09.12.1987
Efri deild: 18. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1676 í B-deild Alþingistíðinda. (1208)

54. mál, útflutningsleyfi

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir þær athugasemdir sem fram komu hjá honum og voru út af fyrir sig allar á sínum stað. Hans rök eru pólitísk eins og hann sagði. Það er kjarni málsins. Þetta er pólitískt mál á milli stjórnarflokkanna. Það þurfti að veita Framsfl. smáviðbit þessa sumardaga 1987. Það er auðvitað kjarni málsins og þess vegna hefði í sjálfu sér ekki þurft að halda neina aðra ræðu en þá um þetta mál að það hefði verið talið nauðsynlegt að láta framsókn hafa þetta. Það er málið. Enda eru rökin að öðru leyti svona frekar dauf. Þau eru ekki yfirþyrmandi sannfærandi og ég finn það á ráðherranum að hann flytur málið ekki af miklum innri sannfæringarkrafti. En það er nú svona. Menn eru í pólitík og þá lenda þeir í ýmsu og það er eins og gengur.

Hér í tölu minni áðan vitnaði ég til bréfs frá útflytjendum til stjórnsýslunefndar sem skrifað var 26. okt. 1983 en þá ákvað stjórnsýslunefnd að kanna viðhorf útflutningssamtaka sjávarútvegsins til þeirrar hugmyndaar að utanríkisviðskiptin yrðu lögð undir utanrrn. Í tilefni af því skrifuðu fulltrúar þessara samtaka bréf sem er á þessa leið, með leyfi forseta:

„Í tilefni könnunar stjórnsýslunefndar á viðhorfum útflutningssamtaka sjávarútvegsins til þeirrar hugmyndar að utanríkisviðskiptin yrðu lögð undir utanríkisráðuneytið vilja undirrituð útflutningssamtök taka fram:

Við teljum að viðskiptaráðuneytið hafi á undanförnum áratugum unnið mjög mikilvægt starf á sviði íslenskra útflutningsmála, svo sem við gerð alþjóðlegra viðskiptasamninga og samninga um tollamál. Í flestum viðskiptalöndum sem við eigum mest við

skipti við eru sjálfstæð viðskiptaráðuneyti sem koma fram sem slík í viðskiptasamningum við Íslendinga. Þar sem landið er háðara milliríkjaviðskiptum en nokkurt annað land sem okkur er kunnugt um teljum við það hagsmunamál útflutningssamtakanna að hér sé sjálfstætt ráðuneyti sem mætt geti til samninga við erlend viðskiptaráðuneyti á jafnræðisgrundvelli.

Við leggjum því eindregið til að íslenska viðskiptaráðuneytið haldi sjálfstæði sínu og sé þannig óháð öðrum ráðuneytum í starfi sínu á sviði útflutningsmála.“

Undir bréfið rita: Kristján Ragnarsson f.h. Landssambands ísl. útvegsmanna, Gunnar Flóvenz f.h. Síldarútvegsnefndar, Ólafur Jónsson f.h. Sambands ísl. samvinnufélaga, sjávarafurðadeild, Árni Finnbjörnsson f.h. Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, Valgarð J. Ólafsson f.h. Sölusambands ísl. fiskframleiðenda, Ólafur Björnsson f.h. Samlags skreiðarframleiðenda, Heimir Hannesson f.h. Sölustofnunar lagmetis.

Ég er nú ekki að lesa þetta hér upp, herra forseti, endilega vegna þess að ég telji að þetta hljóti að vera hinn endanlegi dómur í þessu máli, svo íhaldssamur er ég nú ekki, þó að ég hafi að vísu snert af heilbrigðri íhaldssemi, eins og hæstv. viðskrh. var svo vinsamlegur að benda á og ég tel að sé óhjákvæmilegur þáttur í fari stjórnmálamanna sem hafa ánægju af því að taka verkefni sín pínulítið alvarlega, stundum a.m.k., helst alltaf.

En ég vil þá víkja aðeins að orðum hæstv. viðskrh. og þá fyrst því að hann taldi að rökin fyrir þessari breytingu væru í stjórnarráðsreglugerðinni, sum sé þau að þar stendur að það eigi að skipa skyldum málum undir eitt og sama ráðuneyti. Ég er þeirrar skoðunar að það sé verið að slíta mál þarna í sundur með mjög alvarlegum hætti vegna þess að önnur verslun, þ.e. innflutningsverslunin og almenn verslun í landinu, verður með þessum hætti slitin frá utanríkisversluninni. Ég held að það sé ekki skynsamlegt. Ég held að það sé miklu skynsamlegra að halda viðskiptamálunum saman í einu ráðuneyti. Reyndar hef ég verið þeirrar skoðunar að til greina kæmi að breyta því ráðuneyti með því að flytja öll viðskiptamálin inn í eitthvað sem við getum kallað efnahagsráðuneyti án þess að ég fari nánar út í að útskýra hvernig mætti hugsa sér það.

Ég tel hins vegar að það hafi verið mjög athyglisvert sem fram kom hjá hæstv. viðskrh. sem röksemd í þessu máli að Danir eru með sinn utanríkisráðherra við að sinna þessum utanríkisviðskiptum vegna þess að Danir eru í Efnahagsbandalaginu og utanríkisráðherra Dana, Uffe Elleman-Jensen, er formaður ráðherranefndar Evrópubandalagsins. Ég held að þetta séu ekki brúkleg rök fyrir okkur vegna þess að við erum ekki í Evrópubandalaginu og við munum ekki ganga í Evrópubandalagið. Það er auðvitað hugsanlegt að við gerum mikið ítarlegri samninga við Evrópubandalagið en við höfum í dag, og það er út af fyrir sig mál sem einhvern tímann væri gagnlegt að fara yfir hér á hv. Alþingi, en mér finnst að þetta séu ekki brúkleg rök. Við eigum mun meiri samleið með EFTA-ríkjunum. EFTA-samstarfið hefur gengið mjög vel. Það hefur skilað okkur ágætum niðurstöðum og ég held að við eigum að taka meira mið af því sem þar á bæ tíðkast heldur en í Evrópubandalaginu.

Nú er það auk þess svo að utanríkissamskipti einstakra ráðuneyta eru oft og tíðum unnin á vegum fagráðuneytanna sjálfra. Þau eru ekki unnin á vegum utanrrn. nema að forminu til. Þannig fer félmrn. með samskipti við erlenda aðila varðandi margvísleg félagsmál. Félmrn. undirbjó t.d. samning um sameiginlegan norrænan vinnumarkað fyrir fáum árum og undirbjó einnig samning um félagslega aðstoð á Norðurlöndum sem öll Norðurlöndin eru aðilar að. (Forseti: Má ég biðja hv. þm. að gera hlé á ræðu sinni því ég hef ákveðið að fresta fundi til kl. sex, þá er hægt að halda áfram, þar sem þingflokksfundir eru að byrja.) Já, það er óhjákvæmilegt, herra forseti, ég mun verða við þeirri ósk. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Þegar við hættum fundi fyrir þingflokksfund í dag var hér til umræðu frv. til laga um útflutningsleyfi o.fl. Ég var þar staddur í máli mínu að ég var að gera vissar athugasemdir við ræðu hæstv. viðskrh. og var kominn þar að ég benti á það að fagráðuneytin, eins og t.d. viðskrn., hafa sinnt samningum og viðræðum við erlend ríki í umboði utanrrn. Þannig hefur þetta t.d. líka verið með félmrn. Það hefur undirbúið samninga um samnorrænan vinnumarkað, um félagslega aðstoð á Norðurlöndum. Heilbrmrn. fer með t.d. samskipti Íslands við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina. Menntmrn. fer með samskipti Íslands við UNESCO. Landbrn. hefur jafnvel farið að einhverju leyti með samskipti Íslands við FAO og þannig mætti lengi áfram telja til sannindamerkis um það að það hefur verið viðtekin regla í Stjórnarráði Íslands að fagráðuneytin hafa undirbúið og unnið þau mál sem eru á þeirra sviði og viðkomandi fagráðherrar hafa sótt alþjóðlega ráðherrafundi, norræna og aðra alþjóðlega ráðherrafundi þar sem hefur verið fjallað um þau mál sem eru á dagskrá og snerta þessi ráðuneyti á hverjum tíma. Þetta hefur verið talið eðlilegt.

Ef hins vegar röksemdafærsla núv. ríkisstjórnar væri þróuð áfram mundu menn auðvitað segja sem svo: Þetta gildir náttúrlega með viðskrn. að þeir eru hvort eð er í útlöndum þarna í utanrrn. og það er best að þeir hafi utanríkisviðskiptin og er þá ekki best að þeir hafi utanríkisfélagsmálin líka og utanríkisheilbrigðismálin og utanríkismenntamálin, þannig að þetta fari allt saman til Steingríms eins og það leggur sig. Ég hugsa að fagráðherrar hér mundu, jafnvel hinir hógværustu menn eins og t.d. hæstv. landbrh., þá óðara segja nei, það kemur ekki til greina að fagráðuneytin hætti að hafa nokkur alþjóðleg samskipti. Þess vegna finnst mér þessi röksemdafærsla hæstv. viðskrh. ákaflega veik og í raun og veru sé ekki mikil ástæða til að eyða orðum að hans röksemdafærslu almennt vegna þess að það fundu það allir viðstaddir að röksemdafærslan var eins og þunnt skæni, alveg örþunnt skæni, gagnsæ alveg því að kjarni málsins var hinn, að það þurfti að koma Steingrími fyrir í utanrrn. og láta hann hafa einhvern heimanmund þannig að hann færi þangað með sæmilegum friði af því að hann var orðinn vinsælasti maður í heimi eins og kunnugt var af skoðanakönnunum.

Hitt málið, sem var svo rætt aftur af hv. 14. þm. Reykv., er náttúrlega ákaflega stórt mál sem er kannski ekki beint spurningin um þessi útflutningsleyfi almennt. Það er um stefnuna í því að veita útflutningsleyfi. Ég hygg að það sé út af fyrir sig eðlilegt að menn velti því fyrir sér hvort einhverjir aðrir aðilar gætu kannski gert betur, segjum á Bandaríkjamarkaði, en t.d. SÍS og SH hafa gert. Mér finnst það fullkomlega eðlilegt að menn velti því fyrir sér og skoði það alveg niður í kjölinn.

Ég bendi á að það hafa þrír aðilar nú um þó nokkurt árabil, ég man ekki nákvæmlega hvað lengi, haft leyfi til Bandaríkjanna. Þriðji aðilinn, sem ég kann ekki að nefna í bili (GHG: Ocean Harvester.) — Ocean Harvester er búinn að vera með þetta leyfi nokkuð lengi, Íslenska umboðssalan. En það er Ocean Harvestar sem er tengiliður Íslensku umboðssölunnar í Bandaríkjunum og þessi aðili hefur verið að bauka við að reyna að selja fisk og satt að segja hefur nú árangurinn verið ærið misjafn. Ég held þó að það væri fróðlegt fyrir viðskrh. og utanrrh. að kynna sér dálítið rækilega hvernig með þessi mál hefur verið farið og hvernig sú útflutningsstarfsemi, sem þar hefur átt sér stað, hefur gengið. Ég hygg að þar kæmust menn að ýmsu, ég segi ekki misjöfnu.

En það sem skiptir máli í þessu er það að þessi íslensku fyrirtæki í Bandaríkjunum hafa byggt upp á áratugum tiltrú á íslenska framleiðslu og þegar skóli eða sjúkrahús eða hótel eða fangelsi eða hvaða stofnun sem það nú er sem er að kaupa fisk í stórum stíl á þessum food service-markaði er að kaupa fisk frá Íslandi gera þessar stofnanir yfirleitt ekki svo ýkja mikinn mun á því þegar upp er staðið hvort þetta kemur frá Sölumiðstöðinni eða SÍS. En það er vitað að þetta er íslenskur fiskur. Það er vitað að þetta er íslensk vara sem þarna er verið að selja og það er alveg öruggt mál að ef eitthvað misferst á þessum markaði vegna þess t.d. að gæðaeftirlit er lélegt kemur það ekki bara niður á því fyrirtæki sem er að prófa sig áfram þá og þá, það getur komið niður á öllum íslenskum fyrirtækjum sem þarna eru, líka þeim sem hafa verið með þessa framleiðslu og markaðsstarfsemi í Bandaríkjunum á undanförnum áratugum. Þess vegna eiga menn ekki að setja þetta upp eins og spurninguna um það hvort svo og svo margir aðilar hafi frelsi eða ekki frelsi. Spurningin í þessu er auðvitað fyrst og fremst um það hvort þessi þjóð kemur vörum sínum á markað, m.a. í Bandaríkjunum, með þeim hætti að það skili sem allra skástu hér inn í þjóðarbúið að lokum.

Nú er ég ekki viss um það að þessi fyrirtæki sem starfað hafa í Bandaríkjunum um áratuga skeið hafi endilega alltaf skilað hér inn verðmætum með þeim hætti sem best hefði verið á kosið. Og mér dettur ekki í hug að sýkna þau af minni hálfu í þessu efni, að þar kunni auðvitað eitthvað að hafa misfarist í ýmsu. M.a. hygg ég að starfsemi þessara fyrirtækja hafi um árabil verið ákaflega stöðnuð og sömuleiðis íslenska frystiiðnaðarins sem átti að framleiða fyrir þessi fyrirtæki hér á landi. Það eru auðvitað hrikalegar tölur sem maður sér til vitnisburðar um þessa stöðnun þegar maður skoðar bæði þessi fyrirtæki í Bandaríkjunum, frystiiðnaðinn hér á landi og t.d. frystiiðnaðinn annars staðar, eins og t.d. í Danmörku. Íslendingar hafa lengi verið þeirrar skoðunar að Danir gætu ekkert kennt okkur í sjávarútvegi og sennilega síst Danir af öllum þjóðum. Staðreyndin er sú að þar er margt hægt að læra, m.a. í uppbyggingu sjávarútvegsfyrirtækja og markaðsfærslu fisks og ég held að það sé ekki nokkur leið að neita því að þessi stóru sölufyrirtæki okkar í Bandaríkjunum, sem eru nú örsmá á þeim markaði að vísu, voru stöðnuð um skeið, en ég hygg að á seinni missirum hafi verið tekið þar rösklega til hendinni og að þar sé verið að gera marga mjög athyglisverða hluti.

Spurningin í sambandi við þetta sem kallað er frelsi af hæstv. viðskrh. er spurningin um það að stjórnvöld átti sig á því hvaða hagsmunum þau eru að hætta, ekki bara fyrir einstök fyrirtæki, hvort það heitir SÍS eða Sölumiðstöðin eða hvað þetta nú heitir allt saman. Spurningin er um það hverju menn eru að hætta fyrir þjóðina í heild og því rykti sem fer af íslenskum framleiðsluafurðum, t.d. í Bandaríkjunum af því að ég er nú sérstaklega að tala um þann markað sem ég var svo heppinn að fá að kynnast dálítið með viðtölum við forráðamenn þessara íslensku fyrirtækja í Bandaríkjunum núna fyrir nokkrum dögum.

Það er því skrýtið að standa frammi fyrir því að maður sem er kosinn á þing fyrir jafnaðarmannaflokk veður alveg sérstaklega fram í þessu stuttbuxnafrelsi sem er aðallega kennt við Sjálfstfl. og á náttúrlega helst heima þar og hjá hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni og þeim félögum. (Gripið fram í.) Ég tala nú ekki um ósköpin, hv. þm. Það er mjög sérkennilegt að vera vitni að því að maður sem er kosinn á þing fyrir jafnaðarmannaflokk skuli beita sér fyrir framkvæmd þessarar stuttbuxnahugmyndafræði sem talsmenn Sjálfstfl., reyndir þm. Sjálfstfl. og ráðherrar um áratuga skeið, hafa ekki svo mikið sem látið sér detta í hug að framkvæma. Þar er ég að tala um mætan mann eins og hv. þm. Matthías Bjarnason og hæstv. ráðherra Matthías Á. Mathiesen og ég gæti haldið þessu titlatogi áfram lengi fram eftir degi. Allir sem þekktu til í þessum efnum telja að þarna sé ekki skynsamlegt að auka verulega við með því að dreifa útflutningsleyfum bara eins og brjóstsykri á þjóðhátíðardaginn. Það er ekki skynsamleg útflutningspólitík.

Hins vegar er það auðvitað svo að þessi fyrirtæki þurfa sitt aðhald og ég sá það haft eftir hæstv. viðskrh. Jóni Sigurðssyni að hann lagði á það mikla áherslu að þau þyrftu sitt aðhald og það er alveg hárrétt. Þegar ég fór með viðskiptamál í 13 mánuði á sínum tíma setti ég niður nefnd sem átti að rannsaka starfsemi þessara samtaka og fara yfir hana. Ég frétti af því síðar að hún var ekki mjög vinsæl hjá þessum samtökum, þessi nefnd, og menn höfðu ekki hugsað sér að taka neitt á móti henni með sérstökum velvilja. En Tómas Árnason, sem tók við af mér sem viðskrh., lagði þá nefnd því miður niður. Ég hygg að t.d. rannsókn Alþingis á starfsemi útflutningssamtakanna og því hverju þau hafa skilað heim gæti verið býsna fróðlegt verkefni, lærdómsríkt fyrir alþm., þannig að þeir komist kannski einhvern tímann að þeirri æð sem veitir hér fyrst og fremst gjaldeyri inn í landið því að sjávarútvegurinn hjá okkur er ekki bara kvóti heldur ýmislegt fleira. Ég hygg að það gæti verið fróðlegt fyrir alþm. að fara yfir þessa hluti og ég hygg að það hefði verið skynsamlegri byrjun en að byrja með því að sáldra þessum leyfum út um allar þorpagrundir eins og var gert á dögunum.

Hvað er það sem á að spyrja um þegar verið er að veita útflutningsleyfi? Það er í fyrsta lagi verðið. Er það sambærilegt við það sem skást er hægt að fá? Það eru í öðru lagi gjaldeyrisskilin og þær tryggingar sem eru á bak við útflutningsleyfin. Ég hygg að ekki þurfi að leita mjög lengi í útflutningsviðskiptasögu Íslands til að sjá býsna sorgleg dæmi um það að skilin hafi ekki gengið allt of vel, skilaskyldan hafi ekki verið uppfyllt allt of vel að því er varðar þau verðmæti sem eiga að koma inn í þjóðarbúið, þannig að á þessu máli eru margar hliðar. Ef ég væri að taka afstöðu til þessara útflutningsleyfa eftir því hvort ég vildi að hæstv, núv. viðskrh. hefði málin eða ekki gæti ég auðvitað gjarnan hugsað mér að flytja málið yfir á einhvern annan ráðherra vegna þeirrar afstöðu sem hæstv. núv. ráðherra hefur í þessu máli. Hins vegar erum við auðvitað ekki að taka afstöðu til kerfisbreytinga í Stjórnarráði Íslands út frá einstökum mönnum heldur út frá heildarsjónarmiðum og þess vegna hef ég lýst mig andvígan frv. sem hér liggur fyrir og er til umræðu og legg á það áherslu að það hefði verið affarasælla að byrja á að skoða þessi mál í heild ofan í kjölinn hér í þinginu, t.d. af þingmannanefnd, áður en menn fóru að sáldra í kringum sig þessum útflutningsleyfum eins og miðum á tombólu.