16.12.1987
Efri deild: 25. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2260 í B-deild Alþingistíðinda. (1656)

47. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þær umræður sem hafa orðið um það frv. sem hér er til umfjöllunar og húsnæðismál almennt. Ég hygg að það megi draga þá ályktun af þeim umræðum, sem hér hafa orðið, að ekki sé ágreiningur um það frv. sem hér er til umfjöllunar þó fram hafi komið í máli ræðumanna, sem hér hafa talað, að lengra þyrfti að ganga en frv. gerir ráð fyrir. Um það er ég alls ekki ósammála þeim ræðumönnum sem hér hafa talað, þvert á móti sammála, enda kom það fram í mínu máli við 1. umr. þessa máls í Nd. að með þeim breytingum sem hér eru lagðar fram væri aðeins stigið fyrsta skrefið í heildarendurskoðun sem nauðsynlegt er að fram fari á húsnæðislánakerfinu. Hér væri einungis með þessum till. verið að skapa svigrúm til að fara yfir í endurskoðun á húsnæðislánakerfinu sem ég hygg að allir séu sammála um að sé nauðsynlegt. Borgarafl., sem hér leggur fram ítarlegar tillögur um framtíðarskipulag húsnæðismála, er því væntanlega einnig sammála að það þurfi að skapa svigrúm til að fara yfir í nýtt húsnæðislánakerfi með þeim hætti sem ég hef hér gert ef marka má að þm. hans flytja ákvæði til bráðabirgða við sitt húsnæðisfrv. sem er það frv. næsta óbreytt sem ég lagði fram á hv. Alþingi.

Til marks um hvað nauðsynlegt er að skapa það svigrúm sem þetta frv. mun gefa vil ég nefna að ef að óbreyttu hefði verið opnað fyrir húsnæðislánakerfi nú hefði strax þurft að afgreiða 4000 umsóknir af þeim 6000 sem fyrir liggja og hefði það kostað um 10–12 milljarða sem hefði strax farið út í bindandi lánsloforðum. Við vitum það, hv. þm., að ýmsir hafa notað pappíra sem þeir fá frá Húsnæðisstofnun, þessi bindandi lánsloforð, og selt á verðbréfamarkaðnum með þó nokkrum afföllum. Tel ég í því sambandi rétt að upplýsa að ég fékk í dag í hendurnar frá Húsnæðisstofnun úttekt sem var gerð á þessu máli, á viðskiptum með lánsloforð og lögð var fram í húsnæðismálastjórn í gær.

Þar kemur fram að frá því að sala lánsloforða hófst í vor hafi 148 einstaklingar samtals selt sín lánsloforð og það hafi verið seldir 185 lánshlutar fyrir samtals um 150 millj. kr. Það eru um 15 millj. kr. sem reiknað er með að þessir 148 einstaklingar þurfi að greiða í kostnað, þar af eru afföll rúmar 12 millj. og sölulaun tæpar 3 millj. kr. Ég vitna í niðurstöður sem fram koma í þessum gögnum frá Húsnæðisstofnun, en þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Frá því að fjármögnun út á lánsloforð átti sér stað í vor hafa 150 millj. kr. streymt út á fasteignamarkaðinn fyrir tímann. Þetta fjármagn hefur skapað gífurlega þenslu á fasteignamarkaðinum og hafa fasteignir rokið upp í verði. Þeir aðilar sem stunda þennan viðskiptamáta hafa hagnast um 15 millj. kr. á þessum viðskiptum. Vegna stöðvunar á útgáfu lánsloforða til þeirra er sóttu um lán frá og með 13. mars sl. er að draga úr þessum viðskiptum og hækkanir eru ekki eins örar og þær voru í sumar. Nú hefur hins vegar skapast mikil spenna og eftirvænting vegna væntanlegrar útgáfu lánsloforða. Reiknað er með hækkunum og jafnvel enn þá meiri þenslu á fasteignamarkaðinum en verið hefur til þessa. Er það vegna mikils fjölda umsækjenda sem eru nú í biðstöðu og fá þá lánsloforð í hendurnar þegar útgáfa þeirra fer af stað aftur.

Nauðsynlegt er að stemma stigu við þeirri þróun sem einkennt hefur fasteignamarkaðinn að undanförnu, þ.e. þenslu og hækkandi verði á fasteignum umfram verðlag yfirleitt. Ef sala lánsloforða heldur áfram með fyrrgreindum hætti má búast við að fyrrgreind þróun eflist á ný.

Til að koma í veg fyrir að svo fari eru þeir möguleikar fyrir hendi að gefa út lánsloforð í breyttri mynd og þá senda einfaldlega út tilkynningu um að umsóknin sé í lagi og að viðkomandi fái frekari upplýsingar um lánið þegar nær lánveitingu dregur. Í öðru lagi að hafa lánsloforð í óbreyttri mynd en hafa fyrirvara á sjálfum loforðunum um að það væri hreinlega bannað að fjármagna út á þau hjá fjárfestingaraðilum.“

Hér kemur greinilega fram, herra forseti, að það er tilhneiging í þá átt að selja þessi lánsloforð og ljóst af þeim upphæðum sem hér hafa verið tilgreindar að há upphæð fer hjá umsækjendum í afföll og sölulaun eða samtals um 15 millj. hjá 148 lántakendum sem hafa selt lánsloforð fyrir samtals 150 millj. kr.

Ég hygg að þær upplýsingar sem hér hafa komið fram svari kannski að nokkru leyti þeirri spurningu sem til mín var beint af hv. þm. Júlíusi Sólnes en hann hélt því fram í sínu máli að strax hefði verið hægt að afgreiða um 2000 manns sem eru að kaupa í fyrsta sinn og vitnaði þar til 7. mgr. 12. gr. húsnæðislaganna. Að vísu kom hv. þm. sjálfur inn á ástæður þess að slíkt hefur ekki verið hægt. Það er einfaldlega vegna þess að frá 13. mars og fram í september var fjármagn uppurið og ekki höfðu tekist samningar við lífeyrissjóðina fyrr en í septembermánuði.

Það hefur komið fram í umræðunni að enn hafi ekki nema 25 lífeyrissjóðir samið við Húsnæðisstofnun eftir að samningar tókust og skýringar á því eru að lífeyrissjóðirnir eru að bíða eftir þeirri niðurstöðu sem verður á afgreiðslu þessa frv. sem við ræðum hér í hv. deild.

Í annan stað má nefna sem ástæður fyrir því að ekki hefur enn verið hægt að afgreiða þessi 2000 manns sem hv. þm. Júlíus Sólnes nefndi að það er einmitt tilgangurinn með frv. sem hér er flutt að ákvæði þess nái til umsókna sem lagðar hafa verið fram frá 13. mars sl. og er þar ákvæði 2. gr. frv. sérstaklega mikilvægt í því sambandi. En ef þessum 2000 manns sem hv. þm. nefndi hefðu verið gefin lánsloforð strax hefði það einmitt getað skapað þá spennu á fasteignamarkaðinum sem hv. þm. Guðmundur Ágústsson lýsti í sínu máli þegar hann vitnaði í bréf Félags fasteignasala. Þetta er einmitt mikilvægasta ákvæði frv., 2. gr., til þess að hafa stjórn á því mikla fjármagni sem er hjá Húsnæðisstofnun að það fari ekki allt út á fasteignamarkaðinn í einu með þeim afleiðingum að fasteignaverðið rjúki upp.

Hv. þm. Borgarafl. hafa flutt hér tvö ítarleg frv. á hv. Alþingi um húsnæðismál sem þeir hafa gert mjög að umtalsefni nú þegar við fjöllum um frv. sem hér er til umræðu. Hér er um mjög ítarlegar tillögur að ræða um framtíðarskipulag húsnæðismála og hefur greinilega verið lögð í það mikil vinna og er það lofsvert af þm. Borgarafl. að leggja fram hér á hv. Alþingi sinn valkost eða þær tillögur um húsnæðiskerfið eins og hv. þm. Borgarafl. helst vildu sjá það. Ég tel þó að heppilegra hefði verið að flytja brtt., þær sem þeir flytja við frv. sem við hér ræðum, sem sjálfstætt frv.

Í reynd er það svo, eins og ég kom inn á í mínu máli, að þm. Borgarafl. viðurkenna að það þurfi að flytja frv. í þá veru sem við ræðum í dag þar sem þeir flytja það sem ákvæði til bráðabirgða við sitt frv. og auðvitað er það viðurkenning á því að það þurfi að skapa svigrúm til þess að hægt sé að fara yfir í nýtt kerfi. En að baki till. Borgarafl. liggur sú grundvallarhugsun að Húsnæðisstofnun hafi fyrst og fremst skyldum að gegna við þá sem nauðsynlega þurfa á niðurgreiddu fjármagni að halda og ég er sammála þessari grundvallarhugsun og það kom reyndar fram í framsöguræðu minni við 1. umræðu málsins í Nd. að ég teldi að hluta af verkefnum Húsnæðisstofnunar ríkisins ætti að flytja yfir í bankakerfið og Húsnæðisstofnun ætti fyrst og fremst að hafa skyldum að gegna við þá sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð og þá sem eru að stækka við sig hóflega af fjölskylduástæðum.

Það verður næsta viðfangsefni að takast á við í húsnæðismálum og eru stjórnarflokkarnir sammála um að það þurfi að fara í slíka endurskoðun, enda kemur það fram í nál. meiri hl. sem lagt var fram í Nd. en þar er greint frá í hvaða heildarathugun þurfi að ráðast að mati meiri hl. nefndarinnar á húsnæðislánakerfinu í framhaldi af því að frv. verður að lögum.

Ég get farið að stytta mál mitt, herra forseti. Ég vil þó svara því sem fram kom hjá Guðmundi Ágústssyni þar sem hann vitnaði í bréf Félags fasteignasala og fram kom í hans orðum að hann teldi að frv. sem við ræðum hér mundi enn auka á þenslu á fasteignamarkaðinum og vitnaði til þess að enn ætti að fara að setja ákveðna hópa í forgang sem mundi þá skapa þenslu á fasteignamarkaðinum. Að þessu var vissulega hugað í samningu frv. og það kemur einmitt fram í athugasemdum við það en þar stendur, með leyfi forseta:

„Við gerð reglugerðarákvæðis um skiptingu umsækjenda í hópa eftir forgangi verður að hafa í huga að húsnæðismarkaðurinn er afar viðkvæmur fyrir framboði og eftirspurn. Markaðurinn er mjög samofinn og fjármál eins kaupendahóps hafa áhrif á kaup annarra. Til þess að koma í veg fyrir að þetta valdi röskun á fasteignamarkaði verður að vinna af mikilli varfærni þegar farið verður af stað að afgreiða lánsloforð eftir rýmri reglum.“

Ég dreg þetta fram til þess að sýna hv. þm. fram á að þetta var vissulega haft í huga þegar var verið að semja frv. og ég tel einmitt að ákvæði þess tryggi það betur en áður að komið verði í veg fyrir þessa þenslu vegna þess að nú er heimilt, ef frv. verður að lögum, að flytja umsækjendur í forgang sem eiga íbúðir fyrir, en sem ekki eru fullnægjandi vegna fjölskylduaðstæðna. Þá losnar þar með um íbúðir sem færu þá á markaðinn fyrir þá sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð en það var ekki heimilt áður.

Að lokum, herra forseti, spurði hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir um fyrirætlanir lífeyrissjóðanna. Ég hygg, eins og fram kom í mínu máli áðan, að lífeyrissjóðirnir hafi fyrst og fremst haldið að sér höndum þar sem óvissa ríkti um frv. sem er til umræðu. Ég vænti þess að verði þetta frv. að lögum hér á hv. Alþingi fljótlega muni um leið opnast fyrir það að lífeyrissjóðirnir kaupi skuldabréf af Húsnæðisstofnun.

Að því er varðar fsp. hv. þm. Svavars Gestssonar um hvenær vænta mætti að þeir 6000 umsækjendur sem nú bíða úrlausnar sinna mála fái afgreiðslu vil ég segja það að ef frv. verður að lögum mun ég leggja alla áherslu á að framkvæmdin á því gangi fljótt og vel fyrir sig og að fljótlega eftir áramót verði hægt að opna fyrir húsnæðiskerfið á nýjan leik.