21.12.1987
Efri deild: 35. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2847 í B-deild Alþingistíðinda. (2112)

181. mál, stjórn fiskveiða

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Hér er vissulega komið að einu stærsta máli þingsins, sem er frv. til 1. um stjórn fiskveiða, og er ekkert óeðlilegt að það mál sé rætt nokkuð ítarlega vegna þess að hér er um að ræða mál sem snertir undirstöðu efnahags- og atvinnulífs í landinu, lífskjör fólksins og stöðu þjóðarbúsins í heild. Það þarf auðvitað engan að undra þó að í þessum umræðum komi menn nokkuð víða við. Ég kann satt að segja ekki að meta það þegar fjölmiðlar eru að gera mikið úr því að menn séu með málþóf þó að þessi mál séu sæmilega rædd. Ég kannast ekki við að hér hafi verið haldið uppi málþófi í þessari virðulegu deild a.m.k. og hef ekki frétt af því þarna úr neðra heldur. Þvert á móti finnst mér að þeir sem hafa haldið á þessum málum hér, falsmenn flokkanna, fyrr í dag hafi farið efnislega yfir málin og gert grein fyrir afstöðu sinni til einstakra þátta og einstakra brtt. Eins og gengur er þetta þannig að menn eru ekki að lesa hér upp skrifaða texta þannig að það fara kannski örlítið fleiri orð í efnisatriðin en mundi vera hjá nóbelsskáldinu t.d. Þó er fullgilt að haldið sé á málum eins og hér hefur verið gert.

Það sérkennilega við stöðuna núna er hins vegar að það hefur held ég aldrei áður gerst að þetta mál hafi í rauninni verið í jafnmiklu uppnámi og núna. Ég hef setið öll þau þing þegar kvótakerfið hefur verið til meðferðar, árin 1983, 1984 og 1985, og það hefur oft verið mikil umræða og nokkuð löng og ströng, eins og ég kem að á eftir, en ævinlega hefur það samt verið þannig að menn hafa séð nokkurn veginn fyrir endann á málinu. Ég man að vísu eftir því að haustið 1983 vorum við á fundum í Nd. þangað til kl. 5.30 um morgun og áttum ágæt skoðanaskipti þá um þetta mál, en staðan var þó allt önnur en hún er núna.

Ríkisstjórnin sem nú situr er að því leytinu til öðruvísi en hin að það eru núna kratar inni í ríkisstjórninni. Það er eins og það fylgi krötunum alltaf vesen umfram aðra menn. Þetta er í þriðja sinn á síðustu 30 árum sem menn hafa neyðst til að halda þing kringum hátíðarnar, halda þing milli jóla og nýárs og strax eftir áramót. Fyrst var það 1958. Þá var kratastjórn. Svo var það 1979 og þá var kratastjórn. Og nú er 1987 og það er auðvitað hálfgerð kratastjórn þannig séð að þeir skrifuðu Jónsbók og voru montnir af henni framan af, en það eru aðeins farnar að renna á þá tvær grímur í þeim efnum. Það er engu líkara en það sé heldur til vandræða oft með kratana í ríkisstjórnum. Þessi stjórn, sem nú situr, er ekki eins og afgreiðslufæriband heldur er hún eins og neitunarvaldsfæriband. Það er rúlla, eilífðarvél þar sem hver beitir annan neitunarvaldi og þegar allir flokkarnir eru búnir að beita hver annan neitunarvaldi hálfan mánuð eða svo fara þeir að beita neitunarvaldi hver á annan innan flokkanna og niðurstaðan verður svo algert stjórnleysi, m.a. hér á hv. Alþingi. Ég segi stjórnleysi vegna þess að auðvitað skiptir máli að þeir sem stýra verkum meiri hl. viti hvað þeir ætla að gera. Núverandi meiri hl. veit að vísu nokkurn veginn að ég held hvað hann ætlar að gera. Hann ætlar að klára öll þessi mál helst núna á einum sólarhring eða svo, ein tíu skattafrv. og smámál eins og þessa fiskveiðistjórn, og telur bersýnilega að þingsköpin, sem gera ráð fyrir þremur umræðum í hvorri deild, þvælist heldur fyrir. Það er bersýnilegt að sá meiri hl. sem hér situr nú ætlar minni hl. lítinn rétt að ekki sé meira sagt, heldur lítinn rétt. Og þegar minni hl. loksins fer að segja eitthvað um málið grenja þeir í sjónvarpinu hver í kapp við annan, formenn þingflokka stjórnarliðsins. Ég hef aldrei séð annað eins táraflóð í sjónvarpinu eins og í kvöld frá hv. 3. þm. Vesturl., formanni þingflokks Alþfl., vælandi þar skerminn upp og skerminn niður yfir því að stjórnarandstaðan væri að tala. Það er skrýtið fyrir mann sem er búinn að vera í stjórnarandstöðu lengi, lengi og hefur sjálfur orðið að taka þátt hér í umræðum aftur og aftur um hin mætustu mál. En hann er ekki fyrr orðinn aðili að ríkisstjórn en hann fer að klaga stjórnarandstöðuna utan þings og þar með náttúrlega flokksbróður sinn, hv. formann sjútvn. Ed., sem hefur staðið sig að ég hygg vel í þessu máli. Hann hefur stýrt því þannig að málið fengi þinglega meðferð þó að hann sé andvígur því í grundvallaratriðum. Ég hygg að það sé tæplega hægt að gera meiri kröfur til andstæðings kvótamálsins en að hann haldi á málum eins og hv. þm. Karvel Pálmason hefur gert.

Það er þessi væll í stjórnarliðinu yfir lýðræðinu. Það er athyglisvert hvað þeim leiðist lýðræðið, þessu stjórnarliði. En það er nokkuð sem þeir verða að læra. Allt tekur tíma. Umræður eru þrjár í hvorri deild og það er alveg ástæðulaust að vera að bera stjórnarandstöðuna mikið út á sjónvarpsskermum eins og hv. 3. þm. Vesturl. sem var að gráta yfir (EG: Ég heyrði þetta allt áðan.) meðferð stjórnarandstöðunnar á stjórnarflokkunum áðan. — Það er gott að þm. heyrði það. Þá þarf ég ekki að endurtaka það (EG: Þú getur stytt ræðu þína.) vegna þess að mér er mjög í mun að hafa mál mitt knappt, stytta ræðu mína og greiða sem mest má vera fyrir afgreiðslu mála á hv. Alþingi.

Nú bárust um það fréttir í gær að það yrði ekkert samkomulag í þinginu um eitt eða neitt. Það verður að vísu að halda jól. Það er einu sinni í landslögum að það eru ákveðnir dagar helgidagar þjóðkirkjunnar og menn vilja ekki brjóta þau lög með því að halda þing yfir bláhátíðarnar. Í þessum efnum kom fram í gær að það næðist ekki í raun og veru samkomulag um neitt og menn segja: Ja, það er allt í stórkostlegri hættu. Þá leyfi ég mér að spyrja: Hvaða hættu? Það skyldi ekki verða neinn meiri háttar héraðsbrestur þó að þetta kvótafrv. yrði ekki afgreitt fyrr en 5.-8. janúar. Ekki fiska menn þessi 315 þús. tonn á þessum fimm dögum í janúarmánuði, fyrir þorra. Það væri sérkennilegt. Ég get ómögulega séð að það liggi þessi lifandis ósköp á. Ég skil ekki þennan spreng sem stjórnarliðið virðist vera í út af þessu máli.

Eins er það um ýmis önnur mál, sem hér hafa verið til meðferðar, að það eru þessi ógnarlegu læti í að klára þetta innan sólarhrings eða svo og þó sér maður ekki að það sé neitt sem rekur svo mikið á eftir. Halda menn t.d. að þjóðin lifði það ekki af að fá matinn sinn eins og 20% ódýrari fram á 10. janúar eða svo? Halda menn að þjóðin þyldi það ekki að það yrði óbreytt verð á Chanel 5, ilmvötnum og varalitum eins og fram á 8. janúar eða svo? Ógnarlegur fyrirgangur er þetta. Ég held að það sé nauðsynlegt að menn átti sig á því að við höfum sæmilegan tíma og skulum ekki vera að klaga hvert annað í fjölmiðlum eins og gert hefur verið síðustu sólarhringana. Það er alger óþarfi.

Það er að vísu eitt mál sem þarf að afgreiða hið snarasta, ég viðurkenni það, og það er frv. til l. um tekju- og eignarskatt einstaklinga. Þannig vill til að það er verið að koma á staðgreiðslukerfi skatta og skiptir mjög miklu máli að frá því máli sé gengið hið allra fyrsta. Þannig vill til að hjá ríkinu eru laun greidd fyrir fram. Það er byrjað að keyra launatékka ríkisins annað kvöld, að kvöldi þess 22. des., þannig að í rauninni er ekki boðlegt að neinu leyti að þingið skuli ekki afgreiða það mál sem snertir staðgreiðslukerfi skatta. Þó það sé auðvitað gallað að ýmsu leyti er hitt ljóst að við höfum ákveðið að koma á staðgreiðslukerfi skatta. Af hverju í ósköpunum skyldi það ekki vera afgreitt því það hefur legið tilbúið í neðrideildarnefndinni núna í viku? Jú, það er vegna þess að Framsfl. vill koma skák á Alþfl. Skilja menn hvernig það gengur fyrir sig? Ég skal skýra það aðeins nánar.

Framsfl. vill hafa skák á Alþfl. og segja við þá: Ef þið ekki afgreiðið kvótafrv. í Ed. afgreiðum við ekkert skattafrv. í Nd. Þegar menn eru að tefla svona hvor á annan gersamlega óskyldum málum þar sem miklir hagsmunir eru í húfi, eins og staðgreiðslukerfi skatta vissulega er, er illa komið og ekki von að menn lendi hlutunum skikkanlega. Ég segi það alveg eins og er að þeir stjórnarliðar sem hafa verið að reyna að greiða úr þessum málum síðustu sólarhringana eiga alla mína samúð því þetta er bersýnilega einhver snúnasta ríkisstjórn sem hér hefur setið að því er varðar að ná samkomulagi um hlutina og jafna ég þó til þeirra stjórna sem ég sat í fyrr á öldinni og þóttu nú ekki barnanna bestar.

Það hefur komið fram, og vík ég nú aðeins að frv. , að það séu uppi hugmyndir um að á næsta ári veiði menn aðeins 315 þús. tonn af þorski, geti kannski farið í 345 þús., ýsu 65 þús. tonn, ufsa 80 þús., karfa 85 þús., grálúðu 30 þús. Ef það gengur eftir að samdrátturinn yrði niður í 345 þús. tonn þýðir það samdrátt í þorskveiðum upp á 45 þús. tonn sem hefur bersýnilega gífurleg áhrif á afkomu þjóðarbúsins á næsta ári. Ég held að það sé nauðsynlegt að við í þessari umræðu athugum aðeins hverjar séu horfurnar um stöðu þjóðarbúsins á árinu 1988. Ég held að menn megi ekki ganga að því gruflandi að hér er um að ræða eitthvert allra stærsta málið þegar rætt er um lífskjör í þessu landi. Ef við gerum ráð fyrir að þetta gangi eftir, þessi ótíðindi gangi eftir stefnir bersýnilega a að viðskiptahallinn á næsta ári getur orðið tvöfaldur á við það sem er á þessu ári, þ.e. 9–10 þús. millj. kr. Ég held að það sé óhjákvæmilegt við þessa umræðu að spyrja enn þá einu sinni: Hvaða hugmyndir eru uppi í stjórnarflokkunum um hvernig á að takast á við þennan gífurlega vanda? Við ræddum um það í fyrradag við nokkra ráðherra og það er rétt að halda því aðeins áfram: Eru menn með hugmyndir um að lækka gengið? Eru menn með hugmyndir um að taka á vaxtaokrinu, raunvaxtaokrinu eins og hæstv. utanrrh. kallar það réttilega? Eða hvaða aðrar hugmyndir eru menn með?

Nú fréttist í gær að stjórnarflokkarnir hefðu boðað til sín fulltrúa samtaka launafólks, þ.e. Verkamannasambands Íslands, og þar hafi verið boðið upp á að hækka soðninguna aðeins minna gegn því að menn settust að samningaborðinu að mér skilst. Varaformaður Verkamannasambandsins, sem á sæti í þessari virðulegu deild, tók ekki þátt í þessum leiðangri. En það væri fróðlegt að vita hvað það er sem ríkisstjórnin er að bjóða aðilum vinnumarkaðarins þessa stundina. Hvað er það? Hvaða kaupbreytingar eru það sem menn eru þarna að tala um? Eru menn kannski að gera ráð fyrir óbreyttu kaupi á árinu 1988? Ég vil segja fyrir mitt leyti að ég er algerlega sannfærður um að það gengur ekki. Það getur ekki gengið vegna þess að kaupmáttur launa hefur hrapað á undanförnum vikum um mörg prósent. Það er alveg augljóst mál að kaupið verður að hækka á næsta ári, enda er kominn tími til að þeir aðilar sem hirtu pening í góðæri liðinna ára verði látnir bera skellinn af samdrætti næsta árs ef hann verður einhver. Þeir eiga að þola þennan skell. Það á ekki að leggja hann á hinn almenna launamann í okkar landi. Ég held að það sé óhjákvæmilegt af því að við höfum hér hæstv. viðskrh., sem er eins konar faðir kvótakerfisins, að hann upplýsi okkur um hvað ríkisstjórnin er að bjóða aðilum vinnumarkaðarins. Er það gengislækkun? Er það vaxtalækkun? Er það kauplækkun eða er það kauphækkun? Varla er það gengishækkun, varla er það vaxtahækkun eða hvað? Ég hefði gjarnan viljað fá upplýsingar um þetta vegna þess að það er grundvöllur þjóðfélagsins sem við erum hér að tala um, stjórn fiskveiða. Við lifum öll á fiski, við lifum í þessu landi á fiski. Það er alveg sama hvað við gerum, hvort við erum á þingi, hvort við erum kennarar eða hvar við vinnum. Við lifum á fiski. Það er kannski eitt alvarlegasta áhyggjuefnið á Íslandi í dag að það eru færri og færri sem gera sér grein fyrir því að við lifum á fiski og fleiri og fleiri sem halda að við lifum á því að velta peningunum hvert til annars eða gefa út pappíra hvert á annað, hvort sem það er í kringlunum eða kaupþingunum eða hvað þær heita allar þessar nýmóðins sjoppur frjálshyggjunnar sem hafa verið settar hér upp á síðustu árum.

Við höfum að undanförnu fengið upplýsingar um hvernig staða utanríkisviðskipta og gjaldeyrismála er á árinu 1987 og horfur fyrir árið 1988 og ég ætla að vitna til þess, með leyfi hæstv. forseta. Í skýrslu Seðlabankans, sem heitir Greinargerð um þróun og horfur í peningamálum, gjaldeyrismálum og gengismálum skv. 4. gr. laga nr. 36/1986, dags. 7. des. 1987, segir svo, með leyfi forseta:

„Vöruskiptajöfnuður á fyrstu níu mánuðum ársins 1987 var hagstæður um 235 millj. kr. á móti 4312 millj. kr. á sama tímabili árið áður og varð þannig 4077 millj. kr. lakari á fyrstu níu mánuðum þessa árs en á sama tímabili árið áður reiknað á gengi janúarseptember Í987. Gjaldeyrisverðmæti vöruútflutnings jókst um 14,8% en vöruinnflutnings um 30,4%. Mikill munur var hins vegar á þróun útflutningsvörubirgða á tímabilinu janúar-september 1987 og sama tímabili árið áður. Á þessu tímabili í ár jukust útflutningsvörubirgðir um 175 millj. kr. en árið áður minnkuðu þær um 2360 millj. kr. Sé vöruskiptajöfnuður leiðréttur fyrir þessari sveiflu útflutningsvörubirgða og sérstökum innflutningi, sem var 1180 millj. kr. meiri 1987 en árið áður vegna stóraukins skipainnflutnings, jafnframt jafnað milli ára reynist vöruskiptajöfnuður þannig leiðréttur aðeins um 360 millj. kr. lakari í janúar-september 1987 en á sama tímabili árið áður í stað 4077 millj. kr. samkvæmt beinum greiðslujafnaðartölum.“

Ég veit að hv. þm. ná þessu alveg beint í æð um leið og þetta er lesið. Þetta er þessi gullaldartexti frá opinberum stofnunum sem við þm. erum vanir að lesa og finnst óskaplega gaman að velta fyrir okkur.

„Aukning varð á útfluttri þjónustu um 8,9% og innfluttri um 11,1%. Halli á þjónustujöfnuði á fyrstu níu mánuðum 1987 varð 2790 millj. kr. sem er um 570 millj. kr. lakari en á sama tímabili árið áður. Viðskiptajöfnuður í heild var neikvæður um 2555 millj. kr. á fyrstu níu mánuðum ársins en jákvæður um 2090 millj. kr. á sama tímabili árið áður og varð þannig 4,6 milljörðum kr. lakari í ar en í fyrra, en þar af má rekja 3,7 milljarða kr. til áðurgreindrar sveiflu útflutningsvörubirgða og sérstaks innflutnings. Í talnasamanburði við fyrra ár er miðað við janúar-september bæði árin á gengi janúar-september 1987 nema annað sé sérstaklega tekið fram.“

Þannig er sýnt fram á í þessari skýrslu Seðlabankans að það hefur sigið mjög á ógæfuhliðina á þessu ári og er alveg augljóst mál, hvernig sem þessir hlutir eru skoðaðir, að efnahagsráðstafanir núv. ríkisstjórnar hafa að engu leyti orðið til að koma á móti þessum vanda útflutningsatvinnuveganna og viðskiptanna við útlönd eins og hefði auðvitað þurft að gera strax á miðju þessu ári. Gleggstu tölurnar um þessa þróun eru þær upplýsingar sem nú liggja fyrir um raungengi krónunnar og þróun þess frá 1980 til dagsins í dag. Þar kemur það fram að ef við segjum að raungengi krónunnar hafi verið 100 1980 var það 106,7 1981, 101,2 1982, hrapar svo niður í 84,8 1983, 84,5 1984, 85,8 1985, 86,9 1986, fer svo upp í 103,8, takið eftir, hækkar um 19,4% raungengi krónunnar á þessu ári, og á árinu 1988 er því spáð að það hækki um 12,3%. Við þessar aðstæður hlýtur maður að spyrja: Hvaða vit er í þessum töflum Seðlabankans þegar því er spáð að raungengi krónunnar hækki um 35% á tveimur árum? Hvernig er farið að því?

Ég hef spurt að því áður úr þessum ræðustól: Getur það verið að kauphallirnar í Tókýó og New York hafi frétt af efnahagsundrinu mikla á Íslandi? Eru menn ekki í Tókýó og New York farnir að kaupa sér krónur í stórum stíl til að bjarga sér undan hruni dollarans þegar þessi sterka mynteining, íslenska krónan, skagar eins og tindur upp úr hinu peningalega kerfi veraldarinnar? Það kæmi mér ekki á óvart í framhaldi af þessu þó hæstv. fjmrh., formaður Alþfl., yrði minnst aðalritari Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, minnst það, og yfirbankastjóri Alþjóðabankans líka ef þetta gengi eftir því annað eins efnahagsundur eins og þetta hefði aldrei átt sér stað. Að vísu kemur það ekki fram í töflum Seðlabankans hvað þetta mundi þýða fyrir útflutningsatvinnuvegina, en staðreyndin er hins vegar sú að þeir væru allir komnir á hausinn ef þetta gengi eftir. Annað hvert fyrirtæki væri komið á hausinn, segir hæstv. utanrrh. Flest væri á leiðinni til andskotans, með leyfi hæstv. forseta. Ég var að vitna í utanrrh.: Flest væri á leiðinni til andskotans, tilvitnun í Tímann í fyrradag, hér á landi ef þetta gengi eftir, segir hæstv. utanrrh. Þessar spár Seðlabankans um hækkandi raungengi íslensku krónunnar fram eftir öllu árinu 1988 eru tómt rugl. Þetta getur ekki gengið. Fyrirtækin fara á hausinn, þeim verður lokað og atvinnuleysi brestur á í stórum stíl. Þetta gengur ekki nema það sé stefna ríkisstjórnarinnar að stuðla að atvinnuleysi. Er það tilfellið að núv. ríkisstjórn hinna kredduföstu hagfræðinga, sem hafa aldrei ráðið eins miklu og í núv. ríkisstjórn, getur það verið að þeir vilji koma á því sem hagfræðingar frjálshyggjunnar kalla „hæfilegt atvinnuleysi“? Og hvað er hæfilegt atvinnuleysi? Það er atvinnuleysi af þeirri stærðargráðu að verkalýðshreyfingin haldi sér á mottunni og sé ekki mikið að heimta kauphækkanir því þá fari fyrirtækin á hausinn og menn séu til friðs og ekki með röfl. Getur það verið að það sé þessi stefna hins hæfilega atvinnuleysis sem Alþfl. er að reyna að hrinda hér í framkvæmd? Nei, auðvitað er það ekki þannig, herra forseti, vegna þess að í Alþfl. eru margir ágætir menn og það er ekki sú stefna sem þeir vilja framkvæma. Hins vegar eru þeir orðnir hálfgerðir tukthúslimir, þessir góðu kratar, hálfgerðir tukthúslimir þessara reiknimeistara. Þeir eru handjárnaðir af þessum reiknimeisturum, fjötraðir af þeim. (Gripið fram í: Það á ekki við alla.) Það á vissulega ekki við þá alla og hér sé ég út undan mér, mér til vinstri handar tvo prýðilega krata sem ég veit að eru heldur illa haldnir yfir þessum ósköpum. (KP: Allt læt ég það nú vera.) Ég veit að vísu að hv. þm. Karvel Pálmason ber sig ævinlega vel, en ég er sannfærður um að ég veit líka hvernig honum er innanbrjósts.

Staðreyndin er sú að þessi efnahagsstefna, sem öll þau mál byggja á sem við erum hér með til meðferðar, er hrunin til grunna. Hún gengur ekkert upp.

Það er ekki hægt að reka útflutningsatvinnuvegina með bullandi halla. Niðurstaðan er líka sú að til þess að ná sömu samkeppnisstöðu fyrir útflutninginn og hann hafði 1979 þarf að fella gengið, segir Seðlabankinn, um 15,2%. Í rauninni hefur gengið aldrei verið vitlausar skráð en núna miðað við þessar forsendur. Nú skulu menn ekki koma hingað á eftir og segja: Er hv. 7. þm. Reykv. að panta gengislækkun? Auðvitað er ekkert slíkt uppi. Auðvitað höfum við alþýðubandalagsmenn sagt að við núverandi aðstæður á að keyra vaxtaokrið niður. Það væri besta leiðin til að styrkja stöðu útflutningsatvinnuveganna þannig að þeir yrðu á ný samkeppnisfærir.

En þetta sjá þeir ekki, þessir kerfiskratar sem stjórna landinu núna. Þeir sjá bara einhverja talnadálka og þó að það séu boðin upp á nauðungaruppboðum 80 hús eða 80 íbúðir, þó að það sé annað hvert fyrirtæki á hausnum, sem jafnvel utanrrh. sér sem kemur þó eiginlega aldrei til landsins, og þó að hann lýsi því yfir að þetta sé allt á leiðinni til andskotans, með leyfi forseta enn þá einu sinni, halda þeir sínu striki, þessir kerfiskratar. Þeir minna á hross, með leyfi forseta, sem er beitt fyrir ölvagna í stórborgum. (Gripið fram í: Bjórhesta.) Bjórhestar eru þeir kallaðir. Þeir eru þannig útbúnir til að þeir fælist ekki bílaumferð að það eru settar hlífar báðum megin við augun þannig að þeir sjái aðeins beint fram fyrir sig. Þannig eru þessir kerfisreglustikukratar, eins og bjórhestar. Þeir gleyma hinum mannlega þætti. Það er það sem er að gerast í stjórn efnahagsmála núna.

Skoðum svo samkeppnisstöðu sjávarútvegsins eina út af fyrir sig. Það er mat Seðlabankans að gengið þurfi að falla á næsta ári til að ná því sem var 1979 um 13%. Það er bara sjávarútvegurinn. Og ef við tökum útflutningsiðnaðinn er talan ekki 13 heldur 28,8%. Á því tímabili sem ég hef tölur yfir frá 1979 hefur útflutningsiðnaðurinn aldrei nokkurn tíma staðið eins illa og hann gerir núna.

Þetta segir, herra forseti, að það er útilokað að ræða um þessi mál, stjórn fiskveiða, öðruvísi en í tengslum við hin almennu efnahagsmál. Þannig hefur það reyndar alltaf verið, herra forseti, að þegar þessi mál hafa verið til umræðu hefur verið rætt um hin almennu efnahagsmál. Þannig var það t.d. 1983 þegar umræður hófust um frv. til l. um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Þær umræður tóku marga tugi dálka í þingtíðindum eins og vonlegt er og það er athyglisvert núna eftir reynslu þessara ára að rifja aðeins upp þá umræðu. Sérstaklega er nú fróðlegt að lesa um kratana, fyrir utan hv. þm. Karvel Pálmason sem ég tek alveg út fyrir sviga í flestum eða öllum málum þegar ég ræði um þann flokk. Það getur vel verið að honum líki illa að ég skuli hæla honum úr þessum ræðustól, en hann hefur kost á því síðar í umræðunum að bera af sér hólið ef honum líður illa undir þessu.

Hv. þm. Guðmundur Einarsson var á þessum tíma leiðtogi Bandalags jafnaðarmanna og gekk svo með öllu sínu liði svo að segja í Alþfl. Það var ekki verið að skafa utan af því þegar var verið að lýsa kvótakerfinu þá. Þetta var talið gersamlega óalandi og óferjandi kerfi. Nú er niðurstaðan hins vegar sú að hann er, blessaður maðurinn, að vinna hjá þessum stjórnmálaflokki sem er að reyna að keyra þetta mál ofan í hausinn á þinginu þessa sólarhringa.

Árið 1983 var það þannig að þá var jafnvel Sjálfstfl. með örlitlu lífsmarki. Jafnvel hv. þm. Halldór Blöndal gagnrýndi nokkuð kvótakerfið og hv. 14. þm. Reykv., sem þá var 6. þm. Reykv., var ekki að skafa utan af því. Hann sagði m.a., með leyfi hæstv. forseta, um sjútvrh. fyrst:

„Ráðherra sagði einnig að hann óskaði eftir því að mál þetta yrði hafið yfir flokkadeilur. Ég tek undir þessi orð ráðherrans. Ég verð að segja eins og er að það er seint í rassinn gripið að ætla núna að forða skaða í sambandi við fiskveiðar Íslendinga. Það hefði verið nær að gera það fyrr, t.d. þegar verið var að kaupa og byggja nýja skuttogara á síðustu árum. Það er mat flestra sem til þekkja að sú fjölgun skuttogaranna sem varð á árunum 1978–1983 hafi verið óæskileg og óþörf og raunverulega sé þar um að ræða þann umframfjölda togara sem málið kemur til með að snúast meira og minna um, sérstaklega í framkvæmd.

Varðandi það atriði, sem margir tala um, samráð við hagsmunasamtökin, er ég auðvitað sammála því út af fyrir sig að hv. Alþingi og ráðherra hafi samráð við hagsmunasamtök. En ég verð að taka undir þau orð, sem hér hafa komið fram hjá öðrum ræðumönnum, að þetta mál er náttúrlega hafið yfir það að einhver takmörkuð eða fá hagsmunasamtök, þó að í sjávarútvegi og fiskiðnaði séu, eigi að ráða alfarið hvaða stefna verði tekin í þessum málum. Hér er um að ræða að mínu mati eitt örlagaríkasta skrefið sem hefur verið tekið í atvinnusögu Íslendinga í áratugi“, segir varaformaður sjútvn., „ef þetta frv. verður að lögum með hugsanlega þeirri útfærslu sem það gerir ráð fyrir og þær stærðir sem þar um ræðir þannig að þetta mál snýr að þjóðinni allri, hverju einasta mannsbarni.

Ég er alfarið á móti því að afgreiða jafnmikið og stórt mál með þeim hætti að örfáir fulltrúar, þó þeir séu fulltrúar helstu hagsmunasamtaka á þessu sviði, eigi að ráða þar einir eða réttara sagt mæla einir um það við ráðherra hvernig þessum málum skuli hagað.“ (Gripið fram í.) Já, ég tel ástæðu til þess, herra forseti, þó það sé kannski ekki mitt hlutverk heldur frekar forsetans, að bjóða velkominn í salinn hv. 14. þm. Reykv.

Ég hef haft þá ánægju, svo og deildin, að hlýða á ræðu hv. 14. þm. Reykv., sem hann flutti 12. des. 1983, og held ég nú áfram lestrinum. (GHG: Hún var góð.) Þetta er klassísk speki:

„Hér er um svo víðtækar verkanir að ræða, ef frv. verður að lögum, með þeim aðgerðum sem gera verður að raunverulega hefði þetta mál þurft að fá miklu meiri og víðtækari umræðu en bara hér á þingi á örfáum dögum eða nokkrum klukkutímum og í samráði við örfáa menn, ég segi ekki þröngum samtökum en samt takmörkuðum miðað við umfang þessa máls.“

Ævinlega segir maðurinn rétt. Það væri kannski rétt að hann hugleiddi aðeins hvort það sem hann er að gera í dag er í samræmi við það sem hann segir að hafi verið rétt árið 1983 og held ég nú áfram með lesturinn og ætla aðeins að víkja að því sem hann segir. Þessi hv. þm. hefur betri skilning á sjávarútvegi en flestir þm. Sjálfstfl., þekkir það mjög vel, hefur mikla reynslu í þeim efnum og hann hefur auðvitað áhyggjur af því að kvótakerfi þýði miðstýringu og ofstjórn og það drepi niður einkaframtakið í sjávarútveginum, einkaframtakið. Einhvern tíma heyrði maður það fyrr á öldinni þegar ég var yngri að Sjálfstfl. hefði áhuga á einkaframtakinu. Og hv. 14. þm. Reykv. hafði það líka 1983. Hann segir enn, með leyfi hæstv. forseta:

„Ríkjandi skipulag í sjávarútvegi á að baki sér áratuga þróun og er algert einsdæmi hvað viðvíkur frábærum árangri á liðnum árum. Um það erum við allir sammála. Afköst íslenskra sjómanna, miklir veiðihæfileikar skipstjórnarmanna, sem er bakgrunnur hins mikla árangurs í veiðunum, hefur byggst á því fram til síðustu ára að þeir hefðu frjálsan aðgang að fiskimiðunum. Þá er það staðreynd að íslenskir útgerðarmenn og skipstjórnarmenn hafa haft frumkvæði og forustu um uppbyggingu fiskiflota, fiskiskipa sem eru talin vera meðal hinna bestu sem völ er á. Öll hefur þessi uppbygging, hinar miklu framfarir og góður þjóðhagslegur ávinningur byggst á frelsi manna til athafna á því erfiða starfssviði sem útgerð og sjómennska eru. Hvatinn hefur verið“, nú kemur þetta rétt eins og upp úr stefnuskrám og kosningaræðum íhaldsins, „að takast á við erfið og ég vil segja heillandi verkefni sem fólu í sér mikla arð- og aflavon. Á grundvelli þessa hafa Íslendingar byggt upp nútímaþjóðfélag almennrar velmegunar og hagsældar. Það má því orða það þannig að frelsi tiltölulega fárra til að nýta auðæfi hafsins hafi orðið fjöldanum til mikillar blessunar.“

Þetta er svo hjartnæmt að maður staldrar aðeins við. (GHG: Er þm. á móti því að maður tali vel um sjómanninn?) Þetta er allt rétt og ég er að lesa þetta, hv. þm., til að stytta mál mitt. Ég er að greina frá kjarnmiklum setningum þar sem sjónarmiðunum er þjappað saman með óvenjulega skýrum og eftirminnilegum hætti. Ég vona að hv. þm. leiðist ekki þó ég sé að fara yfir þetta. Síðan segir hér:

„Við erum í raun líka að tala um hvernig íslenski sjómaðurinn hefur þróast upp í íslenskum sjávarútvegi og haft forustu í íslenskum sjávarútvegi í áratugi. Hann dró björg í bú. Hann lét smíða góð fiskiskip og hann byggði í meginatriðum fiskiverin en ekki kerfismenn hér suður í Reykjavík. Það er þessi stofn, það er þetta fólk sem á eftir að finna mest fyrir því sem gert verður með þessu frv. Það er þessi stofn, það er þetta fólk sem finnur mest fyrir því sem kvótalögin eru að segja fyrir um. Þetta hefur langsamlega mest áhrif á þetta fólk sem er íslensku þjóðinni verðmætast. Þess vegna þarf að fara með varúð og aðgætni að þessu máli og ígrunda það vel áður en miklar ákvarðanir eru teknar sem geta haft ófyrirsjáanlegar og hættulegar afleiðingar fyrir framtíðarþróun þessara mála.

Þróunin í eignarhaldi og rekstrarskipulagi sjávarútvegs og fiskiðnaðar á Íslandi hefur byggst á þessum einföldu staðreyndum. Þrátt fyrir mjög mikinn pólitískan ágreining um eignarfyrirkomulag á Íslandi er það söguleg staðreynd að allir flokkar og jafnvel þeir flokkar sem lengst til vinstri hafa verið hafa viðurkennt þetta. Það hefur aldrei verið gengið svo langt með aðgerðum hér á Alþingi að eyðileggja sjálfstæðan eignargrundvöll í sjávarútvegi og fiskiðnaði, ekki einu sinni til að styrkja og efla félagslegan rekstur og er ég þá sérstaklega með í huga samvinnurekstur sem sósíalistum hefur verið í lófa lagið að styðja og styrkja til að yfirtaka þær eignir sem hér um ræðir.

Þetta eru stór orð. Vonandi kemur ekki til þess að á þessu verði breyting. En hið svokallaða stórkapítal á Íslandi“, þetta er ekki ræða eftir mig heldur hv. 14. þm. Reykv., „varð til í þessu blandaða skipulagi, varð til í þessu skipulagi þar sem sjómaðurinn hafði rétt á grundvelli þeirra miklu aflabragða, þeirrar miklu aflavonar og arðgjafar sem hann skapaði til þess að vera þátttakandi sem eignaraðili í útgerð og fiskiðnaði.“ (KP: Maður nánast tárast.) Ég skil það vel með menn sem þekkja vel til í þessari grein, hv. þm.

En ég held áfram: „Flestir leiðandi menn í sjávarútvegi og fiskiðnaði, þá er ég ekki endilega að tala um eigendur heldur einnig framkvæmdastjóra, verkstjóra o.s.frv., hófu starfsferil sinn á þessu sviði til sjós. Hæfileikar og dugnaður þeirra, reynsla og þekking hafa ráðið úrslitum um hina góðu þróun, sem sagt: hin mikla þróun byggðist á frelsi. Það var hin eina og örugga leið, hinn eini og öruggi hvati dugnaðar mannsins á þessu sviði sem dugði íslensku þjóðinni.“

Ég hefði gaman af því, herra forseti, ef hv. 14. þm. Reykv. — (Landbrh.: Ekki herra.) Ég bið innilega afsökunar. hæstv. forseti. Þetta er vissulega mjög vandasamt mál fyrir þm. Þeir sjá ekki með hnakkanum og jafnvel þeir sem síst vildu láta það henda sig að mismæla sig í þessu efni. Það er veruleg fötlun að hafa ekki auga í hnakkanum. Þess vegna tel ég að þetta ætti að hvetja til að breyta skipulagi í þinginu þannig að maður sjái örugglega hver er í forsetastól á hverjum tíma. En það var innskot, nánast um þingsköp. (Sjútvrh.: Það má tala skemur.) Það mætti líka tala skemur og það á kannski sérstaklega við um stjórnarliðið. Það er alveg til vandræða hvað þeir blaðra lengi hérna.

Það væri gaman ef hv. 14. þm. Reykv. vildi vera svo vænn að útlista aðeins hvernig frelsið, framtakið, aflavonin, arðshvatinn fær að njóta sín í núverandi pólitík, hvernig menn fá að vaxa upp og njóta dugnaðar síns, hvernig menn geta lagt í útgerð svo að segja á mjög ungum aldri og unnið sig upp til forustu og sigurs í þessari miklu grein. Það væri líka gaman ef hv. þm. útlistaði hvernig þeir Ingvar Vilhjálmsson, Einar Guðfinnsson og Haraldur Böðvarsson mundu hafa blómstrað og risið upp í því sjávarútvegskerfi sem er í dag, hvernig þessi flaggskip sjávarútvegsins á Íslandi hefðu orðið til við þær aðstæður sem eru í dag.

Ég segi alveg eins og er, virðulegi forseti, að ég sé það ekki alveg hvernig það mundi gerast í dag að þessir menn af dugnaði, útsjónarsemi og ósérhlífni rifu upp stór fyrirtæki þar sem sköpuð væri vinna fyrir hundruð manna árum og áratugum saman sem jafnvel er grundvöllur heilla byggðarlaga að verulegu leyti eins og t.d. í Bolungarvík. Ég fæ ekki séð hvernig þetta framtak, þessi kraftur getur orðið til í því kerfi sem við höfum í dag. Þess vegna er ég að lesa þessa ræðu að hún er ekki einasta hjartnæm heldur kallar hún á að það verði skýrt fyrir þingheimi hvernig það má gerast að menn fái notið sín í þessu kerfi.

Það er alveg rétt sem hv. þm. segir í þessari ræðu. Við vinstri menn á Íslandi, sósíalistar, höfum ekki verið með kröfur um allsherjar þjóðnýtingu eða þjóðnýtingu skipaflotans. Tillögur um ríkisútgerðir t.d. eru afar fátíðar á síðustu 40–50 árum. Ef við lesum sögu t.d. Sósíalistaflokksins sjáum við hvernig Sósíalistaflokkurinn stendur að uppbyggingu atvinnuveganna í nýsköpunarstjórninni 1944–1946. Ef við lesum sögu Alþfl. sjáum við engin dæmi um að þeir á fyrri áratugum væru með sérstaka áherslu á að ríkið ætti að eiga skipin. Það er ekki hægt að benda á nein dæmi þess.

Á árunum 1944–1946 átti sér stað einhver stærsta lífskjarabyltingin í sögu íslensku þjóðarinnar, m.a. vegna þess að menn höfðu vit á að nýta stríðsgróðann til að kaupa skip, til að byggja upp fiskiðjuver allt í kringum landið sem urðu síðan grundvöllurinn að betri og batnandi lífskjörum, bæði í kaupi og félagslegri þjónustu hér á landi. Og hið sama er að segja um vinstri stjórnina 1955–1956 og 1971–1974.

Það er athyglisvert að hugsa um það fyrir Sjálfstfl. sem þykist vera flokkur atvinnuveganna og hafði í sinni forustu fyrir hálfri öld eða tæplega það menn sem komu þá úr grundvallaratvinnugreinum þjóðlífsins eins og sjávarútveginum. Ætli það hafi ekki verið vinstri stjórnirnar sem tóku skarpast á uppbyggingu sjávarútvegsins, hvort sem um er að ræða nýsköpunarstjórnina 1944–1946, vinstri stjórnina 1956–1958 eða vinstri stjórnina 1971–1974? Segir það ekki sína sögu í þessu sambandi, virðulegur forseti, að það eru þessar stjórnir sem létu færa út landhelgina, tryggðu að landhelgin var færð út í 12 sjómílur og síðan 50? Ætli ekki sé ljóst að þetta gerðist vegna þess að þessar stjórnir áttuðu sig á því að grundvöllur sæmilegra lífskjara hér er sjávarútvegurinn, fiskveiðarnar, fiskvinnslan og fiskiðjan og útflutningsverðmæti þessara greina og þarna verður ekki skilið á milli?

Það er skrýtið líka að hugsa um að við erum með í þessari virðulegu deild einn fremsta hugmyndafræðing Sjálfstfl. um áratuga skeið, Eyjólf Konráð Jónsson, og hann hefur þá kenningu að það eigi að prenta seðla út á verðmætin, það eigi alveg gersamlega að banna að skammta peninga. Ég veit að þetta er sjónarmið sem t.d. fátæku fólki líkar vel, sem verður að velta fyrir sér hverri krónu, því að ekkert er eins ljótt og að skammta því peninga. En svo koma þessir snillingar og greiða atkvæði með kvótafrv., svo rosalegu skömmtunarkerfi að það hefur aldrei annað eins heyrst. Það hefur það einhver maður í flimtingum hér í húsinu stundum að þeir hafi boðist til að skipta við hæstv. sjútvrh., vinir okkar í Sovétríkjunum. Þeir vilji láta okkur hafa verðlagskerfið sem þeir eru með, það er orðið svo dýrt í meðferð, og fá í staðinn kvótakerfið frá Íslandi. Slétt skipti. (GHG: Líst þér ekki vel á það?) Sá ræðumaður sem hér stendur hefur ekki tekið afstöðu til þess, en það væri fróðlegt að vita hvaða skoðun hæstv. sjútvrh. hefur á því máli.

Ég er í sjálfu sér ekkert undrandi á sjónarmiðum hæstv. ráðherra, en hitt undrar mig alveg sérstaklega að þessir miklu postular frelsisins skuli greiða hér atkvæði alveg hreint eins og vélar, upp með hendur alveg eins og vélar, í hvert skipti sem Halldór Ásgrímsson sjútvrh. ýtir á hnappinn. Það er alveg ótrúlegt. Ég á margar minningar frá þinginu á undanförnum árum þegar þessir menn hafa verið að dragast í salinn vansvefta undir morgun að greiða atkvæði eftir takkanum hjá hæstv. sjútvrh. Það fara orð af því að það sé þvílíkur flokksagi í Framsfl. að hvergi sé annað eins á byggðu bóli, en aginn sem hæstv. ráðherra hefur á þeim í íhaldinu er alveg undur.

Í umræðum um þetta mál á árinu 1983 flutti sem sagt hv. 14. þm. Reykv. prýðilega og fróðlega ræðu og þar töluðu fleiri ágætir þm. Karvel Pálmason fór ítarlega yfir málin og það gerðu fleiri því þetta var í fyrsta sinn sem kvótafrv. kom inn í þingið, þá undir hattinum: „Veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.“

Á því þingi fluttum við þm. Alþb. í hv. Nd. og ég trúi í Ed. líka till. um breytingar á þessu kerfi sem ég ætla að rifja upp til þess að menn sjái hið skýra samhangi í okkar tillögugerð í þessum efnum. Fyrsta till., en flm. voru hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, Geir Gunnarsson og Hjörleifur Guttormsson í Nd., var þessi: „Fiskveiðilandhelgi Íslands og auðlindirnar innan hennar eru þjóðareign, sameign allra Íslendinga.“ Þetta var till. sem við fluttum 1983. Það er náttúrlega ekki að sökum að spyrja að hún var alveg kolfelld í nafnakalli bæði í Ed. og Nd. þessi till. með ýmsum rökum eins og gengur. Það er kostulegt að sjá það svo gerast hér 1987 að þessi gamla till. Alþb. kemur svo upp í tillögugerð Alþfl. þegar hann er að glíma við hæstv. sjútvrh. Það er niðurstaða að taka inn setningu sem er ekki óskyld þessari og niðurstaðan verður sú að Alþýðublaðið birtir fyrirsögn af því tilefni á þessa leið, með leyfi forseta: „Halldór gaf sig.“

Í annan stað fluttum við till. þar sem við lögðum áherslu á mjög víðtækt samráð um þessi efni.

Í þriðja lagi um aukið vald Alþingis en minna vald ráðherra.

Í fjórða lagi höfnuðum við því algerlega að ákveðið yrði aflamark á handfæra- eða línubáta. Þessar till. voru allar felldar haustið 1983 eftir mjög ítarlegar umræður um málið. Satt að segja hygg ég að þegar menn skoða þessar till. í dag sjái þeir glöggt að það hefði verið skynsamlegt að taka tillit til þeirra strax árið 1983 til að reyna þannig að skapa betri frið um þetta umdeilda kerfi.

Því hefur stundum verið haldið fram, hæstv. forseti, að frá upphafi vega hafi hagsmunasamtökin sagt amen og hallelúja við þessu kerfi. Það er nú eitthvað annað. Þegar þetta kerfi var fyrst ákveðið gerði miðstjórn Alþýðusambands Íslands sérstaka samþykkt og þar segir, með leyfi forseta:

„Í frv. til laga um breyting á lögum nr. 81 31. mars 1976, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, er ráðherra gefið einræðisvald til að ákveða fiskveiðistefnu og stjórn veiða á ákveðnu tímabili. Sambandsstjórn Alþýðusambands Íslands er ljóst að nauðsynlegt er að einhver hafi úrskurðarvald um þessi mál svo fært sé að skipuleggja veiðar og vinnslu með þeim hætti sem aðstæður krefjast hverju sinni. Hins vegar bendir sambandsstjórn ASÍ á að raunhæf fiskveiðistefna verður ekki mótuð nema í samráði við hagsmunaaðila í sjávarútvegi. Því beinir sambandsstjórn Alþýðusambands Íslands því til hæstv. Alþingis að það beiti sér fyrir að skýrt komi fram í lögunum að ráðherra sé skylt að hafa samráð við hagsmunaaðila í sjávarúrvegi um framkvæmd laganna. Hér er átt við samtök sjómanna, útgerðarmanna, verkafólks í fiskvinnslu og eigenda fiskvinnslufyrirtækja. Sambandsstjórn Alþýðusambands Íslands telur að víðtækt samráð og samstaða allra hlutaðeigandi aðila sé forsenda raunhæfs skipulags veiða og vinnslu og að slíkt samstarf geti, ef vel til tekst, dregið úr hættu á atvinnuleysi.“

Þetta var afstaða verkalýðssamtakanna strax í upphafi þannig að það er beinlínis rangt að þessu kerfi hafi verið komið á í samráði og með stuðningi allra hagsmunasamtaka sem hlut eiga að máli. Auðvitað eiga þessi samtök landverkafólks hlut að máli. Auðvitað er það þannig.

Það er einnig fróðlegt að rifja aðeins upp að fyrir nokkrum dögum kom það fram, ég hygg frá formönnum sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík ef ég tók rétt eftir, að þeir lýstu andstöðu við þetta kerfi. Það er ekki nýtt að Reykvíkingar hafi lýst alveg sérstakri andstöðu við þetta kerfi. Það gerðist t.d. strax 1983. Þá sagði í samþykkt, sem var samþykkt samhljóða með fulltrúum allra flokka í útgerðarráði Bæjarútgerðarinnar, á þessa leið, með leyfi forseta: „Flest bendir til þess að Alþingi muni nú á næstu dögum samþykkja frv. til laga, sem nú hefur verið lagt fram, um breytingu á lögum nr. 81 31. maí 1976, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, sbr. lög nr. 38 8. maí 1981. Útgerðarráð telur að nauðsynlegt sé að draga úr hættunni á ofveiði á Íslandsmiðum og þá sérstaklega með hliðsjón af ástandi þorskstofnsins um þessar mundir en telur jafnframt orka tvímælis að sjútvrh. skuli fengnar jafnvíðtækar heimildir til skiptingar afla eftir tegundum á einstök fiskiskip og gert er ráð fyrir í frv. Útgerðarráð beinir þeim eindregnu áskorunum til þm. Reykjavíkur að þeir gæti þess að ekki verði gengið á hagsmuni þessarar stærstu verstöðvar landsins við útfærslu málsins.“

Það er sem sagt ekkert nýtt, virðulegi forseti, að Reykvíkingar vari sérstaklega við því kerfi sem hér er verið að framlengja enn þá einu sinni og í rauninni er miklu meira kvótakerfi, þetta sem á að framlengja núna fyrir árið 1988, en það kerfi sem við höfum búið við, bæði vegna þess að það er dregið úr sóknarmarkinu, það er þrengt að trillunum og rækjan er tekin inn í þessa mynd.

Margt mætti fleira, virðulegi forseti, rifja upp úr þessari fróðlegu umræðu sem fór fram á Alþingi um kvótakerfið 1983. Ekki verður það gert að sinni heldur staldrað aðeins við umræður í þessari virðulegu stofnun haustið 1985. Þá flutti maður nokkur, sem heitir Jón Baldvin Hannibalsson, býsna langar athyglisverðar og eftirminnilegar ræður um þetta mál. Það er alveg óhjákvæmilegt að lesa nokkrar setningar upp úr þeim ræðum þó það væri ekki nema til að benda á það, sem hv. þm. Skúli Alexandersson sagði í dag, að það er með þessa ráðherra kratanna að þeir eru búnir að gleyma öllu því sem þeir sögðu fyrir kosningar. Það er alveg sama hvort það er um launamál, skattamál eða fiskveiðimál. Það er allt gleymt, allt, allt. Það er alveg hreint eins og þröskuldurinn í Stjórnarráðinu hafi verið eins og strokleður á heilann á þeim, að um leið og þeir gengu yfir þennan þröskuld er allt gufað upp, ekkert, ekkert eftir, eins og hinn nýi maður sem verður til úr engu, úr tómarúmi, aldrei gaf nein kosningaloforð, aldrei hafði neina kosningastefnu og aldrei sagði þinginu yfirleitt eitt eða neitt. Alveg kostulegt. Það væri fróðlegt að gera efnagreiningu á þessum þröskuldi þarna í Arnarhvoli.

Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson sagði á Alþingi 27. nóvember 1985: „Við höfum kynnst afleiðingum kvótakerfis skömmtunarstjórnar stjórnmála- og embættismanna í heilum atvinnuvegi býsna vel á undanförnum árum í landbúnaði.“ Síðan fer hann yfir landbúnaðarkerfið og er nú ekki að skera utan af því. Segir svo m.a.: „Á seinni árum hefur þótt ærin ástæða til að spyrja, herra forseti, hverjir eiga Ísland.“ — Menn muna eftir því. Það var verið að gá að því á 100 fundum allt í kringum landið hverjir ættu Ísland. — „Og það er ekki síður ástæða til að spyrja hverjir eiga fiskinn í sjónum. Ég vék að því í utandagskrárumræðum í gær að sá maður sem nú er nýbúið að gefa út bók um og frægur er í Íslandssögu undir nafninu Jörundur hundadagakonungur lýsti sig hæstráðanda til sjós og lands. Skv. þessu frv. til laga fer ekki milli mála að hæstv. sjútvrh. er hæstráðandi til sjós. Samkvæmt því á hann að ákveða hver má veiða, hvað má veiða, hvar á að veiða og hvenær á að veiða. Þetta hlutverk var áður fyrr í höndum guðs almáttugs, skapara allra lífsins gæða“ — og ég vek athygli forseta á því að ég er að lesa eftir hæstv. fjmrh. — „en nú er þetta vald í höndum hæstv. sjútvrh. Þetta vekur upp spurninguna um hvort við ættum ekki þessu til samræmis að taka upp nýtt tímatal í Íslandssögunni, þ.e. að atburðir hafi ekki gerst fyrir eða eftir Krist heldur fyrir eða eftir kvóta eða fyrir eða eftir Halldór. Halldór á sem sagt fiskinn í sjónum, virðulegi forseti, en útgerðarmenn mega hirða hann í umboði hans. Sjómenn hins vegar, þeir sem draga fiskinn, þeir eiga engan fisk. Þeir bara vinna þarna, eins og sagt er. Ef útgerðarmenn geta ekki náð sínum kvóta, ef útgerðarmenn geta ekki gert út, ef útgerðarmenn leggja sínum skipum, ef útgerðarmenn leggja sínum bátum upp á græn grös og fara að búa eiga þeir samt sem áður sinn kvóta og geta selt hann hæstbjóðanda á uppsprengdu verði í umboði hæstv. ráðherra. Þar eiga sjómenn engan hlut.“

Þetta var örlítill kafli úr ræðu hæstv. fjmrh. Mér finnst athyglisverð hugmynd að miða tímatalið við hæstv. núv. sjútvrh. En ég hef þó enn þá betri hugmynd. Hún er sú að miða tímatalið við það þegar kratarnir gleymdu kosningaloforðunum sínum því önnur eins kúvending hefur aldrei nokkurn tímann átt sér stað. (KP: Þetta á ekki við alla. ) Nei, nei, nei, enda sagði ég áðan, hv. þm., að ég tæki þann sem þarna stendur stundum út fyrir sviga þegar ég er að ræða um þessi mál. Mér gleymist oft að hann hefur iðulega tilheyrt þessum hópi, sem kallaður er kratar, og gerir sjálfsagt enn. En ég veit ekki hvort það segir meira um hann en kratana að ég skuli iðulega gleyma því að hann tilheyrir þessari grúppu.

Sá maður sem barðist þannig með kjafti og klóm svo að segja í ræðustól á Alþingi gegn þessu kvótakerfi ár eftir ár eftir ár, hélt hér fleiri, fleiri ræður og leitaði að því allt í kringum landið hverjir ættu Ísland, talaði um það allt í kringum landið og hafði alveg sérstakan mann í því að auglýsa sig á fundum í Múlakaffi og guð veit hvað, Ámunda Ámundason, og fékk aldrei svar við því hverjir ættu Ísland, þessi snillingur stendur núna frammi fyrir því að hann er orðinn eins konar jarl hjá þessum hundadagakóngi sem hann kallaði Halldór Ásgrímsson árið 1983. Hann er orðinn eins konar innsiglisvörður væri réttara að kalla það, innsiglisvörður hjá þessum hæstráðanda til sjós, sem heitir Halldór Ásgrímsson, hæstv. sjútvrh.

Það væri satt að segja fróðlegt, virðulegur forseti, að fara víðar yfir þessa ræðu hv. þáv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar, en hann talar aldrei minna í þessum umræðum en að það taki eina ellefu dálka í þingtíðindum á þessum tíma. En þar sem hér er margt að gera, nauðsynlegt að þingmál fái sem greiðasta meðferð, skýrasta afgreiðslu ætla ég ekki að tefja fundinn á óþarfa málalengingum heldur læt ég hér staðar numið að að vitna í þennan hæstv. ráðherra að sinni. En af nógu er að taka.

Ég vil þessu næst víkja aðeins að þeim brtt. sem liggja fyrir við frv. Það er komið mikið af brtt. og ég hygg að það hafi ekki áður við meðferð þessara mála verið jafnmikið af ítarlegum brtt. og núna. Ég held að það sé alveg nýtt. Hvort sem maður er sammála þeim till. eða ekki eiga þeir þm. allir heiður skilið sem og þakkir sem hafa reynt að glöggva sig á þessu máli og reyna að finna á því betri lausn en frv. sjálft.

Á þskj. 205 flytjum við þrír þm. Alþb. í þessari virðulegu deild brtt. þar sem segir: „Auðlindirnar innan fiskveiðilandhelgi Íslands eru þjóðareign, sameign allra Íslendinga. Öll stjórn á nýtingu þeirra skal taka mið af því. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þessara sameiginlegu auðlinda og stuðla með því að traustri atvinnu og byggð í landinu.“

Það hefur stundum verið sagt að till. af þessu tagi fjalli mest um sjálfsagða hluti sem í raun og veru þurfi ekki að vera í lögunum. Þetta er misskilningur. Ef menn lesa í gegn meginlagabálka íslenska lagasafnsins sjá menn að í upphafi þeirra flestra eru greinar, sem í fræðum Ólafs Jóhannessonar heita stefnugreinar, þar sem með almennum hætti er lagður grundvöllur að þeirri hugmyndafræði, að þeirri pólitík, að þeirri stefnu sem þau lög eiga að byggjast á sem um er að ræða hverju sinni.

Við höfum alltaf talið að það væri þess vegna eðlilegt að fiskveiðilögin byrjuðu á einhverri grein af þessum toga. Því hefur yfirleitt verið hafnað af meiri hluta þingsins. Nú er það þannig aftur á móti að Alþfl. kveðst hafa náð svipuðu efni inn í frv. og er það út af fyrir sig vel. Gallinn er hins vegar sá að greinarnar sem á eftir koma í núverandi stjfrv. taka allt til baka sem stendur í 1. gr. Það er vissulega nýlunda í lagasmíð en æði sérkennileg.

Af hverju eru menn að segja þetta í 1. gr., 1. brtt.? Það er vegna þess að við viljum að það liggi fyrir að þjóðin öll á þessa auðlind sameiginlega og það má ekki afhenda einhverjum einum hópi aðgang, einokun eða einkarétt á nýtingu þessara auðlinda. Við bendum á: Það er ekki aðeins útgerðin sem þarna skiptir máli. Það eru líka sjómennirnir, það er verkafólkið í landi og það er í rauninni þjóðin öll sem á allt sitt undir því að á þessum hlutum sé tekið með skynsamlegum hætti og auðlindirnar nýttar með skynsamlegum hætti. En þetta á einnig og alveg sérstaklega við um byggðarlögin sjálf eins og tekið er fram í brtt. Alþb. á þskj. 205. Þess vegna er brtt. um leið grundvöllurinn að 2. brtt. frá hv. þm. Skúla Alexanderssyni o.fl. þar sem fjallað er sérstaklega um byggðakvóta, tengingu þessara mála við byggðarlögin. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Veiðiheimildum á botnfiski, til fiskiskipa sem eru 10 brl. eða stærri, skal skipta í tvo flokka. 1/3 hluta skal úthluta til útgerðar (á skip, skipamark) og 2/3 hlutum til byggðarlaga (byggðarmark).

Sá þriðjungur, sem kemur í hlut skipa, skal reiknaður út með sama hætti og ákveðið var með reglugerð nr. 518 frá 22. des. 1986 fyrir árið 1987, og sbr. 8. og 10. gr. laga þessara.

Hluti byggðarlaga skal reiknaður að 1/4 út frá úthlutuðu afla- og sóknarmarki skipa í byggðarlögunum eins og sú úthlutun var að meðaltali árin 1984–1986 og að 3/4 hlutum út frá úthlutuðu afla- og sóknarmarki skipa í byggðarlögunum í árslok 1987.

Eftir að aflahluti byggðarlags hefur verið reiknaður út og ákveðinn skal honum deilt á milli þeirra skipa sem fá úthlutað skipamarki í því byggðarlagi í hlutfalli við veiðiheimildir þeirra.

Við sölu skipa úr byggðarlagi fylgir þeim einungis sá aflahluti sem úthlutað var til útgerðar, skipamark. Þeim aflahluta, sem eftir verður í byggðarlagi við söluna, byggðarmarki, skal ráðstafa til að bæta upp afla skipa er keypt verða í byggðarlagið nái þær veiðiheimildir, er þau færa með sér, ekki meðaltali á því svæði eða til að auka veiðiheimildir skipa í byggðarlaginu samkvæmt nánari reglum er settar verði af sjútvrn. í samráði við sjávarútvegsnefndir Alþingis.

Á sama hátt skal ráðuneytið setja sérstakar reglur um skiptingu aflahluta milli byggðarlaga ef seld eru skip sem hafa landað til vinnslu innan lands frá árinu 1984 að meðaltali meira en 40% afla síns utan heimabyggðar.“

Síðan segir í b-lið: „Við úthlutun veiðiheimilda til skipa og byggðarlaga skv. 5. gr. er frá og með árinu 1989 heimilt að halda eftir allt að 5% þess afla helstu botnfisktegunda sem ákveðinn er skv. 2. gr."

Síðan er rakið nokkru nánar í hvaða tilgangi þetta skuli gert, en aðalatriðið er að með greininni er gerð tillaga um að tengja þessa úthlutun byggðarlögunum sjálfum, að þau hafi möguleika til að hlutast til um það, ef skip fer í burtu, að það sé ekki þar með ljóst að allur fiskurinn fari í burtu um leið, sem þetta skip hefur haft, eins og aftur og aftur hefur gerst og við höfum séð um hin verstu dæmi, sem hafa farið mjög illa með ýmsa staði eins og t.d. Grundarfjörð, og mætti nefna fleiri dæmi því til sönnunar.

Einhverjir mundu segja: Gallinn við þessa brtt. er sá að hún gerir áfram ráð fyrir því að það sé kvóti á skip. Það er rétt. Í rauninni er hér miðað við að það sé áfram kvóti á skip, en hann sé tengdur byggðarlögunum. Ég satt að segja skil það ekki, hreint út sagt skil það ekki, þegar um er að ræða jafnmikið deilumál og þetta, sem skiptir jafnmiklu máli fyrir alla þjóðina, átta ég mig ekki á því hvernig í ósköpunum stendur á því að menn segja ekki sem svo: Við skulum reyna að ná saman um tillögur af þessum toga sem breyta í nokkru, ekki mjög verulegu og ekki í grundvallaratriðum en að nokkru, þeim hugmyndum sem uppi eru.

Ég spyr hv. þm., varaformann sjútvn. o.fl.: : Vilja menn ekki samkomulag um þessi mál? Eru menn alveg á móti því að ná samkomulagi? Vilja menn undir engum kringumstæðum ná samkomulagi um þessi trillumál? Vilja menn ekki ná samkomulagi um að tengja þetta við byggðirnar? Eða vilja menn endilega stríð? Eru þetta andlegir afkomendur Þorgeirs Hávarssonar sem taka jafnan stríðið fram yfir friðinn ef kostur er á því hvoru tveggja? Hvernig í ósköpunum stendur á því að menn leggja sig ekki fram við að reyna að ná hlutunum saman því þetta er stjórnarskrá fiskveiðanna sem hér er verið að tala um, grundvallarplagg fiskveiðanna í þessu landi? Hvernig í ósköpunum má það vera? Ríkisstjórnin er mynduð 8. júlí og það eru skrifuð einhver orð þarna í þennan stjórnarsáttmála sem hv. þm. Karvel Pálmason las upp. En það er ekkert farið að gera í þessu máli fyrr en kemur fram á réttir, september, október, og málið kemur svo ekki inn í þingið fyrr en í jólamánuðinum, í þær miklu annir sem hér eru að öðru leyti. Mér er spurn: Hvað voru menn eiginlega að gaufa? Er þetta enn eitt dæmið um það algjöra verkstjórnarleysi í þessari ríkisstjórn sem er að gera þetta þing svo að segja að viðundri gagnvart þjóðinni þessa dagana? Hvernig í ósköpunum víkur því við að menn leggja ekki vinnu í að ná saman um svona hluti? Hafa fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna eða kvótaandstæðingar í ríkisstjórnarliðinu sagt: Við viljum ekki koma nálægt málinu. Það er nú eitthvað annað. Ég hef ekki heyrt betur en þeir hafi verið að kvarta yfir því að það hafi ekki verið byrjað nægilega snemma á þessu máli, andstæðingar kvótans. Það er ekkert við þá að sakast.

En síðan er komið með þetta frv. enn þá einu sinni á síðustu stundu inn og sagt: Afgreiða, afgreiða, stimpla, stimpla, stimpla, og þegar stjórnarandstaðan talar í málinu, færir rök fyrir sínu máli grenja þeir á sjónvarpsskermunum hver í kapp við annan, leiðtogar stjórnarflokkanna hér í þinginu, væla þar upp skerminn og niður skerminn yfir því að menn skuli tala og gera grein fyrir máli sínu með rökum.

Við höfum, þm. Alþb., flutt einnig brtt. á þskj. 205 við 10. gr. frv. sem snertir smábátana. Það er stundum talað um smábáta rétt eins og þetta séu einhverjir örfáir mér liggur við að segja forréttindamenn í þessu landi, þetta sé eitthvert forstjóragengi aðallega sem rær til fiskjar sér til skemmtunar um helgar. Hvernig ætti þetta sé? Ég hef aflað mér upplýsinga um það, kjördæmi fyrir kjördæmi, hversu margir bátar eru í byggðarlögunum samkvæmt tölum úr félagaskrá Landssambands smábátaeigenda. Þar kemur þetta fram:

Vesturland 254, Vestfirðir 205, Norðurland vestra 91, Norðurland eystra 333, Austurland 280, Suðurland 58, Reykjanes 155, Reykjavík 76. Samtals 1452 bátar. Þá má gera ráð fyrir að á þessum bátum séu 2200–2400 manns. Hér er ekki lítill hópur á ferðinni. Og af hverju í ósköpunum er ekki reynt að setjast niður við að raða þessu vandamáli þannig upp að menn reyni að komast að einhverri sameiginlegri niðurstöðu? Er það kannski vegna þess að menn hafi gert upp við sig í eitt skipti fyrir öll að eini maðurinn sem eigi að semja við um þetta mál heiti Kristján Ragnarsson? Svo eru menn að bera fyrir sig sem rök í málinu að þessi stefna eigi að ganga í gegn af því að hagsmunaaðilar vilja það. Ja, þó það nú væri að LÍÚ vilji þetta kerfi. Skárra væri það nú. En eru það einhver rök í málinu? Auðvitað engin. Auðvitað eru það ekki nokkur einustu rök þó að LÍÚ vilji hafa þetta kerfi og gæti ég kannski seinna í umræðunni lesið upp dálítinn kafla úr Jóni Baldvini Hannibalssyni um lýðræðið í LÍÚ og ég geri það sennilega seinna ef þörf krefur í þessari umræðu.

En það er svo undarlegt að þegar kemur að þessum smábátamálum líka má ekki reyna að ná víðtæku samkomulagi. Nei, það á með þessari þurrafrekju að nudda málinu hér í gegn, menn séu hér í ræðustólum helst á nóttunni, en þannig hefur það verið öll árin sem þessi mál hafa verið til meðferðar. Það er kannski ekki von á góðu þegar það er í skjóli náttmyrkurs sem verið er að nudda þessu í gegnum löggjafarsamkomuna. Þannig hefur það verið ár eftir ár og þó að menn viti um þennan mikla ágreining úti í þjóðfélaginu er það ekki þannig að menn setjist niður og segi: Við skulum reyna að semja, við skulum reyna að ná samkomulagi og skoða málin. — Nei, nei, nei. Á síðustu stundu er komið með málin inn á þessa virðulegu stofnun.

Ég vil segja það fyrir mitt leyti að margar af þeim till. sem hv. þm. Karvel Pálmason flytur hér eru þannig að ég get ákaflega vel hugsað mér að styðja þær. Ég vil nefna eina till. alveg sérstaklega frá hv. þm. Karvel Pálmasyni. Það er 7. brtt. sem er svona, með leyfi forseta:

„Alþingi kýs hlutfallskosningu nefnd níu manna til að undirbúa tillögur um fyrirkomulag fiskveiðistjórnar og nýtingu fiskistofna að loknum gildistíma laga þessara. Að ári liðnu skal nefndin leggja fyrir Alþingi bráðabirgðaálit á fiskveiðistefnunni ásamt tillögum um breytingar á lögum þessum telji hún það nauðsynlegt. Nefndin skal kanna eftirfarandi:

1. Áhrif laga þessara á afkomu einstakra byggðarlaga, byggðaþróun í landinu og sjávarútveg.

2. Áhrif gildandi stjórnar á fiskstofnana, afrakstur þeirra og hagkvæmni í veiðum.

Í starfi sínu skal nefndin kynna sér rækilega hvaða áhrif fiskveiðistefna undanfarinna ára hefur haft á byggðarlög, fiskstofna og sjávarútveg.

Nefndin skal kynna sér eftir því sem föng eru á reynslu annarra þjóða af fiskveiðistjórn þeirra. Hún skal leita álits og ráðgjafar hjá þeim sérfræðingum, stofnunum og hagsmunaaðilum innan lands sem utan sem hún telur þörf á þannig að starf hennar skili sem bestum árangri við mótun sveigjanlegrar fiskveiðistefnu til framtíðar.“

Flm. till., hv. þm. Karvel Pálmason 3. þm. Vestf., segir: Ja, þetta er stjórnarstefnan. Þetta er það sem stendur í stjórnarsáttmálanum. Hv. þm. er m.ö.o. svo vinsamlegur við ríkisstjórnina að hann leggur til að kafli úr stjórnarsáttmálanum verði tekinn í lög. Svo eru menn að saka þennan alþýðuflokksmann um óbilgirni. Hann leggur til að kafli úr stjórnarsáttmálanum verði tekinn í lög. Og nú bíðum við eftir því, hinir þm., hver afdrif þessarar till. verða. Fellir meiri hl. stjórnarsáttmálann hér? Verður það niðurstaðan að meiri hl. Alþfl., Framsfl. og Sjálfstfl. í þessari virðulegu deild felli stjórnarsáttmálann? Þá tekur nú steininn úr ef við stæðum allt í einu frammi fyrir því að við þm. stjórnarandstöðunnar styddum stjórnarsáttmálann en þm. stjórnarliðsins greiddu atkvæði á móti stjórnarsáttmálanum. Ja, það er von að menn setji á langar ræður um virðingu Alþingis og samkvæmni. En það virðist allt benda til þess að niðurstaðan verði þessi, hún verði algjörlega á haus.

Ég held satt að segja að þetta sé enn eitt dæmið líka um það hvaða — orðið frekja datt mér í hug en það er ekki nógu gott — tillitsleysi er hér uppi hjá meiri hlutanum. Þvergirðingsháttur er kannski réttasta orðið. Það gengur svo langt einstefnan að það má ekki einu sinni samþykkja það sem er í stjórnarsáttmálanum. Ég hygg satt að segja að þessi samlíking við bjórhestana sem ég tók fyrr í ræðu minni eigi óvíða betur við en í sambandi við þetta. Menn eru svo gjörsamlega sannfærðir um að það verði að fella allar till., setja þær í grjótmulningsvélina, fella allar till. og valtra yfir allar till., að þegar það kemur jafnvel að því að það eru till. uppi um að lögfesta þeirra eigin orð eru þeir á móti því líka. Svo eru menn í þessari virðulegu stofnun að biðja um að stjórnarandstaðan greiði fyrir meðferð mála þegar framkoman er með þeim hætti sem ég hef hér lýst. Það er ekki hægt að fara fram á það við þessar aðstæður. Ef allt væri með felldu og stjórnarflokkarnir klofnir að endilöngu í þessu máli mundu menn reyna að ná samkomulagi í tæka tíð og byrja á því á miðju sumri og koma hérna með málið um leið og þing byrjaði. Nei, nei, nei. Öllu slíku er hafnað. Og það verð ég að segja að það eru forundarleg vinnubrögð.

Það væri kannski ekki úr vegi að spyrja hv. þm. Sjálfstfl. sem hér eru: Hvernig samræmist það kenningunum um frelsi einstaklingsins og framtak að standa að þessu plaggi? Ég skora á þessa hv. þm., Guðmund H. Garðarsson og Eyjólf Konráð Jónsson og aðra mæta menn hér, Halldór Blöndal, að koma hér og gera grein fyrir því hvernig þetta gengur upp. Það hefur verið talað um það mikið af þessum mönnum, sjálfstæðisflokksmönnum, að SÍS-valdið í landinu væri allt að drepa. (Gripið fram í.) Hvað sagði hv. þm.? (GHG: Það á eftir að koma í ljós.) SÍS-valdið væri hér allt að drepa og allt að beygja undir sig. Þeir skrifa ekki svo kosningagreinar og halda ekki svo kosningaræður að ekki sé talað um að SÍS og SÍS og SÍS sé að snúa hér alla niður, það sé ekki hægt að snúa sér við hér í landinu fyrir SÍS. Og þeir skrifa helst um það greinar rétt fyrir kosningar að þeir ætli að vera harðir í baráttunni gegn krumlu framsóknar og SÍS-valdsins. Þeir skrifa gjarnan leiðara, jafnvel í Morgunblaðið og kosningablöðin, um að þetta kerfi, kvótakerfið, sé alveg rakið SÍS og framsóknarkerfi úr verstu skúffu, halda fundi allt í kringum landið, þingmálafundi í öllum kjördæmum, Norðurlandi vestra og guð má vita hvað, og segja: Burt með SÍS-kerfið, niður með SÍS-kerfið, snúum niður SÍS-kerfið. En þeir eru ekki fyrr sestir inn í þingið en það er eins og þeir væru komnir í vinnu hjá kaupfélögunum. Og hæstv. sjútvrh., lengi endurskoðandi SÍS, stjórnar þeim gjörsamlega eins og brúðum. Ég verð ekki var við að þeir hafi nokkra einustu sjálfstæða skoðun, þessir menn. Ég hef ekki frétt af því, en þeir hafa það rétt fyrir kosningar. Þá hafa þeir gríðarlega sjálfstæðar skoðanir, geysilega sjálfstæða skoðun og styðja frelsið á móti höftunum. En um leið og búið er að kjósa þá inn í þingið eru þeir búnir að gleyma þessu alveg gjörsamlega.

Er nema von að spurt sé: Hvernig í ósköpunum ætlast menn svo til þess að það sé tekið mark á þeim eftir þessa endalausu kollhnísa út og suður? Það er ekki minnsta samræmi milli orða og athafna hjá þessum snillingum, því miður. Það er ekki bara í þessu máli, það er líka í þessum skattamálum sem verið er að hvolfa yfir þjóðina þessa dagana, 8750 millj. kr. í skatta, takk. Þm. Sjálfstfl. eru hér á harðahlaupum að afgreiða þetta eins og ekkert sé, flokkurinn sem ætlar að stuðla að því að atvinnuvegirnir hafi sem mest svigrúm og ríkið þenji sig ekki allt of mikið út og leggi ekki „kalda krumlu“ sína yfir athafnafrelsi einstaklingsins. En það er ekki nóg með að þeir séu óðara búnir að samþykkja þetta kerfi, fiskveiðikerfið, um leið og þeir eru komnir inn í þingið, heldur samþykkja þeir líka að leggja meiri skatta á landsmenn en nokkur dæmi eru til um. Það væri fróðlegt að þeir rifjuðu upp hvernig hinir djarfhuga athafnamenn og snillingar ætla sér að blómstra í þessu kerfi, sem þeir kalla SÍS-kerfið fyrir kosningar, skattlagðir svo rosalega að það eru engin dæmi um annað eins. M.a.s. okkur, sem tölum fyrir vinstri flokkana, sem erum heldur skattaglaðir, ofbýður og er þá langt gengið. Hvernig ætla þeir að rökstyðja þetta, þessir menn? Hvernig ætla þeir að ganga fyrir kjósendur og segja: Góðan daginn, ég er á móti þessu skömmtunarkerfi, þegar þeir eru búnir að styðja það með atkvæði sínu? Hvernig ætla þeir að ganga fram fyrir kjósendur fyrir næstu kosningar og segja: Heyrðu, við erum á móti skattlagningu, skattpíningu vinstri stefnunnar, þegar þeir eru sjálfir búnir að samþykkja mestu skatta sem um getur í Íslandssögunni? Það dugir ekkert fyrir menn að vera að hrista sig aðeins út af einhverju einu og einu vörugjaldsfrv., eins og hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson. Hann er stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar eftir sem áður. Hann ber ábyrgð á þessu liði og stefnunni og hv. þm. Egill Jónsson líka. Hv. þm. Egill Jónsson ber líka ábyrgð á þeirri landbúnaðarstefnu, (EgJ: Já.) sem núna er í framkvæmd, sem hann var að greiða atkvæði á móti hér fyrir nokkrum kvöldum, aðeins til að friðþægja sjálfum sér, til að geta sagt við kjósendur á Austurlandi næst þegar hann kemur austur: Ja, ég var á móti þessari skerðingu landbúnaðarins, ég var á móti henni. Ykkur er alveg óhætt að treysta mér í hagsmunamálum landbúnaðarins. Ég stend alltaf með ykkur. (EgJ: Hvernig greiddir þú atkvæði?) En svo stendur hann ævinlega með (EgJ: Og Alþb.?) ríkisstjórninni þegar á á að herða. Þessi tvöfeldni og margfeldni hjá íhaldinu er auðvitað alveg yfirgengileg og staðreyndin er sú að íhaldið kæmist ekki upp með þessa tvöfeldni og margfeldni nema af einni ástæðu. Hver er hún? Þeir eiga stærsta blað landsins sem er breitt eins og teppi yfir vitleysurnar sem þeir hafa gert þannig að menn gleymi þeim sem fyrst og þeir geti enn á ný gengið fram fyrir kjósendur og sagt: Við erum vinir bænda, við erum vinir sjómanna, við erum á móti millifærslu, við erum á móti höftum og við viljum ekki skattlagningu. Mogginn hefur lengi verið hryggsúlan í Sjálfstfl. og er það enn og bjargar þeim inn á þing sem enn þá sitja þar þó þeir skilji það fæstir. Ég veit að hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson skilur það. (GHG: Það er gott.)

Nei, virðulegur forseti. Hér er komið að kjarnanum í íslenskum stjórnmálum, þ.e. hvaða samræmi er á milli orða og athafna. Verslunarráð Íslands gaf út bók fyrir fáeinum árum sem hét „Frá orðum til athafna“ og ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar framkvæmdi þá stefnu, sem var skrifuð upp í þeirri bók, alveg lið fyrir lið. Það er óravegur frá orðum frambjóðenda Sjálfstfl. og Alþfl. fyrir síðustu kosningar til þeirra athafna sem þeir eru núna að framkvæma. Af hverju buðu þeir sig ekki bara fram í nafni Framsfl.? Af hverju að vera að breiða yfir nafn og númer og þykjast vera kratar og þykjast vera þetta og þykjast vera hitt? Af hverju buðu þeir sig ekki fram fyrir Framsfl.? Þeir eru að framkvæma nákvæmlega þá stefnu í þessu máli sem Framsfl. er búinn að panta. Það er óskaplega óviðkunnanlegt þegar menn í pólitík haga sér eins og sjóræningjaskip, mála yfir einkennisstafina og þykjast vera eitthvað allt annað en þeir eru til að sækja atkvæði til fólks. Ég mun hins vegar gera það sem ég get til að rifja upp fyrir kjósendum fyrir næstu kosningar, hvenær sem þær verða, verða sennilega fljótlega ef að líkum lætur eftir samkomulaginu á stjórnarheimilinu, hvaða tvöfeldni og margfeldni hefur ríkt í afstöðu þessara manna miðað við það sem þeir sögðu fyrir síðustu kosningar. Það er satt að segja svo ofboðslegt að það er engu lagi líkt.

Hins vegar veit ég að þessum mætu mönnum, hv. 8. þm. Reykv. og hv. 14. þm. Reykv., líður ekki vel undir þessu og þeir eiga kost, þeir eiga enn þá möguleika á því að snúa við blaðinu, gjörbreyta stöðu sinni í stjórnmálum íslensku þjóðarinnar. Þeir eiga kost á því að reisa sig og sýna að þeir eru sjálfstæðir einstaklingar en ekki í vinnu hjá Halldóri Ásgrímssyni, hæstv. ráðherra, að þeir eru sjálfstæðir einstaklingar sem byggja á tilteknum pólitískum grundvallaratriðum, þeir eru ekki eins og vélbrúður í höndunum á hæstv. sjútvrh., þeir hafa sjálfstæðar skoðanir. Og hugsið þið ykkur nú, hæstv. forseti, ef það gerðist að þessir menn segðu núna: Hingað og ekki lengra. Í samræmi við það sem ég sagði fyrir kosningarnar í vor læt ég ekki bjóða mér þetta hér. (GHG: En lendum við þá bara ekki í einni sæng?) Ja, það er nefnilega það, hv. þm. Þetta var út af fyrir sig athyglisverð hugmynd sem er full ástæða til að ræða og ég heyri og sé á svipnum á hv. þm. að honum líkar tilhugsunin vel. Hann er þreyttur á framsóknarfaðmlögunum svona lengi og það er eðlilegt. Það er einmitt það sem hv. þm. gætu gert. Þeir taka að vísu þá áhættu að framsókn vilji ekki vera með þeim lengur í stjórn. Framsókn leggur þetta alveg að jöfnu við grundvallarstefnu sína, kvótakerfið. Kvótakerfið fyrir framsókn er orðið eins og samvinnustefnan og samvinnuhugsjónin var einu sinni. Benedikt á Auðnum er mættur hér að mati framsóknarmanna, frumkvöðullinn, Jónas frá Hriflu og allir heilagir menn Framsfl. fyrr og síðar. Það er kvótakerfið, kvótakerfið, það er hrygglengjan í framsókn, hryggsúlan, flaggið. (NL: Og hefur staðið.) Hefur staðið. Það er rétt hjá hv. varaþm. Steingríms Hermannssonar sem situr á móti mér og er boðinn alveg sérstaklega velkominn í þessa deild. Það er nefnilega nákvæmlega rétt sem hv. þm. segir. Það hefur alltaf staðið. Þeir hv. þm. Sjálfstfl. hafa sagt aftur og aftur: Við látum sjútvrh. ekki bjóða okkur þetta aftur. Við samþykkjum ekki nema eitt ár, segja þeir. Við samþykkjum ekki nema tvö ár. Hvar eru þeir núna? Hvað er það nú? Eru það ekki þrjú? Og svo koma kratarnir og segja: Við samþykkjum aldrei þessa endileysu, og segjast hafa breytt einhverju og niðurstaðan er sú að þeir ákveða að það verður sett á nefnd. Það er breytingin hjá þeim. En þetta stendur, það er rétt. En ég er ekki viss um að þetta sé hollt fyrir Framsfl. hins vegar, að þetta sé hans eina stjórnmálastefna, kvótinn. Það er þeirra mál en ekki mitt. (EgJ: Þeir hafa nú skoðanir á ýmsu.) En það er rétt sem hv. þm. Egill Jónsson segir. Þeir hafa skoðanir á ýmsu. En aðallega hafa framsóknarmenn þann hæfileika að þeir hafa ýmsar skoðanir jafnvel á sömu hlutunum. Þannig eru framsóknarmenn oft snjallari en aðrir stjórnmálamenn. Ég hef tekið eftir því með formann Framsfl., minn ágæta vin Steingrím Hermannsson, sem þykir sérstaklega vænt um mig eins og kunnugt er, að hann hefur iðulega a.m.k. tvær skoðanir á máli í sömu setningunni. Það var stundum sagt um Gylfa Þ. Gíslason að hann skipti um skoðanir mánaðarlega, en Steingrímur Hermannsson, hæstv. utanrrh. hefur náð algerri fullkomnun í þessu. Hann hefur alveg harðákveðnar skoðanir á þessu máli í upphafi málsgreinar, en í aukasetningunni í lokin tekur hann það allt til baka aftur. Og ef hann er svo spurður að því hvort þetta sé ekki mikill hringlandaháttur og hvort þetta sé ekki hæpið og hvor skoðunin sé ofan á segir hann einfaldlega eins og hann sagði við mig í fyrradag: Ég stend við þetta allt saman. Þó það sé algerlega þversum, hundrað prósent, alveg hornrétt hvert á móti öðru. Þannig eru þeir framsóknarmenn að mörgu leyti merkileg pólitísk eintök og hafa snúið sér með athyglisverðum hætti út úr pólitískum vandamálum eins og framsóknarmenn núna. Nú eru þeir allt í einu á móti raunvaxtaokrinu. Formaður Framsfl. rís upp og segist vera á móti raunvaxtaokrinu og kemur þar með raunvaxtaokrinu alveg gjörsamlega yfir á Sjálfstfl. og Alþfl. og þeir geta enga björg sér veitt. Þeir eru með raunvaxtaokrinu. Svo er hæstv. utanrrh. líka að brydda upp á ýmsum nýjum athyglisverðum og skemmtilegum og jákvæðum hlutum í utanríkismálum vegna þess að hann finnur að það á við.

Þannig er Framsfl. undarlegt eintak og aldrei að vita hvar hann kemur upp. Það er sagt frá því í þjóðsögum að það var skepna sem ævinlega var barin niður í Fróðárhreppi aftur og aftur og hún kom alltaf upp aftur, reisti upp hausinn. Eins er það með framsókn. Hún rífur sig upp og ómögulegt að segja hvar hún kemur upp í dag. Þó hún hafi verið barin niður hér í dag kemur hún upp einhvers staðar annars staðar á morgun. Á þessu vara þeir sig ekki, þessir snillingar sem eru með þeim í ríkisstjórn, hvorki hv. þm. Sjálfstfl. nú né heldur ég. Ég var með þessum mönnum í ríkisstjórn í mörg ár. Það er einhver fróðlegasti kafli ævi minnar og ég er staðráðinn í því að skrifa um það endurminningar þegar kemur fram á næstu öld og ég kemst á virðulegan ellilífeyrisaldur, skrifa um reynslu mína af framsóknarmönnum. Það er alveg sérstaklega fróðleg lífsreynsla. (Gripið fram í.) Það er skynsamlegt, hv. þm., og brýnt innlegg eins og fleira í fiskveiðistefnuna.

Virðulegi forseti. Ég tel að miðað við allar aðstæður núna væri langskynsamlegast að það væri gert hlé á fundum deildarinnar, umræðum yrði frestað og menn kæmu að umræðu hressir og endurnærðir aftur á morgun til að fjalla um þetta mikilvæga mál því það gerir ekki neitt þó þetta dragist smávegis. Það er enginn héraðsbrestur uppi þó það verði hinkrað með þetta mál eins og fram á 5., 6., 7. janúar, skiptir ekki nokkru einasta máli. Það verður að vísu þannig að það verður reglugerðarlaust í sambandi við þetta mál í fimm eða sjö daga rétt eins og það var í 1000 ár fyrir 1983. Það gerist ekkert voðalegt að öðru leyti. Ég veit að stjórnlyndum mönnum mun líða illa að vera reglugerðarlausir í heila fimm daga, ég tala nú ekki um sjö, en það er ekki þar með sagt að við hin þurfum endilega að hlíta því. Ég er reyndar sannfærður um, virðulegur forseti, að það hefði verið hægt að ná samkomulagi í þinginu um þetta mál, allsherjar samkomulagi allra flokka nema Framsfl. Framsfl. er eini flokkurinn sem hangir á þessu frv. og því öllu eins og hundur á roði, eins og steinbítur í borðstokki ef menn vilja það frekar. Aðrir flokkar eru örugglega tilbúnir til þess og geta náð samstöðu. Ég er sannfærður um það. Ég tala t.d. þá út frá því sem hér hafa mælt í kvöld og fyrr fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna. Ég tala út frá því sem ég veit um ástandið í Alþfl. Ég tala út frá því sem ég heyri af einstökum talsmönnum Sjálfstfl. Ég er algerlega sannfærður um að það væri hægt að ná þarna samstöðu, en Framsfl. hefur gert þetta að sínu grundvallaratriði, sínu kommúnistaávarpi. (SvH: Þá er ekki von á góðu.) Ég held að það væri ráð að þeir hv. neðrideildarmenn, sem eru af og til að koma, fengju sér sæti þannig að það væri hægt að ræða við þá. Ég teldi eðlilegt að við byðum þá sérstaklega velkomna í þetta herbergi því að hér er gott að vera og hér er margt talað sem skiptir miklu máli. En það sem ég átti við, hv. þm. Sverrir Hermannsson, var að Framsfl. hefur gert þetta kvótamál eins og að sinni grundvallarstefnu þar sem má ekki hvika frá einum einasta bókstaf. Framsfl. er þannig orthodox kvótaflokkur orðinn, hreintrúar kvótaflokkur. Það má ekki draga kenninguna í efa, hina heilögu kenningu kvótans, hún er hið rétta. Páfinn situr á Lindargötu, hæstv. sjútvrh., og þá er ég að vitna í hæstv. fjmrh., hæstráðandi til sjós. Og þið, þm. Sjálfstfl., eruð eins og atvinnumaskínur. Í hvert skipti sem hæstv. sjútvrh. ýtir á hnapp kemur hægri höndin upp rétt eins og þið hefðuð aldrei nokkurn tímann látið ykkur detta í hug að gagnrýna Framsfl. (SvH: Það er dálítið til í þessu.) Ja, hann er ekki dauður úr öllum æðum sem betur fer. Ég spurði að því áðan af hverju í ósköpunum þið buðuð ekki bara fram í nafni Framsfl. í síðustu kosningum? Af hverju voruð þið að þessu „veseni“?

Virðulegi forseti. Ég skora á stjórnarliðið og forseta þessarar deildar að sýna nú þingheimi og þingdeildinni sanngirni. Hér er búin að vera umræða um þessi mál síðan kl. 10 í morgun. Nú er vel starfað orðið, í 12 klst. rúmar. Skynsamlegt væri nú að fresta málinu. (JE: Viltu þá fá vinnulöggjöf?) Hún hefur aldrei gilt í þessu húsi. Skynsamlegt væri að fresta málinu og byrja svo aftur að ræða þetta mál í fyrramálið. Það liggur ekkert á. Ég vil beina því til forustu stjórnarliðsins í þessari virðulegu deild að hún kanni hvort ekki er hæst að fresta þessu máli þannig að menn geti farið til síns heima, safnað kröftum og hafið störf að nýju í býtið ef vill í fyrramálið til þess að það sé hægt að ljúka fundi á morgun á skikkanlegum tíma því það er meiningin að vera hérna á milli hátíðanna, jóla og nýárs, og svo strax eftir áramót að mér skilst. (GA: Veðrið er að versna.) Veðrið er að versna, segir hv. 6. þm. Reykv. sem hefur sjálfsagt hlýtt á veðurfregnir sem ég hef misst af vegna skyldustarfa minna í þessum ræðustól. — Ég hygg að það væri langeðlilegast að hinkra með þetta mal. Það liggur ekkert á. Og það eru engin rök komin fram um að það liggi neitt á þessu máli. Hæstv. ráðherrar hafa sagt í útvarpi og sjónvarpi síðustu dagana: Við skulum bara taka okkur tíma. Við skulum gera það. Þetta er mikilvægt mál og eðlilegt að ræða það rækilega.