08.12.1987
Efri deild: 17. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1588 í B-deild Alþingistíðinda. (1129)

181. mál, stjórn fiskveiða

Danfríður Skarphéðinsdóttir:

Herra forseti. Í máli mínu hér í hv. þingdeild í gær gerði ég grein fyrir meginhugmyndum og tillögum Kvennalistans varðandi nýja fiskveiðistefnu. Í máli næsta ræðumanns, hv. 4. þm. Vesturl., gætti nokkurs misskilnings varðandi nokkur atriði sem fram komu í máli mínu og sé ég ástæðu til þess að leiðrétta hann hér og nú því hafi ég talað ógreinilega er eins víst að fleiri hv. þm. hafi einnig tekist að misskilja orð mín. En það er nú reyndar svo að á meðan við mannfólkið ráðum yfir svo fjölbreytilegu og flóknu táknkerfi og tjáningarformi sem tungumálið er þá getum við reiknað með því, ef hægt er að tala um skilning í fleirtölu, að misskilningurinn sé þeirra útbreiddastur.

Í máli mínu í gær kom m.a. fram að fiskiskipum hefði fjölgað mest í minnstu flokkunum. Það er staðreynd sé í stykkjum talið, en eins og allir vita hefur veiðigeta stóru skipanna aukist mest vegna aukinnar tækni og ýmissa breytinga á þeim. Það er ljóst að smábátar eiga mjög lítinn hlut í þeirri aukningu á afla sem orðið hefur á undanförnum árum. Það sýna aflaskýrslur svo ekki verður um villst og því hafa eigendur smábáta komið vel og vandlega á framfæri við okkur kvennalistakonur ekki síður en aðra.

Í upphafi máls míns gat ég þess líka að þær grunnhugmyndir sem við byggjum tillögur okkar á gengju að vissu leyti í svipaða átt og þær hugmyndir sem þingflokkur og miðstjórn Alþb. kynntu um sl. helgi. En ég tók skýrt fram að þessar hugmyndir væru samt engan veginn þær sömu. Hinn sameiginlegi grunntónn, þ.e. að rjúfa það samband sem hingað til hefur verið algjört á milli úthlutunar veiðiheimilda og skipa, er sameiginlegt í þessum hugmyndum að hluta til. En tillögur Kvennalistans ganga hins vegar enn lengra því að eins og menn hafa vonandi skilið af máli mínu í gær viljum við algjörlega klippa á það samband sem núna er á milli veiðiheimilda og skipanna, en úthluta þess í stað veiðiheimildum til byggðarlaga. Við höfum margoft ítrekað þá skoðun okkar að fiskurinn innan íslenskrar landhelgi er og hlýtur að verða eign íslensku þjóðarinnar allrar. Ég tók einnig fram í máli mínu að þingflokkur Kvennalistans studdi núgildandi fyrirkomulag og vil aðeins leyfa mér að benda á að það var ekki algjör eining innan stjórnarandstöðuflokka við afgreiðslu frv. árið 1985, en þá greiddu m.a. tveir hv. þm. Alþb. atkvæði með núgildandi lögum. Og ég get upplýst hv. 7. þm. Reykv. um að það var einn af hv. þm. Alþfl. sem greiddi atkvæði með núgildandi lögum.

Við höfum hins vegar skoðað hug okkar að nýju og teljum okkur eftir þá umhugsun ekki geta stutt það frv. óbreytt sem nú liggur fyrir. Ég tel mjög eðlilegt og sjálfsagt að við skoðum í sífellu allar þær hugmyndir sem við erum að fást við og það kerfi sem við höfum sjálf búið okkur til. Það hlýtur að vera eðli starfs okkar að vera sífellt vakandi og tilbúin til að sjá nýjar hliðar á málum og taka nýjar ákvarðanir. Ég tel rétt, herra forseti, að hnykkja aðeins á þessu hér í umræðunni.

Vegna þess hve skammur tími er til stefnu við afgreiðslu þessa máls legg ég hér fram drög að brtt. Kvennalistans, en þær hafa verið lagðar á borð hv. þm. ljósritaðar. Ég vonast til að þær fái jákvæða umfjöllun í hv. sjútvn. beggja deilda. En vegna þess hversu skammur tími er fram undan hafa þessar hv. nefndir verið boðaðar til sameiginlegs fundar í fyrramálið, og taldi ég því rétt að þessi drög að brtt. kæmu hér fram strax við 1. umr. Í þessum drögum kemur fyrst og fremst fram stefnumörkun Kvennalistans varðandi fiskveiðistefnuna, þ.e. grunnhugmyndir í stefnumörkun okkar. Við leggjum til að veiðiheimildum verði úthlutað til byggðarlaga, en þau ráðstafi síðan veiðiheimildum allt eftir aðstæðum á hverjum stað. Þetta er um leið ein leið til þess að auka vald byggðarlaganna.

Að undanförnu hefur mikið verið rætt um valddreifingu og aukið sjálfstæði sveitarfélaga og það væri fróðlegt að vita hvort mönnum finnst þetta skref til aukinnar valddreifingar og sjálfsákvörðunar byggðarlaganna óyfirstíganlegt. Ef svo er líst mér satt að segja ekki á að áform um aukna valddreifingu verði yfirleitt að raunveruleika.

Meginhugsun brtt. okkar er fyrst og fremst sú að rjúfa sambandið milli veiðiheimilda og skipa, auk þess sem við gerum byggðasjónarmiðum hærra undir höfði en núverandi kerfi býður upp á. Reyndar hefur komið fram í umræðunni hér fyrr í dag að það er full nauðsyn á því að hugsa til byggðarlaganna við uppbyggingu þessarar mikilvægu atvinnugreinar.

Hér á borðum hv. þm. liggur ljósrit af þessum brtt. okkar. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara mörgum orðum um þær vegna þess að ég gerði grein fyrir þeim í máli mínu í gær. Ég ætla ekki að verða til þess að tefja tímann, sem ég hef ítrekað sagt að sé afar skammur, en eins og fram hefur komið í máli mínu, þá leggjum við til í meginatriðum að veiðiheimildum verði úthlutað til byggðarlaga og það verði sett í sjálfsvald sveitarfélaga hverjum þau selja, leigja eða ráðstafa veiðiheimildum til. Hvort um er að ræða útgerðarfélög, fiskvinnslustöðvar eða einstaklinga, allt eftir þeim aðstæðum sem á hverjum stað ríkja.

Við leggjum sem sé til í þessum brtt. okkar að í stað 4.–14. gr. komi þrjár nýjar greinar, sem sýnir reyndar að tillögur okkar fela í sér mikla einföldun á því frv. sem nú liggur fyrir. Í greininni sem yrði þá 4. gr. er getið um heimildir til botnfiskveiða. Þar gerum við ráð fyrir að 80% þess heildarafla, sem ákveðinn er skv. 2. gr. í því frv. sem hér liggur fyrir af hálfu stjórnarinnar, verði skipt milli byggðarlaga (útgerðarstaða) með hliðsjón af lönduðum afla síðustu fimm ára. Þau 20% sem eftir eru skulu renna í sérstakan sameiginlegan sjóð, veiðileyfasjóð, og vera til sölu, leigu eða til sérstakrar ráðstöfunar til byggðarlaga, sbr. 6. gr. sem kemur á eftir.

Það sem yrði 5. gr. hljóðar svo:

„Sveitarstjórnir skulu selja, leigja eða ráðstafa veiðiheimildum, sem þeim er úthlutað skv. a-lið 4. gr., til útgerða, fiskvinnslustöðva eða einstaklinga eftir þeim reglum sem þær setja sér.

Sveitarstjórnum er heimilt að ákveða gjald fyrir framsal veiðileyfa sem þær fá skv. b-lið 4. gr. og skal gjaldið eigi vera lægra en það sem þær greiða fyrir þau í veiðileyfasjóð.“

Um heimildir sveitarstjórna til ráðstöfunar þessara veiðiheimilda segir:

„Sveitarstjórnum er heimilt: a. að úthluta tilteknu aflamarki til útgerða, fiskvinnslustöðva eða einstaklinga," — ég vil vekja athygli á því að við höfum algjörlega sleppt sóknarmarkinu úr þessum tillögum okkar því að við teljum að það hafi leitt til óeðlilegra sóknarhátta og offjárfestingar til stækkunar skipa og breytinga og það er aðalorsök þeirrar gífurlegu ofveiði sem hefur verið stunduð á undanförnum árum.

Í b-lið segir að sveitarstjórnum sé heimilt „að ákveða sérstök álög á þann fisk sem er landað erlendis.“

Í c-lið: „að leyfa færslu veiðiheimilda, allt að 5% milli ára.“

Í d-lið: „að setja reglur um veiði smábáta.“ — En smábátar hafa verið mjög í fréttaljósi undanfarnar vikur vegna 9. gr., sem nú er orðin 10. gr. eftir að 1. gr. frv. stjórnarinnar breyttist. En eins og fram kom í málflutningi smábátaeigenda þá eru aðstæður mjög mismunandi á hinum ýmsu stöðum landsins. Sumir byggja eingöngu á veiði smábáta og eiga reyndar ekki annarra kosta völ. Þetta fyrirkomulag gæfi sveitarfélögunum tækifæri til þess að ákveða veiðiheimildir eða reglur um veiði smábáta í samræmi við þær aðstæður á heimaslóð.

Í e-lið segir að sveitarstjórnum sé heimilt „að setja reglur um nýjar veiðiheimildir.“

Og síðasti liðurinn: „að framleigja veiðiheimildir til annarra byggðarlaga, enda verði aflanum að einhverju leyti landað í því byggðarlagi sem framleigir veiðiheimild, ef viðkomandi sveitarstjórn óskar; tekjum af leigunni verði varið í þágu sjávarútvegsins.“

Það sem yrði 6. gr. skv. okkar breytingum hljóðar svo:

„Gjald fyrir veiðiheimildir frá veiðileyfasjóði skal miðast við ákveðið meðalverð á afla upp úr sjó. Tekjum af sölu eða leigu veiðiheimilda skal varið til eftirfarandi verkefna:" — Ég hirði ekki um að telja þau upp hér því eins og ég sagði áðan ætla ég ekki að tefja umræðuna um of.

Ef við lítum síðan á 15. gr. stjfrv., sem við höfum á borðinu fyrir framan okkur, þá höfum við bætt inn í þá grein. Þar er kveðið á um sérstaka samráðsnefnd, utan þeirra aðila sem þar eru upp taldir þykir okkur ástæða til að fulltrúar fiskvinnslu eigi þar sinn fulltrúa, en þar sem þeir hafa ekki sérstök heildarsamtök gerum við ráð fyrir að sá fulltrúi verði tilnefndur af Verkamannasambandi Íslands og þar eð veiðiheimildir eru nú hjá sveitarfélögum teljum við rétt að Samband ísl. sveitarfélaga eigi þar einn fulltrúa. Í samræmi við það sem ég sagði áðan um að við hefðum sleppt úr sóknarmarkinu fellur það að sjálfsögðu niður í sömu grein. Þá yrði 16. gr. 9. gr., 17. gr. yrði 10. gr. með smábreytingu. Þar yrði útflytjendum gert skylt að láta bæði viðkomandi sveitarstjórn og ráðuneytinu í té umbeðnar upplýsingar. 18. gr. mundi samkvæmt þessu breytast einnig og þá aðallega að því leyti að út yrðu teknar línurnar þar sem fjallað er um leyfilegan sóknardagafjölda.

Við höfum líka stungið upp á því að slík fiskveiðistefna hefði gildistíma í fimm ár vegna þess að við teljum það vera nauðsynlegan aðlögunartíma þegar breytt er og það þyrfti að koma góður reynslutími á þá stefnu sem við leggjum til. En verði frv. stjórnarinnar samþykkt í allt að því óbreyttri mynd eins og það liggur fyrir getum við ekki samþykkt fjögurra ára gildistíma. Það vil ég taka fram hér og nú, vegna þess að það sem við teljum að mest skorti á varðandi frv. eins og það liggur fyrir núna sé að það hefur algerlega farist fyrir að gera á því þá gagngeru heildarendurskoðun sem við teljum nauðsynlega því að við teljum að grundvallarhugmyndin sé ekki rétt, þ.e. hvernig fyrirkomulagið hefur verið, að veiðiheimildum hefur verið deilt út ókeypis til skipa og hafa fylgt þeim. Við teljum ókeypis aðgang að þessari sameiginlegu auðlind okkar engan veginn eðlilega ráðstöfun. Þar af leiðandi viljum við sjá þennan gildistíma mun styttri ef þessi sami tónn verður í frv. þegar það verður endanlega samþykkt sem ég vona svo sannarlega ekki. Verði frv. ríkisstjórnarinnar samþykkt yrði gildistíminn að verða mun styttri, en um leið þyrfti strax að hefja þá miklu vinnu sem óhjákvæmileg er, eigi að vinna vel að þessu máli alveg frá grunni. Ég á von á því að þessi breytingartillaga Kvennalistans sem og aðrar sem fram koma fái jákvæða og málefnalega umfjöllun í hv. sjávarútvegsnefndum vegna þess að það er full þörf á að ræða grundvallarhugmyndirnar í þessu. Það hefur sannast í umræðunni hér í gær og í dag þar sem bæði stjórnarliðar og stjórnarandstæðingar hafa tekið undir þau sjónarmið sem fram koma í báðum þeim breytingartillögum sem þegar eru komnar fram.