14.12.1987
Sameinað þing: 32. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2145 í B-deild Alþingistíðinda. (1510)

1. mál, fjárlög 1988

Eggert Haukdal:

Herra forseti. Með ári hverju hefur stöðugt minnkað sá hluti fjárlaganna sem fer til verklegra framkvæmda. Eyðslan, rekstrarliðirnir, taka stöðugt til sín stærri hlut. Þau fjárlög sem hér eru til umræðu snúa því miður þessari þróun ekki við. Þótt hver fjmrh. eftir annan hyggist draga úr eyðslu og finna breiðu bökin til að borga skattana verður minna úr en ætlað er og við endanlega gerð sígur jafnan í sama farið.

Við framlagningu þessara fjárlaga sýndist víða vera gengið fram með hnífinn en þó ekki þar sem helst skyldi, heldur ráðist á ýmsa þætti sem óhjákvæmilega verða að standa í hverjum fjárlögum. Nú við 2. umr. mun takast að leiðrétta nokkuð af slíkum málum þótt betur verði að gera við 3. umr., þar á meðal að hækka ýmsa framkvæmdaliði.

Breyting á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga má ekki fara fram á kostnað sveitarfélaganna. Fagna ber að fyrirhugað er að fresta yfirtöku sveitarfélaganna á tónlistarskólunum og er vonandi að farsælar leiðir finnist í því máli við nánari athugun. Í sambandi við þær skattahækkanir sem fyrirhugaðar eru vil ég láta koma fram að ekki kemur til greina að mínum dómi að leggja söluskatt á fisk og brauð og er því mótmælt sökum þess að fiskur er ein aðalneysluvara á flestum heimilum og einnig með þeim rökum að forðum mettaði meistarinn fólkið með brauði og fiski og það án matarskatts.

Ég kveð mér fyrst og fremst hljóðs vegna brtt. fjárveitinganefndarmannanna hv. 6. þm. Suðurl. og hv. 4. þm. Suðurl. á þskj. 264. Þessir hv. þm. stóðu að skiptingu allrar nefndarinnar á framkvæmdaliðum án þess að gera athugasemd um Suðurland. Síðan birtust þau á fundi þm. Suðurlands með skiptinguna frá fjvn. og útskýrðu það sem kæmi í hlut Suðurlands. Á þessum fundi kom engin athugasemd frá þeim um fjárveitingar til Suðurlands. Við hv. 5. þm. Suðurl., Guðni Ágústsson, gerðum athugasemdir við ýmsa liði, m.a. við fjárveitingu til sjúkrahúss Suðurlands og hjúkrunarheimilis á Hellu, auk ýmissa skóla sem koma illa út. Gerðum við m.a. fyrirvara um nokkra liði að viðstöddum hv. þm. Óla Þ. Guðbjartssyni og Margréti Frímannsdóttur. Engar undirtektir komu fram hjá þeim við okkar mál. Báðir hv. þm. vissu þá og síðan að leita varð leiða til að auka framlög til Suðurlands við 3. umr. Framgangur þeirra bendir ekki til mikils vilja um samvinnu milli þm. Suðurlands sem þau hafa gjarnan hátt um að á skorti hjá öðrum þm. Þessa var óhjákvæmilegt að geta við þessa umræðu.

Ég lýsi framkomu nefndra þm. í yfirboðum hina ómerkilegustu og ekki til þess fallna að greiða fyrir málum. En meira er í pokahorninu. Á þskj. 263 flytur hv. þm. Óli Þ. Guðbjartsson, einn, urmul af brtt. um aukningu fjárframlaga til framkvæmda í öllum kjördæmum landsins. Þessa dagana minnir meistarinn mikli frá Nazaret á nærveru sína sem jafnan áður í tæp 2000 ár og boðar okkur ljós og líf. Að þessu sinni fer fyrir meistaranum sem frelsandi engill fyrir öll kjördæmi landsins hv. 6. þm. Suðurl., sbr. þskj. 263.