08.12.1987
Neðri deild: 19. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1605 í B-deild Alþingistíðinda. (1146)

Fjarvistir þingmanna og afgreiðsla mála

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Maður ætti reyndar að kannast við þennan söng hjá stjórnarandstöðunni eftir rúmlega eins og hálfs áratugar þingsetu og þennan kór æfa þeir nú jafnan á þessum tíma og er skiljanlegt. (Gripið fram í. ) Nú ætla ég aðeins að taka það fram úr því sem hv. formaður þingflokks Alþb. vill vita um mínar ferðir að ég sat jarðarför og það gerðu fleiri þm. og sérstaklega, ef hann vill fá að vita það, átti Matthías Bjarnason þar skapnaðarerindi og það hefur verið venja að taka tillit til þeirra ástæðna. En kannski menn vilji nú fara að leggja það saman líka þegar verið er að telja þm. viðstadda.

Ef menn halda að það greiði eitthvað fyrir og ef menn ætla að skilja stjórnarandstöðuna með þeim hætti að þeir séu að greiða fyrir þingstörfum með því að standa hér uppi og þvæla um fundarhald dag eftir dag og til viðbótar biðja um að þingfundi sé frestað er það misskilningur. Ég er ekki með þessu að afsaka félaga mína, stjórnarliða, að þeir mæti ekki betur en raun ber vitni um og því verðum við að kippa í liðinn.