10.12.1987
Sameinað þing: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1742 í B-deild Alþingistíðinda. (1271)

145. mál, ólöglegur innflutningur myndbanda

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja þessi orðaskipti. Ég þakka hv. 6. þm. Reykv. og hv. 11. þm. Reykv. fyrir þeirra orð og góðu ábendingar, en vildi segja það eitt að ég geri ákaflega skarpan skilsmun á því hvort um er að ræða meint brot á höfundarréttarlögum og ólöglega fjölföldun á myndböndum, sem oft og einatt er fyrst og fremst viðskiptalegt spursmál, og svo hins vegar dreifingu á efni sem brýtur í bága við almennt velsæmi og er hættulegt eða skaðlegt fyrir uppvaxandi kynslóð sem við vitum að notar myndböndin mjög mikið. Þarna verðum við að gera ákaflega skarpan mun, og ég vil alls ekki útiloka leit sem beinist að því að uppræta ólögmæta dreifingu á grófu klám- og ofbeldisefni á myndbandaleigum. Það mun ég ekki gera. En lagagrundvöllur leitar af þessu tagi verður að vera alveg skýr og þess vegna verðum við að bíða þess að fá niðurstöður í þessum málum. Ég mun leitast við að haga framkvæmd á þessu sviði þannig að ekki verði um það deilt að rétt sé að farið og að lögum. Um þetta þarf í raun og veru ekki að segja fleira.