21.12.1987
Efri deild: 35. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2871 í B-deild Alþingistíðinda. (2113)

181. mál, stjórn fiskveiða

Egill Jónsson:

Virðulegi forseti. Ég held að ég geti fullyrt að erindi mitt hingað verður ekki til þess að lengja mjög fund þessarar virðulegu deildar. (SkA: Það er aldrei að vita til hvers getur leitt þín umræða, Egill.) Það sem mér er efst í huga er C-liður 2. gr. brtt. Að því er varðar B-liðinn, þetta á við smábátana eins og menn gjarnan vita, þá er alveg augljóst hvað þar er átt við að því er varðar línuveiðarnar. Ég held að það dyljist engum, sem les þessar brtt., að þar er að sjálfsögðu átt við frjálsar veiðar að öðru leyti en því að banndagakerfi er þar í gildi og er reyndar banndögum fjölgað frá þeim reglum sem nú eru í gildi. Það má vera að í þeim efnum sé gengið heldur langt til að torvelda veiðar þessa flota. En það er alla vega kostur við B-liðinn að hann er alveg skýr. Menn sjá alveg hvað við er átt.

Ég vil biðja hv. frsm. meiri hl. að hlýða á mál mitt því ég á von á því að hann gefi mér þá síðar við þessa umræðu nánari skýringar og það tel ég vera mikilvægt ekki síst vegna þess að C-liðurinn fjallar í rauninni um reglugerðarákvæði og það er afar þýðingarmikið að það sé skýr túlkun á slíku ákvæði ef það fer í gegnum þingið án þess að kveðið verði skýrar á.

Með leyfi forseta hefst C-liður 2. gr. þannig: „Bátum 6 brl. og stærri, sem netaveiðar stunda, skal úthlutað sérstöku veiðileyfi með aflahámarki samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra og eru þeir bátar þá undanþegnir veiðibönnum skv. B-lið. Jafnframt getur ráðherra ákveðið í reglugerð mismunandi aflahámark með hliðsjón af stærðum báta í þessum flokki og fyrri veiðireynslu.“

Þá er spurningin: Hvers vegna er ekki kveðið hér skýrara á um? Ef á að úthluta veiðileyfum með tilliti til stærðar bátanna má þó engan veginn minna vera en að það sé skýrt hér með nákvæmum hætti hvað nefndin á við í þessum efnum. Og alveg með sama hætti, þar sem hér er talað um veiðireynslu, verður heldur ekki komist hjá því að spyrja mjög grannt um hvað er átt við með þessu orðalagi.

Nú vita menn kannski líka að það eru mjög misjafnar ástæður í þessum flota. Sumar þessar útgerðir hafa um margra ára skeið stundað netaveiðar, en aðrir um skemmri tíma. Ef við tökum dæmi og hugsum okkur t.d. að það væri tveggja eða þriggja ára viðmiðun hlýtur að verða að tala skýrt út um með hvaða hætti á að ákveða kvóta þeirra báta sem ekki hafa slíka aflareynslu.

Ég tel að í heild sinni hafi meiri hl. nefndarinnar náð verulegum árangri í þessari umfjöllun í deildinni. Það er að vísu ókostur að tími skuli ekki hafa verið rýmri til að fjalla um þetta mái. Það liggur hins vegar ljóst fyrir að það verður betra næði fyrir Nd. að starfa að þessum málum og annað eins hefur hent eins og að það þyrfti eitthvað að lagfæra á milli deilda.

Ég legg hins vegar á það áherslu á þessu stigi málsins að hv. frsm. meiri hl. skýri C-liðinn sem allra greinilegast því að eins og hann er orðaður þarna felur hann í rauninni ekkert annað í sér en heimild til ráðherra til að setja reglugerð um aflamörk þeirra báta sem stunda netaveiðar. Það er ekki forsvaranlegt að ekki komi fram nákvæmar skýringar um hvernig menn hugsa sér að slíkar heimildir verði fundnar.