10.12.1987
Neðri deild: 21. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1879 í B-deild Alþingistíðinda. (1374)

110. mál, lífeyrisréttindi heimavinnandi húsmæðra

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Það er aðeins stutt athugasemd vegna þess að ég hygg að hv. 7. þm. Norðurl. e. hafi ekki heyrt allar spurningarnar sem komu frá hv. 5. þm. Vesturl. vegna skvaldursins á bak við hana. Hann spurði í þriðja lagi nefnilega um afstöðu okkar gagnvart þeim heimilum sem rekin væru af samkynhneigðum.

Ég sé ekkert á móti því að þetta hljóti að eiga við slík heimilisform einnig, þó að ég reikni reyndar ekki með að það séu mörg slík heimili sem svo háttar til að annar aðilinn sé eingöngu heima við heimilisstörf, en sé svo þá sé ég ekki nokkuð sem mælir gegn því að sá aðili njóti sömu réttinda því, eins og við sögðum, húsmóðurtitillinn fylgir þeim sem er heima og sinnir þessum störfum.

Svo vildi ég aðeins koma inn á það sem hv. 3. þm. Reykv. sagði um það að ekki væri víst að það væri skynsamlegt að ganga frá þessu máli einu og sér, eins og hér er lagt til, heppilegra væri að taka á því ásamt öðrum lífeyrisréttindamálum í heild sinni. En það er einmitt það sem við óttumst að stjórnvöldum þyki heppilegt. Við óttumst að það mundi tefja mjög að réttindaleysi húsmæðra í þessum efnum væri leiðrétt. Þess vegna vildum við ítreka þetta og fá umræðu um það hér inni á Alþingi og það höfum við svo sannarlega fengið, og það þakka ég.

Í þriðja lagi vildi ég svo gera athugasemd vegna orða síðasta hv. ræðumanns sem minnti á verðgildi starfa húsmæðranna og nefndi ýmis dæmi um það. Undir það tek ég og þar var aðeins fátt eitt nefnt og það er kannski enn ein ástæðan fyrir því að við höfum talið að ekki væri rétt að taka á þessum málum í skattalöggjöfinni sérstaklega vegna þess að við skulum ekki gleyma því hvað heimavinnandi húsmæður spara gífurlega mikil útgjöld heimilanna og hvílíkur kostnaður fylgir því oft þegar báðir aðilarnir vinna úti. Þess vegna er ekkert óeðlilegt þó að svolítill munur sé á skattagreiðslum heimilanna eftir því hvort annar aðilinn er heima eða ekki.