16.12.1987
Neðri deild: 29. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2375 í B-deild Alþingistíðinda. (1751)

163. mál, veiting ríkisborgararéttar

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir orð hæstv. dómsmrh. og lýsa stuðningi mínum við það frv. sem hann hefur kynnt hér. Það hefur fengið sína eðlilegu afgreiðslu í fyrri deild. En hann boðaði breytingar á afgreiðslu þessara mála þannig að í stað þess að afgreiða nýja borgara einu sinni á ári, erindi útlendinga, yrði það afgreitt tvisvar á ári.

Ég vil beina athygli hæstv. ráðherra að því að þegar hið nýja frv. hans kemur fyrir Alþingi verði gætt að því að um gagnkvæmni verði að ræða milli ríkja. Það er mjög auðvelt að komast inn og út og jafnvel verða ríkisborgari á Íslandi og ekki í neinu samræmi við það sem er annars staðar og tala ég af þeirri bitru reynslu sem einn af mínum heimilismönnum á í á þessu augnabliki. Hann hefur beðið nú í ætli það sé ekki um hálft ár eftir dvalarleyfi í Bandaríkjunum, hefur ekki fengið svar enn þá og á meðan er fjölskyldan án fyrirvinnu á staðnum. Það er því ekki nein gagnkvæmni í samskiptum Íslands og Bandaríkjanna, hvorki hvað snertir aðgang að landinu né heldur dvalarleyfi.