16.12.1987
Neðri deild: 28. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2366 í B-deild Alþingistíðinda. (1738)

137. mál, launaskattur

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Þeim snjóar nú yfir okkur skattafrumvörpunum. (MB: Það er eina snjókoman.) Það er eina snjókoman, já. Góðviðrið nær sem sagt ekki inn á Alþingi. Ég óttast að menn fari að gerast svolítið sljóir í nálægð jólanna og skoði kannski ekki allt sem yfir okkur snjóar með nægilega glöggum augum. Ég spái því að ekki líði á löngu áður en við þurfum að leiðrétta eitt og annað sem hv. þm. verður á í óðagotinu.

En hvað þetta frv. varðar erum við kvennalistakonur í rauninni sammála því að búa eigi þannig að atvinnulífinu að þar sé greinum ekki mismunað. Þær beri þar sömu skyldur og búi við svipuð kjör og önnur skilyrði til reksturs. Við erum t.d. þeirrar skoðunar að ríkið eigi að vera sem hlutlausast gagnvart atvinnugreinum, afskiptin, eða það væri nær að segja stuðningur, eigi að vera fyrst og fremst fólgin í ráðgjöf, markaðsöflun og kynningarstarfsemi og fyrirgreiðslu um fjármagn sem mismuni ekki atvinnugreinum. En sú er vitanlega ekki raunin, enda varla framkvæmanlegt. Að okkar mati er ekki rétti tíminn núna til að leggja launaskatt á sjávarútveginn. Við vitum öll hver er undirstöðuatvinnuvegurinn í þessu þjóðfélagi. Þess vegna hljótum við að skoða mjög vel hvernig þar stendur á og hvort rétt er að raska högum í þeirri grein.

Sjávarútvegurinn býr nú við margs konar óvissuþætti. Það er stefnt að samdrætti í sjávarafla, fiskveiðistefnan hefur ekki verið endanlega mótuð, það er óvissa í útflutningsmálum, gengisþróun hefur valdið mikilli röskun sem engan veginn er séð fyrir endann á og svo mætti áfram telja.

Það er einnig mikilvægt atriði að hér er um atvinnuveg að ræða sem fyrst og fremst er stundaður á landsbyggðinni, en hún á nú undir högg að sækja um flesta þætti. Menn skyldu athuga að þangað sótti góðærið ekki eða í miklu minna mæli alla vega. Þenslan hefur í litlu náð til landsbyggðarinnar. Góðærið fór þar hjá garði. Því er enn fráleitara að leggja þennan skatt á nú. Það væri í raun skattur á dreifbýlið.

Niðurstaða okkar er að það sé óverjandi að auka álögur á undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar við þessar aðstæður og við styðjum því ekki þetta frv.