14.12.1987
Sameinað þing: 32. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2117 í B-deild Alþingistíðinda. (1504)

1. mál, fjárlög 1988

Danfríður Skarphéðinsdóttir:

Herra forseti. Ég tel ástæðu til í upphafi máls míns að fagna því sérstaklega að sjá hér inni og telja mig ná eyrum hæstv. fjmrh. og hæstv. menntmrh. auk hv. formanns fjvn. því þá um leið dofnar sú tilfinning, sem óneitanlega grípur mann oft, að maður standi hér og tali inn í Alþingistíðindin.

Þær hv. þingkonur Kvennalistans sem hafa talað fyrr í dag hafa lýst viðhorfum okkar til fjárlagafrv. eins og það liggur nú fyrir og ætla ég ekki að eyða dýrmætum tíma okkar í að endurtaka það sem þegar hefur verið sagt. En í von um einhverja lagfæringu freistum við þess að flytja nokkrar brtt. og mæli ég nú fyrir þremur þeirra fyrir hönd þingflokks Kvennalistans. Ég vil reyndar geta þess strax í upphafi að vissulega vildi maður í mörgum atriðum gera betur við ýmsar stofnanir og staði þar sem maður þekkir vel til, t.d. í eigin kjördæmi, en auðvitað er það frumskylda okkar að reyna að horfa á hlutina með hagsmuni heildarinnar í huga og meta með tilliti til þeirra. Ég tel varðandi allar þær tillögur sem fram koma og eru staðbundnar, tengdar ákveðnum byggðarlögum, að við séum vart í þeirri stöðu hér og nú til að greiða um þær atkvæði þar sem við höfum ekki haft tækifæri til að kynna okkur málin á hinum einstöku stöðum nema sérstakar ástæður séu fyrir hendi sem nokkrir þm. hafa sameinast um.

Á þessu þingi hefur, eins og margoft hefur komið fram í umræðunni, gefist afar skammur tími til að afgreiða ýmis mál og vona ég því að ef við sem hér erum nú stöndum að skiptingu fjárins á næsta ári gefist þingmannahópum meiri tími til að fara betur ofan í mál sem heyra til þeirra heimabyggðum. Það er vonlaust að ætla sér að fá heildarmynd af stöðu mála, þó í eigin kjördæmi sé, á innan við klukkutíma.

Brtt. þær sem ég mæli nú fyrir fyrir hönd þingflokks Kvennalistans er að finna a þskj. 261 og vík ég nú að fyrstu þeirra sem fjallar um jöfnun á námskostnaði nemenda framhaldsskólans. Við leggjum til að í stað 25 millj. á lið 02–884, Jöfnun á námskostnaði, verði á næsta ári varið 100 millj. kr.

Það má telja öruggt að ein mikilvæg ástæða óæskilegrar byggðaþróunar í landinu er hinn mikli aðstöðumunur ungs fólks til að sækja nám á framhaldsskólastigi. Það er algengt að fólk velji þann kost að flytja úr dreifbýli til þéttbýlisstaða og þá einkum höfuðborgarsvæðisins þegar elsta barnið á heimilinu lýkur grunnskóla. Ástæðurnar eru oftast fyrst og fremst fjárhagslegs eðlis. Þrátt fyrir mikla fjölgun framhaldsskóla um land allt á undanförnum tveimur áratugum er alltaf stór hópur ungmenna sem þarf að flytjast til þeirra þéttbýlisstaða þar sem skólar þessir eru staðsettir og svo mun trúlega alltaf verða.

Árið 1972 voru sett lög um jöfnun námskostnaðar, en árin 1970 og 1971 hafði reyndar verið úthlutað námsstyrkjum til nemenda úr dreifbýli. Í 1. gr. laganna frá 1972 segir, með leyfi forseta:

„Ríkissjóður veitir námsstyrki til jöfnunar á fjárhagslegum aðstöðumun nemenda í framhaldsskólum að því leyti sem búseta veldur þeim misþungum fjárhagsbyrðum.“

Með reglugerð með lögum þessum er út kom árið 1973 segir m.a. í 5. gr., með leyfi forseta: „Styrkfjárhæðir fara eftir heildarfjárhæð sem veitt er til jöfnunar á námskostnaði í fjárlögum ár hvert.“ Víst er að á fjárlögum hvers árs hefur verið veitt fé til þessa, en það hefur komið í ljós að raungildi þeirra styrkja sem úthlutað hefur verið frá árinu 1975 hefur minnkað til muna.

Á fundi Sþ. 26. nóv. sl. bar hv. varaþm. Sturla Böðvarsson fram fsp. til hæstv. menntmrh. um meðalstyrkfjárhæð hvers nemanda á árunum 19751987 og óskaði hann eftir að upphæðir yrðu færðar til verðlags í nóvember 1987 með vísitölu framfærslukostnaðar. Í svari hæstv. menntmrh. kom fram að meðalupphæð styrkþega árið 1975 var 26 490 kr. fyrir skólaárið á verðlagi nóvembermánaðar 1987 eins og ég sagði áður. Alla tíð síðan hefur þessi styrkur til nemenda úr dreifbýli farið sílækkandi og var aðeins 12 496 kr. að raungildi á sl. skólaári. Í máli hæstv. menntmrh. kom einnig fram að miðað við þær 25 millj. sem eru á fjárlagafrv. til þessa verkefnis og þá staðreynd að ekkert bendir til að umsækjendum um dreifbýlisstyrki fækki á næsta ári má búast við að meðalupphæð á hvern nemanda verði um það bil sú sama og 1987 eða milli 12 og 13 þús. kr.

Fyrr á þessu þingi bar ég ásamt fleiri hv. þm. Kvennalista, Alþb. og Borgarafl. fram þáltill. þess efnis að ríkissjóður greiddi launakostnað starfsfólks við mötuneyti framhaldsskólanna. Það liggja mörg stór mál fyrir til afgreiðslu á hinu háa Alþingi þessa dagana og er því útlit fyrir að tillaga sú fái að bíða afgreiðslu til næsta árs. En í grg. með till. kemur fram að nemendur sem eru í fullu fæði við mötuneyti framhaldsskólanna þurfa að greiða a.m.k. 90 þús. fyrir fullt fæði á þessu skólaári. Síðan sú upphæð var í gildi hafa hin ýmsu 25% verið að bætast við að undirlagi hæstv. ríkisstjórnar þannig að þessi tala mun hækka sem því nemur. Milli 30 og 40% af þessum kostnaði nemendanna er launakostnaður starfsfólksins. Í grg. segir varðandi þetta atriði, með leyfi forseta:

„Allir hljóta að sjá hversu þungur baggi þetta er á þeim heimilum sem senda þurfa börn sín í heimavist. Víst er að fyrir marga er hann svo þungur að margir unglingar eiga þess vart kost að afla sér framhaldsmenntunar.“

Þetta eina atriði er því mikið hagsmunamál nemendanna og foreldra, fyrst og fremst þeirra sem búa í dreifbýli. En þetta er aðeins einn kostnaðarliður af mörgum sem heimili í dreifbýli þurfa að bera vegna framhaldsnáms barna sinna. Í skriflegu svari hæstv. menntmrh., sem barst mér og hv. þm. Kristínu Einarsdóttur vegna fsp. okkar um ýmis atriði varðandi hlutfall nemenda úr dreifbýli í framhaldsskólum landsins svo og heimavistarrými á hinum ýmsu stöðum á landinu, kom í ljós að enn þá vantar mikið upp á að aðstaða nemenda eftir búsetu sé jöfn. Fsp. okkar er á þskj. 127. Með því að taka tvö dæmi úr svari hæstv. menntmrh. er hægt að segja mikið um þá aðstöðu sem dreifbýlisnemar búa við.

Árið 1985 stunduðu 3110 utanbæjarnemendur nám í Reykjavík. Séu nemendur í fræðsluumdæmi Reykjaness teknir út úr þessum hópi, en reikna má með að flestir þeirra fari heim á kvöldin, standa eftir 1408 nemendur landsbyggðarinnar. Heimavistarrými fyrir utanbæjarnemendur í höfuðborginni eru alls 20, 20 rúm í Sjómannaskólanum í Reykjavík. Það segir sig því sjálft að flestir utanbæjarnemendur þurfa að leita sér að húsnæði á hinum almenna leigumarkaði í Reykjavík, hversu góður kostur sem það nú er. Þeir leigja sér herbergi, en nú mun vera algengt að menn þurfi að borga 10–15 þús. á mánuði fyrir meðalstórt herbergi.

Í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi stunda á þessari önn 250 utanbæjarnemendur nám. Þar af komast 64 í heimavist. Þar í bæ borga þeir sem herbergi leigja af bæjarbúum um það bil sama verð fyrir hvern mánuð og heimavistarbúar borga fyrir alla önnina. Af þeim dæmum sem ég hef hér nefnt sýnist mér að allir ættu að geta verið sammála um að dreifbýlisstyrkinn þarf að hækka verulega eigi hann að hafa einhver minnstu áhrif til jöfnunar á námskostnaði nemenda.

Í svari hæstv. menntmrh. við fsp. um dreifbýlisstyrkinn, sem ég nefndi áðan, kom einnig fram að sl. vetur var skipuð nefnd til að athuga og endurskoða þetta námsstyrkjakerfi og að hún væri komin talsvert langt í starfi sínu. Greinilega hefur henni þó ekki tekist að beita þeim áhrifum sem til þurfti til að fá framlag ríkisins til jöfnunar á námskostnaði hækkað eins og greinilega er mikil þörf á.

Það kom einnig fram í máli hæstv. menntmrh. að gert er ráð fyrir að fjöldi umsækjenda verði svipaður og í fyrra þannig að nú stefnir í að styrkur til hvers nemanda verði svipaður og á sl. ári eða um það bil 12 þús.

Einn þátt hef ég alls ekki minnst á, en það er hinn gífurlegi bókakostnaður sem framhaldsnáminu fylgir og leggst auðvitað á alla nemendur hvar sem þeir búa. En sá kostnaður sem ég minntist á fyrr í máli mínu leggst einkum á dreifbýlisnemendur og fjölskyldur þeirra.

Það er ljóst að efnahagur fólks í landinu er afar mismunandi um þessar mundir og launakannanir hafa sýnt að tekjur fólks á landsbyggðinni eru lægri en á höfuðborgarsvæðinu. Það eru því margar ástæður fyrir því að ég tel að hér sé um afar brýnt mál að ræða og legg áherslu á að hv. þm. sýni þessu máli skilning þannig að styrkirnir geti á ný gegnt því hlutverki sem þeim var ætlað í upphafi.

Í umræðu um lögin sem sett voru 1972 um jöfnun á námskostnaði sagði hv. þm. Pálmi Jónsson m.a., með leyfi forseta: „Jöfn menntunarstaða er eitt hið mesta réttlætismál og hagsmunamál byggðarinnar í landinu því aðstaða til menntunar hefur einnig sitt hagræna gildi, það gildi að ef menn hafa ekki aðstöðu til þess að hljóta sambærilega menntun á einum stað sem annars staðar, þá mun búsetan raskast.“ Þessi orð hv. þm. eru enn þá í fullu gildi.

Sú upphæð, 100 millj., sem hér er lagt til að veitt verði til þessa verkefnis, er alls ekki ofætluð. En á næsta ári liggja vonandi og væntanlega fyrir einhverjar niðurstöður frá þeirri nefnd, sem nú er að störfum, sem hægt er að byggja á þannig að þessir námsstyrkir til nemenda úr dreifbýli verði raunhæfir á næstu árum.

2. brtt. sem ég mæli fyrir fyrir hönd Kvennalistans er varðandi framlög til ferðamálasamtaka hinna ýmsu landshluta. Á sl. árum hafa menn gert sér æ ljósari grein fyrir mikilvægi ferðaþjónustu í atvinnuuppbyggingu okkar Íslendinga. Vegna þeirra breytinga sem nú eiga sér stað í atvinnuháttum landsbyggðarinnar renna stöðugt fleiri hýru auga til ferðaþjónustu sem vænlegs kosts fyrir íbúa landsbyggðarinnar. Um árabil höfðu ferðamálanefndir starfað á vegum samtaka sveitarfélaga, en fyrir rúmum fimm árum riðu sveitarstjórnarmenn á Vesturlandi ásamt hagsmunaaðilum í ferðaþjónustu á vaðið með stofnun sérstakra ferðamálasamtaka. Aðrir landshlutar fylgdu í kjölfarið og eru landshlutasamtökin nú sjö, en það sjöunda er nýstofnað og mun vera hér á höfuðborgarsvæðinu.

Tilgangur ferðamálasamtakanna er fyrst og fremst sá að efla ferðaþjónustu á viðkomandi svæðum þannig að hún verði til sem mestra hagsbóta fyrir íbúa á viðkomandi svæðum. Stór liður í starfi samtakanna er kynningarstarfsemi af ýmsu tagi, markaðsmál og fyrirgreiðsla við ferðamenn, svo og að stuðla að aukinni umhverfisvernd, betri merkingum við vegi og að bæta aðstöðu ferðamanna í hvívetna til að njóta þess sem hin ýmsu svæði hafa upp á að bjóða.

Ferðamálasamtök landshlutanna hafa nú myndað með sér formleg samstarfssamtök. Þau hafa m.a. beitt sér fyrir samræmingu og betra skipulagi á útgáfu bæklinga, auk þess sem þau eiga nú öll fulltrúa í Ferðamálaráði. Stærsta verkefni ferðamálasamtaka landshlutanna á síðasta ári og stærsta baráttumál þeirra undanfarin ár var að koma á laggirnar sérstakri upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn sem nú er staðsett í Ingólfsstræti 5 í Reykjavík. Þar getur ferðafólk, innlent sem erlent, fengið hlutlausar upplýsingar um alla möguleika sem þessi atvinnugrein býður upp á hér á landi. Upplýsingamiðstöðin er rekin í samstarfi Ferðamálaráðs, ferðamálasamtaka landshlutanna og Reykjavíkurborgar. Fyrirhugað er að slíkar upplýsingamiðstöðvar rísi víðar um landið og sú tækni, sem við höfum orðið yfir að ráða, geti tengt þær saman. Starfsemi slíkra stöðva getur stórbætt þjónustu við ferðafólk, auk þess sem sú samstaða aðila í ferðaþjónustu sem nú hefur myndast gefur mikla möguleika til hagræðingar og þróunar. Að sögn starfsmanna upplýsingamiðstöðvarinnar hafa annir þar farið langt fram úr vonum manna og því er Ijóst að mikil nauðsyn er á því að hægt sé að afla sér upplýsinga hjá hlutlausum aðila því það eru mörg og mismunandi áhugamál sem reka erlenda ferðamenn hingað. En þess ber þó að geta hér að einnig hefur mikill fjöldi Íslendinga leitað sér upplýsinga til þessarar upplýsingamiðstöðvar.

Upplýsingamiðstöð í Reykjavík breytir þó ekki þörfinni fyrir kröftugt starf ferðamálasamtaka úti á landsbyggðinni. Hagsmunaaðilar í ferðamannaþjónustu úti á landi hafa haft forustu í starfsemi ferðamálasamtakanna í nánu samstarfi við sveitarfélögin. Fjárhagur ferðamálasamtakanna hefur byggst á frjálsum framlögum sveitarfélaga og hagsmunaaðila í formi félagsgjalda. Á síðasta ári var á fjárlögum samþykkt að veita 600 þús. kr. til þeirra sex samtaka sem þá voru starfandi. Nú hefur þessi liður fallið brott í því frv. sem hér liggur fyrir. Við kvennalistakonur leggjum til að á þeim fjárlögum sem nú eru til umræðu verði liður þessi settur inn á ný undir númerinu 10–485, eins og fram kemur hér undir 2. lið brtt. minnar, og þar komi nýr liður, Ferðamálasamtök, og upphæðin verði 1400 þús. þannig að upphæðin til hverra ferðamálasamtaka verði hækkuð um helming svo að þau sjö sem nú starfa fái 200 þús. hvert.

Ég hef í máli mínu tíundað mikilvægi ferðaþjónustunnar fyrir íbúa landsbyggðarinnar. Ég vil, herra forseti, vekja athygli á því að ferðamálasamtökin hafa nú skuldbundið sig til að eiga 25% rekstraraðild að upplýsingamiðstöðinni í Reykjavík og hafa reyndar munnlegt loforð Byggðastofnunar fyrir aðstoð fyrstu 2–3 árin. En þetta er aðeins einn liður í starfinu. Ferðamálasamtökin hafa sem slík tekið þátt í Vestnorden-ferðakaupstefnunni og telja forráðamenn að árangur af því starfi sé þegar farinn að skila sér til hagsbóta fyrir íbúa landsbyggðarinnar og um leið auðvitað fyrir landsmenn alla.

Það skiptir sköpum nú að koma fótum undir þetta starf úti á landsbyggðinni þannig að íbúar þar geti tekið fullan þátt í uppbyggingu þessarar ört vaxandi atvinnugreinar. Vona ég því að hófleg till. okkar um 1400 þús. kr. framlag til þessarar starfsemi fái jákvæðar undirtektir þingheims því að sú upphæð sem lögð er til er nánast eingöngu viðurkenning á því starfi sem unnið er á vettvangi ferðamálasamtakanna.

3. liðurinn á brtt. þeim sem ég mæli fyrir varðar einnig ferðamál, en ég hef fyrr í máli mínu minnst á mikilvægi ferðaþjónustunnar og uppbyggingar hennar og mun því ekki tíunda það frekar hér. Ég vil aðeins vekja athygli á því að á undanförnum árum hafa verið gerðar ýmsar áætlanir og spár um fjölda erlendra ferðamanna sem sækja muni Ísland heim á næstu árum. Þær spár hafa ætíð farið fram úr björtustu vonum manna. Á árunum 1982–1983 var að frumkvæði Ferðamálaráðs unnin fagleg skýrsla um stöðu ferðamála og líklega þróun á þeim vettvangi til ársins 1992. Í skýrslunni er gert ráð fyrir að erlendum ferðamönnum fjölgi að meðaltali um 35% á árunum 1984–1992. Fjölgunin hefur hins vegar orðið margfalt meiri og fjöldi erlendra ferðamanna á ári hverju er nú kominn upp í helming af íbúatölu landsins.

Það má segja að ferðamálin hafi hingað til sætt furðulegri meðferð ráðamanna á hinu háa Alþingi. Árið 1976, fyrir ellefu árum, var ákveðið með lögum að fjármagna starfsemi Ferðamálaráðs með 10% af söluhagnaði Fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli. Til að ríkissjóður færi á engan hátt halloka var útsölu verð á áfengi og tóbaki í Fríhöfninni hækkað um 10%. Er nú skemmst frá því að segja að við þetta lagaákvæði hefur aldrei verið staðið og er það til vansa fyrir þá sem að lögum þessum standa.

Á yfirstandandi þingi hefur ferðamál oftlega borið á góma. Fram hefur komið till. til þál. um þörf fyrir mótun opinberrar ferðamálastefnu og í fsp. frá mér og hv. þm. Kristínu Einarsdóttur til hæstv. félmrh. í síðustu viku kom fram að orðið hefur mikil óheillaþróun í atvinnumálum leiðsögumanna hér á landi þar sem erlendir starfsbræður þeirra hafa farið um landið án atvinnuleyfa og þrátt fyrir lögverndun starfsheitis íslenskra leiðsögumanna. Við erum því að mörgu leyti á óheillabraut hvað þessa atvinnugrein varðar og mál að snúa af henni.

Herra forseti. Þessa dagana er mikið rætt um tímamótafjárlög. Við kvennalistakonur leggjum til að liður 10–651 verði með í öllu talinu um tímamót, að staðið verði við lögbundin framlög til Ferðamálaráðs sem samkvæmt áætlun um sölutekjur Fríhafnar ætti að vera um 80 millj. kr. En þar sem svo illa hefur verið staðið við þessi lög sem raun ber vitni og ef við þurfum að horfa fram á að menn leggi ekki í að taka skrefið til fulls höfum við látið fylgja hér með till. til vara um að ekki verði varið minna en 60 millj. kr. til þessa málaflokks.

Herra forseti. Ég lýk nú máli mínu, en aðrar þingkonur Kvennalistans munu mæla fyrir öðrum þeim till. til breytinga sem við höfum lagt fram.