19.12.1987
Efri deild: 33. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2704 í B-deild Alþingistíðinda. (2064)

63. mál, lánsfjárlög 1988

Júlíus Sólnes:

Virðulegur forseti. Hér hefur farið fram afar fróðleg og athyglisverð umræða um efnahagsmál og hefði hún mátt koma öllu fyrr því hér hefur margt komið í ljós sem er forvitnilegt fyrir okkur þm. stjórnarandstöðunnar í hv. Ed. og hlýtur að skipta sköpum við afgreiðslu þeirra mikilvægu mála sem nú eru á dagskrá í hv. Ed.

Hæstv. forsrh. hélt athyglisverða ræðu þar sem hann lýsti því yfir að ekki væri stefnt að rekstrarafgangi 1988 og til að ná hallalausum ríkissjóði væri ekki hægt að slaka á. Einnig kom fram í máli hans að það yrði að hafa algeran forgang að ná sköttum af almenningi. Annað mætti bíða, þ.e. að íhuga hvar annars staðar mætti fá tekjur í ríkissjóð, hvort þyrfti að taka harðar á fyrirtækjunum í landinu. Nei, það átti að hafa algeran forgang að leggja íþyngjandi skattaálögur á almenning. Þetta út af fyrir sig kemur ekkert á óvart því að þetta er búið að vera inntakið í umræðunni undanfarnar vikur. Það eru þessar geysilegu skattaálögur sem allur almenningur býr sig nú undir að taka á herðar sínar eftir áramótin.

Annars barst okkur í þann mund sem hæstv. forsrh. kom í ræðustól afar merkilegt plagg frá Þjóðhagsstofnun sem er reyndar stílað til hv. þm. Halldórs Blöndals, 2. þm. Norðurl. e., formanns fjh.- og viðskn. Hæstv. forsrh. las upp hluta úr bréfi Þjóðhagsstofnunar til fjvn. Ég ætla eins, með leyfi virðulegs forseta, að lesa eina málsgr. í þessu bréfi, en þar stendur:

„Að öðru leyti byggist þessi tekjuáætlun á forsendum þjóðhagsáætlunar, sem lögð var fram á sama tíma og fjárlagafrv. í október, um almennar efnahagshorfur á næsta ári. Þessar horfur þarfnast endurskoðunar vegna ýmissa breytinga sem hafa orðið að undanförnu eða eru fyrirsjáanlegar. Þjóðhagsstofnun vinnur nú að þessari endurskoðun, en telur sér ekki fært að ljúka henni fyrr en eftir áramót þar sem ýmsar mikilvægar forsendur þjóðhagsspár eru enn óráðnar.“

Þetta sýnir betur en ella að það er alveg rétt, sem hefur komið fram m.a. í máli hv. 5. þm. Reykv., formanns Borgarafl., Alberts Guðmundssonar, þegar hann lýsir því blákalt yfir að fjárlagafrv. og lánsfjárlagafrv. séu í raun fölsuð plögg. Það er ekkert mark takandi á þessum plöggum. Það er ansi hart að þurfa að keyra í gegn hérna rétt fyrir jólin slík fölsuð plögg, því að þau breytast frá degi til dags. Hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar koma upp hver á fætur öðrum og lýsa því yfir að það sé í raun og veru allt í steik, eins og kom fram í máli hv. 7. þm. Reykv. rétt áðan.

Í fskj. með bréfi Þjóðhagsstofnunar er greinargott yfirlit yfir tekjuáætlun fjárlaga og heildartekjur ríkissjóðs fyrir árin 1983–1988. Við skulum aðeins líta á hvað er að gerast varðandi fjárlagafrv. 1988. Þar kemur fram að talið er að beinir skattar hækki ekki nema um 8 millj. kr. frá því að frv. var lagt fram í byrjun þings, 10. október, vegna þeirra breytinga sem hæstv. ríkisstjórn hefur gert á frv. Hér er um afar einkennilega málsmeðferð að ræða vegna þess að eftir 1. umr. um fjárlagafrv. er því vísað til fjvn., og meðan hún er að dunda við að yfirheyra ýmsa smákarla úr þjóðfélaginu, sveitarfélögin og ýmsar stofnanir, er hæstv. ríkisstjórn að gerbreyta öllum forsendum fjárlagafrv. Spurt er því hvort hér séu á ferðinni einhver ný vinnubrögð.

Öllu alvarlegra er þó þegar litið er á dæmið með óbeinu skattana eins og það hefur breyst í meðförum hæstv. ríkisstjórnar á fjárlagafrv. en ekki í meðförum fjvn. Þar kemur fram að óbeinir skattar alls hafa hækkað um 3,3 milljarða kr. frá því að fjárlagafrv. var lagt fram og þangað til breyttar forsendur koma hér í byrjun desember.

Ég sagði áðan að þetta væru fölsuð plögg og í raun og veru er ekkert vit í að afgreiða þessi fölsuðu plögg fyrir jól. En því miður er það kannski í mótsögn að best væri að afgreiða þessi plögg sem allra fyrst. Með hverjum mánuði þinghaldsins sem líður hækka skattar á almenning í landinu um 11/2 milljarð á mánuði ef ekki meir því að hér sjáum við að heildartekjur ríkissjóðs hafa hækkað um rúmlega 3,3 milljarða frá því að frv. er lagt fram og fram til dagsins í dag þannig að þetta er rúmlega 11/2 milljarður á mánuði. Kannski ættum við í framtíðinni að flýta okkur að samþykkja þessi fölsuðu plögg, helst eins og skot, svo það sé ekki hægt að hækka skatta á almenning í landinu um fleiri milljarða meðan mál eru í eðlilegri meðferð hjá Alþingi.

Hér hefur farið fram, eins og ég gat um, mjög skemmtileg og fróðleg umræða um vextina. Var afar fróðlegt að heyra orðaskipti hæstv. ráðherra þar sem þeir reyndu að koma sökinni hver á annan. Hæstv. viðskrh. Jón Sigurðsson benti réttilega á að hæstv. utanrrh. hefði oft og tíðum vakið athygli á því hve vextir væru háir, en allt hefði þetta þó gerst í tíð hans sem forsrh. í fyrri stjórn. Þar hefði grundvöllurinn verið lagður að því raunvaxtaokri sem núv. hæstv. utanrrh. hefur svo mjög áhyggjur af.

Annars, eins og ég gat um í máli mínu fyrr í dag, fer maður að spyrja að því hvort hæstv. utanrrh. ætli sér ekki að reyna að þvo hendur sínar af þessu öllu saman og bera því við, þegar verður farið að rífast fyrir næstu kosningar, að hann hafi því miður verið fjarverandi. Því hafi hann ekkert ráðið við samráðherra sína þegar þeir voru að koma öllum þessum sköttum og álögum á almenning.

Í raun og veru, eins og kom fram í máli manna fyrir nokkrum dögum, væri orðið tímabært, jafnvel þó að við séum í mikilli tímaþröng, að nota heilan dag á Alþingi til að ræða lánskjaravísitölu og vaxtastefnuna sem er við lýði í þjóðfélaginu. Það er komið fram á þingi þmfrv. um að afnema lánskjaravísitölu. Um það getur orðið fróðleg umræða þegar frv. loksins kemst á dagskrá. Ég er ekki í nokkrum vafa um að lánskjaravísitalan á stóran þátt í því að þetta svokallaða raunvaxtaokur er eins hrikalegt og hæstv. utanrrh. vakti svo skemmtilega máls á í blaðagrein í morgun, sem búið er að vitna mikið í hér í dag.

En það er annað sem vakti athygli mína þegar ég las blöðin í morgun. Í Morgunblaðinu, með leyfi virðulegs forseta, er sagt frá gengistryggðum innlánsreikningum sem taka gildi eftir áramót. Af því að hér situr hæstv. viðskrh. Jón Sigurðsson langar mig til að spyrja nánar út í þetta. Ég ætla að lesa þessi skrif Morgunblaðsins, með leyfi virðulegs forseta. Blaðagreinin byrjar svo:

„Gengistryggðir innlánsreikningar eftir áramót. Reglugerð um gengisbundna innlánsreikninga í bönkum og sparisjóðum var í gær staðfest af Jóni Sigurðssyni viðskrh. Reglugerðin, sem tekur gildi 1. janúar nk., heimilar bönkum og sparisjóðum að taka við innlánum sem tengd verða reikningseiningu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins SDR eða Evrópureikningseiningu ECU og mun innistæðan breytast eftir því sem gengi íslensku krónunnar gagnvart þessum gjaldmiðlum breytist.“

Þegar við rifjum það upp að hæstv. fjmrh. hafði hér eina nóttina uppi orð um að hann hygðist grípa til efnahagsráðstafana strax eftir áramótin fer að læðast að manni grunur að eitthvað sé í bígerð, eitthvað skrýtið muni gerast kringum áramótin þar sem þessi grein kemur í kjölfarið á þessum ummælum hæstv. fjmrh. Ég spyr: Á nú að fara að lauma inn gengisfellingu um áramótin? Það má gera með ýmsum hætti. Einn fyrrv. fjmrh. kallaði slíkt „gengissig í einu stökki“ og það voru ýmsir tilburðir uppi um að reyna að fela slíkar gengisfellingar.

Núv, hæstv. ríkisstjórn stendur mjög fast á svokallaðri fastgengisstefnu. Henni má lýsa á máli stærðfræðinnar með þeim hætti að gengið myndar feril sem er samhliða ás, tímaásnum. Nú er það svo að ef gengið annaðhvort sígur eða breytist myndast halli annaðhvort upp á við eða niður á við á þessum ferli. En það vill svo til, ef menn kunna eitthvað fyrir sér í stærðfræði, að hægt er að komast fram hjá þessu á einn mjög svo skemmtilegan hátt. Það er að flytja ferilinn til, lækka ferilinn en hann heldur áfram að vera fastur. Það er fastgengisstefna. En þarna er um ósamfellu að ræða. Kannski eru hæstv. ráðherrar búnir að leysa þetta stærðfræðidæmi og um áramótin verði gripið til þess að notfæra sér þessa kenningu í stærðfræðinni um ósamfellda ferla.

Þó að gengið taki eitthvert ósamfellt stökk niður á við um áramótin er eftir sem áður um fastgengisstefnu að ræða. Ferillinn verður áfram samhliða ásnum og þannig er hægt að bjarga sér fyrir horn með því að beita fyrir sig smákúnstum í stærðfræðinni sem oft er gert.

Einn ágætis útflytjandi kom að máli við mig. Við vorum að skoða gott fyrirtæki hans í kjördæmi mínu, Reykjaneskjördæmi, í byrjun desember. Þá sagði þessi útflytjandi við mig: „Ja, það er björgulegt að verða, þetta ástand. Ef dollarinn fer niður fyrir 37 kr. get ég alveg eins lokað sjoppunni.“ Ég hef ekki hitt þennan ágæta útflytjanda síðan. Dollarinn er kominn langleiðina niður undir 36 kr. svo ég geri ráð fyrir því að hann hafi lokað sjoppunni nema hann sé enn þá að reyna að streitast við. Kannski hefur hann fengið einhverjar upplýsingar um að það eigi að beita þessum stærðfræðikúnstum með gengið um áramót. Það verður fróðlegt að vakna eftir gamlárskvöldið á nýársdag og heyra hvað hefur gerst yfir áramótin, svo mikið er víst.

Kannski við ættum að ræða lítillega um lánsfjárlög í leiðinni. Það mun vera það mál sem er á dagskrá og væri ekki úr vegi að fjalla um það líka. Við í minni hl. í hv. fjh.- og viðskn. skiluðum minnihlutaáliti þar sem við leggjum til að þessu máli verði hreinlega vísað frá vegna þess að allar forsendur lánsfjáráætlunar og reyndar fjárlaga einnig virðast vera tóm vitleysa. Þetta eru, eins og margoft hefur verið sagt og hv. 5. þm. Reykv. Albert Guðmundsson hefur líka ítrekað, allt saman fölsuð plögg. Til hvers á að vera að bera þetta fyrir virðulega deild? Því ekki að senda þetta til föðurhúsanna og fá það almennilega unnið til baka?

En ég vil gera nokkrar efnislegar athugasemdir við lánsfjárlagafrv. Það er eitt sem er skemmtilegt í því dæmi að í meðförum hv. fjh.- og viðskn. hafa erlendar lántökur verið stórauknar. Ég er út af fyrir sig samþykkur sumum þeirra vegna þess að í vissum tilvikum er verið að leysa brýn vandamál sem varð að leysa. Ef ekki er hægt að leysa þau með öðrum hætti en með erlendum lántökum verður svo að vera. En það er ansi fróðlegt fyrir þá sem muna eftir því að hæstv. ráðherrar í ríkisstjórninni hafa barið sér hér á brjóst, frá því að þessi blessuð ríkisstjórn kom til valda 8. júlí sl., og sagt að erlendar lántökur yrðu ekki leyfðar í tíð þessarar hæstv. ríkisstjórnar. Sérstaklega hefur hæstv. fjmrh. haft uppi um það mörg orð að hann muni ekki leyfa neinar erlendar lántökur. Þær verði einungis til þess að standa straum af afborgunum og vöxtum af þeim erlendu lánum sem við höfum þegar tekið. Hann hefur haft uppi um það mörg og fögur orð. Reyndar geta virðulegir þm. í hv. deild flett upp á fskj. 7 með lánsfjárlagafrv. Það er fréttatilkynning um erlendar lántökur þar sem er vísað nánar í það að ekki eigi að taka nein erlend viðbótarlán hvorki á árinu 1987 eða á árinu 1988 umfram það sem nauðsynlegt reynist til að standa í skilum vegna þeirra erlendu lána sem við því miður erum enn þá með.

Það er ein góð verklagsregla, sem var tekin upp í tíð fyrrv. fjmrh. Alberts Guðmundssonar, að lánsfjárlög og fjárlög skyldu afgreidd samtímis. Ég held að þetta sé mjög góð regla svo fremi að sé yfirleitt hægt að afgreiða þessi plögg, að þau séu ekki tóm markleysa. Það er ekkert vit í að afgreiða fjárlög né lánsfjárlög ef um er að ræða einhverja markleysu. En að öðru jöfnu, ef ríkisstjórn situr við völd sem er treystandi til að fara með þessi mál þannig að það sé þá eitthvert vit í þeim, ber að sjálfsögðu að afgreiða bæði lánsfjáráætlun og lánsfjárlög og fjárlög samtímis fyrir jól.

Nú tala menn að vísu um að það verði kannski að fresta ýmsum málum jafnvel fram yfir áramót því að mér sýnist allt stefna í það að það sé gjörsamlega útilokað að við getum héðan af lokið þessu þinghaldi fyrir jól. Jafnvel þó að við stjórnarandstöðuþingmennirnir í báðum deildum hættum algjörlega að taka til máls og gerðum ekkert annað en vera með í afgreiðslu mála; með því annaðhvort að rétta upp hendur með eða á móti mundu þessi mál samt ekki klárast fyrir jól. Það hefur líka margoft komið fram að það eru ekki endilega við stjórnarandstöðuþingmennirnir sem höldum langar ræður. Það eru hv. stjórnarliðarnir sjálfir og kannski eru allra fremstir í flokki þar hæstv. ráðherrar sem þurfa mikið að tala í hvert skipti sem þeir koma upp í ræðustól. Ég held að það sé alveg ljóst að við ljúkum þessum málum ekki héðan af fyrir jól.

Það hefur verið talað um að lánsfjárlögin megi þá bíða, en ég ítreka að ég tel að það sé rétt þrátt fyrir allt að reyna að afgreiða bæði lánsfjárlög og fjárlög samtímis. Hvort það verður gert fyrir áramót eða einhvern tíma seint í janúar skal ósagt látið, en ég held að við verðum að gera þær kröfur, stjórnarandstöðuþingmennirnir, að það sé eitthvert mark takandi á þessum plöggum. Að þetta séu ekki fölsuð plögg eins og við höfum komist að undanfarið, þar sem verið er að breyta þessu í alls konar stofnunum úti í bæ samhliða því sem við erum að ræða þessi plögg inni á þingi. Í raun og veru vitum við ekki frá degi til dags hvað er að marka þær tölur sem standa í þessum plöggum, hvorki lánsfjárlögum né í sjálfum fjárlögunum.

Ég held að við getum haldið áfram umræðunni um lánsfjárlög eitthvað fram eftir kvöldi ef verkast vill. Ég hef lokið máli mínu, virðulegur forseti.