10.12.1987
Sameinað þing: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1766 í B-deild Alþingistíðinda. (1302)

175. mál, kjötbirgðir og útflutningsbætur

Fyrirspyrjandi (Hreggviður Jónsson):

Hæstv. forseti. Hér er tekin fyrir fsp. til landbrh. um kjötbirgðir og útflutningsbætur:

„1. Hvaða ráðstafanir ætlar ríkisstjórnin að gera vegna óseldra kjötbirgða frá árinu 1986?

2. Er fjármagn tryggt til greiðslu útflutningsbóta frá ríkissjóði vegna hverrar sendingar um sig þegar landbrn. veitir útflutningsheimild á landbúnaðarafurðum eða er einhver óformleg samvinna milli landbrn. og fjmrn. um slík mál?"

Óseldar kjötbirgðir frá árinu 1986 skipta einhverjum hundruðum tonna og áhvílandi afurðalán vegna þeirra gætu verið um 100 millj. kr. Það er ósanngjarnt að gjaldfella eftirstöðvar lána við afgreiðslu afurðalána nú í desember. Ríkið verður að axla þá ábyrgð og sjá til þess að lánin verði ekki gjaldfelld. Kjötið frá 1986 má ekki vera til sölu á almennum markaði því það býður heim vörusvikum. Kjötið verður að fara í vinnslu, þó ekki unnar kjötvörur heldur mjöl eða þess háttar. Annað er ósanngjarnt.

Neytendur eru orðnir þreyttir á því að þurfa að standa frammi fyrir því á hverju ári að það sé til sölu kjöt frá árinu áður og þeir vita ekki annað en að þeir séu að kaupa nýtt kjöt.

Þá er það að fjármagn til greiðslu útflutningsbóta hefur verið mjög takmarkað á undanförnum árum og þurft að grípa til aukafjárveitinga í landbúnaði, sem benda til ómarkvissrar landbúnaðarstefnu. Hana verður að marka því að stjórnleysi hefnir sín á sláturleyfishöfum, alþýðunni í sveitum landsins og fólkinu í landinu. Því verður að greiða þá reikninga upp þegar í stað þannig að það komist skikk á þennan þátt landbúnaðarins.