12.12.1987
Neðri deild: 23. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2027 í B-deild Alþingistíðinda. (1478)

47. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég legg það ekki í vana minn að gera athugasemdir við fréttaflutning fjölmiðla, hvorki á Alþingi né annars staðar, en ég get ekki látið hjá líða hér og nú að lýsa verulegri vanþóknun og undrun á því að Ríkisútvarpið-sjónvarp skuli í kvöldfréttatíma hafa það eitt að segja af umræðum hér á Alþingi í dag að stjórnarandstaðan hafi haldið uppi málþófi í þinginu. Hér hefur verið samkvæmt sérstakri ósk ríkisstjórnar haldinn fundur á laugardegi og ákveðið að halda kvöldfund að ósk sama meiri hluta. Hér hefur verið til umræðu eitt stærsta viðfangsefni í landinu þó að frv. sé ekki stórt í sniðum, þ.e. húsnæðismálin og sá mikli vandi sem þar blasir við og varðar alla landsmenn að heita má. Mál þetta var tekið til umræðu með óvenjulegum hætti á fimmtudagskvöldið var og meiri hl. í félmn. knúði það fram, fékk því framgengt með samkomulagi við stjórnarandstöðuna, má kalla það, að mæla þá fyrir sínu áliti, en stjórnarandstöðunni er skammtaður laugardagurinn til þess að kynna sín viðhorf og sína afstöðu og sínar brtt. við þetta mál og varðandi húsnæðismálin í víðara samhengi eins og þær tillögur eru sem fram eru komnar frá Borgarafl. svo að öllu sé til haga haldið. Og þá eru þær fréttir einar í Ríkisútvarpinu-sjónvarpi um meðferð mála á Alþingi: Stjórnarandstaðan heldur uppi málþófi. Það er síðan sem skýring á því að hér sé laugardagsfundur og ákveðinn kvöldfundur kl. hálfníu.

Mér finnst satt að segja að þetta sé slík lítilsvirðing við lýðræðið í landinu, því að hluti af lýðræðinu í landinu er virk stjórnarandstaða og að hennar sjónarmið fái að heyrast a.m.k. stöku sinnum, að ég hlýt að gera við þetta alvarlega athugasemd, almenna athugasemd. Var það þetta sem ráðandi meiri hluti vildi ná fram með því að knýja fram umræðu um þetta mál sl. fimmtudag? Ég ætla ekki þm. eða ráðherrum að standa fyrir slíku, en slíkar spurningar geta vaknað þegar menn verða vitni að svona frásögn til þjóðarinnar um þann efnislega málflutning og efnislegu umræður sem hér hafa farið fram um húsnæðismálin í dag með þátttöku stjórnarandstöðu og stjórnar, þ.e. ráðherra og frsm. meiri hl. félmn. Og þó að haft hafi verið við orð af einhverjum hér að það gæti komið að því að menn þyrftu að rýna í einhverjar bækur hefur ekkert slíkt verið hér á dagskrá og ekkert slíkt farið fram á þessum degi.

Það virðist vera einhver misskilningur á ferðinni hjá fjölmiðlum, a.m.k. í þessu tilviki, hvað er svona samkvæmt alþjóðlegu mati á starfi þjóðþinga það sem kallað er málþóf. Auðvitað ber það við að stjórnarandstaða og þeir sem í minni hluta eru í einhverjum málum grípi til þess til þess að leggja áherslu á sitt mál eða reyna að knýja fram breytingar á málsmeðferð. Þeir láta reyna svolítið á þolrifin í ríkjandi meiri hluta og taka upp það sem á enskunni er kallað „filibuster“ og hefur verið þýtt með málþófi á íslensku. En ég vil ekki kannast við að slíkt hafi gerst hér á Alþingi á þessum degi það sem af er.

Mér þykir það mjög leiðinlegt því að ég hef ekki staðið fjölmiðla að neitt sérstaklega óvönduðum fréttaflutningi héðan þó að okkur stjórnarandstæðingum finnist að vísu nokkuð á okkur hallað oft og það beri við sem er áreiðanlega lenska víða í löndum að það er framkvæmdarvaldið sem hefur sviðið miklu meira en löggjafarvaldið. Það er að sumu leyti þjóðþingunum og löggjafarsamkomunum að kenna að sú þróun hefur orðið því að menn hafa ekki risið til andsvara eða gert kannski nægar athugasemdir við þessa þróun. En enginn skyldi ætla sér að fara að veita neina forskrift fyrir fréttaflutningi. Það geri ég ekki þó að ég láti þessi orð falla hér. Ég geri það ekki vegna þess að ég hafi tekið þetta til mín sem þátttakandi í þessum umræðum heldur vegna þess að mér sveið fyrir hönd stjórnarandstöðunnar sem var úthlutað þessum degi sem umræðudegi fyrir sín sjónarmið hér og að eiga skoðanaskipti við ríkisstjórnina, ráðherra og aðra talsmenn.

Herra forseti. Ég ætlaði að þakka hæstv. félmrh. og hv. 1. þm. Vesturl. fyrir þau svör sem þeir veittu við fsp. sem ég bar fram til þeirra í minni ræðu. Þar kom margt athyglisvert fram þó að ekki væri öllu svarað og ég gæti gert ýmsar athugasemdir við það sem þar kom fram. Ég ætla ekki að hafa þær margar hér og nú. Ég tel að viðbrögð hæstv. ráðherra og hv. frsm. meiri hl. félmn. sýni okkur það mjög ljóslega hversu mjög eru lausir endar í frv. sem við erum að fjalla um þannig að frv. er enn rýrara að inntaki af þeim sökum, m. a. sú staðreynd, sem hér var upplýst af báðum nefndum, hv. þm. og hæstv. ráðherra, að reglugerðir hafa ekki verið kynntar og ekkert verið sett saman enn sem komið er af því tagi þó að ljóst sé og undirstrikað sé að til þess að lögin fái í rauninni útfærslu og séu skýr og menn geti áttað sig á því hvað raunverulega í þeim felst þurfa reglugerðir að koma til. Mér er kunnugt um að óskir voru bornar fram um það við hæstv. félmrh. að slíkar reglugerðir eða drög að þeim yrðu kynnt, en það hefur því miður ekki orðið. M.a. af þeim sökum vitum við allt of lítið um innihaldið, inntakið í því frv. sem við viljum greiða fyrir að hér fái framgang fyrir jól. Þetta á við um hina þýðingarmestu þætti, um þýðingarmikla þætti og einnig um þætti sem verið er að fella út frá upphaflegu frv. hæstv. ráðherra, þ.e. 4. gr. varðandi vexti, þar sem ríkisstjórninni að fengnum umsögnum húsnæðismálastjórnar og tillögum Seðlabanka er ætlað að taka ákvörðun um í staðinn fyrir það lagaákvæði sem hæstv. ráðherra ætlaði að fá í þessu samhengi. En þarna liggur ekkert fyrir þrátt fyrir orð í meirihlutaáliti og þetta er auðvitað mjög miður.

Það kom einnig fram í svörum frá báðum nefndum aðilum að sárafáir lífeyrissjóðir hafa gert bindandi samninga fyrir næsta ár og þarnæsta ár. Ég spurði að vísu um upphæð í því sambandi og fékk ekki svar varðandi hvað stórar upphæðir stæðu þar að baki, en ef ég man rétt eru þetta 16 sjóðir til tveggja ára og sex til eins árs og ég hef grun um að það séu ekki mjög öflugir sjóðir allir sem þarna eiga hlut að þannig að staðan varðandi fjárhagsgrundvöll húsnæðismálanna er auðvitað mjög alvarleg á meðan að málin standa þannig.

Þetta get ég, herra forseti, látið nægja sem almennar athugasemdir af minni hálfu. Ég hef ekki látið sannfærast um það nema síður væri að skynsamlegt sé að hafa 2. gr. með þeim hætti sem hér liggur fyrir á tili. meiri hl. og ég hef ekki látið sannfærast um að það sé tryggt að þau svör sem Húsnæðisstofnun er ætlað að veita geti ekki virkað með svipuðum hætti og hingað til á hinum svonefnda gráa markaði, geti ekki orðið þar með áfram þensluvaldur sem átti þó að vera eitt meginmark miðið að draga úr þensluáhrifum.

Við hljótum því að vænta þess, sem eigum fulltrúa sem standa að umræddri brtt., að hún eigi fylgi hér og stjórnarmeirihlutinn í hv. deild sjái að sér í þessum efnum og styðji þessa skynsamlegu brtt. því ég held að það væri mjög misráðið að samþykkja frv. með því ákvæði inni sem nú er í 2. gr. að þessu leyti. Svo vænti ég þess að þrátt fyrir allt verði uppskeran af þessari væntanlegu lagasetningu einhver og betri en á horfist og hætta er á vegna þess hversu lausbundið þetta er allt saman. Og ég vænti þess einnig varðandi það atriði sem hæstv. félmrh. nefndi um úrlausn fyrir hinn svokallaða misgengishóp þeirra sem hafa verið í skrúfstykki lánskjara eða misgengisvísitalna í sambandi við húsnæðislán á liðnum árum, en fyrir fram get ég ekki verið mjög bjartsýnn þegar rætt er um að leita til lánastofnana um frekari fyrirgreiðslu en ríkið er reiðubúið að veita. Það mæli ég vegna þess að ég hygg að nokkur reynsla sé fyrir því frá fyrri árum þegar reynt hefur verið að greiða fyrir þörfum málum með þeim hætti að uppskeran hafi ekki orðið sú sem menn vonuðu. Þetta læt ég vera mín lokaorð við þessa umræðu nema eitthvert sérstakt tilefni gefist til frekar.