12.12.1987
Neðri deild: 23. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2010 í B-deild Alþingistíðinda. (1469)

47. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Frv, til laga um breyt. á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins eins og það liggur fyrir sem 47. þskj. og hefur kostað allt að því stjórnarslit eða samstarfsslit á milli ráðherra og ríkisstjórnar er ekki það merkilegt plagg að svo mikill hávaði innan ríkisstjórnarinnar sé réttlætanlegur, enda kemur það fram í nál.hæstv. fyrrv. félmrh., núv. formaður félmn., hefur séð ástæðu til þess að breyta öllum liðum frv., fella niður suma. Mér skilst að hæstv. núv. félmrh. sé sammála því verklagsfyrirkomulagi, þannig að við höfum hér alveg nýtt frv. þó að í sama anda sé. Fagna ég því vegna þess að ég reyndi eins og ég gat að tæta þetta ómerkilega plagg sem hæstv. félmrh. lagði fram og á fölskum forsendum. Ég segi það enn þá einu sinni, þetta er í annað skipti sem ég kem hér upp og segi: á fölskum forsendum. Ég sýndi fram á að fjárlagafrv. sjálft er falsað plagg. Það er marklaust plagg sem ríkisstjórnin, framkvæmdarvaldið, leyfir sér að taka úr höndum Alþingis inn til sín í Stjórnarráðið til að breyta því um 1000 millj. kr. og senda það svo aftur, án þess að það hafi komið fyrir málstofuna, beint til fjvn. Á sama hátt stendur hæstv. félmrh. hér og segir með grátstafinn í kverkunum: Ég er að vinna fyrir 6000 umsækjendur sem bíða eftir afgreiðslu á þessu frv. Annars er voðinn vís fyrir þetta fólk um land allt.

Svo kemur hv. þm. Kvennalistans og talar fyrir áliti 1. minni hl. félmn. og segir þar sannleikann um að árið 1988 fá 200 manns afgreiðslu af þeim 61100 sem bíða. Allir hinir verða að bíða fram yfir 1988, til ársins 1989, jafnvel 1990 eða lengur. Hvers konar málflutningur er þetta til viðbótar við þá tímapressu sem á Alþingi er með afgreiðslu á þessu frv.? Þetta er alveg furðulegur leikaraskapur. Ég fagna því að hæstv. fyrrv. félmrh. hefur tekist að breyta þessu frv. þó að ég viti að það sé ekki með þeim breytingum sem hann hefði viljað, sem eðlilegt er, en þó í áttina að því sem áður var og e.t.v. eigum við að fagna því.

Við í Borgarafl. höfum lagt mikla vinnu í að koma með brtt. við þetta frv. eða frumvarpsmynd í mikilli tímapressu. Pressan var svo mikil að við höfðum tæplega tíma til að leggja frv. eða brtt. okkar fram. Síðan eru þær svo seint fram komnar að Alþingi getur ráðið því hvort þær verða teknar til greina við afgreiðslu á því frv. sem þeim er ætlað að breyta. Það er hægt að fella þær í nefnd, það er hægt að fella þær hér við afgreiðslu á frv. Ég reikna með því að ekki verði tími til að taka þær fyrir í nefnd nema með sérstökum velvilja þingsins og þm., þannig að þó að þær séu merkar á allan hátt, vegna þess að þær eru byggðar á langri reynslu annarra Norðurlandaþjóða og það hefur kostað okkur tíma og peninga að afla upplýsinga og fara til útlanda til þess að ræða við þá sem stjórna þeim kerfum sem þær eru byggðar á, er ekki víst, meira að segja mjög Iíklegt að alþm. virði þær að vettugi, líti ekki á þær, og ég harma það. En það getur verið að seinna meir komi einhver vitsmunavera í félmrn. sem telur heppilegt að skoða þær og jafnvel taka þær til greina. Kerfi, hver sem þau eru, verða að geta staðið undir sér sjálf. Annars verða þau baggi á þjóðfélaginu. Húsnæðismálakerfið eins og það er hjá okkur er baggi á þjóðfélaginu. Það hafa allir viðurkennt. En það er nauðsynlegt að hafa eitthvert kerfi til að aðstoða þá sem eru vanmegnugir að hjálpa sér sjálfir.

Í þessum tillögum, þ.e. tillögum Borgarafl., er m.a. möguleiki á því að aðrar Norðurlandaþjóðir geti fjárfest í húsnæðiskerfinu hér, geti lánað hingað. Það kom fram í framsöguræðu þm. Borgarafl. að það væri hugsunin að opna möguleika fyrir það, enda er þetta danska kerfi, sem vitnað var í, þannig opið og búið að ganga svo vel heima fyrir að það hefur áunnið sér svo mikla sjóði að það getur fjárfest í öðrum löndum. Hv. frsm. gat um það. Og til þess að rifja aðeins upp forsögu Alþfl. í húsnæðismálum má benda á Ásvallagötubyggingarnar, svokallaðar samvinnubyggingar, sem voru reistar á þeim tíma sem flm. var að byrja að nota bleyjur og sá sem hér stendur var kominn heldur lengra á legg. Þær voru fjármagnaðar af einum forustumanni Alþfl., með tillögu sem hann bar fram. Eða hvernig verkamannabústaðirnir við Hringbraut voru byggðir á sínum tíma og af hverju þeir voru byggðir og á hvaða hugmyndir lágu þar að baki. Það var líka vitnað til þeirra hér í ræðu frsm.

Við höfum ekki annan vettvang í Borgarafl. en þennan hér til þess að koma okkar málum á framfæri. Ég tók eftir því að fréttamenn frá Stöð 2 voru í dyrunum áðan meðan framsögumenn voru að tala, en þau tæki sem upp voru sett voru ekki notuð þegar borgaraflokksmaðurinn talaði. Þegar 1. flm. till. Borgarafl. tók til máls fóru myndatökumenn í burtu. Líklega voru þeir að bíða eftir ráðherra, en gáfust upp og fóru vegna þess að stjórnarandstaðan hefur leyft sér að tala nokkuð mikið í dag. (HG: Ráðherrann vildi ekki tala.) Ráðherrann vildi ekki tala. Það skil ég vel. Hún ætti að hafa vit á því oftar.

Fréttastofur hafa þagað yfir öllum málum, öllum frumvörpum og öllum okkar störfum hér á Alþingi frá því að Borgarafi. kom á þing. Og ekki bara það, heldur vil ég draga athygli hæstv. forseta og þingheims að því að Borgarafl. er ekki það fjáður að hann geti komið sínum málum á framfæri á prenti. Við stöndum núna í málaferlum við fjmrn. vegna þess að á fjárlögum er þingflokkum ætlaður ákveðinn styrkur, blaðastyrkur, til styrktar starfseminni, til að koma sínum málum á framfæri. Við stöndum í málaferlum vegna þess að þingflokkarnir gömlu skiptu með sér öllu því fé sem þingflokkum var ætlað fyrir árið 1987 áður en kosningar fóru fram, þannig að við höfum í engu sömu möguleika og gömlu flokkarnir. Alþýðublaðið er furðulega stórt síðan Alþfl. kom í ríkisstjórn og það er út af fyrir sig spurning, sem ég vildi gjarnan fá svarað, hvernig Alþýðublaðið gat stækkað svona mikið allt í einu. Það eru aðeins blaðamenn frá gömlu flokkunum sem sitja hér, það er Alþýðublaðið, Tíminn og Morgunblaðið, þeir eru allir komnir í stjórnarpúlíu. Að sjálfsögðu vitum við að Þjóðviljinn er blað Alþb. og málgagn, en ekkert þessara svokölluðu frjálsu blaða ræðir um önnur mál en henta stjórnarliðum. Þannig er það í þessu máli að þó að Borgarafl. flytji stórmerkar tillögur í húsnæðismálum sem snerta hvert mannsbarn, unga sem aldna í þjóðfélaginu, hygg ég að verði erfitt fyrir okkur að koma þeim á framfæri þar sem einokun er á allri fréttamennsku frá Alþingi. Því óska ég eftir að forseti sjái til þess að brtt. okkar fái eðlilega og þinglega meðferð en verði ekki vísað, þótt lagalegt sé, á bug við 2. eða 3. umr.

En úr því að ég minnist á blaðastyrk og möguleika flokkanna á að koma málum sínum á framfæri á kostnað Alþingis vil ég að það komi líka fram hér, til að það sé skráð, að Sjálfstfl. hefur fengið blaðastyrk fyrir 1987, allt árið, fyrir 25 þm., 7 fleiri en flokkurinn hefur, því að 18 sjálfstæðismenn sitja á Alþingi. Sjálfstfl. hefur þar með fengið þann hluta af blaðastyrknum sem Borgarafl. bar, en borgaraflokksþingmenn eru 7 samtals. Það hefur verið farið fram á það að Sjálfstfl. skili þessum umframpeningum aftur svo að Borgarafl. geti starfað á eðlilegan hátt, á sama hátt og aðrir þingflokkar, en því hefur verið hafnað. Þess vegna hefur Borgarafl. verið knúinn til málshöfðunar gegn fjmrh.

Það furðulegasta við plaggið sem kemur frá meirihl, hv. félmn. og er nál. á þskj. 240 er að þar er talað um hvað þurfi að gera, hvað ætti að gera, hvað væri æskilegt að gera. Sem sagt, það er verið að segja í öðru hverju orði að það sé eiginlega of lítið af öllu því sem kemur frá hæstv. félmrh. og í lok þessa álits síns segir nefndin, og undir það skrifa fimm nefndarmenn, með leyfi forseta:

„Á sérstöku þskj. flytur meiri hl. nefndarinnar brtt. við allar greinar frv. 4. gr. frv., um breytilega vexti, fellur út þar sem nefndin telur að ríkisstjórnin hafi nægar heimildir til vaxtaákvarðana í 30. gr. laga nr. 54/1986. "

Þetta er því nýtt frv. sem við erum að ræða um. Það er ekkert eftir af frv. hæstv, ráðherra sem varð svona næstum því til þess að ráðherra færi úr ríkisstjórninni.

Einnig væri þarft að kanna; raunar er brýnt að þegar verði gerðar ráðstafanir; í þeirri heildarathugun í húsnæðislánakerfinu, sem nefndin telur nauðsynlegt að ráðast í, eru nokkur atriði öðrum fremur sem brýnt er að tekin verði til athugunar. Svona er nál allt saman og þetta er stuðningur sem ráðherra fær með sínu frv. Þetta er alveg furðulega skemmtilegt plagg. Ég vildi ekki vera ráðherra með stuðningi sem þessum, en ég óska hæstv. fyrrv. félmrh. til hamingju með að geta náð samkomulagi við uppreisnarráðherrann um að allar þessar breytingar skuli samþykktar af hæstv. núv. ráðherra sem gerir það kannski nauðsynlegra fyrir hann en nokkru sinni áður að hlaupa úr ríkisstjórninni því að þetta er ekki sama frv. sem við erum að ræða núna með breytingunum og ráðherra heimtaði að kæmist í gegn fyrir jól, að öðrum kosti færi hún úr ríkisstjórn.

Ég lít svo á að ef frv. verður samþykkt með öllum þessum breytingum, eins og þær liggja fyrir á þskj. 241, sé ráðherra þegar búinn að segja af sér, því það er ekki lengur frv. sem hún setti sem úrslitakost fyrir áframhaldandi setu í ríkisstjórn sem nú er verið að mæla með að verði samþykkt. Ég óska því bæði hæstv. félmrh. gleðilegra jóla og framtíðar — hún kemur til með að hafa nógan tíma til þess að sauma eða prjóna í framtíðinni — og ríkisstjórninni til hamingju með að losna við hana. Svona stendur nú málið í mínum huga.

Ég sé hér í plaggi sem við eigum eflaust öll, þingsköpum Alþingis, í 20. gr. um 1. umr. frumvarpa: „Við 1. umr. skal ræða frv. í heild sinni. Þá er þeirri umræðu er lokið er leitað atkvæða um hvort það eigi að ganga til 2. umr. og nefndar.“

Í 21. gr. segir: „2. umr. fer eigi fram fyrr en einni nóttu eftir 1. umr. og skal þá ræða greinar frv. hverja fyrir sig og brtt. við þær. Síðan skal greiða atkvæði um hverja grein og brtt. við hana, ef fram hefur komið, og loks um það hvort frv. eigi að ganga til 3. umr." Ég get því vel skilið það að stjórnarliðar reyni að koma í veg fyrir að sú tillaga verði samþykkt sem flm. okkar brtt. gerði um að okkar brtt. yrði vísað til nefndar og nefndin skoðaði þær í samræmi við aðrar brtt. sem komið hafa fram frá nefndinni sjálfri og félmrh. virðist sætta sig við. Ef svo fer sem ég óttast fer þessi mikla vinna sem hér hefur verið lögð fram sem brtt. af hálfu Borgarafl. til einskis, a.m.k. í augnablikinu, og eru það bara bein kostnaðarútlát fyrir þá þm. sem standa að þeim kostnaði. Ég harma það að hann skuli ekki fá málefnalega umfjöllun vegna þess að frv. sem er lagt fram á fölskum forsendum, í falskri pressu, í tilbúinni tímaþröng, sem skiptir engu máli fyrir þá sem bíða eftir afgreiðslu hjá húsnæðismálastjórn samkvæmt upplýsingum sem fram hafa komið frá 1. minni hl. félmn., hv. 12. þm. Reykv. Og vegna hótana við Alþingi sjálft frá hæstv. félmrh. er ekki hægt að afgreiða málefnalega það frv. sem hún sjálf hefur lagt fram og flokkunum eins og Borgaraflokknum í þessu tilfelli ekki kleift að gera þær málefnalegu brtt. og tala fyrir þeim og vinna að þeim eins og lög gera ráð fyrir að þm. starfi.

Ég hefði frekar orðað það öðruvísi en hv. 2. þm. Austurl. gerði þegar hann talaði um verkfall hæstv. félmrh. og var að mér fannst að harma það. Ég hefði frekar orðað það þannig að það hefði farið betur hefði félmrh. farið í verkfall áður en hún gerði frv. og það hefði a.m.k. farið betur fyrir landsmönnum öllum ef fleiri ráðherrar og sérstaklega ráðherrar skattamála hefðu farið í verkfall áður en þeir fóru að vinna að þeim ósköpum sem nú eru í vændum, ef það er rétt að þær breytingar sem hann gerir á skattamálum kosti 8–9 milljarða viðbótarskatta á þjóðina í heild.

Í framsöguræðu hv. 5. þm. Vesturl. og í framsöguræðu hv. 6. þm. Suðurl., þar sem hann mælti fyrir nál. 2. minni hl., var rætt um nauðsyn þess að fella niður sem allra fyrst lánskjaravísitöluna og vil ég taka undir það. Ég hef áður sagt úr þessum ræðustól, ég hef áður sagt það í ríkisstjórn og fengið undirtektir fyrrv. hæstv. félmrh. og ég hef líka fengið undirtektir hæstv. núv. landbrh. að á meðan fólk, sem þarf að taka lán til að byggja þak yfir höfuðið í okkar harðbýla landi, getur ekki breytt þeim verðmætum sem í því sjálfu búa í sömu verðmæti og eru í því fé sem það þarf að taka að láni, þá er ekki vit í þessu þjóðfélagi okkar. Síðan launavísitala var tekin úr sambandi stendur enginn undir því að greiða húsaleigu né heldur að eignast eigin íbúð. Með þessum tillögum öllum saman, hvernig sem þær líta út, erum við að lokka, enn þá á fölskum forsendum að lokka unga fólkið til að taka lán sem það getur aldrei staðið undir. Ef krónan sem unga fólkið fær að láni frá Húsnæðisstofnun er kannski 130–150 kr. í endurgreiðslu, á meðan verðmætin í manninum sjálfum, sem hann á eftir að breyta í peninga, eru bara krónunnar virði, þá getur hann aldrei staðið í skilum. Það þýðir nákvæmlega það sem ég hef áður lesið upp hér af greiðsluseðli frá húsnæðismálastjórn. Viðkomandi fékk 80 þús. kr. að láni frá húsnæðismálastjórn þann 22. sept. 1980 og hafði í fimm ár, til 1. maí 1985, staðið í skilum bæði með afborganir og vexti alla tíð, en skuldaði ekki 80 þús. kr. 1. maí 1985 heldur 539 þús. 341 kr. og 50 aura. Þetta er niðurstaðan af viðskiptum þessa einstaklings sem er ekkert einsdæmi á tímabilinu 1980–1985. Meðan þetta viðgengst er það synd og skömm og blettur á öllum stjórnmálaflokkunum að tæla unga fólkið til að taka húsnæðislán eins og um það er búið. Þess vegna þarf að fella niður lánskjaravísitöluna eða taka upp launavísitölu á ný þannig að þar sé jöfnuður á milli. Þetta er blettur á okkar þjóðfélagi og ég vil lýsa því hér með að innan stutts tíma mun verða tilbúin brtt. frá minni hálfu um að fella þetta óréttlæti niður úr lögum þannig að lánskjaravísitalan verði tekin úr sambandi.

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að halda stutta ræðu. Ég ætla að halda langa ræðu. Ég er rétt að byrja. En mig vantar nokkrar bækur sem ég þarf til að hafa ræðuna miklu lengri nema ráðherra eða talsmaður félmn. gefi mér tilefni til að tala ekki. En ég sé ekki ástæðu til þess fyrir minni hl. almennt að halda miklu lengri ræður á þessu stigi vegna þess að eins og kom fram hjá hv. 2. þm. Austurl. hefur ekkert heyrst í formanni félmn. Til hans hefur verið beint spurningum . . . (Forseti: Ég vil upplýsa ræðumann um að formaður félmn. og félmrh. eru á mælendaskrá á eftir ræðumanni sem nú hefur orðið.) Hæstv. forseti. Ég þakka þessar upplýsingar. Það hefði verið nýtt fyrir ef þessir tveir ágætu þm., hæstv. ráðherra og formaður nefndarinnar, væru ekki á mælendaskrá. Þá hefði verið tilefni til að spyrja um hvers vegna þeir ekki tali. En það er þeirra skylda að svara því sem til þeirra hefur verið beint í spurningum svo að ég fagna því að þeir skuli vera komnir á mælendaskrá. Ég held að ég stytti þá mál mitt að þessu sinni, en ég óska eftir því að það verði kvöld- og næturfundur ef með þarf um þetta mál.