10.12.1987
Sameinað þing: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1738 í B-deild Alþingistíðinda. (1266)

144. mál, bann við ofbeldiskvikmyndum og Kvikmyndaeftirlitið

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. svör hans. Ég hef ástæðu til að ætla reyndar að fyrri reglugerðin, sem gefin var út vegna laganna nr. 33 1983, hafi í raun brugðist í framkvæmd vegna þess að myndbandaeigendur hreinlega greiddu ekki þá upphæð sem þeim hafði verið ætlað að greiða og það kemur í ljós í erindi Kvikmyndaeftirlitsins til fjvn. að það er um 1 800 000 kr. sem eru útistandandi skuldir myndbandaeigenda við Kvikmyndaeftirlitið, reikningar sem liggja hjá ríkisféhirði og hafa alls ekki verið greiddir. Þess vegna fór Kvikmyndaeftirlitið fram á fjárveitingu frá ríkissjóði til þess að gera upp reikninga sína og byrja með hreint borð eftir að ný reglugerð hafði verið gefin út og virðist hún ætla að verka mjög vel. Ég hlýt því að lýsa yfir ánægju yfir þeirri ákvörðun menntmrn. að reyna að fara fram á fjárveitingu til þess að jafna þessar skuldir, en ég vil jafnframt hvetja hæstv. menntmrh. til þess að beita sér fyrir því að þetta litla fé fáist vegna þess að ég tel að hlutverk Kvikmyndaeftirlitsins sé mjög mikilvægt í þessum efnum.