20.10.1987
Sameinað þing: 6. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 205 í B-deild Alþingistíðinda. (158)

Sláturleyfi sláturhússins á Bíldudal

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég geri ráð fyrir því, þó að ég viti það ekki alveg upp á víst, að fyrir einum eða tveimur dögum hafi verið sjónvarpsviðtal við yfirdýralækni sem hér er til umræðu. Ef það hefur ekki verið hann var þar alla vega annar dýralæknir sem hefur komið að þessu máli. Svör við öllum spurningum sem fyrirspyrjandi frá ríkisfjölmiðlum lagði fyrir þann mann voru alltaf á sama veg: Þetta er ekki lengur mitt mál. Þetta er mál ráðuneytisins. Ég vísa þessu til ráðuneytisins. Það verður að tala um þetta við ráðuneytið.

Nú segir hæstv. landbrh. að lög nr. 30 frá 1966 leyfi honum ekki að taka ákvörðun. Ég tek undir þetta vegna þess að þeir hv. alþm. sem sátu hér á þeim tíma sem ég var fjmrh. muna að ég lét dreifa skýrslu sem var úrtak úr lagasafninu yfir öll þau mál sem snerta landbrn. og landbúnað á Íslandi. Ég held að ef hæstv. ráðherrar og hv. alþm., sem fengu þá skýrslu, hafa lesið hana hafi þeim verið ljóst eftir þann lestur að það er ákaflega fátt í lögum sem gerir landbrh. kleift að taka nokkra ákvörðun sem snertir landbúnaðarmál. Ég ætla að fá þessari skýrslu dreift á ný vegna þess að þriðjungur þm., sem nú eru hér komnir til starfa, er nýr. Þá geta menn áttað sig á því hvað hér er um að ræða.

Hér er hlaupin þvílík stífni í afgreiðslu á þessu máli að ég legg til við hv. 8. þm. Reykv. að hann búi til brtt. um aukin völd ráðherra í þessu máli og leggi hana fram og ég skal beita mér fyrir því að þeir þm. Borgarafl. sem ég get haft áhrif á verði meðflm. ásamt mér og að þeirri breytingu verði hraðað í gegnum hv. Alþingi. Ég lýsi stuðningi mínum við málflutning hv. 8. þm. Reykv.