr þeim mörkum sem að var stefnt og því er óhjákvæmilegt að draga úr þessum möguleika. Það er gert ráð fyrir því að nú verði einungis heimilt að velja aflamark og síðan sóknarmark þannig að það geti bæst 10% við aflamarkið. Hins vegar hafi þetta sóknarmark ekki þau áhrif að það skerði aflamark þeirra skipa sem það völdu. Þetta er að sjálfsögðu mikilvægt, en hins vegar getur hvert og eitt skip farið 10% fram úr aflamarkinu á ári hverju án þess að hafa tryggingu fyrir því að það hafi áhrif til neinnar verulegrar hækkunar á aflamarki árið eftir.

Að sjálfsögðu má hugsa sér það að hafa þetta sóknarmark rýmra, en þá er nauðsynlegt að gera ráð fyrir því og hafa aflamarkið þeim mun minna í upphaflegri úthlutun og hlýtur því að koma fyrst og fremst við aflamarksskipin ef það er gert og verða þá til þess að mun fleiri velji sóknarmark en ella. Ég minni á í þessu sambandi að á árinu 1984 völdu flest skipanna aflamark, tiltölulega mjög fá sóknarmark, en á sl. ári valdi mjög stór hluti flotans sóknarmark vegna þess að menn sáu einfaldlega mun meiri möguleika samkvæmt því kerfi. Þetta hefur líka leitt til þess að sóknin er ekki eins hagkvæm og hún var áður. Sóknarmarkið hvetur til meiri keppni á milli aðilanna og þar af leiðandi er fiskurinn sóttur með meiri kostnaði.

Í 5. gr. er jafnframt gert ráð fyrir að aflamark skuli reikna þannig út og sóknarmark líka að það sé sett álag, allt að 15%, þegar metið er hvenær aflahámarki skips sé náð hverju sinni þegar um er að ræða óunninn fisk sem fluttur er á erlendan markað. Þessi viðmiðun var 10% áður og um hana hafa verið allmiklar deilur.

Það er að sjálfsögðu álitamál hversu hátt þetta álag á að vera. Hins vegar fer ekki milli mála að við stefnum að því að vinna sem mest af þeim afla sem berst á land í landinu sjálfu og skapa sem mest verðmæti innan lands og sem flestum atvinnu við þau störf. Það er ekki óeðlilegt þegar draga þarf afla saman að sá samdráttur komi í meira mæli við þá sem flytja aflann óunninn á markað erlendis en þá sem vinna að honum hér innan lands.

Þá er jafnframt gert ráð fyrir að það skuli koma sérstakt 10% álag á þann afla sem fluttur er óunninn á erlendan markað hafi aflinn ekki verið veginn hér á landi skv. nánari reglum. Það hefur verið sú skipan að miðað hefur verið við þá vigtun sem á sér stað erlendis. Hér gætir ósamræmis og þess vegna er nauðsynlegt að verði breyting á. Væntanlega munu viðkomandi aðilar ekki verða beint fyrir þessari skerðingu heldur munu þeir sjá hag sinn í því að vigta aflann áður en hann er sendur úr landi skv. nánari reglum sem setja þarf.

Þetta ákvæði á þó ekki við þá sem flytja afla með veiðiskipum sínum á erlendan markað, en alveg frá fyrstu tíð hefur verið sá háttur á að þessi afli hefur verið veginn erlendis og ekki hægt að koma því við með öðrum hætti. Hins vegar hefur svokallaður gámaútflutningur eða útflutningur á fiski með öðrum hætti en áður var aukist á því tímabili sem þessi stjórnun hefur náð yfir, en útflutningur á óunnum fiski með gámum fyrir þann tíma var nánast enginn. Hins vegar hefur alltaf viðgengist að veiðiskip sigldu með afla á erlendan markað og sá útflutningur hefur í sjálfu sér ekki vaxið neitt sem heitið getur á undanförnum árum. Hann hefur verið nokkuð jafn.

Í 9. gr. frv. er fjallað um heimildir til að flytja aflamark á milli tegunda og milli ára, en þar er nokkur sveigjanleiki í veiðistjórnuninni. En þó eru þær heimildir þrengdar. T.d. var heimilt að flytja allt að 10% af heildarafla yfir í þorskaflaheimildir, en í 9. gr. er gert ráð fyrir að þessi heimild sé skert, að hún verði 5%. Tilgangur þessarar skerðingar er einfaldlega sá að gera líklegra að staðið verði við þau aflamörk sem sett eru án þess að afnema þann sveigjanleika sem er nauðsynlegt að sé í þessari stjórnun.

Þá er jafnframt gert ráð fyrir að það sé heimilt að flytja allt að 10% af aflamarki hverrar botnfisktegundar yfir á næsta ár, það er að geyma sér aflaheimildir til ársins á eftir, en veiða allt að 5% umfram á ári hverju og taka það af aflaheimild ársins á eftir. Þessar heimildir eru óbreyttar og hafa sem sagt litlar breytingar orðið á 9. gr. frá því sem nú er.

10. gr. fjallar um veiðar smábáta, þ.e. báta sem eru minni en 10 brúttólestir, en um þennan flokk báta hafa orðið miklar umræður og allverulegar deilur, svo ekki sé meira sagt. Veiðar þessara báta hafa aukist mjög mikið á undanförnum árum. Þar kemur að sjálfsögðu margt til. Hafnaraðstaða hefur batnað víða um land og er enn þá að batna og það gerir mögulegra að stunda slíka útgerð. Veiðistjórnunin hefur ýtt undir fjárfestingu í bátum sem þessum, en þeir hafa búið við miklu meira frelsi en annar hluti flotans. Hins vegar eru margar ástæður fyrir þessu frelsi eins og það að þeir eru að sjálfsögðu háðari veðrum og vindum og þar af leiðandi takmarkast veiðar þeirra meir af því hvernig ástatt er að því leytinu til í landinu.

Nú er það svo að hér hefur verið einstök veðurblíða undanfarin ár miðað við það sem við megum oft venjast og þar af leiðandi hefur útgerð þessara báta gengið vel í flestum tilvikum. Það voru settar um veiðar þessara báta allstrangar reglur í upphafi og tillögur um það. Þær hafa ávallt fengið mikla umfjöllun hér á Alþingi og mikil tilhneiging verið til þess við meðferð þessa máls að líta sérstaklega til þessara báta. Hins vegar eru að sjálfsögðu takmörk fyrir því hvað hægt er að ganga langt. Bátunum hefur fjölgað mjög mikið, enda hafa engar takmarkanir verið á fjölgun þeirra og engin heimild til slíks, og margt annað hefur valdið þessari aukningu. Það má gera ráð fyrir að þorskafli þessara báta fari verulega umfram 30 þús. tonn í ár án þess að nákvæmar tölur liggi þar fyrir og ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu að afli þeirra aukist enn ef ekkert er að gert. Auðvitað má gera það með margvíslegum hætti. Í fyrsta lagi með því að stöðva fjölgun og banna frekari byggingu og kaup á slíkum bátum. Í þessu frv. er farin sú millileið að það er ekki heimilt, ef þessi frumvarpsgrein verður að lögum, að endurnýja bát sem er stærri en 6 brúttólestir nema annar sambærilegur hverfi í staðinn. Hins vegar er ekki sett slíkt ákvæði um minni báta. Tillögur hafa komið fram um að slíkt skuli gert og ekki sé heimilt að kaupa minni báta nema annar sambærilegur hverfi í staðinn.

Það er að sjálfsögðu álitamál hversu langt skuli ganga í þessum efnum, hvort á að setja þá reglu að enginn geti keypt sér litla trillu eða smíðað litla trillu án þess að önnur hverfi í staðinn. Það eru vissulega rök með því að það skuli gert. Hér eru ekki gerðar tillögur um það og þykir nóg að gert í stjórnun og ráðsmennsku með flotann þótt ekki verði jafnframt farið að taka upp ákveðna stjórnun á þessum bátum og enginn geti fengið sér smáhorn án þess að benda á annað sem hverfi í staðinn. Það útheimtir jafnframt mikið eftirlit að fylgjast með því að bátur hverfi ávallt út í stað annars og því höfum við ekki gert tillögu um það.

Það er hins vegar gert ráð fyrir að bátum undir 6 brúttólestum sé heimilt að stunda handfæra- og línuveiðar án takmarkana nema þeir séu undir ákveðnum dagatakmörkunum sem koma fram í d-lið. Stærri bátar hafa heimild til að stunda aðrar veiðar, eins og netaveiðar, en eru háðir aflaheimildum, þ.e. ákveðnum kvótum. Ef þeir sem eiga minni báta en 6 brúttólestir hafa stundað netaveiðar á undanförnum árum geta þeir jafnframt fengið heimild til þess, enda gangist þeir þá undir að vera háðir sambærilegum ákvæðum og þeir sem eiga báta yfir 6 brúttólestum. Þessir aðilar geta fengið veiðiheimild sem er byggð á veiðireynslu þeirra á árunum 1986 og 1987 og þeir eru þá jafnframt undanþegnir veiðibönnum skv. b-lið og geta sótt þann afla eftir því sem þeir telja hagkvæmast án tillits til þeirra daga sem ég áður gat um.

Ég ætla ekki að fjalla meira um þessa 10. gr. Ég á von á því að þær nefndir sem fá málið til umfjöllunar fari rækilega ofan í það. Ég vil hins vegar benda á að það verður ekki hjá því komist að takmarka afla þessara báta og gera það með sambærilegum hætti og um annan hluta flotans. Auðvitað má lengi um það deila hvað sé sanngjarnt í þessu efni, en það er engin leið að víkjast undan því að veiðum þessara skipa sé stjórnað með einhverjum sambærilegum hætti og að því er varðar önnur skip.

12. gr. fjallar um sérveiðar almennt, m.a. um rækjuveiðar. Það er e.t.v. mesti vandi sem við nú stöndum frammi fyrir að taka upp ákveðnar reglur um rækjuveiðarnar. Það hafa verið þær veiðar sem hægt hefur verið að vísa skipunum í. Þessar veiðar hafa verið arðbærar og margir hafa getað bætt sinn hlut mjög verulega með því að stunda rækjuveiðar. Hinu er ekki að leyna að ýmsir þeirra hafa fjárfest nokkuð ótæpilega í veiðibúnaði að því er varðar rækju, sett frystitæki um borð í sín skip og stækkað skipin, bæði með lengingum og með endurnýjunum, í þeirri von að hægt væri að stunda rækjuveiðarnar af fullum krafti í framtíðinni. Því miður er ekki um það að ræða og því verður ekki hjá því komist að taka upp sambærilegar takmarkanir á rækjuveiðum og að því er varðar aðrar veiðar. Þetta er hins vegar miklum vandkvæðum bundið af ýmsum ástæðum og á eftir að fjalla nánar um það, m.a. í reglugerð. Það er um tiltölulega opna heimild að ræða í þessari frumvarpsgrein. Ástæðan er einfaldlega sú að ekki hefur fengist sama reynsla við stjórnun rækjuveiðanna og botnfiskveiðanna og því er ekki hægt að setja upp eins nákvæma lagagrein um það efni og æskilegt væri. Þegar fram líða stundir hlýtur það hins vegar að breytast með sama hætti og ekki var hægt í upphafi að setja nægilega nákvæm lög um botnfiskveiðarnar.

13. gr. fjallar um framsal á milli aðila, þ.e. heimild til að færa aflamark á milli skipa. Þessar heimildir eru sambærilegar þeim sem áður voru að öðru leyti en því að ráðherra er heimilt að setja sérstakar reglur um flutning sérveiðiheimilda milli skipa. Hér er um ákvæði að ræða sem er sjálfsagt að hafa í lögum og reyndar nauðsynlegt, en hins vegar þarf að ríkja varkárni í beitingu þessarar heimildar. Það er viðkvæmt mál að færa loðnuheimildir, skelveiðiheimildir, humarveiðiheimildir, síldveiðiheimildir o.s.frv. milli ólíkra skipaflokka og þess vegna þarf að fara varlega í það, en í einstökum tilvikum getur það verið mjög æskilegt og nauðsynlegt til að stuðla að sem mestri hagkvæmni í veiðunum.

Framsal aflamarks á milli skipa hefur verið deilumál frá upphafi, en ef stefna á að meiri hagkvæmni í veiðunum verður ekki hjá því komist að mínu mati að slíkar heimildir séu fyrir hendi. Hér er hins vegar um viðkvæmt mál að ræða og þess vegna eðlilegt, eins og kemur fram í greininni, að það sé annar háttur hafður á í þessu efni þegar um er að ræða flutning milli byggðarlaga. Eins og fram kemur er slíkur flutningur óheimill nema með samþykki ráðuneytisins og að fenginni umsögn sveitarstjórnar og stjórnar sjómannafélags í viðkomandi verstöð.

Aflamark hefur verið flutt með þessum hætti á milli sveitarfélaga, en ávallt hefur verið leitað umsagnar sveitarstjórnar og stjórnar sjómannafélags og í langflestum tilvikum farið eftir því, en þó hafa einstakar stjórnir sjómannafélaga haft þá afstöðu að þær muni aldrei mæla með slíkum flutningi af prinsippástæðum og þá hefur ekki verið farið eftir þeirra áliti. Það stóð ekki til að spyrja þær um það því að andi laganna er sá að þetta skuli heimilað nema sérstakar aðstæður mæli á móti því, en aldrei hefur verið heimilað að flytja slíkan afla svo að ég muni gegn umsögn sveitarstjórnar.

Ég vildi að lokum aðeins koma inn á ákvæði til bráðabirgða, þ.e. það ákvæði sem varðar endurskoðun laganna og samráð um setningu reglugerðar. Það liggur ljóst fyrir að ef það verður samþykkt að lög þessi gildi til fjögurra ára, sem er mjög mikilvægt, mun þurfa að huga að endurskoðun þeirra sem allra fyrst. Í Ákvæði til bráðabirgða I er gert ráð fyrir því að sérstök nefnd hefji það starf og skili áliti eigi síðar en haustið 1989. Með því ætti að vera tryggt að tillögur um breytingar liggi fyrir það haust, en nauðsynlegt er að breytingar séu undirbúnar tímanlega og þær teknar til umfjöllunar á Alþingi.

Það er mjög óheppilegt svo að ekki sé meira sagt að Alþingi hafi jafnskamman tíma til að fjalla um þetta mikilvæga mál og raunin hefur orðið á oft og tíðum. En með hinum stutta gildistíma sem hefur verið í þessu máli hefur því í reynd verið boðið heim. Fyrstu lögin giltu aðeins í eitt ár, næstu lög giltu einnig í eitt ár og síðan í tvö ár. Á því tímabili voru alþingiskosningar í landinu og gat að sjálfsögðu enginn vitað hvaða ríkisstjórn mundi taka við að þeim loknum og það hlaut að koma í hennar hlut að standa að endurskoðun málsins. Því hafa mjög erfiðar aðstæður verið skapaðar í þessu máli. Menn hafa viljað kenna sjútvrn. um og sjálfsagt má halda því fram með einhverjum rökum að betur hefði mátt standa að málum af þess hálfu, en Alþingi hefur einnig lagt á það áherslu í gegnum tíðina að gildistíminn væri sem allra stystur og enn heyrast þær raddir að rétt sé að láta hann vera sem allra stystan.

Það verður ekki hægt að koma við hagkvæmni í sjávarútvegi og standa að sjávarútvegi með eðlilegum hætti ef hann á ávallt að búa við óvissu um starfsskilyrði sín og ef aðilar í þjóðfélaginu vilja gera miklar kröfur til sjávarútvegsins og hagkvæmni hans sem undirstöðu þjóðfélagsins verða menn að geta staðið að því að skapa honum nokkra vissu í starfsskilyrðum. Með því að lög um heimildir til fiskveiða gildi frá einu ári og upp í tvö ár eru slík skilyrði ekki sköpuð. Að mínu mati er lágmark að slík lög gildi til fjögurra ára. Hins vegar er eðlilegt að ákveðið sé að það skuli þegar fara að vinna að endurskoðun þeirra laga með eðlilegum og venjulegum hætti.

I Ákvæði til bráðabirgða II er sagt fyrir um með hvaða hætti skuli haft samráð við sjávarútvegsnefndir Alþingis og helstu samtök í sjávarútvegi um setningu reglugerða um meginþætti stjórnar botnfiskveiðanna. Það kemur skýrt fram í frv. að þar er víða um heimildargreinar að ræða og verður ekki hjá því komist. Þess vegna verður að setja árlega reglugerð um stjórn botnfiskveiðanna. Það er bæði nauðsynlegt og eðlilegt að um það sé haft sem best samráð við sjávarútvegsnefndir Alþingis og helstu hagsmunaaðila í sjávarútvegi og hefur verið leitast við að svo væri á undanförnum árum og sjálfsagt að taka það fram í ákvæði til bráðabirgða.

Herra forseti. Ég lofaði því í upphafi að verða fremur stuttorður um þetta stóra mál og ég vænti þess að ég hafi við það staðið. Það eru mörg önnur atriði sem ég hefði gjarnan viljað koma að í framsögu minni, en það mun áreiðanlega verða tækifæri til þess síðar við þessa umræðu og ég bið hv. þingdeildarmenn að virða að það er ekki vegna þess að ég hefði ekki viljað koma að ýmsum mikilvægum atriðum er snerta þetta mál. Ég mun fremur gera það síðar eftir því sem fyrirspurnir koma og menn telja nauðsynlegt og æskilegt. Ég tel hins vegar mjög mikilvægt að þetta mál gangi þegar til nefndar og sjávarútvegsnefndir þingsins hefji störf við frv. hið allra fyrsta, m.a. með því að kalla fyrir hina ýmsu aðila sem hér hafa hagsmuna að gæta.

Ég vænti þess að sjávarútvegsnefndir beggja deilda geti haft gott samstarf um þá vinnu því að stuttur tími er til stefnu og í reynd miklu styttri tími en nefndirnar þyrftu á að halda svo að vel væri. Ég vænti þess hins vegar að með góðu samstarfi nefndanna reynist unnt að afgreiða þetta mál fyrir jólaleyfi þm. því að það er ekki hægt að komast hjá því að lög liggi fyrir um stjórn veiðanna á næsta ári.

Ég vil að lokinni þessari umræðu, herra forseti, leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.