10.12.1987
Sameinað þing: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1751 í B-deild Alþingistíðinda. (1281)

164. mál, Löggildingarstofa ríkisins

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Hv. 3. þm. Austurl. beinir til mín fsp. um þær reglur sem gildi við kröfu ferðakostnaðar fyrir starfsmenn Löggildingarstofunnar.

Eins og kunnugt er hefur Löggildingarstofan með höndum prófanir, löggildingar og eftirlit með vogum í öllu landinu. Til þess að hægt sé að framkvæma slíkt eftirlit eru skipulagðar eftirlitsferðir í alla landshluta. Landinu er skipt í ákveðin svæði þar sem reglubundið eftirlit er framkvæmt við frystihús, fiskverkun, sláturhús, öll iðnfyrirtæki, verslanir, mjólkurbú, mjólkurmæla í tankbílum hjá mjólkursamlögunum, rennslismæla og söludælur fyrir olíur og bensín.

Það er auðvitað ekki hægt að samræma skoðunarferðirnar í öllum tilfellum vegna eðlis verkefnanna þar sem um er að ræða mismunandi prófunartæki í hverju dæmi. Stofnunin sendir tvo tæknimenn í hverja ferð og hún á tvær sérstaklega útbúnar bifreiðar sem notaðar eru við skoðanir. Þær eru svo með ýmsum búnaði, dælubúnaði fyrir vökvana, lyftikrana o.fl. Frá vori til hausts eru fjórir tækni- og eftirlitsmenn í þessum ferðum fyrir utan höfuðborgarsvæðið, en vetrartíminn er notaður til eftirlits á suðvesturhorninu. Að lokinni hverri ferð er gert uppgjör yfir ferðakostnaðinn og honum síðan skipt niður á fyrirtækin, sem notið hafa þjónustu tæknimannanna, eftir fjölda voga og mæla sem skoðuð hafa verið og löggilt í ferðinni. Þetta er allt byggt á gjaldskrá stofnunarinnar en þar segir að við löggildingu, ef hún er ekki framkvæmd á löggildingarstofunni, eigi að reikna auk löggildingargjalds kaupgjald fyrir starfsmenn, ferðakostnað þeirra, iðgjald af vátryggingu á tækjum og ferðatryggingu. Þetta er skv. auglýsingu um gjaldskrá sem síðast var gefin út í ársbyrjun 1987.

Dæmið sem hv. 3. þm. Austurl. nefnir, hafnarvogirnar, er auðvitað sérstakt viðfangsefni. Til þess að hægt sé að prófa hafnarvogir og bílvogir þarf 10 tonna lóð. Þessar vogir eru prófaðar og löggiltar annað hvert ár og þá er landinu skipt í tvö ferðasvæði, Vestur- og Norðurland saman og Suður- og Austurland saman. Sú regla gildir um hafnarvogirnar að kostnaðurinn er reiknaður saman í lok ferðar, en síðan er heildarkostnaðinum við hvert ferðalag deilt jafnt niður á fjölda voganna. Auðvitað getur þetta komið misjafnlega út og það er hugsanlegt að dæmið sem hv. þm. nefndi hafi á einhvern hátt verið óvenjulegt. Um það skal ég ekki segja. Hér er einfaldlega um að ræða ferðakostnað starfsmannanna, vinnu þeirra og akstur. Sjálf löggildingar- og eftirlitsgjöldin eru hins vegar greidd eftir gjaldskránni miðað við stærðina á hverri vigt.

Það kemur fyrir að Löggildingarstofan taki á sig hluta af ferðakostnaðinum þegar kostnaðurinn lendir á mjög fáum aðilum, þ.e. ef menn eru kallaðir út í sérstakar ferðir vegna bilana sem orðið hafa, en auðvitað hefur Löggildingarstofan mjög takmarkaða fjárhagsgetu til að standa undir slíkum kostnaði. Hún hefur reyndar í vaxandi mæli verið rekin fyrir sínar eigin tekjur. Það er rétt að láta þess getið hér að á næsta ári er henni ætlað að standa að fullu undir kostnaði með þeim tekjum sem hún aflar sér sjálf með eftirlits- og löggildingargjöldum auk endurkröfu á útlögðum kostnaði.

Ég vona, hæstv. forseti, að þetta svari þeirri fsp. sem hv. 3. þm. Austurl. bar fram.