08.12.1987
Efri deild: 17. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1572 í B-deild Alþingistíðinda. (1126)

181. mál, stjórn fiskveiða

Karvel Pálmason:

Virðulegi forseti. Þó að hér sé vissulega eitt mikilvægasta mál Alþingis til umfjöllunar skal ég reyna að teygja ekki um of lopann í umræðunni. Mér er ljóst að tíminn er naumur, en ég get þó ekki stillt mig um að gagnrýna nokkuð harkalega hvernig unnið hefur verið að undirbúningi þessa máls og raunar fleiri mála nánast undir þingfrestun fyrir jólahlé þingmanna. Það eru eftir kannski 10–12 vinnudagar á Alþingi áður en það fer í jólafrí og hér er dengt inn nánast daglega þykkum lagabálkum sem þm. er ætlað að fara yfir, skoða, kynna sér og íhuga. Þessi vinnubrögð eru óþolandi. Og þau eiga ekki bara við núv. hæstv. ríkisstjórn. Svona hefur þetta verið þau 15 ár sem ég hef setið á Alþingi. Þessu verður að linna. Það er ekki viðunandi og ég skil ekkert í hv. alþm., hinum almenna þm., að una því að slíkt gerist ár eftir ár. Ég tala nú ekki um svo mikilvæg málefni eins og hér er um að ræða sem nánast öll þjóðin byggir á hvernig með verður farið og hvernig er á haldið.

Þessu hlýt ég að koma á framfæri. Ég hef gert þetta áður í þingsölum, lítt verið á það hlustað, enda sjaldan hlustað á góð orð hér innan dyra heldur farið aðrar leiðir. En eigi að síður ítreka ég þá skoðun mína að hér þarf að verða breyting á. Þetta getur ekki gengið öllu lengur.

Ég er ekki alveg sammála hv. síðasta ræðumanni, hv. þm. Eiði Guðnasyni, mínum þingflokksformanni — (Gripið fram í: Það var skrýtið.) Nei, það var sko ekki skrýtið. — um hversu tiltölulega ánægður hann hafi verið með undirbúninginn að þessu máli. Ég er hundóánægður með hann og vísa þar að sjálfsögðu til þess sem um var talað við stjórnarmyndun núv. hæstv. ríkisstjórnar. Þá gengu sumir hverjir innan þeirra vébanda svo langt að telja að þar væri fundin lausn á því að komast út úr kvótakerfinu frá og með nk. áramótum, eftir hálfan mánuð rúman. Vitandi það á þessum tíma hver átti að stýra sjávarútvegsmálum þjóðarinnar datt mönnum þetta í hug. Og þetta er engin gagnrýni á hæstv, ráðherra. Hann heldur á sínu máli og hefur sýnt það í gegnum árin að hann hefur ráðið öllu sem hann vildi ráða og mér sýnist hann ætli að gera það enn. Ég sé ekki betur. Menn hafa falið honum þetta vald. Meiri hluti Alþingis hefur falið honum þetta vald til meðferðar þannig að hann hefur að mínu viti nánast stjórnað sjávarútvegsmálum þjóðarinnar eins og hann stjórnar heimilisbókhaldinu hjá sjálfum sér nema það er stærra heimili sem hann fjallar um hér. Þetta eru völd sem Alþingi hefur falið hæstv. ráðherra. Það er við þá að sakast sem það hafa gert. (Sjútvrh.: Ertu viss um að ég stjórni heimilisbókhaldinu?) Ég dreg það ekki í efa, hæstv. ráðherra, að þú gerir það vel. Sé annað uppi vænti ég að ég fræðist um það.

Nei, hér verða þeir sem þessa stefnu hafa ákvarðað að kenna sjálfum sér um hvernig á málum hefur verið haldið. Ég hlýt í þessu sambandi að minna á frv. sem ég flutti ásamt hæstv. núv. fjmrh., formanni Alþfl., á sl. hausti, frv. til breytinga á fiskveiðistefnunni, ásamt hv. þm. Ólafi Þórðarsyni og Hjörleifi Guttormssyni, frv. sem gat orðið þess valdandi að menn reyndu að fikra sig út úr því fasta kvótakerfi sem menn hafa búið við í fjögur ár. Á það var að sjálfsögðu ekki hlustað.

Ég hlýt að ítreka líka skrif hæstv. núv. fjmrh. í þá veru að fiskveiðum við Ísland verði ekki stjórnað með skiptareglum frá skrifborði í Reykjavík. Ég á ekki von á að hæstv. fjmrh. hafi skipt um skoðun í þessum efnum. Hann er ekki af því taginu, sá hæstv. ráðherra, að skipta margoft um skoðanir þannig að ég hygg að við séum sammála enn að því er þetta varðar. (StG: Hver er ekki vanur að skipta um skoðun?) Hæstv. fjmrh., formaður Alþfl. (SvG: Viltu ekki kalla hann inn í deildina?) Ég hef enga ástæðu til þess. Ég sé ekki ástæðu til þess að hann hlýði endilega á mig. Hafi hann áhuga á því gæti hann að sjálfsögðu komið. Hann hlýtur að heyra til mín.

Þetta hlýt ég að taka fram. Hvort sem mönnum þykir það súrt eða sætt hlýt ég að halda mig við mínar skoðanir í þessum efnum. Undan því verður ekki vikist. Kannski finnst mönnum þetta harkalega talað þegar til þess er litið að hér talar formaður þeirrar hv. nefndar sem málið fer til að lokinni umræðu, en eigi að síður er lýðræðið þannig að þar hljóta menn að láta mál ganga fram eftir lýðræðislegum leikreglum hvaða skoðanir sem menn hafa. Það verður þá að koma í ljós.

Hver voru rökin sem uppi voru höfð á þeim tíma þegar kvótakerfinu var skellt á? Það voru verndunarsjónarmiðin. Þá héldu menn því fram að það væri svo lítið af þorskmagni í sjónum að það væri vart veiðanlegt öllu lengur en 3–4–5 ár. Hvað hefur gerst á þessu tímabili? Það hefur verið veitt um og yfir 30% meira en menn hafa talið að ætti að veiða á þessu tímabili. Verndunarsjónarmiðið hefur nú verið með þessum hætti undir kvótakerfi þannig að ég held að það sjónarmið hljóti að vera horfið að hér sé um verndunarsjónarmið í kvótanum að ræða.

Ég er hér að tala um það kvótakerfi sem við núna búum við og er í gildi til áramóta, en það sem hér er verið að boða er ekki bara spurning um það. Hér eru menn að fikra sig lengra inn á kvótann, taka upp nýja kvótastefnu til viðbótar þeirri sem er fyrir. Menn eru hér að vísu að tala um heimild til ráðherra eins og hv. þm. Júlíus Sólnes nefndi áðan. Hann nefndi einhvern tug heimilda til hæstv. ráðherra í þessu frv. Mig rámar í það, nú vil ég ekki fullyrða, að eitthvað álíka sé í því húsnæðismálastjórnarfrv. sem hv. þm. Borgarafi. hafa flutt í þessari hv. deild. Þar er það að vísu hæstv. félmrh. sem á öllu að ráða, en í þessu tilfelli er það hæstv. sjútvrh. sem á öllu að ráða þannig að það er ekki mikil breyting milli þeirra sem þarna eiga hlut að máli.

En auðvitað er ráðherra falið gífurlegt vald með þessu. Og ef það er meiri hluti fyrir því að slíku valdi sé afsalað til eins aðila hér á Alþingi verður svo að vera. Við því er ekkert að gera. En það er hið skuggalega í þessu máli þegar fulltrúar hins frjálsa framtaks, einstaklingshyggjunnar, sem hér hafa borið höfuð og herðar yfir aðra í þeim málflutningi, fara hver á fætur öðrum að koma og lýsa samstöðu nánast við þennan þátt miðstýringar og stjórnunar á þessum þætti þjóðarbúsins. Ja, það er af sem áður var. (GHG: Einu sinni stjórnuðu þeir verkalýðshreyfingunni.) Það er rétt. Einu sinni gerðu menn það. En er svo að heyra að það sé liðin tíð? (GHG: Og þótti gott.)

Í frv. sem hér er til umræðu á, auk þess að vera að tala um framlengingu núverandi kvótakerfis, að innlima smábátana inn í þetta líka. Ég hef alla tíð verið þeirrar skoðunar og er þeirrar skoðunar enn að handfæra- og línuveiðar eigi að vera óháðar kvóta. Og ég er einnig þeirrar skoðunar, verði sú meining, eins og kemur fram í frv., að settur verði kvóti á úthafsrækjuveiðar, að undir þeim kringumstæðum sem nú eru verði að skipta milli skips og vinnslustöðva ella væru menn að leggja í rúst heilu landsvæðin ef slíkt yrði ekki gert, ég tala nú ekki um þegar haft er í huga að vinnslustöðvum hefur fjölgað gífurlega, en hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórn, stjórnvöld í landinu, hafa neitað um skipakaup og sú stefna hefur ríkt og ríkir enn. Og ég segi hið sama að því er varðar smábátaútgerðina. Ef stjórnvöld ætla að setja þá inn í kvóta liggur nánast við hruni víða úti á landsbyggðinni að því er varðar atvinnulíf. Það skiptir tugum sjávarþorpa þar sem stór hluti íbúa byggir lífsafkomu sína á þessu og kvótakerfi á þennan þátt fiskveiða er út í hött að mínu viti.

Ég minni á í þessu sambandi að ég og hæstv. núv. fjmrh. fluttum frv. þess efnis að bæði handfæra- og línuveiðar væru undanþegnar kvótakerfinu. Meira að segja vildum við ganga þann veg að fella út straffdagana sem menn kalla núna, t.d. á handfæraveiðunum yfir sumartímann, og láta veðurfar ráða gæftum en ekki stjórnvöld héðan úr Reykjavík. Sú hefur verið tíðin að því er varðar þessa báta að veðurfar hefur yfirleitt ráðið sjósókn þeirra umfram það sem mannleg afskipti hafa haft þar áhrif á. Ég veit það a.m.k. miðað við sl. sumar og svo hefur verið áður að trillubátar á Vestfjarðamiðum guldu allhrikalega fyrir þau höft sem voru á handfæraveiðunum í sumar vegna þess að þeir voru látnir liggja í landi á blíðviðrisdögum og ógæftir hömluðu sjósókn á öðrum tímum. Þetta er auðvitað óskynsamlegt.

Kannski hafa menn gleymt því að þegar kvótinn var settur á fyrir fjórum árum var lækkaður hlutur Vestfirðinga í þorskveiðum um 300 tonn. Vestfirðir eru þó sá landshluti, af kannski fleirum, sem umfram allt byggir lífsafkomu sína á fiskveiðum og fiskvinnslu. Þar er varla um að tala önnur atvinnutækifæri sem skipta miklu, þó að þau geti verið búbót, en fiskvinnslu og fiskveiðar. Það er sá landshluti sem fyrst og fremst býr að þessari atvinnugrein. Miðin, fiskurinn, fiskvinnslan, þetta eru auðlindir að því er varðar Vestfirði. Og eins og menn hafa haldið því fram að það ætti að virkja fallvötnin þar sem þau væru, það væri skynsamlegast, eins finnst mér líklegt að það sé skynsamlegt að nýta þá auðlind sem er hafið frá þeim stað sem það er hagkvæmast. Ef þetta fer ekki saman skil ég ekki röksemdafærslu manna að því er þessa þætti varðar. — Hvað sagði hv. þm.? (SkA: Ég var að benda þm. á að það væri kannski ekki hagkvæmt að leiða Héraðsvötnin hingað suður og virkja þau hér.) Ég þóttist vita það fyrir fram og var einmitt að vitna til þess. (StG: Og leiðrétta hv. þm. Stefán Guðmundsson.) Já. Þú hefur verið að upplýsa hv. þm. Framsfl. um þetta. Það var það sem vantaði á skýringuna.

Ég hlýt líka að taka fram, ekki síst vegna fullyrðinga ýmissa fjölmiðla um það að þingflokkur Alþfl. sé alveg sammála um þetta mál, ég tala nú ekki um ef menn eru að tala um fjögurra ára gildistíma, að ég er a.m.k. undanskilinn því samkomulagi sem menn eru þá að tala um og það hélt ég að allir vissu. Það gekk svo langt að hv. þm. Skúli Alexandersson ruglaðist eitthvað í þessu í gær og hélt þó fram að hann vissi betur. (SkA: Um afstöðu þm.?) Afstöðu þm., já. Það liggur fyrir að frá því að kvótakerfið var sett hefur þorskafli Vestfirðinga minnkað frá því að vera í kringum 18% niður í 14%, sú atvinnugrein sem við byggjum 80–90% af lífsafkomu okkar á. Það hlýtur að segja til sín hvaða áhrif slík þróun hefur á byggðasjónarmið á þessu svæði. Ég held að menn hljóti að hugleiða það líka ef þeir vilja með opnum augum og jákvæðu hugarfari hugsa um hvað hefur verið að gerast að því er varðaði byggðaþróunina, fólksflóttann frá landsbyggðinni á Reykjavíkursvæðið: Halda menn að kvótinn sé ekki einhver þáttur í slíku? Ég tala nú ekki um þegar upplýsist að fiskverkunarfólk, að því er mér er sagt, hafi haft 17% hærri laun á Reykjavíkursvæðinu á hluta þessa árs en úti á landsbyggðinni sem ég á nú erfitt með að trúa. En einhvers staðar heyrði ég slíka frétt. (StG: Hún var í Alþýðublaðinu í maí í sumar.) Nei, ekki sá ég hana þar, en hér heyrði ég hana nýlega. (StG: Hún var þar.) Þá þarf ekki að efast um gildi hennar sannleika. Og þá sjá menn líka, til þess að undirstrika, hvað er að gerast í þessum efnum. Og ætla menn áframhaldandi að auka á þessa þróun? Mér sýnist að það sé verið að gera það, því miður.

Það er með ólíkindum að mér finnst af sósíaldemókratískum jafnaðarmannaflokki að stuðla að því að tiltölulega fáir útgerðareinstaklingar nái slíkum ítökum í auðlindum hafsins eins og kvótakerfið hefur boðið upp á og kemur til með að bjóða áframhaldandi upp á ef fram verður haldið á sömu braut og hér er lagt til. Hér er verið að færa tiltölulega fáum einstaklingum milljarða kr, nánast á silfurfati. Hverjir eru það? Ekki eru það sjómennirnir. Ekki er það fiskverkunarfólkið. Það eru þeir sem eiga skipin. Til þeirra er þessu fjármagni ráðstafað. Ég hlýt að segja það sem jafnaðarmaður að hugsjón að mér þykir illt við að búa að þróunin haldi fram sem horfir í þessum efnum. Kannski fæ ég þar engu um breytt og þá er því að taka, en eigi að síður hef ég þessa skoðun.

Auk þess, eins og hér hefur verið réttilega bent á, heftir þessi stefna athafnafrelsi og sjálfsbjargarviðleitni sem við þurfum kannski ekki hvað síst á að halda að því er varðar sjósókn og fiskvinnslu. Kannski eru menn að stefna aftur að færeyska tímabilinu að því er varðar mönnun á bátaflotanum. Menn eru að stefna að því að því er varðar frystihúsin. Þau eru að tæmast af því fólki sem við þurfum fyrst og fremst að fá til vinnu þar, þ.e. hinu vana fiskvinnslufólki. Og hvert streymir þetta fólk? Allt helst þetta í hendur. Trúlega fer það í Kringluna. Það fer í verslunarhallirnar hér í Reykjavík. Það fer í bankana sem spretta upp eins og gorkúlur hingað og þangað á þessu svæði og svo mætti telja áfram. Það er þetta sem verið er innleiða yfir íslenskt þjóðfélag. Það er verið að hrekja fólk frá framleiðslustörfunum yfir í þjónustustörfin. Ég trúi því ekki að menn séu ekki þegar farnir að sjá afleiðingarnar af þessu.

A.m.k. frá þeim tíma sem ég fór að fylgjast,með þjóðmálum sýnist mér að meir hafi hallað á að því er varðar byggðir á mínu landsvæði en gert hefur áður. Og ég hygg að svo sé víðar. Allt streymir þetta á sama stað á suðvesturhorni landsins. Hvort sem mönnum finnst að það eigi við undir umræðu sem þessari held ég að menn eigi að taka byggðavandamálið inn í umræður af því tagi sem hér eru því að fiskveiðistefnan hlýtur að geta haft og á að hafa mótandi áhrif á þá stefnu sem menn vilja að sé í landinu hverju sinni að því er varðar byggðamálin. Kvótastefnan hefur orðið til þess að fólk hefur hrakist frá landsbyggðinni hingað á suðvesturhornið, en það ætti að vera öfugt. Það á að laða fólk að framleiðslugreinunum, gera þar hluti sem er nauðsynlegt að gera og hefði átt að vera búið að gera fyrir löngu til þess að fólk héldist í þeim greinum.

Ég vék aðeins að því áðan að margir hefðu talið við stjórnarskiptin á sl. sumri að menn eygðu ljós í því myrkri sem ríkt hefur að því er varðaði fiskveiðistefnu og þá stefnu sem ráðið hefur ríkjum. Margir féllu fyrir þessu, misjafnlega flatir að vísu. Eins og hér var vikið að áðan af hálfu hv. þm. Eiðs Guðnasonar var uppi sú meining a.m.k. innan Alþfl. að það yrði sett á fót sérstök nefnd stjórnarflokkanna til að fjalla um fiskveiðistefnuna og sú nefnd átti að skila af sér fyrir komandi áramót. Að þessu hefur verið vikið. Ég hef ekki dagsetningu á hvenær sú nefnd var skipuð. Hún var að vísu skipuð, að mér er sagt, en hún var skipuð seint. Hún mun helst hafa hist í hádeginu nokkrum sinnum til að fjalla um einhverja þætti þessa máls, en ekki þó þá þætti sem ég held að hún hefði átt að gera og að því er varðaði Alþfl. og hans sjónarmið. Þessi nefnd hefur ekki skilað neinu af sér enn, ekki stafkrók, ekki mér vitanlega. Síðan segja menn og byggja á því enn: Það kemur nefnd. Ég tala nú ekki um ef menn eru að tala um nefnd í fjögur ár undir handleiðslu hæstv. sjútvrh. og menn sjá nú hvernig hann hefur rekið nefndarstörfum í þessum efnum alla tíð. Ég man ekki betur en það sé í gildandi lögum að það ætti að endurskoða þessa stefnu fyrir komandi áramót í samráði við sjávarútvegsnefndir beggja deilda. Menn hafa trúlega orðið varir við það. Og svo segja menn: Það kemur nefnd. Það má vel vera, og ég ætla ekkert að hafa mörg orð þar um, að menn trúi því endalaust að hægt sé að endurnýja trúna á nefnd eftir nefnd, sem skipuð er, sem aldrei skilar neinu. Ég trúi því ekki og segi það hreint og ég hef yfirleitt fengið orð fyrir að segja mínar skoðanir hreint út og menn verða að taka það svo.

Ég segi það sem mína skoðun að ef menn ætla að gera eitthvað í þeim dúr sem þetta frv. gerir ráð fyrir er hámark að slíkt gerist í eitt ár. Og þá á að skikka tiltekna aðila til þess að þeir verði búnir að endurskoða þessa stefnu á því tímabili og þá er ég að tala um stefnu sem leiði okkur frá því kvótakerfi, sem við höfum búið við, í meira frjálsræði, til að hlúa að byggðasjónarmiðum og að gefa athafnamönnum tækifæri til þess að komast inn í greinina og geta spreytt sig.

Þetta er í megindráttum það sem ég tel að þurfi að gera. Það þarf að undanþiggja handfæraveiðar og linuveiðar kvóta. (Gripið fram í.) Það dugar skammt ef það eru ekki fleiri en þið, hv. þm. (Gripið fram í.)

Það þarf líka að rýmka til í þessari stefnu fyrir þau sjávarpláss eða þau sjávarsvæði sem byggja lífsafkomu sína að langsamlega mestum hluta á fiskveiðum og fiskvinnslu. Þar verður að gefa mönnum meira frjálsræði til þess að þeir geti nýtt þessa lífsbjörg. Það er ekki hægt að una því lengur að það sé svo hert að mönnum að menn verði að hrekjast í burtu af þó þessum gnægtasvæðum sem gætu verið ef stjórnvöld hefðu yfirsýn í þá átt.

Ég er líka þeirrar skoðunar að það eigi gagnvart smábátunum, kannski má miða við 6 tonn ég skal ekkert fullyrða um það, að afnema þá stöðvunardaga sem gilda yfir sumartímann. Það er ekkert réttlæti að mínu viti gagnvart þeim. Bæði er að þetta er mismunandi eftir landshlutum. Sumir geta nýtt sér annan tíma úr árinu til að ná þessum afla sem aðrir geta ekki. Það þarf að jafna.

Og í síðasta lagi kannski. Fái hæstv. sjútvrh. enn eina heimild til að stjórna heimilisbókhaldinu með því að setja kvóta á úthafsrækju er ég þeirrar skoðunar að það verði að eiga við bæði með skip og vinnslu því að þannig hefur verið búið að þessari útgerð undangengin ár undir handleiðslu hæstv. ráðherra að því verður ekki unað á ákveðnum landsvæðum að þar eigi að fara að mismuna mönnum enn frekar en nú er gert.