20.10.1987
Sameinað þing: 5. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 196 í B-deild Alþingistíðinda. (143)

30. mál, náms- og kennslugögn

Fyrirspyrjandi (Pétur Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. svör hans sem voru að vísu mjög svipuð svörum þeim sem bárust í febrúar og virðist sem lítið hafi verið gengið eftir að fá þær umsagnir sem á skorti.

Ég tek fram að það er alls ekki meiningin að þarna sé um bókaafgreiðslu að ræða eða þess háttar útibú frá Námsgagnastofnun heldur er talað um námsgagnasafn og gerð, að þarna sé eins konar verkstæði fyrir kennara og þarna sé aðgangur að þeim dýrari kennslugögnum sem smáir skólar hafa ekki bolmagn til að afla sér og verði þess vegna betur komið á einum stað þar sem þeir eigi einhvern aðgang að.

Í öðru lagi þykir mér gott að heyra að nefnd verður skipuð í þessi mál, en ítreka þá skoðun mína að það er æskilegt að sem fyrst verði haldið áfram þessu máli þar sem það virðist hafa legið í láginni um sinn.