14.12.1987
Sameinað þing: 32. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2129 í B-deild Alþingistíðinda. (1506)

1. mál, fjárlög 1988

Þórhildur Þorleifsdóttir:

Virðulegi forseti. Nú brestur mig skilning. Hefur hæstv. fjvn. yfirskilvitlegar gáfur og þarf því ekki að vera viðstödd umræðuna og kynningar a brtt. eða skiptir það engu máli? Spyr sá sem ekki veit. Ég mæli fyrir brtt. á þskj. 257 við frv. til fjárlaga árið 1988 sem bornar eru fram af þingkonum Kvennalistans. — Ég bið reyndar hv. 2. þm. Vesturl. afsökunar á þessum ummælum. Hann situr hér og er í fjvn., en hann hefur þá líklega nóg að gera við að skrifa niður skilaboð til fjvn.

Þær brtt. sem liggja fyrir á þskj. 257 fjalla allar utan ein um mennta- og menningarmál. Þessi eina till. er um breytingu á liðnum Geislavarnir ríkisins. Það ætti að vera óþarfi að fjölyrða um nauðsyn þeirrar hækkunar sem þarna er lögð til, þ.e. 3,5 millj. kr., því það er sú upphæð sem Geislavarnir þurfa nú til að geta veitt móttöku mikilvægri aðstoð frá Alþjóðakjarnorkustofnuninni. Sú aðstoð er í formi tækja og tækniaðstoðar og ætti þar með að vera hægt að halda uppi reglubundnum mælingum á geislavirkni í umhverfi og í matvælum líkt og kveðið er á um í lögum um geislavarnir. Geislavarnir hafa í tvígang verið ræddar í sölum hins háa Alþingis á haustþingi vegna fsp. og þáltill. þar sem rækilega var gerð grein fyrir nauðsyn þessa fjár. Það væri ekki vansalaust ef Geislavarnir ríkisins gætu ekki notfært sér boðna aðstoð Alþjóðakjarnorkustofnunarinnar vegna þess að smáhungurlús vantaði á fjárlögin. Væntum við þess að því verði kippt í lag.

Hinar fjórar brtt. á þskj. fjalla eins og áður sagði um mennta- og menningarmál. Ég minnist þess varla að þau mál hafi borið á góma í þingsölum þann tíma sem ég hef dvalið hér og fátt bendir til að þau mál hvíli þungt á hæstv. ráðherrum og þm. Það er talsvert ankannalegt í ljósi þess að mönnum verður óhóflega tíðrætt um þau í ræðum ýmiss konar utan þings, sérstaklega ef menn eru í hátíðaskapi. Þá vilja þeir veg íslenskrar menningar og tungu sem mestan.

Það er sérkennileg mótsögn í íslensku menningarlífi að hvergi þar sem þekkist til á byggðu bóli virðist áhugi almennings á listum og menningu eins almennur og hér á landi, bæði hvað varðar þátttöku og neyslu, en á hinn bóginn þarf að leita langt til að finna lægri opinber framlög en hér tíðkast. Ástæðan fyrir því að þetta mótsagnakennda dæmi gengur upp er að stór hluti listastarfsemi á Íslandi er unninn í sjálfboðavinnu. Er ég þá ekki að tala um áhugastarfsemi sem stendur með miklum blóma, sérstaklega úti á landsbyggðinni. Nei, ég er að tala um atvinnufólk sem innir af höndum ómælda vinnu í þágu íslenskrar menningar og sköpunar án þess að fyrir komi greiðslur. Þeir sem fá greiðslur teljast sjálfsagt velflestir til láglaunahópa. Félagsleg réttindi listamanna eru sáralítil, bæði hvað varðar lífeyrissjóði, eftirlaun og ég tala nú ekki um atvinnuöryggi.

Það er augljóst mál að það þarf að endurskoða allt styrkjakerfi menningarmála. En meðan það hefur ekki verið gert þrátt fyrir ítrekuð tilmæli listamanna verður að nægja að leggja til hækkanir á fjárlögum. Brýnustu verkefnin eru þó stórbættir starfslaunasjóðir bæði til einstaklinga og verkefna, lífeyrissjóðamál, lausn húsnæðisvanda í Reykjavík til tónlistar- og leiklistarhalds og miklu myndarlegri stuðningur við þær stofnanir sem ætlað er að vera burðarásar menningarinnar.

Of langt mál væri að gera hér að umtalsefni hvernig við stöndum að uppfræðslu og uppeldi barna og unglinga í menningarlegu tilliti. Það er kapítuli út af fyrir sig.

Mönnum verður tíðrætt þessa dagana um þá hættu sem steðjar að íslenskri tungu og menningu. Í þeim málum er fátt ofsagt. Einhæf menningaráhrif og síbyljan svonefnda eru nær allsráðandi í fjölmiðlum og ekki séð fyrir endann á áhrifum þess. Þau áhrif eru áratug eða lengur að koma í ljós, en gott væri að efla vörnina fyrr en síðar.

Við kvennalistakonur höfum í nokkur ar flutt till. um tvöföldun framlags til lista og menningarmála og höldum okkur enn við sama heygarðshornið. Mönnum kann að þykja það óraunsætt að fara fram á svo róttækar breytingar, en þá ber að hafa í huga að þó sú till. næði fram að ganga yrðum við varla hálfdrættingar á við aðrar vestrænar þjóðir. Þar eru framlögin allt upp í fimmfalt hærri og er þó menning þessara landa líklega ekki eins viðkvæm og brothætt og okkar.

Á það má líka benda að iðulega er haft á orði að landvarnir okkar séu fyrst og fremst fólgnar í eflingu menningar okkar og tungu. Ég óttast ekki að íslenskir listamenn hætti störfum þótt þeim sé ætlað áfram að lepja dauðann úr skel. Þar virðist ódrepandi löngun til að skapa. En ég óttast að skilningarvit þjóðarinnar fyllist svo af erlendri og allt of einhæfri menningu að þau hætti að nema þá íslensku. Og þá er of seint að snúa við. Því vona ég og bið að hið háa Alþingi sjái að sér og taki til alvarlegrar íhugunar hvort ekki sé brýn nauðsyn á að taka myndarlega til höndum. Ég vara við því að fljóta áfram sofandi að feigðarósi. Og styrkjum ekki menninguna bara í orði heldur á borði.

Og þá sný ég mér að einstökum liðum brtt. Liður nr. 1 varðar Námsgagnastofnun. Þar á bæ hafa menn þungar áhyggjur af því hve þröngur stakkur þeim er skorinn. Við kvennalistakonur höfum alltaf og ævinlega lagt mikla áherslu á menntun og rannsóknir. Helsta auðlind þjóðarinnar er fólkið sem býr í landinu, menntun þess og geta. Sá grunnur sem við hljótum að byggja framtíðina á er menntun barna okkar. Án góðs námsefnis geta grunnskólarnir alls ekki rækt hlutverk sitt sem skyldi og nýsköpun verkefna er mjög mikilvægur þáttur. Í þjóðfélagi sem tekur örum breytingum er nauðsyn á síendurnýjuðu námsefni mjög mikil.

Nú er svo komið að Námsgagnastofnun dregur á eftir sér skuldahala sem gerir henni nánast ókleift að útbúa efni fyrir nemendur. Í besta falli getur hún endurprentað gamalt efni sem er ágætt svo langt sem það nær. En nýsköpunin og endurmatið verður að hafa svigrúm. Þessar skuldir Námsgagnastofnunar eru þess eðlis að ekki verður undan vikist að greiða þær. Þetta eru skuldir við einkaaðila, höfunda námsefnis, prentsmiðjur og því um líkt. Enn erfiðara verður dæmið þegar ljóst er að Námsgagnastofnun á nú að greiða ríkinu röskar 4 millj. í húsaleigu árið 1988. Þýðir það auðvitað ekkert annað en meiri samdrátt. Því hljóða brtt. upp á samtals 19 millj. kr., 4 millj. til reksturs og 15 millj. til greiðslu á skuldum. Minna má það ekki vera.

Næsti liður er till. um breytingu á liðnum Tónlistarfræðsla undir Aðrir tónlistarskólar. Sú hækkun sem þarna er lögð til er vegna hlutdeildar ríkisins í launakostnaði tónlistarskólanna í trausti þess að hæstv. ríkisstjórn sjái að sér og hætti við áform sín um að flytja rekstur tónlistarskólanna yfir á sveitarfélögin. Um þetta mál hefur svo mikið verið rætt og ritað utan Alþingis sem innan að öllum ætti að vera fullkunnugt um mikilvægi þess og vera búnir að átta sig á hvílík reginskyssa og skref aftur á bak það væri ef ríkisstjórnin kæmist upp með að hrinda þessu í framkvæmd. Því er óþarfi að hafa uppi langa tölu lið þessum til varnar, læt aðeins nægja að minna á að öflug og árangursrík byggðastefna er menningarmál ekki síður en efnahagslegt. Fólkið úti á landsbyggðinni vill ekki aðeins yrkja jörðina eða draga fisk úr sjó heldur einnig lifa félags-, menningar- og vitsmunalífi. Það vill að börnin þess fái tækifæri til menntunar sem stenst samanburð við það besta og fábreytnin ein dugir ekki. Ef tónlistarmenntunin fer aftur á það stig sem hún var á áður en ríkið hóf þátttöku í rekstri tónlistarskóla munu margir hugsa sér til hreyfings. Þeir sem eftir eru búa við rýrari kost í menningarlegu tilliti.

3. liðurinn er um Þjóðleikhús. Það er till. um að fjárveiting til almenns reksturs hækki um 25 millj. Þessi tala er svo sannarlega ekki út í bláinn og ekki ofreiknuð. Eigin tekjur Þjóðleikhússins eru stórlega ofáætlaðar á fjárlögum fyrir árið 1988 en rekstur vanáætlaður. Þjóðleikhúsinu er ætlað að standa undir miklu stærri hluta reksturs með eigin tekjum en sanngjarnt getur talist. Eigin tekjur leikhússins eru miklum mun hærri en tíðkast annars staðar. Kemur tvennt til, mikil aðsókn og lág laun. Fólksflótti hefur verið mikill frá Þjóðleikhúsinu. Því helst ekki lengur á tæknifólki, smiðum, ljósamönnum, og sviðsmönnum vegna lágra launa. Leikararnir lafa vegna þess að aðrir kostir eru fáir. Þarna er þrátt fyrir allt sá starfsvettvangur sem þeim þykir flestum eftirsóknarverðari en lausamennska sem ekkert gefur í aðra hönd. Þeir lúta náttúrlega sömu lögmálum og annað láglaunafólk, drýgja tekjurnar með aukastörfum, svo sem hjá útvarpi, sjónvarpi, auglýsingum og skemmtikraftasýningum. Stundum kveður svo rammt að þessu að starf þeirra við Þjóðleikhús Íslendinga líður fyrir. En hver getur láð þeim það? Nú nýverið náðust þó hækkanir á samningum nokkurra hópa við Þjóðleikhúsið sem munu þýða u.þ.b. 12 millj. kr. á næsta ári og er því ekki mætt í fjárlögum svo enn erfiðara verður um vik. Eina svar Þjóðleikhússins hlýtur því að verða að draga úr starfseminni. Fjárveitingar duga best ef engar uppfærslur eru því hver þeirra er dýr bæði í uppsetningu og úthaldi. Er það hlutskiptið sem hæstv. ríkisstjórn ætlar Þjóðleikhúsi og hvað á þá að tala um í hátíðaræðum?

Auk aukins fjár til reksturs er hér farið fram á 8 millj. til viðbótar þeim 10 millj. sem eru á fjárlögum til viðhalds Þjóðleikhússins. Samkvæmt upplýsingum þyrfti u.þ.b. 100 millj. kr. að koma til ef ætti að koma Þjóðleikhúsinu í skikkanlegt horf svo 18 millj. hlýtur að teljast hógvær krafa. Ástand hússins er slíkt að það er ekki bara til skammar. Það er líka hættulegt. Það er full ástæða til að vara fólk við því að vera mikið á ferli við Þjóðleikhúsið því það á á hættu að klæðning hússins hrynji ofan á það. Þjóðleikhúsið er bókstaflega að morkna í sundur. Ef ástand áhorfendasala hefur farið fram hjá hv. þm. þegar og ef þeir eiga leið í musteri íslenskrar tungu ráðlegg ég þeim að líta vel í kringum sig næst. Hvað sjá þeir þá? Sundurgengin gólfteppi, snjáð og rifin sæti, brotna stólarma og bök. Það kemur sér vel að oftast er slökkt í sal þegar áhorfendur eru staddir þar inni. En þeir mega gæta sín vel á leiðinni út að hrasa ekki um teppisslitrurnar og athuga hvort stólarmar eða bök hafa nokkuð dottið af þegar staðið var upp úr sætum. Þetta eru ekki ýkjur ef einhver kynni að láta sér detta það í hug. Hér er ekki verið að „dramatísera“. Svona er ástandið í Þjóðleikhúsi Íslendinga. Hætt er við að Guðjón heitinn Samúelsson segði nú sjálfur ef hann mætti: Ekki meir, ekki meir.

Virðulegi forseti. Þá er það 4. liðurinn, Listir, framlög. Eins og ég gat um áðan höfum við kvennalistakonur áður flutt till. um tvöföldun á þessum lið. Nú er það gott betur, auk þess sem við höfum nú ólíkt því sem við höfum gert áður lagt til hvernig aukningunni skuli varið, þ.e. dreift því á einstaka liði. Trúar stefnu okkar um valddreifingu höfum við lagt til mestu hækkunina þar sem féð kemur að beinum notum fyrir listamenn þar sem þeir útdeila því sjálfir. Við höfum ekki lagt meira fé til þeirra sem eiga að stórum hluta að sækja sitt framlag til bæjar- og sveitarfélaga, sbr. Leikfélag Reykjavíkur, Leikfélag Akureyrar og skóla kennda við þessi bæjarfélög.

A-, c-, d-, e- og f-liðir eru allir tengdir skáldum og rithöfundum. Þar af eru tveir nýir liðir undir liðnum f. Það eru smáupphæðir ætlaðar bókmenntakynningarsjóði og höfundamiðstöð. Hvort tveggja er í því augnamiði að gera skáldum fært að kynna bókmenntir sínar, annaðhvort að eigin frumkvæði eða annarra, t.d. í skólum, félögum eða á annan hátt opinberlega, og fá smágreiðslu fyrir. Liður a, Launasjóður rithöfunda, er sá sjóður sem mikilvægastur er fyrir þá til að geta sinnt ritstörfum. Ef áætlað er að það að skrifa bók eða leikrit sé ársvinna sést að einungis er á fjárlögum lögð til 15 árslaun.

Þetta er heldur nánasarlegt hjá bókaþjóðinni. Því hljóðar brtt. upp á að í staðinn komi 35 millj. kr. Þess ber að geta að söluskattur af bókum, sem er m.a. sá afrakstur sem ríkið hefur af verkum skálda og rithöfunda, annaðhvort vegna frumsamins íslensks efnis eða þýðinga, er margfalt hærri. Hafa verið færð að því rök hvað eftir annað að umræddur söluskattur sé meiri að vöxtum en öll framlög til menningarmála samanlögð.

Rithöfundasjóðnum, lið d, er ætlað að standa straum af greiðslu ríkisins vegna notkunar á höfundarétti rithöfunda, þ.e. ef bókasöfn eiga 30 eða fleiri eintök af bókum rithöfundar ber honum greiðsla fyrir. Ekki er greitt fyrir notkun í skólabókasöfnum eða fyrir tækni- og fræðisöfn. Er enn ótalið allt það efni sem notað er fjölfaldað i skólum. Sl. ár var greiðsla fyrir notkun hins opinbera á bókasöfnum 3000 kr. að meðaltali á hvern rithöfund sem verðugur þótti launanna. Enginn ríður því feitum hesti frá ríkissjóði vegna þeirrar greiðslu einnar.

E-liður er þýðingarsjóður. Hlutverk hans er að tryggja góðar þýðingar erlendra bókmennta á íslensku. Mikilvægi þess er augljóst. Heimsmenningin verður að eiga verðugan sess í menningarflórunni og hefur tilurð þýðingarsjóðs þegar sannað ágæti sitt.

Liður b-, Starfslaun listamanna. Fyrir „10 millj.“ komi: 50 millj. Þessi hækkun miðar að því að 40 árslaun til viðbótar séu til skiptanna milli listamanna. Þangað geta tónskáld, málarar, myndhöggvarar og aðrir listamenn hverju nafni sem þeir nefnast sótt um í þeirri von að geta unnið óáreitt að list sinni a.m.k. í nokkra mánuði. Þegar þess er gætt að u.þ.b. 2000 manns eru í Bandalagi ísl. listamanna er ekki mikið til skiptanna þar sem einungis lítill hluti listamanna hefur föst laun eins og fram hefur komið. Þarfnast þessi liður því varla meiri útskýringar.

Mun ég fara hraðar yfir sögu. G-liður er smáhækkun til skrifstofuhalds Bandalags ísl. leikfélaga svo ekki þurfi að klípa af fjárveitingum til áhugaleikfélaga um landið allt til að geta haldið uppi góðri þjónustu við þau 70–80 leikfélög sem árlega setja upp sýningar um allt land. Enn eitt heimsmetið og óþarfi að minnast á byggðastefnu.

H-liðurinn, Önnur leiklistarstarfsemi, tekur til leikhópa atvinnufólks utan stofnana. Þessum lið eru ætlaðar 3 millj. á fjárlögum, en till. hljóðar upp á 25. Þetta mundi nægja fyrir u.þ.b. tíu leiksýningum, þ.e. uppsetningarkostnaði og e.t.v. auglýsingakostnaði ef heppni væri með, en alls ekki fyrir launakostnaði. Meiri er bjartsýnin ekki. Það er verið að setja upp leiksýningar í öllum tiltækum skúmaskotum í Reykjavík því ekki er húsakosturinn glæsilegur. En áhorfendur setja það ekki fyrir sig. Þeir pjakka stigana upp í rjáfur eða stinga sér niður í saggafulla kjallara til að horfa á leiksýningar. En víðast hvar er húsnæðið svo lítið að einungis fáir komast að hverju sinni og því afrakstur lítill og dreifist á of margar sýningar.

Þá er það Alþýðuleikhúsið. Það er eina leikhúsið utan stofnana sem er sérliður á fjárlögum. Því eru ætlaðar rúmar 2 millj., sem sagt varla ein heil uppsetning, en till. hljóðar upp á 4 millj. Það er ein og hálf til tvær leiksýningar. Alþýðuleikhúsið hefur þegar unnið sér hefð í íslensku leiklistarlífi. Það hefur starfað í tólf ár og sett upp tugi leiksýninga, íslenskar, erlendar, barna og unglinga. Meðan Alþýðuleikhúsið hafði hús til umráða hélt það úti sérstökum hópi sem sinnti einungis börnum og unglingum. Svo var húsið rifið ofan af því. Lóðin stendur enn þá auð og óbyggð. Leikferðum sinnti Alþýðuleikhúsið meira en nokkurt leikhús á því tímabili, en þar kom að úthaldið þraut. Það eru takmörk á því hvað hægt er að syndga upp a náðina hjá kaupmanninum á horninu. Og nú býr Alþýðuleikhúsið við þröngan kost; ekkert hús, listamenn vinna launalaust. Þeir einu sem eru ánægðir eru áhorfendur.

Varðandi þessa tvo liði, þ.e. Önnur leiklistarstarfsemi og Alþýðuleikhús, er vert að geta þess að sagan hefur sannað bæði hér á landi og erlendis að mikilvægt uppeldis- og nýsköpunarstarf á sér stað í litlu leikhópunum utan stofnana. Stofnanir fjárfesta yfirleitt ekki í óreyndu listafólki vegna kostnaðar yfirbyggingarinnar og einungis fátæk leikhús hafa efni á því að taka áhættu. Það er því mjög mikilvægt ræktunarstarf sem fer fyrir bí ef ekki verður úr bætt hvað varðar fjárhag og fljótlega hafist handa við útvegun húsnæðis og ætti Alþingi að vinda að því bráðan bug í samvinnu við Reykjavíkurborg. En þangað til væri ósköp notalegt ef einhverju af því fjölmarga leiklistarfólki sem ótrautt heldur áfram ræktunarstarfinu væri gert lífið örlítið auðveldara.

Íslenska óperan fær nú verulega hækkun á fjárlögum. Það eru u.þ.b. 9,2 millj. kr., þ.e. ekki hækkunin heldur fjárhæðin öll. En þetta fé er bundið við rekstur hússins, Gamla bíós, og launakostnað vegna starfsfólks hússins þar sem auðvitað er enginn listamaður. Ekkert er eftir til uppsetninga. ekkert til að launa listafólk. Eftir áramót eru fyrirhugaðar tvær sýningar í Íslensku óperunni, Don Giovanni eftir Mozart og Litli sótarinn eftir Benjamin Britten sem er barnaópera. Áætlaður uppsetningarkostnaður er 10 millj. og ekki öll kurl komin til grafar enn. Það á eftir að reka sýningarnar. Kvöldkostnaður er mikill því þátttakendur eru yfirleitt margir, kór og hljómsveit fyrir utan einsöngvara. Sem dæmi má taka að áætlaður tekjuafgangur hverrar sýningar á Don Giovanni er 148 þús. kr. og er þá miðað við mjög góða sætanýtingu. Eftir 25 sýningar er, ef sú áætlun stenst, búið að greiða 57% stofnkostnaðar og mikið fleiri sýningum þarf ekki að reikna með, alla vega hvergi nærri 50.

Við eigum fjölmarga vel menntaða söngvara og m.a. vegna árangurs Íslensku óperunnar hafa augu alheimsins æ meir beinst að íslenskum söngvurum ég er nú verið að lokka marga þeirra til starfa utan landsteinanna. Íslenska óperan er þeirra eini fasti starfsgrundvöllur eins og málum er háttað í dag og því gefur auga leið að við verðum að sjá til þess að starfsemi þar dragist ekki saman heldur aukist. Enn er sagan sú sama. Áhorfendur fjölmenna en dugir ekki til. Því hljóðar till. upp á 30,2 millj.

Um Íslensku tónverkamiðstöðina ætti að vera óþarfi að hafa mörg orð. Þar fer fram víðtæk útgáfa og kynningarstarfsemi innan lands sem utan. Það er mikilvægt að gefa út íslensk verk í nótnaskrift svo þau glatist ekki, eins að gefnar séu út hljómplötur með efni íslenskra tónskálda fluttu af íslensku tónlistarfólki. Það að kostur er á nótum gerir að verkum að auk varðveislugildis er miklum mun auðveldara en áður að koma verkum íslenskra tónskálda á framfæri erlendis. Það kann að koma einhverjum á óvart, en mjög mikið er flutt af verkum íslenskra tónlistarmanna á erlendri grund og grunar mig að margir þeirra hafi meiri tekjur af flutningi verka sinna utan landsins en hér heima þó sjaldan sé um stórupphæðir að ræða.

Íslenska hljómsveitin berst í bökkum, stendur samt í stórræðum eins og dæmin sanna. Er skemmst að minnast tónleika í Hallgrímskirkju í gær þar sem komu við sögu listamenn úr fremstu röðum, bæði myndlistarmenn, tónlistarmenn, skáld o.fl. Þarna er á ferðinni gott dæmi um íslenskan stórhug, dugnað og e.t.v. óraunsæi.

Auk þess eru hér tillögur um smáhækkanir hér og þar. Munar þar mestu um 5 millj. kr. til tónlistarstarfsemi. Koma þar helst til styrkir til tónleikahalds og 4 millj. kr. hækkun til myndlistarmanna, en þeir njóta sáralítilla styrkja. Þá vantar helst fé til útgáfustarfsemi ýmiss konar, fjölföldunarframleiðslu og til að standa straum af myndlistarsýningum heima og erlendis. Áfram mætti telja, en það væri líklega að æra óstöðugan.

Þó framlög til lista og menningarmála fari heldur skár út úr þessum fjárlögum en undanfarin ár ber þess að geta að samdráttur varð talsverður í tíð síðustu ríkisstjórnar. Þessi fjárlög koma málum í svipað horf og var fyrir hennar tíð. Því verður kannski hæstv, forsrh. tíðrætt um listir og menningu að hann situr ekki lengur á sæti fjmrh., getur skotið sér undan ábyrgð á útdeilingu fjár til þeirra mála.

Ég hef oftlega setið á fundum ýmiss konar með stjórnmálamönnum, alþm. og menntamálaráðherrum um menningarmál. Aldrei hef ég heyrt þá ljá máls á öðru en að stórhækka þyrfti framlög, þau væru til háborinnar skammar o.s.frv., haft í frammi margvísleg rök sem öll hníga í eina átt. Allir fjölyrða þeir um að hér sé um svo litla upphæð að ræða, enda innan við 1/2% af fjárlögum, að enginn vandi sé að kippa þessu í lag. Því er það þá ekki gert? Ég skora á hv. alþm., fjvn. og ríkisstjórn að hugsa sitt ráð djúpt áður en þeir hafna öllum þessum tillögum og láta ekki orðin nægja lengur. Oft var þörf, en nú er nauðsyn.