07.12.1987
Efri deild: 16. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1505 í B-deild Alþingistíðinda. (1099)

181. mál, stjórn fiskveiða

Danfríður Skarphéðinsdóttir:

Herra forseti. Það er full ástæða til að fagna því að loksins skuli liggja fyrir frv. ríkisstjórnarinnar um fiskveiðistefnuna nú á næstunni, en það var auðvitað löngu tímabært að það liti dagsins ljós þar sem hinu háa Alþingi er ætlað að afgreiða þetta umfangsmikla hagsmunamál allrar þjóðarinnar nú fyrir áramót. Það er hins vegar mikið álitamál hversu mikil fagnaðarboðskapur felst í efni og innihaldi frv.

Fyrir kosningar sl. vor unnum við kvennalistakonur mikið í stefnuskrá okkar, endurbættum og endurskoðuðum allítarlega eins og gerist og gengur og bráðnauðsynlegt er því við teljum að við þurfum að endurskoða allar þær hugmyndir og viðfangsefni sem við fáumst við hverju sinni, enda er slík endurskoðun forsenda þess að fólk haldi huganum frjóum þannig að til geti orðið nýjar hugmyndir. Einn af stóru malaflokkunum sem við fjölluðum um var sú undirstöðuatvinnugrein sem sjávarútvegurinn er.

Um núgildandi löggjöf um fiskveiðistefnuna segir m. a. í stefnuskrá Kvennalistans, með leyfi forseta: „Lífríki hafsins er ein dýrmætasta auðlindin sem við Íslendingar höfum aðgang að. Þessa auðlind, sem er eign allrar þjóðarinnar, verðum við að umgangast þannig að ekki sé hætta á ofnýtingu. Taka á vextina en láta höfuðstólinn ósnertan.“

Og skömmu síðar segir: „Aukin tækni, stækkun fiskiskipa og fyrirhyggjuleysi stjórnvalda leiddi til þess að fiskistofnar við landið voru í hættu vegna ofveiði. Kvótakerfið var ill nauðsyn úr því sem komið var til að stuðla að raunhæfri sókn á miðin. Með því hefur samt ekki tekist að tryggja atvinnuöryggi þeirra sem vinna í landi. Í núverandi kvótakerfi felst einnig sá möguleiki að versla með fisk sem enn syndir í sjónum. Það er því nauðsynlegt að endurskoða kerfið í heild með tilliti til þessa. Fiskurinn í sjónum er ekki söluvara heldur auðlind sem við eigum öll.“

Þetta segir nokkuð um álit okkar á því kvótakerfi sem enn er í gildi, grunnsjónarmið okkar kvennalistakvenna koma skýrt fram svo og nauðsyn þess að fram fari gagnger heildarendurskoðun á kvótakerfinu.

Það var fyrirsjáanlegt að umræða og umfjöllun um sjávarútvegsmál mundi setja svip sinn á umræðuna í þingsölum nú í haust þar sem núverandi lög um stjórnun fiskveiða falla úr gildi um komandi áramót. Ekkert vantaði á það að settar voru á laggirnar nefndir til að fjalla um málið. Utan frá séð virðist hér um mjög lýðræðislegt fyrirkomulag að ræða. Annars vegar fjallaði nefnd svokallaðra hagsmunaaðila í sjávarútvegi og fulltrúar þingflokka um málið og hins vegar sérstök þingmannanefnd. Þetta fyrirkomulag vekur upp ýmsar spurningar, svo sem eins og hverjir séu hagsmunaaðilar í þessu máli. Í hugum okkar kvennalistakvenna getur hér ekki verið um aðra að ræða en alla Íslendinga því lífríki hafsins er ein dýrmætasta auðlindin sem við eigum og hún er eign allra Íslendinga. Við þurfum að umgangast hana af þeirri varúð sem nauðsynleg er, sérstaklega nú á dögum þegar tækni til að ná aflanum er orðin svo öflug að hætta er á að gengið sé of nærri fiskistofnunum hér við landið. Við megum alls ekki gleyma því að sá fjársjóður, sem hafið er, er auðvitað fyrst og fremst fjársjóður allrar þjóðarinnar.

Það eru ekki einungis þessir svokölluðu hagsmunaaðilar sem hafa byggt upp þessa atvinnugrein. Það hafa skattborgarar þessa lands gert líka með framlagi sínu til ráðuneyta og annarra opinberra stofnana sem t.d. stunda rannsóknir á lífríki hafsins. Þá eru allar atvinnugreinar beinir hagsmunaaðilar því að gengi íslensku krónunnar miðast fyrst og fremst við útfluttan sjávarafla.

Nauðsynlegt er að móta framtíðarstefnu í fiskveiðum sem fyrst og fremst byggir á rannsóknum. Í stefnuskrá Kvennalistans er m.a. tekið fram að kvótakerfið skuli endurskoðað. Með endurskoðun þeirri sem nauðsynleg er eftir þann reynslutíma sem kominn er á núverandi kerfi og þá annmarka á því sem augljósir eru töldum við rétt að hugsa málið upp á nýtt. Við lögðum því að sjálfsögðu ekki upp laupana eftir stefnuskrárvinnuna sl. vetur og tókum þátt í starfi þeirra tveggja nefnda sem ég gat um aðan. En mikilvægasti hluti vinnunnar hjá okkur fór að sjálfsögðu fram í okkar eigin hópi þar sem margar konur víðs vegar á landinu lögðu fram ómælda vinnu til að gera okkar tillögur og hugmyndir sem best úr garði. Og það skyldu menn muna að þær konur sem standa að baki þessum hugmyndum okkar koma úr heimabyggðum og kjördæmum allra hv. þm. á hinu háa Alþingi og þær hafa beina þekkingu á öllum greinum sjávarútvegsins.

Í byrjun nóvember, þegar við töldum okkur tilbúnar með þær hugmyndir og tillögur sem við vildum ganga út frá, voru þær kynntar og þeim dreift skriflega í báðum þessum nefndum. Viðbrögð nefndarmanna voru vægast sagt harla lítil og daufleg og var ýtt til hliðar nánast án nokkurrar umræðu, enda kom með hverjum fundinum æ betur í ljós að þrátt fyrir lýðræðislegt yfirbragð þessara nefndarstarfa stóð aldrei til að ræða neinar grundvallarbreytingar heldur aðeins lappa upp á það kerfi sem fyrir var.

Ekki létum við kvennalistakonur við svo búið standa þrátt fyrir daufleg viðbrögð. 17. nóvember birtist í Morgunblaðinu grein eftir Kristínu Halldórsdóttur, þingkonu Kvennalistans, þar sem hún gerir nákvæma grein fyrir hugmyndum Kvennalistans varðandi nýja fiskveiðistefnu. Þá sendum við einnig fréttatilkynningu til allra fjölmiðla, en enn hafa aðeins tveir fjallað mjög lauslega um hana. Það vakti því óneitanlega athygli okkar nú um helgina þegar fjölmiðlar sýndu ákafan og mikinn áhuga á þeim tillögum sem Alþb. dró skyndilega upp á borð og hefur nú birt, en þær eiga að ýmsu leyti skylt við tillögur okkar þó þær séu engan veginn þær sömu. en þó er hugmyndin að baki þeirra að mörgu leyfi lík, þ.e. í báðum kemur fram grundvallarbreyting á því hverjum eigi að úthluta kvótanum. En hugmyndir Kvennalista ganga enn lengra en Alþb. því að við viljum úthluta kvóta á byggðarlögin eingöngu en ekki skipta á milli skipa og byggðarlaga eins og það leggur til. Það keyrði þó fyrst um þverbak þegar Ríkisútvarpið sá ástæðu til þess í pallborðsþætti undanfarna tvo sunnudaga að gefa stjórnmálamönnum annarra flokka tækifæri til að fjalla um Kvennalistann og skilgreina samtök okkar og stefnu í hinum ýmsu málaflokkum að okkur fjarstöddum. Þar fengu aðrir en við að fjalla um stefnu okkar í mikilvægum málaflokkum, eins og t.d. sjávarútvegsmálum, enda kom í ljós að þeir sem voru samankomnir voru heldur illa að sér og illa lesnir í stefnuskrá okkar. En það er undarlegt að standa á fimmta starfsári Kvennalistans hér á hinu háa Alþingi og þurfa enn að minnast á það gegndarlausa virðingarleysi sem ríkir gagnvart hugmyndum og skoðunum kvenna og að það skuli vera jafnerfitt að koma skoðunum sínum á framfæri í þessu landi og að ætla sér að klifra yfir Berlínarmúrinn í björtu. Ég minni því enn og aftur á að við þingkonur Kvennalistans stöndum ekki einar að þessum hugmyndum. Að baki þeim stendur fjöldi kvenna um allt land sem eins og allir Íslendingar tengjast sjávarútvegi á einn eða annan hátt.

Áður en ég lýk máli mínu tel ég fulla ástæðu til að vitna í grein Kristínar Halldórsdóttur, þingkonu Kvennalistans, en greinin birtist eins og áður sagði í Morgunblaðinu 17. nóv. sl. og er góð samantekt á okkar hugmyndum og tillögum sem við kynntum bæði munnlega og skriflega í byrjun nóv., fyrstar þeirra sem sæti áttu í nefndunum tveimur. Með leyfi forseta vitna ég til greinar Kristínar Halldórsdóttur. Þar segir:

„Sjávarútvegur er og verður undirstaða efnahagsog atvinnulífs Íslendinga. Hagur þessarar atvinnugreinar er hagsmunamál allrar þjóðarinnar og ber að skipuleggja hann samkvæmt því. Sá tími er löngu liðinn að náttúran var látin einráð um stjórnun fiskveiða. Mannleg stjórnun hefur nú gilt árum saman, friðunaraðgerðir, skyndilokanir uppeldissvæða, afmörkun sóknartíma, aflahámark á fisktegundir og takmarkanir af ýmsu tagi. Allar þessar aðgerðir hafa verið umdeildar og hagsmunaárekstrar tíðir.

Undanfarin fjögur ár hefur verið í gildi svokölluð kvótaskipting í sjávarútvegi sem byggist á skiptingu heildaraflans á milli skipa. Kerfið hefur verið nokkuð sveigjanlegt með möguleikum á vali milli aflamarks og sóknarmarks með hámarki á þorskafla. Veiðar báta undir 10 brúttólestum hafa fyrst og fremst lotið reglum um sóknardaga.

Við mótun á fiskveiðistefnu næstu ára hljótum við að líta til þess hvernig núgildandi stefna hefur reynst, hversu vel hefur tekist að ná þeim markmiðum sem höfð eru að leiðarljósi við mótun stefnunnar og hvernig bæta megi það sem miður hefur farið. Miklu skiptir að gera sér grein fyrir markmiðum með stjórnun fiskveiða og ná sem bestri og víðtækastri samstöðu um leiðir að þeim markmiðum. Markmiðin má skilgreina á eftirfarandi hátt:

1. Hindrun ofveiði. Verndun og uppbygging fiskistofna.

2. Aukin hagkvæmni og minni tilkostnaður bæði við veiðar og vinnslu.

3. Bætt meðferð sjávaraflans.

4. Hámarksnýting aflans.

5. Bætt kjör þeirra sem vinna í sjávarútvegi, bættur aðbúnaður, meira öryggi, hærri laun.

6. Sanngjörn dreifing atvinnu og arðs eftir aðstæðum.

En hver skyldi svo vera reynslan af fiskveiðistjórnun síðustu ára með hliðsjón af ofantöldum markmiðum? Sé litið á fyrsta markmiðið með hindrun ofveiði og verndun og uppbyggingu fiskistofna er ljóst að þetta markmið hefur engan veginn náðst. Heildarþorskaflinn hefur á hverju ári farið langt fram úr því sem fiskifræðingar hafa talið ráðlegt. Samanlagður umframafli í þorski sl. fjögur ár nemur um 366 þús. tonnum eða sem svarar afla heils árs og veiddur fiskur er stöðugt yngri og smærri. Aukin sókn í aðrar fisktegundir gerir það að verkum að sífellt fleiri tegundir eru felldar undir kvóta.

Ef litið er á annað markmiðið, aukna hagkvæmni og minni tilkostnað við veiðar og vinnslu, má segja að það markmið hafi náðst að hluta til og má að einhverju leyti rekja það til kvótakerfisins en lægra olíuverð og aðrar ytri aðstæður hafa einnig haft sitt að segja. Eitthvað hefur dregið úr hagkvæmninni síðustu ár við meiri ásókn í sóknarmarkið sem hefur orðið hvati til aukinnar fjárfestingar. Flestir telja að stefna beri að fækkun fiskiskipa og minnkun flotans í heild. Þróunin hefur verið á hinn veginn. Fiskiskipum hefur fjölgað, mest í minnstu flokkunum, en þau hafa einnig stækkað, þ.e. ný skip eru í mörgum tilvikum stærri en þau sem hefur verið lagt.

Þriðja markmiðið, um bætta meðferð sjávaraflans. Það má segja að á síðustu árum hafi sú meðferð batnað og er það árangur aukinnar þekkingar og skilnings þeirra sem vinna með aflann. Hugsanlega getur kvótaskiptingin átt hlut að máli þar sem magnið er gefinn hlutur en gæðin ráða tekjum. Hins vegar mætti hér bæta um enn betur.

Í fjórða lagi, um hámarksnýtingu aflans, má segja að mikið skorti á að sjávarafli sé nýttur til fullnustu. Miklu er kastað á glæ í orðsins fyllstu merkingu, bæði fisktegundum og fiskhlutum, svo sem lifur og slógi. Sem dæmi má nefna að árlega er kastað í hafið 2–3 þús. tonnum af tindabikkju sem er góður matfiskur. Annað dæmi er lifrin sem hent er í stórum stíl þótt fyrirtæki vilji kaupa hana til lýsisframleiðslu og geti framleitt helmingi meira af meðalalýsi án þess að þurfa að hreyfa legg né lið til markaðsöflunar því að markaðurinn beinlínis bíður eftir þessari vöru.

Varðandi bætt kjör þeirra sem vinna í sjávarútvegi, bættan aðbúnað og meira öryggi. Um þennan lið þarf ekki að fara mörgum orðum því að þar skortir augljóslega mikið á að kjör fólksins séu viðunandi og með því er vitanlega ekki eingöngu átt við launakjör heldur einnig vinnuskilyrði.

Síðasta markmiðið, um sanngjarna dreifingu atvinnu og arðs. Það er mjög umdeilanlegt hvernig hefur tekist að ná því, en mörg dæmi eru um það nú á síðustu árum að illa stæðar útgerðir hafa í skjóli kvótakerfisins getað selt skip sín á margföldu verði milli byggðarlaga og hagnast þannig um hundruð milljóna meðan íbúar viðkomandi byggðarlags mega horfa á eftir atvinnu sinni og fá ekki rönd við reist. Niðurstaðan er því sú að sú leið sem farin hefur verið í stjórnun fiskveiða á undanförnum árum skilar alls ekki tilætluðum árangri.

Í framkomnum drögum að frv. til l. um stjórnun fiskveiða á næsta ári er því miður fátt um nýjungar“ — og því frv. sem nú hefur verið lagt hér fram. „Kvennalistakonur studdu núgildandi fiskveiðistjórnun þegar hún var lögfest, en í ljósi reynslunnar teljum við nauðsynlegt að leita nýrra leiða sem samrýmast betur fyrrgreindum markmiðum. Meginatriði nýrrar fiskveiðistefnu verði eftirfarandi:

1. Árlegur heildarafli verði eftir sem áður ákveðinn af sjútvrh. að fengnum tillögum Hafrannsóknastofnunar. Svigrúm verði til þess að hækka eða lækka aflamarkið innan ársins ef aðstæður krefjast.

2. 80% þess heildarafla sem ákveðinn hefur verið skv. 1. lið verði skipt milli byggðarlaga, útgerðarstaða, með hliðsjón af lönduðum afla síðustu fimm ára. Vilji viðkomandi byggðarlag halda sínum hlut miðað við fyrri ár ber því að greiða fyrir það sem á vantar.

3. Gjald byggðarlaga fyrir fiskveiðikvóta miðist við ákveðið hlutfall af meðalverði á afla upp úr sjó og renni í sérstakan sjóð í vörslu ríkisins sem varið verði til eftirtalinna verkefna:

1. Fræðslu sem nýtist sjávarútvegi, fiskvinnsluskóla, símenntunar fiskvinnslufólks, sjómannaskóla og öryggisfræðslu sjómanna.

2. Rannsókna tengdum sjávarútvegi, grunnrannsókna á lífríki sjávar, rannsókna á ónýttum og vannýttum tegundum, vöruþróunar í sjávarútvegi, markaðsöflunar og markaðshönnunar fyrir sjávarafurðir.

3. Verðlauna til handhafa aflamarks fyrir sérstaka frammistöðu í nýtingu og meðferð aflans eða lofsverðan aðbúnað að starfsfólki.

Byggðarlög verði nokkuð sjálfráð með hvernig þau ráðstafa sínum afla og hvert gjald þau taka fyrir umfram gjaldtöku ríkisins, þó með þeim skilyrðum að ef þau framleigja réttinn til annarra byggðarlaga skal tilkynna það sérstaklega til ráðuneytis og tilgreina ástæður. Reikna má með að byggðarlög framleigi réttinn með þeim skilyrðum að aflanum yrði landað að stærstum hluta í viðkomandi byggðarlagi eða eftir aðstæðum á hverjum stað. Vel má hugsa sér að settar verði reglur um nokkurs konar gæðabónus sem fæli það í sér að handhafar kvótans gætu áunnið sér ákveðinn rétt til aflamarks næsta árs með mikilli nýtingu og góðri meðferð aflans og með því að búa vel að sínu starfsfólki. Slíka reglu ber þó ekki að festa í lögum heldur verður að treysta heimamönnum á hverjum stað til þess að móta þær reglur sem stuðlað geti að sem bestum árangri. Ríkinu bæri þó að veita ráðgjöf í þessum efnum ef þess væri óskað. Eðlilegt er að ætlast til þess að tekjur sveitarfélaga af framleigu kvótans yrðu notaðar til þess að bæta aðstöðu í höfnum og auka þjónustu við þessa atvinnugrein.

Ætla yrði lögum um nýja fiskveiðistefnu nægan tíma til þess að sanna gildi sitt. Ef sett yrði sólarlagsákvæði væri fimm ára gildistími æskilegur.

Ávinningur af þeirri fiskveiðistefnu sem hér hefur verið lýst yrði margþættur. Í sem allra stystu máli yrði þetta kerfi fiskveiðistjórnunar einfaldara, skilvirkara og réttlátara, svo vitnað sé til einkunnarorða sem stjórnmálamenn beita gjarnan fyrir sig þegar kerfisbreytingar eru á dagskrá. Með þessu kerfi yrði verulega dregið úr miðstýringu og ofstjórn og byggðasjónarmiðum gert hærra undir höfði. Auðveldara yrði að halda heildarafla nálægt þeim mörkum sem sett yrðu. Verslun með kvóta þjónaði heildarhagsmunum. Stuðla yrði að eflingu rannsókna og bættri þjónustu við sjávarútveginn. Unnt yrði að byggja inn hvata til meiri nýtingar og bættrar meðferðar sjávaraflans og til þess að betur yrði búið að starfsfólki í sjávarútvegi. Það er til mikils að vinna.“

Ég sá fulla ástæðu til að lesa þetta hér upp þar sem það hefur skilað sér svo illa sem raun ber vitni.

En ég vil að lokum aðeins undirstrika það sem fram hefur komið hjá okkur kvennalistakonum í umræðunni: Stærstu annmarkar núverandi kvótakerfis eru að okkar mati hið siðlausa brask sem átt hefur sér stað á undanförnum árum með þau skip sem hafa veiðiheimildir. Það gengur ekki upp að þeir menn sem fengið hafa veiðiheimildir ókeypis upp í hendurnar, sem hvergi eru taldar til eigna, geti hagnast á þeim um tugi milljóna þegar þeir selja skip sín og að atvinnuöryggi og lífsafkoma fólks í mörgum byggðarlögum sé þannig háð duttlungum eða efnahag þeirra sem fiskiskipin eiga.

Í þeirri umræðu sem fram hefur farið að undanförnu um byggðamál hefur oftlega verið ítrekuð nauðsyn öflugs og stöðugs atvinnulífs. Sjávarútvegur og landbúnaður eru þær greinar sem halda uppi byggð á mörgum stöðum úti á landsbyggðinni. Þær hafa á undanförnum árum gengið í gegnum mikið breytingaskeið endurnýjunar og skipulagningar sem hefur valdið mikilli röskun á byggðamynstrinu. Til að tryggja stöðugleika í þessum greinum er nauðsynlegt að við allar breytingar sé tekið mið af byggðasjónarmiðum. Rauði þráðurinn í þeim hugmyndum og tillögum sem hér hafa verið kynntar varðandi sjávarútveginn er sá að litið sé á fiskinn í sjónum sem eign okkar allra og með því að veita byggðarlögunum veiðiheimildir en ekki einstaklingum gefst tækifæri til að skipuleggja sjávarútveginn með tilliti til aðstæðna á hverjum stað þannig að hvert byggðarlag fái að blómstra á sínum eigin forsendum.