17.12.1987
Sameinað þing: 35. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2474 í B-deild Alþingistíðinda. (1810)

Greinargerð utanrrh. um byggingu flugstöðvar

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Við fengum ágætt dæmi endurtekið fyrir okkur um hvernig hæstv. forsrh. snýr út úr hlutunum. Hann forðast eins og heitan eldinn að koma með beinar tilvitnanir í það sem hér hefur verið sagt en fer í einhverja hringi út í tómarúmið til að reyna að sýna fram á að einhver hluti ræðumanna hafi ástundað slæma röksemdafærslu. Þetta er óskaplega dapurlegt. (Forsrh.: Má ekki sýna fram á það? Er það ekki hægt?) Jú, ef það væri hægt og þá ætti líka að gera það með beinum tilvitnunum í það mál sem hér hefur verið flutt.

Varðandi það að ég vilji ekki að hæstv. ráðherrar eða aðrir sem vitna í skýrslu Ríkisendurskoðunar tíni þar til eitthvað sem jákvætt geti talist fyrir byggingarnefnd, þá er það fjarstæða. Það sem ég sagði var að ég vil að það sé vitnað til hlutanna í samhengi. Mér finnst óeðlilegt þegar á heilli blaðsíðu er fjallað með mjög neikvæðum hætti um einhverja tiltekna hluta málsins, en í einni einustu setningu finnast kannski málsbætur fyrir einhverja aðila að þá sé sú eina setning tínd út úr. Það var það sem ég gagnrýndi, herra forseti, og geri enn. Ég hef sjálfur lesið upp úr skýrslu Ríkisendurskoðunar hluti sem eru bæði neikvæðir og jákvæðir fyrir einstaka framkvæmdaaðila eins og byggingarnefndina. Ég t.d. las upp áðan, eins og reyndar forsrh. hafði heyrt, þann hluta skýrslunnar sem staðfestir að byggingarnefndin hafði heimildir ráðherra. Ég dró það ekki undan, enda ekki ástæða til.

Herra forseti. Hér er ljósrit úr Morgunblaðinu daginn sem flugstöðin var opnuð. Þá kom út heill kálfur, einhvers konar mini-þjóðhátíðarútgáfa af Mogganum, upp á tugi blaðsíðna og sömu daga voru heilar opnur, heilar breiðsíður með árásum á þann sem hér stendur og ýmsa fleiri sem höfðu leyft sér að draga í efa ágæti þessara framkvæmda. Það er því eðlilegt að talsmönnum Sjálfstfl. í þessari umræðu sé brugðið. Það er ekki á hverjum degi sem menn fá kosningavíxil allt að því upp á 1 milljarð í hausinn fjórum dögum eftir að kosningum lýkur.