16.12.1987
Neðri deild: 29. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2374 í B-deild Alþingistíðinda. (1750)

163. mál, veiting ríkisborgararéttar

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um veitingu ríkisborgararéttar eins og það kemur frá Ed. og vísa til þskj. 176 og brtt. sem Ed. samþykkti og er á þskj. 287.

Í 1. gr. voru í upphaflegri gerð þessa frv. talin nöfn 18 manna sem sótt hafa um íslenskan ríkisborgararétt og að mati dómsmrn. uppfylla ótvírætt þau skilyrði sem hið háa Alþingi hefur sett fyrir veitingu ríkisborgararéttar á undanförnum árum. Þegar ég mælti fyrir frv. í Ed. lágu fyrir í dómsmrn. nokkrar umsóknir um ríkisborgararétt sem á ýmsan hátt virtust meðmælaverðar þótt þær uppfylltu ekki að öllu leyti þau skilyrði sem Alþingi hefur yfirleitt sett fyrir veitingu ríkisborgararéttar á undanförnum árum. Þessar umsóknir sendi ég hv. allshn. Ed. þegar hún fékk frv. til meðferðar. Hv. allshn. Ed. tók afstöðu til þessara umsókna og bætti við 13 nöfnum í 1. gr. frv. eftir könnun á hverju máli og naut við það verk aðstoðar embættismanna Alþingis svo sem venja er. Ég er sammála nefndarmönnum um tillögur þeirra eins og þær birtast á þskj. 287 og mæli fyrir þeim. Í 2. gr. frv. eru sömu ákvæði um nafnabreytingar þeirra manna erlendra sem ríkisborgararétt öðlast og gilt hafa síðustu ár.

Ég legg áherslu á að þetta mál fái afgreiðslu fyrir jólaleyfi þingsins. Sú aðferð, sem tíðkast hefur á undanförnum árum, að afgreiða frumvörp um veitingu ríkisborgararéttar aðeins einu sinni á ári við lok þings að vori er að mínum dómi ekki alls kostar heppileg. Úrlausn á þessu mikilvæga persónubundna máli fólks og fjölskyldna dregst þannig oft úr hófi fram. Mér virðist því eðlilegra að afgreiða þessar umsóknir a.m.k. tvisvar sinnum á ári. Ég áforma því að flytja annað frv. eftir áramót um þetta efni eftir því sem ástæða er til.

Hæstv. forseti. Till. sem ég geri er sú að þeir sem uppfylla nú þau skilyrði sem Alþingi setur til að hljóta íslenskan ríkisborgararétt hljóti hann nú með samþykkt þingsins á þessu frv. fyrir jól.

Ég legg til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.