10.12.1987
Efri deild: 19. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1792 í B-deild Alþingistíðinda. (1334)

196. mál, söluskattur

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil síst gera lítið úr því að nauðsynlegt sé að halda góðri samvinnu við stjórnarandstöðuna og skil að hluta athugasemdir hennar. En á hinn bóginn hlýt ég að minna á í þessu samhengi að fyrir því er löng þinghefð þegar samkynja frumvörp eru til umræðu í þinginu að ráðherrar vísi með einum eða öðrum hætti til efnisatriða þeirra frumvarpa, sem tengjast, í framsöguræðum sínum, enda er það ógerningur að gera annað og beinlínis villandi ef við samningu frumvarpanna er beinlínis um efnisatriði að ræða sem varða hvert annað eins og á við um þau frumvörp sem hér um ræðir.

Ég sé, herra forseti, ekkert nema gott um það að segja að þingflokksformenn hitti stjórnarandstöðuna að máli og við skýrum málið. Það hefur tekist víðtækt samkomulag um hvernig eigi að vinna að efnisathugun á þessum frumvörpum og ég vil vænta þess að það góða samstarf, sem stofnað hefur verið til, rofni ekki og okkur megi auðnast að halda því striki sem við vorum sammála um að taka, stjórn og stjórnarandstaða, í sambandi við vinnubrögð í tengslum við þessi frumvörp. Ég vil mælast til þess við hæstv. forseta að hann verði við tilmælum hv. 7. þm. Reykv. um að það verði gert hlé á fundinum og menn ræði saman.