10.12.1987
Sameinað þing: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1712 í B-deild Alþingistíðinda. (1238)

Vinnubrögð við undirbúning fjárlaga

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Það er margt sem kemur hv. 5. þm. Vestf., Sighvati Björgvinssyni, á óvart. Það kemur okkur þó kannski ekki á óvart að í dag er 10. des. og við væntum þess að aðfangadagur verði að vanda þann 24. des. Það er því lítill tími eftir af þingi fram að þinghléi. Ég hlýt að taka undir þá gagnrýni, sem hér hefur verið borin fram, og ég vil sérstaklega taka undir gagnrýni hv. 6. þm. Vesturl., Danfríðar Skarphéðinsdóttur, því að mér er farið eins og henni: Ég er einhöm og get því ekki verið á fleiri stöðum en einum á sama tíma.

Í morgun var ég boðuð á fund fjh.- og viðskn. kl. 9. Ég sé engan af samnefndarmönnum mínum í þeirri nefnd hér í salnum nú kl. 10.30. Ég býst því við að sá fundur standi enn. Ég valdi að koma á þingfund því að hér á ég von á að fá svarað tveimur fsp. sem ég hef beðið svars við. Kl. rúmlega 11 er ég síðan boðuð á fund með fjvn. sem þm. Reykv. til að ræða málefni Reykjavíkurborgar. Ég býst við að verða e.t.v. í ræðustól eða bíða eftir fsp. þá. Ég get ekki farið á þann fund, því miður.

Þetta gengur ekki. Það verður að skipuleggja þingstörfin betur. Stjórn þingsins, stjórnarmeirihluti og stjórnarandstaða verða að koma sér saman um hvaða mál þurfa að hafa forgang. Það þýðir ekki að dengja þeim fram hér þannig að menn nái ekki að kynna sér þau. Hér er um að ræða miklar kerfisbreytingar, meiri breytingar en kannski nokkurn tíma hafa verið afgreiddar í einu á jafnstuttum tíma. Við verðum að ýta smávægilegri málum til hliðar og þeim málum sem geta beðið. Ef við ætlum að ná góðri samvinnu verðum við að velja málin sem við ætlum að vinna saman að og það þarf að ske fyrr en síðar. Ég legg til að það verði haldinn um þetta fundur í dag og menn komi sér saman um að hvaða málum er nauðsynlegt að vinna fyrir þinghlé, láti síðan hin bíða og vinni vel að því sem við ætlum okkur að ljúka við.