19.12.1987
Neðri deild: 33. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2753 í B-deild Alþingistíðinda. (2088)

194. mál, verkaskipting ríkis og sveitarfélaga

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Nú er komið til 2. umr. afar mikilsvert mál sem er frv. til laga um breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Ég segi mikilsvert mál ekki vegna þess að þetta frv. sem slíkt sé eitthvert fagnaðarerindi, því miður er svo ekki, heldur af þeirri ástæðu að hér er verið að gera tillögur af hálfu ríkisstjórnar og meiri hluta hennar hér á Alþingi og tekið undir af meiri hl. í félmn. að ráðast nú í svokallaðan fyrsta áfanga í breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Og það skiptir auðvitað afar miklu, og þar er ég sammála því sem kom fram hjá talsmanni meiri hl. félmn., hv. þm. Alexander Stefánssyni, að það skiptir afar miklu að þær ákvarðanir sem teknar verða takist vel. Og af þeim ástæðum er nauðsynlegt að vanda til þess verks sem verið er að boða með þessu frv.

Ég hef farið yfir álit meiri hl. og minni hl. félmn. og það hefur þegar komið fram að áheyrnarfulltrúi Alþb. í félmn. hv. deildar, hv. 4. þm. Norðurl. e., styður nál. minni hl. félmn. Ég er að sjálfsögðu sammála honum um það viðhorf. Mér sýnist að minni hl. hafi fært mjög veigamikil og gild rök fyrir þeirri skoðun að vísa beri þessu máli til ríkisstjórnarinnar til þess að yfir þetta mál verði farið að nýju með allt öðrum hætti en gert hefur verið til þessa í samvinnu við sveitarfélög í landinu og þingflokka á Alþingi. Svo hér er verið, því miður, að boða vegferð sem enginn sér fyrir endann á. Og ég tek undir með hv. 12. þm. Reykv. Kristínu Einarsdóttur þegar hún greindi frá í sínu máli og tekið var undir af hv. 4. þm. Norðurl. e., að hér er byrjað á öfugum enda. Það er nú kjarni málsins. Það er kjarni málsins. Það er byrjað á öfugum enda, tilfærslu í ýmsum atriðum, fjárhagslega tiltölulega veigalitlum liðum fyrir sveitarfélögin en þó allflóknum, og ekki bara sveitarfélög heldur sem snerta marga fleiri aðila, og annað skilið eftir. Það er einkennið a þessum svokallaða fyrsta áfanga.

En áður en ég kem að frv. sjálfu, virðulegur forseti, í einstökum atriðum þá kemst ég ekki hjá því að ræða svolítið almennt um viðhorf til þessara mála, þ.e. stjórnskipunarinnar í landinu, spurningarinnar um skiptin milli þeirra stjórnsýslustiga sem við nú höfum og hugmynda um breytingar á þessari undirstöðuskipan stjórnsýslunnar sem er mikið til umræðu í landinu og snertir í grundvallaratriðum það mál sem hér er á dagskrá. Þar á ég við þá spurningu sem mikið hefur verið rædd á Alþingi í byggðanefnd þingflokkanna, í endurskoðunarnefnd stjórnarskrár landsins, í umræðum um frv. um breytingu á stjórnskipun Íslands sem flutt hafa verið hér á Alþingi og um land allt, þ.e. spurningin um það hvort ekki sé rétt og tímabært, til þess að dreifa valdi og auka lýðræðisleg áhrif almennings í landinu, að stofna til nýs stjórnsýslustigs sem kallað hefur verið þriðja stjórnsýslustigið eða millistigið í stjórnsýslunni og ýmist eru nefnd héruð, héraðsstjórnir eða fylki í hinni almennu umræðu.

Ég hef verið talsmaður þess bæði hér á hv. Alþingi, í mínum þingflokki og í almennum umræðum í landinu að það sé rétt og tímabært raunar fyrir löngu að stofna til millistigs í stjórnsýslunni, efna til stærri eininga, skipta landinu upp í stærri heildir til viðbótar við sveitarfélögin sem séu þess megnugar að taka við með myndugum hætti stórum verkefnum sem nú eru á hendi ríkisins og færa umsjá þeirra og ráðstöfun fjármagns er þau snertir nær fólkinu innan héraða og undir stjórn lýðræðislega kjörinna héraðsstjórna.

Ég held að það hefði verið æskilegt að menn næðu landi í umræðu um þetta efni eins og svo mörg önnur sem snerta valddreifingu í landinu og möguleika á áhrifum almennings áður en farið væri að taka á þeim þætti hverju skuli ráðstafað, t.d. af þeim verkefnum sem ríkið nú styður og stjórnar, til sveitarfélaga og að sumu leyti öfugt að því er fjárhagslegan stuðning snertir, að sveitarfélögin taki á sig ákveðna þætti.

Ég vil aðeins fara yfir það hér, virðulegur forseti, að fyrir tveimur árum voru sett hér ný sveitarstjórnarlög, nr. 8/1986. Þessi lög voru ekki með þeim hætti sem væntingar stóðu til um af hálfu þeirra sem unnu að undirbúningi þeirra og lögðu frv. hér fram á hv. Alþingi til þeirra laga, hvað þá til að uppfylla væntingar þeirra sem barist hafa fyrir því að auka áhrif landsbyggðarinnar og koma þar upp nýju afli sem einhverju máli skipti í togstreitunni um völd og áhrif við ríkisvaldið sem hreiðrað hefur um sig hér í höfuðstað Íslands, hefur hér sínar miðstöðvar, hefur átt hlut í því að gera Reykjavík og Reykjavíkursvæðið að því sem það er í dag, ofvöxnu höfuði í stóru en fámennu landi. Og þar hefur áhrifamöguleikum stjórnskipunarinnar ekki verið beitt sem skyldi til þess að andæfa gegn þessari þróun. Því miður.

Menn minnast þess vafalítið að í frv. til sveitarstjórnarlaga, sem lagt var fram hér á þinginu 1985–1986 og endurflutt haustið 1986, var sérstakur kafli um héraðsstjórnir. Þar endurspeglaðist sú hugsun að koma upp millistigi í stjórnsýslunni, að vísu ekki nákvæmlega með þeim hætti sem ég hef mælt með að gert yrði, vegna þess að það voru agnúar á því verulegir, bæði á stærð þeirra héraða sem þar voru lögð til svo og kjör til héraðsstjórna sem áttu að fara með málefni þessara svæða. En engu að síður var þetta mál flutt inn í stjfrv. í áttina að því sem kröfur höfðu staðið til um.

Við meðferð þessa máls hér á Alþingi á hinu síðara þingi 1985–1986 lagði ég fram brtt. við frv. um myndun héraða, um að endurreisa þann kafla í breyttu formi sem þáverandi stjórnarmeirihluti heyktist á að þoka fram og lögfesta, kaflann um héruð og héraðsstjórnir. Ég gerði það að tillögu minni þá að landinu yrði skipt upp í jafnmörg héruð og kjördæmin eru í landinu, þ.e. átta talsins. Sú tillaga var hugsuð af minni hálfu þannig að einfaldast væri að ganga þannig til verka að miða við núverandi kjördæmaskipan vegna þess að margháttað samstarf fer fram meðal sveitarfélaga á grundvelli kjördæmaskipunar í landinu og í ýmsu öðru formi, þar á meðal varðandi starfsemi sem við erum að ræða hér, að vísu ekki nákvæmlega skipt eftir kjördæmum, sumpart á sýslugrundvellinum gamla, þ.e. í sambandi við sýslufélögin, og þá á ég m.a. við íþróttastarfsemina sem er einn þáttur af því frv. sem hér er til umræðu.

Ég lýsti því þá yfir og ég lýsi því yfir enn að ég er til viðræðu um einhverja aðra landfræðilega skiptingu í sambandi við þriðja stjórnsýslustigið í landinu. Ég er fyllilega til viðræðu um aðra skipan en ég var að leggja til, það er mér ekki heilagt. En ég held að þetta þurfi að vera tiltölulega stórar einingar og þurfi helst að falla að núverandi félagslegu kerfi í landinu eins vel og auðið er og þar sýnist mér að kjördæmin geti gilt, nema hér á höfuðborgarsvæðinu. Það var eina breytingin sem ég gerði tillögu um að yrði frá því að fella þetta að kjördæmaskipan, þ.e. höfuðborgarsvæðið yrði eitt hérað, höfuðborgarsvæðið sem slíkt frá Hafnarfirði upp í Mosfellssveit að Seltjarnarnesi meðtöldu, og Suðurnes eða Reykjanes að öðru leyti, Reykjaneskjördæmi, sem ekki yrði innan höfuðborgarhéraðsins, yrði sérstakt hérað sem kallaðist Suðurnes.

Í tillögum um breytingu á frv. til sveitarstjórnarlaga útfærði ég þessa hugmynd nánar og gerði það að tillögu í formi lagatexta að til héraða skyldi færa hið fyrsta eftirtalda malaflokka að því er varðar svæðisbundin verkefni. Og ég vil leyfa mér að nefna þessa málaflokka af tilefni þessarar umræðu hér í dag, virðulegur forseti.

Svæðisbundin verkefni: 1. Húsnæðismál. 2. Almannatryggingar. 3. Skipulagsmál. 4. Byggðamál. 5. Menntamál. 6. Þjóðminjavernd. 7. Heilbrigðismál. 8. Vegamál. 9. Orkumál. 10. Opinbert eftirlit. 11. Ráðgjöf í atvinnumálum.

Þessari tillögu fylgdi að samhliða slíkri tilfærslu verkefna frá ríkinu til héraða skyldi dregið úr umsvifum Stjórnarráðsins og ríkisstofnana á höfuðborgarsvæðinu.

Ég vil skýra þetta aðeins nánar. Hugsunin er ekki sú að afmunstra Stjórnarráð Íslands á þessu malasviði. Það er ekki hugsunin. Heldur að koma upp svæðisbundinni stjórn á þeim málaflokkum sem ég hér tilgreindi í tillögu minni, en auðvitað gátu og geta ýmis önnur komið þar til greina. Þegar menn hafa rætt um tilfærslu eða uppbyggingu ríkisstofnana úti um land hefur þetta stundum verið kallað útibúaleiðin, en sá munur er á þessari tillögu að þarna er ætlunin ekki að ríkið sem slíkt ráði yfir þessu heldur héruð og lýðræðislega kjörnar héraðsstjórnir yfir þeim þáttum mála er varða viðeigandi svæði.

Þessar tillögur hlutu ekki hljómgrunn. Þessi tillaga mín var felld hér á Alþingi eða fékk þann andbyr að hún náði ekki fram að ganga og fylgdu henni þó tillögur um tekjustofna. Því það er eðlilegt að um það sé spurt þegar við ræðum um þetta mál hér: Var þm. á þessum tíma bara að gera tillögur um verkefnaflutning án tekjustofna? Svo var ekki. Það fylgdu þessu útfærðar tillögur um tekjustofna héraða. Hvernig tryggja skyldi að héruðin fengju tekjustofna til þess að standa undir uppbyggingu á þeirri svæðisbundnu starfsemi og yfirstjórn sem þarna var gerð tillaga nm. Og það fylgdi einnig útfærð tillaga í formi frumvarpstexta um það hvernig kosið skyldi til yfirstjórnar þessara héraða, þessara svæða sem þarna var gerð tillaga um að stofnað yrði til.

Ég minni á þetta, virðulegur forseti, vegna þess að hér er um að ræða undirstöðuatriði þegar verið er að meta hversu langt á að ganga og hvernig á að ganga að því verkefni að skipta upp verkum milli stjórnsýslustiga í landinu, sem nú eru aðeins tvö, eftir að sýslurnar, sem voru nú eins konar botnlangi í kerfinu með vissum hætti, en voru, ég segi illu heilli, afnumdar með lagasetningunni þegar sveitarstjórnarlögin voru samþykkt 1986 og eiga að leggjast af sem sjálfstæðar heildir í árslok 1988. Ég segi því miður illu heilli, vegna þess að það hefði vissulega verið eðlilegt að taka upp sýsluskipanakerfið í landinu og setja í staðinn nýtt millistig í takt við tímann. Í takt við þróun mála í landinu, byggðamála, samgöngumála og annarra þátta nútímalífs á Íslandi. En ekki að leggja sýslurnar niður með þessum flausturslega hætti sem gert var með þessari lagasetningu og hverfa frá og kistuleggja þá tillögu sem m.a.s. birtist í stjfrv. að efna til myndunar formlegra héraða sem millistigs í stjórnsýslunni.

Ég er þeirrar skoðunar og hef lengi verið að það sé mikil þörf á því að leitast við að andæfa gegn miðstýringartilhneigingum í íslensku samfélagi. Kemur það svolítið þvert á það sem almennt er verið að reyna að núa okkur alþýðubandalagsmönnum um nasir þegar ágætir menn, sem hafa fengið uppeldi sitt í æskulýðsfélögum hægrifylkingarinnar í landinu, Heimdalli og öðrum slíkum, eru að flytja ræður sínar eða skrifa í málgögn sín, þá leitast þeir gjarnan við að koma þeim stimpli á Alþb. að það sé flokkur miðstýringar. Það sé flokkur sem vilji hafa allt undir ríkisforsjá, undir einu miðstýrðu valdi. Ef nokkuð er öfugmæli þá er það það viðhorf. Vissulega höfum við ætíð viljað tryggja að velferðarmal og jöfnunarmál í landinu væru tryggð með löggjöf og það giltu ein lög yfir Ísland á þeim grundvelli að menn nytu hér jafnréttis, óháð búsetu, á sem flestum sviðum. En verkefnin bæði í atvinnulífi og í félagsmálum eru best komin nálægt heimavettvangi sem viðfangsefni þeirra sem taka þátt í þeim og hafa best skilyrði til þess að leysa viðkomandi þætti.

Þessi viðhorf, herra forseti, endurspeglast í þingmáli sem ég hef þrívegis ásamt hv. 4. þm. Norðurl. e. flutt hér inn á Alþingi í formi þáltill. um nýja byggðastefnu og valddreifingu til héraða og sveitarfélaga. Þessi till. kom síðast fram á þskj. 39 1986, sem 39. mál á því þingi og var rætt þar í þriðja sinn en ekki afgreitt frá nefnd. Ég hef ekki hreyft þessu máli á yfirstandandi þingi, þó ég hafi flutt hér ásamt fleiri þm. Alþb. ýmis mál sem snerta byggðamál í landinu, og mun ég aðeins víkja að því síðar eftir ástæðum í umræðunni því það snertir það efni sem hér er til umræðu.

En ég vil víkja aðeins að efni þeirrar tillögu um valddreifingu til héraða og sveitarfélaga sem ég nefndi til þess að menn skilji hvaða hugsun er þarna á ferðinni. Ég vil leyfa mér til að stytta mál mitt, herra forseti, að fara yfir nokkur tölusett meginatriði eins og þau koma fram í upphafi grg. með þessari till. um nýja byggðastefnu og valddreifingu, en þar segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Með þáltill. þessari um nýja byggðastefnu og valddreifingu er gert ráð fyrir róttækri breytingu í byggðamálum með það að markmiði að efnaleg staða landsbyggðarinnar styrkist sem fyrst og sjálfræði einstakra landshluta og sveitarfélaga í eigin málum vaxi til muna frá því sem nú er. Till. gerir ráð fyrir að þessum markmiðum verði m.a. náð með eftirtöldum hætti:

1. Rekstrarstaða frumvinnslugreina, sjávarútvegs og landbúnaðar, verði strax leiðrétt og milliliðir og þeir sem sitja í yfirbyggingunni í þjóðfélaginu komist ekki upp með að blóðmjólka þær lengur.

2. Hlutur landsbyggðarinnar í þjónustustarfsemi verði markvisst aukinn, m.a. með tilfærslu opinberra þjónustuþátta og viðskiptastarfsemi út í landshlutana.

3. Nýsköpun í atvinnumálum verði að verulegu leyti miðuð við eflingu atvinnulífs út um land, reist á góðu skipulagi, virkri ráðgjafarþjónustu og frumkvæði heimamanna.

4. Aðstaða heimila og atvinnustarfsemi á landsbyggðinni verði bætt með því að draga úr mismun á gjaldtöku fyrir opinbera þjónustu svo sem orku og fjarskipti.

5. Komið verði á héraðsstjórnum sem kjörnar verði með lýðræðislegum hætti í hlutfallskosningum innan viðkomandi þjónustusvæða eða kjördæma.“ — Það er það mál sem ég hef nánar útskýrt hér áðan og flutti um sérstaka brtt. við sveitarstjórnarlagafrv. þegar það var hér síðast til umræðu.

„6. Héraðsstjórnir fái tekjustofna til að raðstafa í verkefni í ýmsum málaflokkum á viðkomandi svæði. Slíkir tekjustofnar taki m.a. mið af framleiðslustarfsemi á svæðinu og athugað verði að veita til héraða í samræmi við íbúafjölda ákveðnum hundraðshluta af söluskatti eða öðrum tekjustofnum sem ríkið hefur not af.

7. Ýtt verði undir stækkun sveitarfélaga með samruna þannig að lífvænlegar einingar myndist í atvinnumálum, félagsmálum og daglegri þjónustu.

8. Sveitarfélögin fái aukið sjálfræði í tekjuöflun svo og nýja tekjustofna samhliða nýjum verkefnum frá ríkinu.

9. Sjálfstjórn fámennra byggða varðandi sérmálefni haldist að miklu leyti þótt sveitarfélögin stækki. Í því skyni verði kosin hreppsráð í stað hreppsnefnda er fari með heimamálefni í samvinnu við sveitarstjórn.

10. Verkefni Byggðastofnunar verði flutt út í landshlutana þar sem myndaðir verði þróunarsjóðir og komið á fót þróunarstofum er vinni að hagrænum málum og áætlanagerð á vegum héraðsstjórna.“

Þetta eru þau tíu tölusettu atriði sem fylgdu till. til þál. um nýja byggðastefnu og valddreifingu til héraða og sveitarstjórna.

Ég hef íhugað að taka þetta mál enn og aftur upp á Alþingi vegna þess að hafi það verið brýnt fyrir þremur árum er það enn brýnna í dag. Ég tel að það sé ein viðbótarröksemd við það sem fram kemur í annars ágætu áliti minni hl. félmn. þess efnis að vísa frv. sem við ræðum hér til ríkisstjórnarinnar að það sé brýnt og nauðsynlegt að taka héraðaskipanamálin upp til umræðu í þinginu, marka þar stefnu og láta reyna á það hvort vilji er fyrir slíkri nýskipan eða ekki. Er hægt að ná samstöðu um slíka nýskipan? Það mun gerbreyta grunninum undir því sem hér er til umræðu með hvaða hætti á að auka sjálfræði byggðanna, með hvaða hætti, hvað á að vera í hlut sveitarfélaga. Það er margt og margt sem á að koma þar til viðbótar, en hvað er betur komið hjá millistigi í stjórnsýslunni í héruðum sem í aðalatriðum gætu fallið að kjördæmaskipan í landinu?

Ég þarf ekki að rifja upp, virðulegur forseti, að starfandi var hér að tilhlutan eða með samkomulagi þingflokka fyrir fáum árum sérstök byggðanefnd þingflokkanna sem skilaði áliti í júlí 1986 um þróun byggðar, atvinnulífs og stjórnkerfis í ágætri samantekt sem frá henni kom, eftir að þingflokkarnir höfðu fengið til umræðu ákveðnar hugmyndir frá nefndinni. Þessi nefnd var að mig minnir, virðulegur forseti, sett á laggirnar í febrúarmánuði 1985 og var skipuð tilkvöddum fulltrúum þingflokka. Af hálfu míns þingflokks sat í nefndinni þáverandi 2. þm. Austurl. Helgi Seljan, sem því miður er ekki lengur meðal okkar í þingsölum, en hann vann mikið starf í þessari nefnd eins og fulltrúar annarra flokka og þeir náðu þar góðri samstöðu innbyrðis um tillöguflutning sem varðaði stjórnskipun í landinu. Í þessum hópi var m.a. hv. 10. þm. Reykn. Kristín Halldórsdóttir sem fjallaði þar um þessi mál með öðrum fulltrúum þingflokkanna og stóð að því áliti sem þaðan kom um þessi efni. Ég held það sé ástæða til þess, virðulegur forseti, að athuguðu máli, vegna þess að það er það margt af nýju fólki sem er komið inn á Alþingi og þessar tillögur hafa legið í óþægilega miklu þagnargildi undanfarin missiri eða a.m.k. frá því að kosið var síðast til þings á Íslandi, frá því sl. vor, að rifja upp um hvað var samstaða í byggðanefnd þingflokkanna varðandi það efni sem við ræðum hér. Það er ekki mjög löng tilvitnun þannig að ég held að það sé ekki ofætlan, þó við höfum mikið að gera, að minna á kjarnann í þessu áliti. Þar segir, virðulegur forseti, með þínu leyfi:

„Sérstaka áherslu verður að leggja á að veruleg breyting er óhjákvæmileg ef vinna á að aukinni valddreifingu og virkara lýðræði með umtalsverðri tilfærslu verkefna og fjármálaábyrgðar frá ríki til heimastjórnvalds þannig að landsmenn geti í auknum mæli ráðið eigin málum eins og fyrir er lagt.“

Þetta er sameiginleg niðurstaða nefndarinnar, þ.e. byggðanefndar þingflokkanna. Á hinn bóginn greinir einstaka nefndarmenn á um hvernig breyta eigi stjórnkerfi ríkis og sveitarfélaga í einstökum atriðum til þess að tilætluð áhrif náist. (Forseti: Ég vil upplýsa ræðumann um það honum til hægðarauka að það er ætlunin að gera hálftíma hlé á þessum fundi kl. fimm vegna fundar forseta og formanna þingflokka. Það fer þá eftir atvikum hvort hann kýs að ljúka máli sínu eða halda áfram eftir það hlé. Ég vildi aðeins upplýsa þetta.) Já, virðulegur forseti, ég er staddur hérna mitt í mínu máli og á eftir að fjalla um efnisþætti frv. þannig ég á ekki von á að ég ljúki máli mínu á þeim fimm mínútum sem eru þá eftir. (Forseti: Ég er að sjálfsögðu ekki að hefta málfrelsi hv. ræðumanns að neinu leyti. Þetta er aðeins til upplýsingar.) Ég þakka, herra forseti. Ég átti ekki von á því.

Í áliti byggðanefndar, svo ég nýti þann tíma sem liggur fyrir, segir í framhaldinu: „Aðalvandinn við að ná þeim markmiðum, sem nefndinni er uppálagt að stefna að með tillögum sínum, felst í því að fámennari sveitarfélögin, sem sífellt eru að veikjast, valda ekki þeim verkefnum sem þeim eru ætluð að lögum. Þau ráða því ekki við aukin verkefni nema til komi auknar tekjur frá samfélaginu öllu, stækkun sveitarfélaga eða aukin samvinna þeirra í einhverri mynd. Alkunna er að umræða um sameiningu sveitarfélaga hefur staðið í áratugi. Árangur af viðleitni í þá átt með frjálsum samningum er sáralítill. Enginn vafi er á að með sameiningu og stækkun sveitarfélaga væri hægt að sinna betur þeim verkefnum sem sveitarfélögum eru falin. Á hinn bóginn verður að benda á að sameining tveggja eða fleiri fámennra sveitarfélaga í strjálbýli leysir ekki vandann. Búast má við áframhaldandi hlutfallslegri eða beinni fækkun íbúa þeirra samkvæmt fenginni reynslu þrátt fyrir sameininguna.

Óhætt er að fullyrða“, segir byggðanefnd þingflokkanna enn fremur, „að mikil breyting þarf að verða á pólitískri afstöðu til sameiningar sveitarfélaga til að hægt sé að færa veruleg verkefni og völd frá ríkinu til sveitarfélaganna ef sú breyting ein yrði gerð á stjórnkerfinu.“

Ég vek athygli á áliti byggðanefndar þingflokkanna frá 1986.

Í framhaldi er vikið að möguleikum á samstarfi sveitarfélaga og í því samhengi segir nefndin m.a.: „Nefndin telur að styrkja beri sveitarstjórnarstigin. Til þess eigi að stefna að sameiningu sveitarfélaga eftir því sem við verður komið, aukinni samvinnu þeirra og stofnun raunverulegs jöfnunarsjóðs sem greiði ákveðin lögboðin útgjöld fámennustu sveitarfélaga. Þá ber að auka sjálfsforræði sveitarfélaganna með tilfærslu verkefna og tekjustofna frá ríkinu að svo miklu leyti sem þau verða sem stjórnunareiningar talin fær um að taka að sér aukin verkefni. Mikilvægt er að áður eða jafnhliða verði fámennustu sveitarfélögin efld með framangreindum hætti eða þeim veittur fjárhagslegur stuðningur eins og fyrr segir. Á hinn bóginn er það niðurstaða nefndarinnar að verulegum árangri í valddreifingu og virkara lýðræði verði ekki náð með slíkum ráðstöfunum einum saman. Til þess að auka svo nokkru nemi völd og áhrif landsmanna allra óháð búsetu þeirra þurfi að koma til þriðja stjórnsýslustigið sem taki við umtalsverðum verkefnum og tekjum fyrst og fremst frá ríkinu.

Þrátt fyrir mismunandi skoðanir í ýmsum atriðum varðandi útfærslu og umfang hugsanlegs þriðja stjórnstigs eru nefndarmenn sammála um að umdæmi þessi eigi að vera stór, t.d. núverandi kjördæmi. Nefndin telur að beinar kosningar eigi að verða til þessa stjórnstigs, t.d. í tengslum við sveitarstjórnarkosningar. Á þann hátt einan verður pólitískur styrkur sem næst í hlutfalli við fylgi kjósenda í hverju heimastjórnarumdæmi hverju sinni.“

Þetta er tilvitnun í meginniðurstöður byggðanefndar þingflokkanna sem skilað var til Alþingis á árinu 1986. Ég vek athygli á að þær áherslur eru í fullu samræmi í öllum meginatriðum við þær tillögur sem ég hef mælt fyrir ásamt mörgum öðrum um að koma á slíkum styrkum einingum til að taka við verkefnum frá ríkinu með öðrum og ákveðnari hætti en hægt er að gera ráð fyrir að hin fjölmörgu, á þriðja hundrað, ólíku sveitarfélög í landinu séu fær um að skipta á milli sín svo vel fari.