09.12.1987
Neðri deild: 20. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1693 í B-deild Alþingistíðinda. (1220)

6. mál, almannatryggingar

Frsm. heilbr.- og trn. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Mjög snemma á þessu þingi var lagt fram frv. flutt af þm. úr öllum flokkum stjórnarandstöðunnar. 1. flm. er hv. 13. þm. Reykv. Þetta frv. fjallaði um nýja ákvörðun um upphæð sjúkradagpeninga þannig að sjúkradagpeningar myndu hækka verulega.

Annað efnisatriði var einnig í frv., en það varðaði mæðralaunagreiðslur til heimavinnandi einstæðra mæðra.

Nefndin hefur rætt frv. á fundum sínum og leitað um það umsagna, fékk skriflegar umsagnir frá Tryggingastofnun ríkisins, Fjárlaga- og hagsýslustofnun, Alþýðusambandi Íslands, Landssambandi lífeyrissjóða, verkakvennafélaginu Framsókn og starfsmannafélaginu Sókn.

Heilbr.- og trn. þessarar deildar er sammála um að núverandi upphæð sjúkradagpeninga sé allt of lág og ég hygg að engum blandist um það hugur að þessi upphæð hefur í raun og veru dregist nokkuð aftur úr öðrum upphæðum bóta almannatrygginga. Okkur er ljóst að erfitt getur reynst að fá þessa breytingu samþykkta í einu skrefi og þess vegna er það að lokinni vandlegri athugun að við höfum orðið sammála um það í nefndinni að leggja til að frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar einmitt nú áður en fjárlög verða afgreidd á Alþingi og bindum við það vonir að hægt verði að stíga skref til hækkunar og markmið frv. náist í áföngum.

Fund nefndarinnar sat einnig fulltrúi Kvennalistans, og ásamt honum þá voru allir nefndarmenn sammála um þessa afgreiðslu og undirrita nál.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til að þessu máli verði vísað til ríkisstjórnarinnar og að mér gefist ráðrúm til að mæla örstutt fyrir frv., sem þessu máli tengist, nú á eftir.