21.12.1987
Neðri deild: 34. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3026 í B-deild Alþingistíðinda. (2173)

196. mál, söluskattur

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég get ekki svarið fyrir að ég hafi náð að heyra hvert einasta orð sem hæstv. fjmrh. sagði áðan, en ég tók ekki eftir því að hann fjallaði um hin nýju stórtíðindi í matarsköttunum sem eru tilboð ríkisstjórnarinnar eða áform um aðgreiða að einhverju leyti til baka söluskatt af fiski. Ég tel rétt að við hefjum þessa umræðu á því að fá þau mál á hreint, hvað felst í því mikla kostaboði og hvernig hæstv. ríkisstjórn hugsar sér að standa að því, hvort það sé þegar ákveðið eins og heyra mátti á hæstv. forsrh. í gær. — Herra forseti. Ég sé nú ekki nokkra ástæðu til að halda áfram umræðum um söluskatt ef hvorki hæstv. fjmrh. eða forsrh. eru viðstaddir. (Forseti: Það munu verða gerðar ráðstafanir til að aðvara þá.) Ég fæ mér bara vín hússins á meðan, forseti. Þetta er frá Langjökli og það gæti verið býsna gamalt.

Herra forseti. Ég sé að hæstv. fjmrh. er mættur til leiks og það væri að mínu mati mjög æskilegt ef hæstv. forsrh. væri í húsinu og vildi heiðra okkur með nærveru sinni vegna þess að hann hafði orð fyrir hæstv. ríkisstjórn í útspilinu mikla um söluskattinn á fiski. Ég tel alveg nauðsynlegt að fá það á hreint hvað í því tilboði felst, hvernig meiningin er að standa að þessari hlutaendurgreiðslu söluskatts af neyslufiski því að það er þá nauðsynlegt að fá það útskýrt hvers vegna það er allt í einu í lagi að taka eina slíka vörutegund út undan þar sem helstu rökin fyrir matarsköttunum, pakkanum sem slíkum, hafa verið þau að það megi ekki vera neinar undanþágur, það megi ekki vera neinir flokkar undandregnir því þá hverfi hin mikla skilvirkni og hinn mikli árangur af matarsköttunum.

Það væri kannski líka ástæða til, herra forseti, að rifja ofurlítið upp atburði gærdagsins, bæði þá sem áttu sér stað í þessu húsi og eins þá sem urðu uppi í Stjórnarráði að mér skilst þegar hæstv. ríkisstjórn fékk á fund sinn hluta af framkvæmdastjórn Verkamannasambandsins. Ég held að það sé ekkert leyndarmál, enda hafa hv. stjórnarliðar túlkað að sínum geðþótta þau orðaskipti og þær viðræður sem fóru fram í gær milli stjórnarandstæðinga og stjórnarsinna og ég tek mér þá það sama leyfi að segja mína útgáfu af þeim málum og það er vel við hæfi, herra forseti, að ræða það hér þar sem um var að ræða útspil eða tilboð sem gekk út á að breyta þeim söluskattsinnheimtum sem hér er verið að ræða um í frv. Og það var þannig að hæstv. ríkisstjórn kom með það stóra tromp að endurgreiða að einhverjum hluta til söluskatt af matfiski eða neyslufiski, niður undir 10% að okkur skildist. Þó var það ekki skilgreint nánar og um aðferðafræðina sjálfa var ekki fjallað út í hörgul, en það var upplýst að þetta gæti kostað upp undir 160 millj. kr. og þótti náttúrlega hæstv. ríkisstjórn vel boðið. Peningarnir áttu ekki að koma af himnum ofan, heldur hafði hæstv. ríkisstjórn hugkvæmst að taka upp hugmynd sem ég setti fram á fundi fjh.- og viðskn. á föstudaginn og felst í því að leggja vörugjald á snyrtivörur. Þannig er með hæstv. ríkisstjórn að henni hafði ekki hugkvæmst að það er ofurlítill eðlismunur á vörugjaldi og tollum og vegna þess að einhverjir menn bauka við það hér úti í bæ að hella ilmvatni af kútum yfir á glös og saga niður varalit og troða honum ofan í hólka er til snyrtivöruiðnaður á Íslandi og það þýðir að fróðra manna sögn að við getum ekki lagt á tolla því að hér er um samkeppnisiðnað að ræða, ekki satt, hæstv. fjmrh.? En einhvern veginn hafði þessi ógæfa slegið stjórnarsinna svo út af línunni að þeir höfðu haft snyrtivöruflokkinn sem slíkan vörugjaldslausan einnig þannig að hann var með öllu án álaga í þeim tolla- og vörugjaldafrv. sem hv. fjh.- og viðskn. Nd. var þarna að byrja að vinna að. Ég kom þá með þá hugmynd og bað um að það yrði athugað hvort ekki væri unnt að leggja fullt vörugjald á þennan flokk. Af hagræðingarástæðum var ákveðið að undanskilja sápur eða sjampó, en að öðru leyti yrði snyrtivaran öll, eins og hún leggur sig, þ.e. varalitirnir margfrægu, sem hæstv. fjmrh. hefur rækilega vakið athygli á að eigi að lækka, og ilmvötn og rakspírar og hárlökk og einhver krem og ég kann varla að nefna alla þessa hluti, sett í flokk og á hana látið ganga fullt vörugjald.

Þessi hugmynd mín varð slíkur innblástur á heimili hæstv. ríkisstjórnar að hún var orðin að drifkraftinum í tilboðinu mikla um niðurgreiðsluna á fiski sólarhring síðar. Þá voru stjórnarsinnar búnir að láta reikna það út að þetta vörugjald gæti gefið, ef ég man rétt, einar 120 millj., 120 eða 140, ég man ekki hvort heldur var, alla vega langleiðina upp í söluskattsniðurgreiðsluna á fiskinum þannig að þarna átti náttúrlega að taka úr einum vasanum í annan.

Gott og vel. Ég er efnislega hjartanlega sammála því að það sé skynsamlegra að leggja álögur á snyrtivörur, enda hugmyndin frá mér komin, og verja þeim peningum með einhverjum skynsamlegum hætti, til að mynda til að niðurgreiða matfisk. Það er ágætishugmynd. En er þá ekki hægt að halda áfram á þessari braut, hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh.? Eigum við ekki bara að leggja saman? Ég skal koma með góðar hugmyndir um það hvar er hægt að taka inn tekjur með þessum hætti og síðan verðum við örugglega ekki í neinum vandræðum með að eyða þeim á þann hátt sem er hagstæður fyrir almenning í landinu.

Hvernig væri t.d. að leggja vörugjald á einhverja aðra viðlíka þarfa málaflokka og þetta jukk sem menn eru með framan í andlitinu á sér og verja því t.d. til að niðurgreiða innlent grænmeti? Og svo má áfram telja. Ég held nefnilega að það felist miklir möguleikar í þessu — ef hæstv. ríkisstjórn hættir að hanga eins og hundur á roði á því að leggja skatt á alla matvöruna. Það er það sem málið snýst auðvitað um.

Það væri gaman, herra forseti, að fara aðeins ítarlegar yfir gærdaginn. Þetta var auðvitað alveg sérstaklega skemmtilegt allt saman og einstaklega er það ánægjulegt þegar maður fær svo að vita það að það sem átti að láta mann kaupa var þegar selt öðrum eða gefið öðrum og það vakti athygli mína þegar ég sá dagskrá Nd. Alþingis á skrifstofu minni í morgun að hið mikla ágreiningsmál sem ríkisstjórnin af miskunn sinni ætlaði að bjóðast til að fresta fram yfir áramót er ekki meira kappsmál en svo að það er horfið út af dagskrá deildarinnar. Það væri ástæða til þess að hæstv. forseti okkar segði okkur ofurlítið um það hvort þetta sé bara allt í lagi með verkaskiptinguna og við megum kannski vænta þess að hafa hana ekki frekar fyrir augunum fyrr en einhvern tíma á vorþingi. Forseti á eflaust eftir að taka til máls síðar við fundarstjórn, þannig að ég skýt þessu svona að honum til íhugunar og hann svarar því kannski síðar.

Nei, ég held að það sé alveg ástæða til þess að ræða svolítið ofan í kjölinn um þessa matarskattahugmynd, þessa krataskattahugmynd sem hæstv. ríkisstjórn leggur hreinlega líf sitt við, að koma þessum sköttum á matvæli. Það er rétt að fara aðeins yfir rökin hjá hæstv. fjmrh. Ef hann sæist hér augnablik, herra forseti, væri það til mikils hagræðis. Það er leiðinlegt að vera að leita að honum hér í sölunum. Ég var farinn að horfa undir borð og stóla hvort hann hefði skriðið einhvers staðar undir bekki kannski. Það er sennilega ekki, hann er hér í hliðarsal. Hæstv. forsrh. er hins vegar gufaður upp. (Forseti: Það skal upplýst að hann er hér í salnum.) Nú, þetta er mjög ánægjulegt. Eru báðar stórstjörnurnar hér?

Við skulum aðeins fara yfir það hvort þetta er svona eins og hæstv. fjmrh. er algjörlega búinn að sannfæra sjálfan sig um, enda búinn að segja þetta eitthvað á annað hundrað sinnum, hundrað sinnum á fundunum frægu og nokkrum tugum sinnum í viðbót a.m.k. hér, að vandinn í söluskattskerfinu sé það að matvaran hafi ekki verið skattlögð. Við skulum aðeins ræða það, hæstv. fjmrh. Er það nú tilfellið? Er hæstv. fjmrh. m.ö.o. að segja að helstu söluskattssvikarar þjóðfélagsins séu matvöruverslanirnar. Það séu þær búðir sem selja í bland matvörur og aðrar vörur, nýlenduvörur og matvörur, kjöt og fisk og mjólk og svo föt og iðnaðarvörur. Ég fæ ekki betur séð en hæstv. fjmrh. sé með þessu sífellda stagli, að þetta sé vandamálið í söluskattskerfinu, að bera öll skattsvikin upp á þessa aðila. Og hverjir eru nú stórtækastir á þessu sviði? Það eru stórmarkaðirnir. Það eru Hagkaup, það er Mikligarður og það eru aðrir slíkir aðilar. Er að trú hæstv. fjmrh. að helstu söluskattssvikin í landinu séu í þeim verslunum þar sem mest fer fram af sölu á blönduðum varningi, matvöru annars vegar og öðrum þeim vöruflokkum sem hafa verið undanþegnir söluskatti, fyrst og fremst matvara, og svo hinum sem bera söluskatt. Ég held að það sé ástæða til að hæstv. fjmrh. fari nú að tala skýrt og kveði upp úr um það. Er það sem sagt hans skoðun? Er þá ekki ástæða til að fara í svolitla úttekt á þessum aðilum? Hæstv. fjmrh. nefnir stundum stórar tölur þegar hann talar um skattsvikin í landinu, söluskattssvikin í landinu og nú segir hann aftur og aftur og aftur: Þetta er meginvandamálið, að ákveðnir vöruflokkar, matvaran, hefur verið undanþegin söluskatti. Þetta er meginvandinn. Þarna liggur undandrátturinn.

Ég er ekki sammála hæstv. fjmrh. Ég held að þetta sé bull og viti hæstv. ráðherra ekki betur er rétt að fræða hann aðeins, hann sem hefur talað allra manna mest og allra manna hæst og á allra flestum fundum um söluskattssvik og hið ónýta skattkerfi. Og er hann svo kominn að þeirri niðurstöðu að það séu stórmarkaðirnir, sem eru auðvitað með mjög þaulskipulagt kerfi, bæði innra eftirlit og eins uppgjörseftirlit til yfirvalda, að þar liggi hundurinn grafinn? Það er fljótlegt að fara niður listann af þeim aðilum sem mest selja af varningi af þessu tagi. Ég hygg að það þurfi ekki að fara upp í ýkja marga tugi stærstu stórmarkaðanna hér á þéttbýlissvæðinu og í helstu kaupstöðunum til þess að vera búnir að ná inn mjög stórum hluta af vörusölunni í landinu hvað þetta varðar. Ef menn hafa virkilega trú á því að þetta sé rétt hjá hæstv. fjmrh., að þarna liggi hundurinn grafinn, er það þá svo óleysanlegt verk að fara ofan í saumana á því? Nei, auðvitað ekki. Enda vita allir að vandinn liggur ekki þar. Það kemur fram í þeirri skýrslu, sem hæstv. fjmrh. hefur oft og tíðum vitnað í en gerir það ekki beint í þessu samhengi, að vandinn er annars staðar, bæði hvað varðar eftirlit og trúlega umfang skattsvikanna. Það er auðvitað hjá hinum fjölmörgu smáu eða smærri aðilum sem eru með ýmiss konar vörusölu og þjónustuviðskipti. Þar eru erfiðleikarnir vegna þess að þar er orðið um gífurlega erfitt og stórt mál að ræða ef á að fara að hafa eitthvert eftirlit. Ég leyfi mér, virðulegur forseti, að vitna í þessa merku skýrslu, skýrslu fjmrh. um störf nefndar sem kannaði umfang skattsvika, kom hér inn á Alþingi 18. apríl 1986. Þetta er alveg gagnmerk skýrsla, enda hefur oft verið til hennar vitnað. Og við skulum fara aðeins hér í niðurstöðurnar, samandregnar niðurstöður, til þess að flýta fyrir þingstörfunum og vera ekki að lesa þetta ítarlega í köflum, heldur fara í hinar samandregnu niðurstöður. Ég geri þetta með sérstöku tilliti til þeirra anna sem hér eru. (ÓÞÞ: Það mætti lesa hana alla.) Það mætti auðvitað og væri mjög þarft verk, hv. þm., en ég er auðvitað eins og ævinlega allur af vilja gerður og ég ætla þess vegna að reyna að notast við hinar stuttu samandregnu niðurstöður til þess að sýna hæstv. fjmrh. fram á að hann er á verulegum villigötum. Og með leyfi þínu, forseti, ætla ég að lesa ofurlítið:

„Niðurstaða starfshópsins er sú að umfang dulinnar starfsemi hérlendis sé á bilinu 5–7% af vergri landsframleiðslu. Ef miðað er við 6% sem meðaltal nemur þetta um 6,5 milljörðum kr. árið 1985 miðað við áætlaða verga landsframleiðslu.

Tap hins opinbera vegna vangoldinna beinna skatta og söluskatts má áætla um 2,5–3 milljarða kr. árið 1985.“ Um þetta er fjallað ítarlegar í kafla 4.2 sem hv. þingdeildarmenn geta þá flett upp í ef þeim nægir ekki þessi skjóta yfirferð.

„Samkvæmt niðurstöðu skoðanakönnunar (4.4.5) og matsaðferðarinnar (4.3) eru mestar líkur fyrir dulinni starfsemi og skattsvikum í eftirtöldum greinum, raðað eftir áhættustigi:

a. Byggingarstarfsemi [það er ekki matvöruverslun, það er byggingarstarfsemi].

b. Persónuleg þjónustustarfsemi (s.s. bílaþjónustugreinar, gúmmíviðgerðir, hjá hárgreiðslu- og snyrtistofum o.s.frv. [Enn bólar ekkert á matvöruversluninni, ekki baun.]

c. Iðnaður, [og svo kemur loksins] verslun, veitinga- og hótelrekstur.“ Verslunin er í c-lið inni á milli annarra hluta talið og það er ekkert minnst þar sérstaklega á matvöruverslun. Það er væntanlega átt við alla verslun í landinu, ekki síður hina smáu aðila sem eru að selja í turnum og sjoppum úti um víðan völl. Ég leyfi mér að halda því fram að í þessu felist ekki rök fyrir því að það séu þær stærri verslanir sem hafa á boðstólum bæði eitthvert umtalsvert magn af söluskattslausri matvöru og öðrum vörum sem þarna eru sérstaklega fram taldar. Ég fullyrði það. Það er einfaldlega þannig, ef menn fara út í verslanir, að það er ekki fyrr en komið er upp í nokkuð stærri verslanir sem þær hafa það vöruúrval að vera bæði með ferska matvöru, matvöru í kæliborðum og aðra slíka vöru sem hefur verið söluskattslaus og eitthvert umtalsvert magn af öðrum vörum. Þetta vita þeir sem hafa einhvern tíma farið út að versla, sem kaupa í matinn fyrir sjálfa sig þó ekki sé annað. En það er eins og hæstv. fjmrh. sé algjörlega búinn að færa það verkefni yfir á konu sína eða a.m.k. kemur það ekki fram í vitneskju hans að hann átti sig á því hvernig þetta gengur fyrir sig í landinu.

Nei, þetta er svona, herra forseti, og það er alveg nauðsynlegt að fara þá bara dálítið ofan í saumana á þessu. Hvað er hæstv. fjmrh. eiginlega að meina hér? Ég segi: Hann er að bera söluskattssvikin upp á þessa aðila. Hann er að gera það, hæstv. ráðherra, með því að fullyrða það að vandamálið hafi legið í þessu, vandamálið hafi legið í því að í nokkrum tugum eða hundruðum af stærri verslunum í landinu séu menn að selja söluskattsfrjálsar matvörur og aðrar vörur í einni og sömu búðinni. En hann minnist ekki á í þessum röksemdum sínum fyrir matarskattinum að meginniðurstöður skattsvikanefndarinnar voru allt, allt aðrar greinar og ég ætla að lesa þetta aftur með leyfi þínu, herra forseti:

Samkvæmt niðurstöðu skoðanakönnunarinnar og matsaðferðarinnar eru mestar líkur fyrir dulinni starfsemi og skattsvikum í eftirtöldum greinum, raðað eftir áhættustigi: Byggingarstarfsemi, og það er enginn smágeiri í þjóðfélaginu, persónuleg þjónustustarfsemi, svo sem bílaþjónustugreinar, gúmmíviðgerðir, hjá hárgreiðslu- og snyrtistofum o.s.frv., þ.e. það er allur sá geiri sem er persónuleg þjónustustarfsemi af þessu tagi, þar sem einhver vörusala fer fram í bland gjarnan, eins og þeir vita sem hafa komið inn á dekkjaverkstæði eða hárgreiðslustofu og keypt sér þar rakspíra í leiðinni eða eitthvað slíkt. En það er líklega þannig að hæstv. fjmrh. er búinn að velta þessu líka yfir á konu sína. Það er eins og hann kunni ekki á þetta heldur. Væntanlega þarf hann þó að fara til rakara sjálfur. Síðan kemur þarna iðnaður, verslun og veitinga- og hótelrekstur.

Síðan er haldið áfram í þessum stuttu samandregnum niðurstöðum og sagt:

„Helstu ástæður skattsvika teljum við vera þessar:

a. Flókið skattkerfi með óljósum mörkum milli hins löglega og ólöglega. Frádráttar- og undanþáguleiðir íþyngja mjög framkvæmd skattalaga og opna margvíslegar sniðgönguleiðir.

b. Skattvitund almennings er tvíbent og verður óljósari eftir því sem einstök skattaleg ívilnunarákvæði einstakra hópa aukast ...“ Allt á þetta í raun og veru meira við skattagreiðslur einstaklinga og tekju- og eignarskatta en söluskattinn nema ef vera skyldi hið fyrsta að einhverju leyti.

„c. Há skatthlutföll hafa áhrif á umfang skattsvika. Þau hvetja til þess að nýta sér sniðgöngumöguleika og það þeim mun meira sem hlutföllin eru hærri.“ Þetta er auðvitað alveg rétt og hefur lengi verið vitað og það er eins og fagmenn segja: Það er svo mikill þjófnaðarhvati í kerfinu vegna þess að það er svo hár skatturinn. Það heitir á vinnumáli þjófnaðarhvati og þetta er alveg rétt. En hvað er hæstv. fjmrh. að gera núna í sambandi við þjófnaðarhvatann, þessa háu skattprósentu? Hann ætlar að halda henni alveg jafnhárri og hún hefur nokkurn tíma áður verið þó að hann breikki skattstofninn geysilega. Það er mjög umhugsunarvert efni. Það er sem sagt ekki meiningin hjá hæstv. fjmrh. með því að breikka skattstofninn nánast út um allt þjóðfélagið þannig að það er leitun að hlutum sem ekki eru skattlagðir að reyna á móti að lækka skattprósentuna einmitt líka til þess að draga úr þjófnaðarhvatanum. Nei. Hæstv. fjmrh. hefur dottið svo illa á höfuðið frá því að hann hélt ræður á síðasta þingi að nú kemur hann upp í ræðustólinn galvaskur og rökstyður 25% söluskatt á alla vöru og þjónustu næstum að segja í landinu. Það er ástæða til að ræða þetta líka ofurlítið nánar við hæstv. fjmrh. þó ekki væri nema næstum að segja af sálfræðilegum ástæðum með það í huga hvernig hann talaði um þessi efni hér á síðasta þingi, hæstv. ráðherra, þáv. hv. þm. og formaður Alþfl. eins og hann reyndar er enn þann dag í dag, því að slík voru ræðuhöld hæstv. ráðherra hér á hinu háa Alþingi sl. vetur. Slík var fordæming hans á hinni háu skattprósentu, að það er alveg nauðsynlegt að fara ofan í það hvernig stendur á þessum sinnaskiptum og ég mun gera það nú í næsta efnisþætti ræðu minnar.

En áður en ég segi alveg skilið við þetta um söluskattssvikin í tengslum við matvörudreifinguna vil ég að hæstv. ráðherra, ef hann ætlar að láta taka mark á sér á annað borð — hann hefur líka punktað þetta niður með sínum rauða penna eins og ég sé — komi hér í ræðustólinn og segi eitthvað meira en bara að fullyrða að vandinn í söluskattskerfinu hafi legið í því að ákveðnar tegundir matvöru hafi verið undanþegnar. Mér duga ekki fullyrðingar af því tagi þegar ég hef fyrir framan mig skýrslu skattsvikanefndarinnar sem segir annað og þegar ég hef bara mína staðþekkingu á þessum hlutum. Ég tel að þeir stóru dreifingaraðilar eins og stórmarkaðirnir séu einhverjir traustustu gjaldendur söluskatts í landinu. Ég leyfi mér að fullyrða það og er það þó ekki sérstakt hlutskipti mitt í lífinu að standa hér í málsvörn fyrir Hagkaup eða aðra slíka aðila og hefur ekki verið. En þetta skal ég segja vegna þess að þar er um mikla veltu að ræða, þar er þróað skipulag, bæði innra eftirlitsskipulag og uppgjörskerfi við hið opinbera. Ég vil að hæstv. fjmrh. komi hér og svari því: Er hann að tala um þessa aðila sem eru með stóran hluta vörudreifingar í landinu á þessu sviði eða ekki? Ber að skilja hæstv. ráðherra svo sem það séu alveg sérstaklega Hagkaup og Mikligarður og KRON og Víðir og Jón Loftsson og KEA á Akureyri og þessir aðilar sem eru kannski með stærstu einingarnar í þessari dreifingu sem séu vandamálið í þessum efnum? Eða hvað á hæstv. ráðherrann við?

Þá förum við yfir í skattprósentuna. Hvernig stendur á því að hæstv. ráðherra skuli þenja söluskattsstofninn út um víðan völl en engu að síður ætla að halda honum jafnháum og hann var fyrir? Hver er skýringin á því? Hvað er hér á ferðinni? Nú gefur það auðvitað auga leið að það er meiningin að taka alveg geysilegar viðbótartekjur inn í ríkissjóð með þessari nýju söluskattsinnheimtu og látum það vera. Auðvitað er gott að ríkissjóður fái aura og ekki ætla ég að fara að tala sérstaklega gegn því en hef auðvitað margoft bent á að það eru til fleiri leiðir.

Það væri hægt að ná svipuðum eða sambærilegum tekjum inn með ýmsu öðru móti þó að þar væri ekki gengið jafnlangt fram í skattheimtu, þ.e. innheimtu söluskatts. Þar kæmi náttúrlega tvennt til, annars vegar að undanþiggja einhverjar vörur eða tvennt eða þrennt, hins vegar að færa tiltekna vöruflokka niður á lægra söluskattsþrep og svo auðvitað í þriðja lagi að lækka prósentuna heilt yfir. Allt þetta kemur til greina.

En niðurstaðan er ekki sú. Niðurstaðan er sú að hæstv. ráðherra tekur upp nokkrar nýjar greinar þjónustu og leggur á þær söluskatt sem nú á að hækka um áramótin úr 10% í 12% og tekur síðan allar vörur, næstum því að segja sem finnast í landinu, og skellir yfir þær 25% söluskatti. Ég hirði ekki að rekja þessar undanþágugreinar því að þær eru það léttvægar fyrir allan almenning í landinu og ég ætla ekki að lasta það. Það er vissulega til bóta það sem þar er undanþegið í 3. gr.

Hæstv. ráðherra hélt hér á Alþingi sl. vetur mjög miklar ræður um skattamál og þá talaði hann m.a. þegar til umræðu var frv. um virðisaukaskatt. Það var hæstv. þáv. fjmrh. og hæstv. núv. forsrh., Þorsteinn Pálsson, sem mælti fyrir frv. til laga um virðisaukaskatt á þskj. 227. Þar var nú framtíðarríkið boðað og er reyndar enn þá. Hinn margþráði virðisaukaskattur. Það urðu auðvitað um þetta, eins og oft þegar viðamikil skattamál eru til meðferðar hér á Alþingi, miklar umræður eins og auðvitað gætu orðið í dag af því að hér er viðamikið skattamál til meðferðar. Í þeirri umræðu tóku þátt hv. þm. Svavar Gestsson og hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson. Og hann var nú ekki að korta með stóru orðin í þeirri umræðunni og ég held að ég verði sagnfræðinnar vegna og samhengisins að lesa ákveðna kafla upp úr ræðu hæstv. núv. fjmrh. og fara svona í rólegheitum yfir þetta með honum hvað hér hefur skeð. Hann hóf ræðu sína svona með leyfi þínu, herra forseti:

„Herra forseti. Vegna ummæla hæstv. fjmrh. á þá leið að þrír stjórnmálaflokkar hafi lýst yfir stuðningi við tillögur um virðisaukaskatt vil ég taka það fram strax í upphafi máls míns að þingflokkur Alþfl. styður ekki þetta frv. Ég hef líka ástæðu til að ætla að því fari fjarri að stuðningur við þetta frv. sé víðtækur innan raða stjórnarflokkanna.“

Síðan veltir hæstv. ráðherra, þáv. hv. þm., vöngum yfir því að einn og einn þm. í Framsfl. sé ekkert sérstaklega spenntur fyrir þessu frv. og það mun hafa verið rétt hjá hæstv. ráðherra ef ég man rétt. Síðan heldur hæstv. fjmrh. áfram þarna í ræðu sinni:

„Þetta segi ég strax til þess að taka af allan vafa um afstöðu okkar þingflokks vegna þess að hitt er rétt að við erum opnir til viðræðna við aðra stjórnmálaflokka um það að taka upp virðisaukaskatt sem slíkan“ — já, enda stóð ekki á því, það kom síðar í ljós — „sem hefur út af fyrir sig nokkra kosti umfram það söluskattskerfi sem við höfum þekkt á undanförnum árum, en þá því aðeins að sú löggjöf fullnægi mjög ströngum skilyrðum. Úr því sem komið er teljum við eðlilegast að endurskoðun skattkerfisins, sem auðvitað er löngu tímabær, verði tekin upp í heild sinni á vegum nýrrar ríkisstjórnar.“ Hvað varð. „Alla vega sýnist mér auðsætt að úr því sem komið er verði það ekki á valdi þessa þings að ná þeirri æskilegu samstöðu um þessa heildarendurskoðun sem út af fyrir sig er ef ekki forsenda þá a.m.k. veigamikill þáttur í því að taka upp svona róttækar breytingar á skattalöggjöfinni í heild.“

Svo kemur ágætisklausa sem er gott að rifja upp fyrir hæstv. fjmrh.

„Í því efni bendi ég sérstaklega á að það eru augljós rök fyrir því að endurskoða saman lög um tekju- og eignarskatt og um virðisaukaskatt. Vegna þess að það mun ráða allnokkru um það hversu langt við viljum ganga í að aflétta tekjuskatti af launum, hvort ríkisvaldið bætir sér upp tekjumissi sinn við það, með því að halda í allt of háa söluskatts- eða virðisaukaprósentu eða ekki.“

Þetta er nú fín setning fyrir menn að hafa hér inni í skattasamhenginu og ég er að hugsa um að afmarka hana vel þannig að ég finni hana hvenær sem ég þarf á henni að halda. Þetta er slíkt gullkorn frá hæstv. fjmrh. Ég ætla að leyfa mönnum að heyra þetta aftur með leyfi þínu sem ég veit að er góðfúslega veitt. Þetta er hæstv. núv. fjmrh., þáv. hv. þm. og formaður Alþfl., sem talar sl. vetur og hann er að fjalla um möguleikana á því að Alþfl. styðji heildarendurskoðun skattakerfisins með þessum orðum:

„Í því efni bendi ég sérstaklega á að það eru augljós rök fyrir því að endurskoða saman lög um tekju- og eignarskatt og um virðisaukaskatt. Vegna þess að það mun ráða allnokkru um það hversu langt við viljum ganga í að aflétta tekjuskatti af launum, hvort ríkisvaldið bætir sér upp tekjumissi sinn við það, með því að halda í allt of háa söluskatts- eða virðisaukaprósentu eða ekki.“

M.ö.o., hæstv. fjmrh. ætlaði ekki bara að lækka söluskattsprósentuna sem var allt of há sl. vetur eða virðisaukaskattinn. Hann ætlaði líka að lækka tekjuskatt af launum. Hver er niðurstaðan hjá þessum hæstv. ráðherra ef þessi ósköp ganga hér í gegnum þingið? Hún er sú að greiðslubyrði tekjuskatts almennra launa þyngist um 25% milli ára ef staðgreiðslukerfið kemst á og fleiri, fleiri milljarðar verða teknir af almenningi í viðbót í matarsköttum með sömu söluskattsprósentu eftir að búið er að fletja hana út yfir næstum því alla vöru og þjónustu í landinu. Þetta er slík firn, herra forseti, þetta er slík umpólun að ég get helst líkt þessu við það sem skeð hefur nokkrum sinnum í jarðsögunni að segulsvið jarðarinnar umpólast og norðurpóll verður suðurpóll og suðurpóll norðurpóll með geysilegum afleiðingum fyrir allt dýralíf og náttúrufar á jörðinni. Slík firn hafa gerst nokkrum sinnum í jarðsögunni og eru gagnlegar vísbendingar og aldurskvarðar í jarðlögum, en það er eitthvað af þessu tagi sem hefur gerst í pólitískri sögu Alþfl. Þessi hrikalegu sinnaskipti hæstv. fjmrh. eru af þessari stærðargráðu. Sem pólitísk niðurlæging fyrir Alþfl. hlýtur þetta að jafnast á við það versta sem sá flokkur hefur upplifað í sögu sinni og er hún þó orðin býsna löng, a.m.k. á mælikvarða íslenskrar stjórnmálahreyfingar.

Ég held að ekki sé hægt að sleppa hæstv. fjmrh. við það að rökstyðja ofurlítið betur nauðsyn þess að halda í 25% skattprósentu á miklu breiðari skattstofn en hann var að fjalla um sl. vetur. Það kemur ekkert fram um það í þessari klausu.

Ég get leyft mönnum að heyra nokkrar fleiri perlur úr þessu safni hæstv. fjmrh. Annars hvet ég menn til þess, af því að ég vil ekki lengja fundi hér með ástæðulausum upplestri, að ná sér í þingtíðindin þessa daga, 8., 9., 10., 11., 12. og 13. des. sl., þegar við vorum hér í rólegheitum að ræða skattamál og lesa bara fyrir sig sjálfa þessar perlur hæstv. núv. fjmrh. Hann segir á einum stað, það er í dálki 1467. Ekki hefur nú verið búið að tala mikið þegar þetta var í desember:

„Lítum aðeins nánar á fyrstu röksemdina“, segir hæstv. núv. fjmrh. „að skattprósentan sé allt of há, 24%. Rökin fyrir því að hverfa frá núverandi söluskattskerfi eru mörg. Menn segja í fyrsta lagi: Söluskattskerfið er ónýtt vegna þess hve undanþágum hefur verið fjölgað óhóflega á undangengnum árum. Þar af leiðandi er eftirlit allt í molum. Og menn eru yfirleitt á einu máli um það að söluskattsundandráttur sé mjög verulegur. En einmitt vegna þess hve undanþágusviðið er vítt hefur skattprósentan sjálf farið síhækkandi og er nú 25%.“

Jahá, einmitt. M.ö.o., ef við snúum þessu aftur, ef við bökkum þessu, er hæstv. fjmrh. að segja: Eina ástæðan fyrir 25% söluskattsstigi eru allar þessar undanþágur þannig að ef við afnemum þær keyrum við bara söluskattsprósentuna niður að sama skapi.

Það er ómögulegt að skilja hæstv. ráðherrann öðruvísi. Svo kemur áfram nokkru neðar í dálkinum, með leyfi þínu áfram, herra forseti:

„Þetta frv. gerir ráð fyrir því að þurfa að taka 20,9% í virðisaukaskatti, þrátt fyrir víkkun skattsviðsins og afnám undanþága, til þess að halda óbreyttum tekjum. Og því næst er gert ráð fyrir því að auka tekjur ríkissjóðs mjög verulega, á þriðja milljarð, með því að halda prósentunni uppi í 24% og þessum hálfum þriðja milljarði á síðan að verja til niðurgreiðslna og annarra tekjujafnandi aðgerða.“

Svo kemur algjör perla hjá hæstv. ráðherra:

„Ef ekki er hægt að ná betri árangri en þetta við upptöku virðisaukaskatts spyr maður sjálfan sig: Þrátt fyrir þær fræðilegu röksemdir, sem beita má virðisaukaskatti til stuðnings, umfram núverandi söluskattskerfi, duga þær ekki ef við vegum og metum saman annars vegar þær fræðilegu röksemdir um það að virðisaukaskattur á að vera hlutlaus gagnvart atvinnurekstri, virðisaukaskattur á að vera öruggari í innheimtu þrátt fyrir allt, þær duga ekki út af fyrir sig til þess að vega upp á móti þeim alvarlegu göllum sem felast í að skattprósentan er svona há.“ Jafnvel sjálfur virðisaukaskatturinn, sjálft fyrirheitna landið í skattamálunum duga ekki ef skattprósentan á að vera svona há, 24%, sagði hæstv. fjmrh. Þá voru allir kostir virðisaukaskattsins vegnir saman á móti 24% orðnir að engu og rúmlega það, dugði ekki til. Slík var óbeit hv. þáv. þm. á svona hárri skattprósentu á sl. vetri. Hvað hefur komið fyrir manninn?

Svo heldur hæstv. ráðherra, þáv. hv. þm., áfram og segir m.a.:

„Við leggjum þess vegna megináherslu á það að virðisaukaskattsprósentan, sem hér er lagt til að tekin verði upp, er allt of há.“

Og enn heldur hæstv. ráðherra áfram 10. des. og segir:

„Það nær ekki nokkurri átt ef við ætlum að gera samtímis breytingar á tekjuskattskerfi og neysluskattakerfinu að ganga út frá því til frambúðar að við búum við neysluskattastig á bilinu 20–30%. Við erum hér að tala um hæsta virðisaukaskattshlutfall í heimi," sagði hæstv. núv. fjmrh.

Þetta er auðvitað þannig uppákoma að mínu mati, herra forseti, þegar menn fara í svona loftköstum og éta það svo allt ofan í sig og rúmlega það, gera nákvæmlega hið gagnstæða. Þetta sem helst hann varast vann varð þó að koma yfir hann, var einhvern tíma sagt. Sennilega hefur hv. þáv. þm., formaður Alþfl., ekki haft jafnmikla óbeit á neinu ef marka má þessi ræðuhöld hans sl. vetur en svona háum skattprósentum í söluskatti eða virðisaukaskatti. Nú liggur hins vegar þessi dapurlega niðurstaða fyrir í frumvörpum hæstv. ráðherra að það á að ganga til öfugrar áttar, gera hið gagnstæða á öllum sviðum. Í staðinn fyrir að lækka tekjuskatt á launatekjum á að hækka hann. Í staðinn fyrir að lækka söluskatt á að hækka hann, það á að taka inn nýjar greinar og hækka á þeim prósentuna og það á að taka inn flest allar vörur sem í einhverju umtalsverðu magni eru seldar hér innan lands og setja þær upp í þennan óþolandi háa prósentuflokk, 25%. Það er ekki von að þm. neiti sér um það að ræða þessi mál ofurlítið við hæstv. ráðherra, herra forseti. Ég held að það skilji það allir að menn langi til að fá svolítil svör, langi til að fá á því skýringar hvað hér hefur gerst. Er það nema von?

Ég ætla af ýmsum ástæðum að hlífa hæstv. fjmrh. við að hafa þennan hluta ræðu minnar lengri. Ég held að það sé ekki rétt að leggja meiri upplestur á hæstv. ráðherra í einu, að leggja meiri upplestur úr ræðum hans á hann núna í einni lotu. Það getur vel verið að einhverjir aðrir hv. þm. vilji líka minna hann á eitthvað sem hann hefur sagt, til að mynda hv. 6. þm. Norðurl. e. Mér dettur það í hug, að hv. þm. hefði ekkert á móti því að nefna við hæstv. núv. fjmrh. ýmislegt sem hann boðaði áður fyrr á árunum í skattamálunum.

Ég ætla hins vegar að víkja að því sem hæstv. fjmrh. sagði hér í umræðum í Ed. og snertir þessa skattheimtu, þ.e. hæstv. fjmrh. hafði þar uppi býsna digur ummæli um afstöðu verkalýðshreyfingarinnar og líkleg viðbrögð verkalýðshreyfingarinnar við þessum matarskatti. Það er eins og öllum er ljóst mikil andstaða við þessa matarskattlagningu úti í þjóðfélaginu. Fjölmenn samtök hafa mótmælt henni, ekki fámennari en Alþýðusamband Íslands og fjöldamörg önnur stéttarfélög og ýmiss konar fagfélög og ýmsir aðilar og það náttúrlega væri blint og heyrnarlaust fólk sem ekki gerir sér grein fyrir því að almenningur hefur andúð á þessum breytingum. Það gengur ekki upp í hugum almennings að lækka ýmiss konar lúxusvörur á sama tíma og matvaran er hækkuð í verði, keyrð upp um 25%. En hæstv. fjmrh. hefur ekki miklar áhyggjur af þessu. Hann hefur nú aldeilis stöðuna til að tala digurbarkalega að eigin dómi. Og hvað sagði hæstv. ráðherra um þessi efni í Ed. núna á dögunum? Það er ágætt að rifja það hér upp. Ég held að það sé rétt að deildirnar viti af því hvað skeður hinum megin við þilið, hinum megin við hurðina, þannig að menn séu samstilltir í þessum efnum. Kannski vill hæstv. fjmrh. koma upp og endurtaka ummæli sín fyrir hv. Nd. um það hvaða áhrif þessir matarskattar kynnu að hafa á stöðuna í kjaramálunum. Hvernig var þetta? Ég held ég verði að lesa hér talsverðan bút úr ræðu hæstv. ráðherra sem ég hef fengið vélritaða. Sennilega er það ekki nema hluti ræðunnar og þó skal ég ekki fullyrða um það. Það skal tekið fram að einhver orðaskipti höfðu orðið í hv. Ed. um viðtal sem dagblaðið Tíminn tók við hæstv. utanrrh. þar sem hann þvoði ákaflega hendur sínar af öllu því sem miður fer í þessari ríkisstjórn eins og hans er háttur. Hann er öðrum mönnum fremur snjall í að standa frír, býsna fjarri öllu sem illa tekst í ríkisstjórnum, en eigna sér það sem betur gengur, hvort sem það er að selja saltsíld eða gera eitthvað annað. Hæstv. fjmrh. fórust þannig orð um þetta allt saman, Tímaviðtalið og stöðuna í kjaramálum, með leyfi þínu, herra forseti, upp úr ræðu hæstv. fjmrh. í Ed. fyrir einum eða tveimur sólarhringum síðan ég held að það sé nauðsynlegt að loka hurðum, herra forseti, því að þeim liggur líka hátt rómur í Ed. —.

„Hv, þm. [sem gæti hafa verið 7. þm. Reykv., þó veit ég það ekki alveg] vék einnig að því að hæstv. utanrrh., sbr. viðtal við dagblaðið Tímann í dag, væri að fría sig ábyrgð á stefnu ríkisstjórnarinnar og mundi sennilega gera það í vaxandi mæli með vísan til þess að hann hefði verið mikið fjarverandi og lítinn þátt tekið í þeim ákvörðunum sem búa að baki, m.ö.o. ekki tekið þátt í að móta stefnu ríkisstjórnarinnar. Það er rétt að hæstv. utanrrh. hefur verið mikið fjarverandi að sinna sínum embættisskyldum en það breytir ekki því að sem formaður Framsfl. þá fer það ekkert milli mála að í stjórnarmyndunarviðræðum og í umræðum innan ríkisstjórnar hefur formaður Framsfl. markað sér þá stefnu að hann hefur afdráttarlaust lýst þeim skoðunum sínum að ef nokkuð væri þá ætti að ganga lengra í skattlagningarátt.“

Hér túlkar hæstv. fjmrh. grundvallarafstöðu hæstv. utanrrh. í skattamálum. Sem sagt að það sé varla gengið nógu langt, svona naumast. Og áfram les ég:

„Það kom skýrt og skilmerkilega fram í fjölmiðlum í sambandi við stjórnarmyndunarviðræður að því er varðaði undirbúning að fyrstu aðgerðum ríkisstjórnarinnar að formaður Framsfl. var eindregið þeirrar skoðunar að ríkisstjórnin ætti að ganga lengra í skattlagningarátt en niðurstaðan varð.“

Það væri nú fróðlegt að fá um það ítarlegri upplýsingar frá einhverjum talsmönnum Framsfl. ef einhverjir þeirra eru enn í salnum. Þeir eru kannski allir farnir út. Nei, hér er a.m.k. einn hv. þm. Framsfl., og tveir — bíddu nú við, ég verð að fara að telja betur — en fleiri munu þeir nú tæpast vera, nema forseti sem að sjálfsögðu er hér og tilheyrir þeim flokki.

Hvernig ætlaði hæstv. utanrrh. að ganga lengra? Kannski hæstv. fjmrh. segi okkur það úr því hann er farinn að túlka og tala fyrir hans hönd í skattamálum hvort sem er.

Og þetta er svar við þeim fullyrðingum hv. þm. Júlíusar Sólnes, og þá höfum við það við hvaða hv. þm. er átt, að ef hæstv. utanrrh. hefði verið meira í landinu hefði einhverra breytinga verið að vænta í þessa átt. „Ég held að það sé byggt á röngum forsendum“, segir hæstv. fjmrh. í Ed.

„Að lokum, virðulegi forseti. Það var áður í þessum umræðum vísað til mótmælasamþykktar miðstjórnar Alþýðusambands Íslands og tveir hv. ræðumenn hafa spurt sem svo: Hvaða áhrif munu þessar aðgerðir hafa á kjarasamninga? Hér er auðvitað verið að fjalla um skattheimtuna. Munu þessar aðgerðir spilla fyrir kjarasamningum eða munu þær út af fyrir sig ekki hafa nein áhrif á þá eða jafnvel hugsanlega greiða fyrir þeim? Menn virðast vera búnir að gleyma því í þessum umræðum að megin niðurstaðan af þessum heildaraðgerðum að því er varðar hag fjölskyldna í landinu, heimilanna í landinu, er sú að framfærslukostnaður heimilanna, eins og hann er metinn, breytist ekki, ekki nokkurn skapaðan hlut, og í annan stað að veigamiklir aðrir mælikvarðar á útgjaldaþætti heimilanna breytast, þ.e. byggingarvísitala lækkar og að hin illræmda lánskjaravísitala, sem margir hallmæla og er mælikvarði á greiðslubyrði fólks, lækkar.

Þess vegna spyr ég: Er einhver ástæða til að ætla að efnahagsráðstafanir sem fela það í sér að eyða halla á ríkissjóði, tryggja jöfnuð í ríkisfjármálunum á næsta ári, sem verkalýðshreyfingin, talsmenn Alþb. þótt ekki sé það sami hluturinn, hefur sérstaklega hvað eftir annað talið jákvætt markmið og lýst yfir stuðningi við, er líklegt að verkalýðshreyfingin bregðist við aðgerðum sem tryggja þennan trausta fjárhag ríkissjóðs án þess að raska útgjöldum heimilanna, meti það svo að hér sé verið að leggja stein í götu kjarasamninga? Hversu oft hafa menn ekki spurt sem svo: Hvað ætlar ríkisstjórnin að leggja á borð með sér ef hún verður kvödd til þríhliða viðræðna um kjaramál? Hversu margir eru ekki þeir sem hafa lýst aðdáun sinni á þeim gerningi fyrrverandi ríkisstjórna að koma að slíku samningaborði sem þriðji aðili og leggja talsvert á borð með sér? Lækkun skatta, lækkun tolla, breytingar einmitt á þessum þáttum til þess að greiða fyrir hófsamlegum kjarasamningum sem tryggðu vaxandi kaupmátt.“

Hér eru svoleiðis orðblóm á ferðinni að það liggur við að setji hlátur að ræðumanni, þegar hæstv. fjmrh. er að tíunda þau ágæti sem hæstv. ríkisstjórn hafi að leggja á borð með sér, bullandi skattahækkanir og álögur á heimilin í landinu, og tala svo mjög digurbarkalega um það að hann komi nú aldeilis ekki illa nestaður að samningaborðinu með þessar skattahækkanir því að þá geti hann kannski tekið eitthvað til baka. Ber ekki að skilja hæstv. ráðherra þannig? Er nokkur einasta leið að lesa annað út úr þessu? Hann heldur áfram hæstv. ráðherrann: „Hvað ætlar ríkisstjórn með tóman ríkiskassa að leggja á borð með sér?" Ja, það er von að spurt sé. „Hvað ætlar slík ríkisstjórn að leggja á borð með sér, með leyfi?" spyr hæstv. fjmrh. Og ég hirði ekki um að lesa mikið meira upp úr þessu til að tefja nú ekki tímann. En niðurstaða hæstv. fjmrh. er dregin saman eitthvað á þessa leið: „Ég held," segir hæstv. fjmrh. í Ed. fyrir tveimur sólarhringum síðan eða svo: „Ég held að þegar menn meta þetta í heild sinni séu þessar aðgerðir, að stuðla að jöfnuði í ríkisfjármálum og gera það með kerfisbreytingu sem raskar ekki útgjöldum heimilanna, engan veginn af hinu illa eða líklegar til þess að spilla kjarasamningum, fjarri því. Það er bara kokhreysti og gífuryrði og innihaldslaus orð.“ — Svo mörg voru þau nú hjá hæstv. fjmrh.

Við skulum aðeins fara yfir það: Hvernig hugsar hæstv. fjmrh. sér þá væntanlega að greiða fyrir kjarasamningum? Með því að leggja á matarskatta og söluskattskerfisbreytingar upp á fimm og hálfan milljarð og með samanlagðri skattheimtu upp á átta og hálfan frá því að ríkisstjórnin tók við. Auðvitað á að eyða þeim peningum einhvern veginn, það vitum við, en útþensla skattstofnsins í landinu er þessi. Inntektin í ríkissjóð á grundvelli nýrra álagna verður þessi. Það hefur hæstv. fjmrh. ekki getað hrakið. Jú, ég held ég skilji hugsanagang hæstv. fjmrh. Ég hef nefnilega séð svipaðar aðfarir til hans áður. Við könnumst við aðferðina, hún er þekkt. Þetta er hótunarstefna. Þetta er skiptimyntarstefna. Og í hverju felst hótunarstefnan? Hótunarstefnan var útskýrð með skólabókardæmi á sl. hausti. Þegar hæstv. ríkisstjórn boðaði matarskattana, kynnti þá fyrir verkalýðshreyfingunni, gífurlegar álögur á neysluvörur, brýnustu neysluvörur heimilanna, fylgdi nefnilega ofurlítill taglhnýtingur. Það var hnýtt aftan í pakkann að ef verkalýðshreyfingin yrði þæg í kjarasamningum mundi ríkisstjórnin kannski hætta að einhverju leyti við að leggja á matarskatt. Það var nefnilega aðferðin. Það var hótunarstefnan. — Ef þið verðið ekki góðir, ef þið semjið ekki um kauplækkun, í mesta falli óbreytt kaup, fáið þið yfir ykkur matarskatta. Þetta er aðferðin, nema bara nú er gengið lengra, nú eru fyrst lagðir á skattarnir, síðan er meiningin að koma til launamanna, ef þeir verða þægir, og bjóða þeim kannski eitthvað pínulítið til baka. Það er auðvitað veislukosturinn sem hæstv. fjmrh. ætlar að leggja á borð með sér. Það eru skattarnir miklu. Það er inntektin í ríkissjóð. Svona framkoma er að mínu mati, herra forseti, svo langt fyrir neðan allar hellur að ég tel að samtök launafólks eigi ekki að ræða við svona menn. Undir svona kringumstæðum eiga samtök launafólks ekki að ganga til viðræðna, undir svona hótunarsvipu.

Ég vil fara aðeins lengra með þessa formúlu hæstv. fjmrh. og spyrja menn hver væri þá munurinn á því ef hæstv. fjmrh. eða forsrh. gæfi út dagskipun og segði: Nú ætlum við að hýða hvern einasta launamann í landinu 50 vandarhögg á næsta ári. Það hefur verið tekin um það ákvörðun í ríkisstjórninni að kaupa 20 000 hrísvendi og hýða hvern einasta launamann á Íslandi 50 högg. En ef menn sætta sig við kauplækkun eða menn borga skattana sína eða menn verða þægir, ja, þá kannski fækkum við höggunum eitthvað og jafnvel hættum alveg við að hýða menn. Þetta er aðferðin. Þetta er aðferðin í hnotskurn. Það er svona sem hæstv. ráðherra ætlar að koma fram við menn og er í raun og veru alltaf að gera það. Þetta er sama skiptimyntar- og hótunarstefnan sem hæstv. ríkisstjórn notar núna í skattamálunum, í haust þegar hún kynnti verkalýðshreyfingunni matarskattana, og þetta er í raun og veru sama aðferðin sem beitt er á sveitarfélögin þegar Jöfnunarsjóðnum er stolið af þeim en síðan er sagt við þau: Ef þið viljið taka hérna að ykkur verkefni upp á nokkur hundruð milljónir stelum við eitthvað aðeins minna. Þetta eru býttin sem boðið er upp á aftur og aftur og aftur af hæstv. ríkisstjórn og undir slíkt á auðvitað ekki að ganga, ekki undir nokkrum kringumstæðum. Og ég vil draga það hér inn í þessa mynd vegna þess að á margnefndum fundi í fjh.- og viðskn. á föstudaginn var, þar sem snjallræðið um vörugjaldið á snyrtivörurnar komst á loft, mættu líka til viðræðna um tollamál aðilar verkalýðshreyfingarinnar og Neytendasamtakanna. Og hvað sögðu þeir okkur, hæstv. fjmrh.? Þeir upplýstu það að allt samráðið sem haft hefur verið við launþegahreyfinguna í landinu, samtök launamanna, fólst í því að þeim voru snemma í haust, rétt í nágrenni við framlagningu fjárlaga kynntar óljósar hugmyndir í þessa átt. Búið. Punktur. Síðan hafa fulltrúar Alþýðusambandsins, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og Bandalags háskólamanna, sem mættir voru á fundi í fjh.- og viðskn., ekki komið að tollamálum, ekki komið að vörugjaldsmálum, ekki komið að söluskattsfrv. Fyrir því hef ég óbreytt orð talsmanna þessara samtaka á fundi í fjh.- og viðskn. á föstudaginn var. Það liggur hins vegar fyrir að samtök atvinnurekenda, sérstaklega iðnrekenda, og fleiri slíkir hafa setið að þessu með hæstv. ríkisstjórn vikum saman. Svo talar hæstv. fjmrh. digurbarkalega eins og ekkert sé sjálfsagðara en það, þetta hljóti að greiða stórlega fyrir kjarasamningum ef eitthvað er, alveg stórlega. Hækka bara duglega skattana á matvöruna, bara í 70%, þá er alltaf hægt að bjóða að lækka þá eitthvað til baka. Ég tel að ráðherra þyrfti að gera miklu betur í raun og veru ef hann ætlar að vera alveg öruggur með að ná samningum. Því fer ekki ráðherrann í 50% til að hafa svolítið meira til að bakka með, ha? Þetta er engin samningalist. (Gripið fram í.) Ef hæstv. iðnrh. þarf að tjá sig mikið í umræðunni er hugsanlegt að hann gæti fengið orðið seinna, er það ekki, herra forseti? Og verður hann þá vonandi í svona góðu skapi, aftur. Gaman að hafa hæstv. iðnrh. hérna hjá okkur við og við, hann er afskaplega notalegur í framan.

Nei, þetta eru náttúrlega þannig efni hér, herra forseti, að það er varla hægt að ræða þau í gamansömum tón og í raun og veru ekki nokkur leið. Mér er það ekki nokkur leið.

Ég tel og það verð ég að segja að ég gagnrýni forustumenn samtaka launafólks í landinu fyrir það að hafa ekki tekið miklu harðar á móti þessari hótanastefnu ríkisstjórnarinnar. Að mínu mati er verkalýðshreyfingin allt of sanngjörn í garð svona vinnubragða. Það á ekki að láta bjóða sér það að ræða hlutina undir svona svipu, undir svona keyrum. Ekki með nokkru móti. Og hæstv. ráðherra ætti að hafa vit á því að taka þessi ummæli sín til baka.

Ég held að það sé öllum ljóst nema þá e.t.v. hæstv. fjmrh., hvers heimilisútgjöld ég veit eiginlega ekki hvernig eru samsett, að matarskattarnir koma til með að bitna þyngst á láglaunafólkinu. Forseti Alþýðusambands Íslands segir á fundi með fjh.- og viðskn. að þegar tekin séu útgjöld vísitölufjölskyldunnar og miðað við að fjölskyldan hafi sambærilegar tekjur, þ.e. útgjöld upp á um 105–110 þús. á mánuði og sambærilegar tekjur, sé e.t.v. ástæða til að ætla að útgjöld til matarkaupa séu ekki fjarri því sem framfærslugrundvöllurinn miðar við, þ.e. nálægt

20%. Þá sé e.t.v. hægt að nota það sem viðmiðun þó að auðvitað sé ljóst að hér er um að hluta til skakka mynd af neyslu fólks að ræða og úreltar upplýsingar að einhverju leyti. En við skulum vinna með þetta á þeim grundvelli að þetta sé nálægt hinu rétta og gefum okkur að hér sé fjögurra manna fjölskylda með 110 þús. kr. mánaðarlaun og þá eyðir hún um 20% af launum sínum í matarkaup og það er upplýst að matarliðurinn í körfunni, í neyslukörfu vísitölufjölskyldunnar, hækkar um 7%. En hvað skeður svo ef við stækkum fjölskylduna upp í sex eða sjö manns og lækkum launin niður í 80 000 eða 70 000 eða 60 000 eins og auðvitað sumar fjölskyldur, fimm og sex og sjö manna fjölskyldur, þurfa að láta sér nægja? Þá hleypur auðvitað matarliðurinn upp í 30%, í 40%, jafnvel í 50%, af ráðstöfunartekjum þessarar fjölskyldu og hvað þýðir þá 7% hækkun á þessum lið? Ég leyfi mér að segja að þó að þetta hækki ekki nema um helming, um 50%, úr 20 í 30%, sé það alveg ljóst að þar með er komin kjaraskerðing á þá fjölskyldu upp á 3–5% vegna þess að matvaran fer upp og aðrar vörur fara niður í neyslu þessarar fjölskyldu. Það gefur auga leið að stóra fjölskyldan með lægri launin hún kaupir ekki bæði mat og varaliti fyrir sömu krónuna. Er það ekki rétt, hv. þm.? Og þá erum við að segja það að kjaraskerðingin verður þyngri og þyngri eftir því sem matarliðurinn stækkar og aðrar vörur minnka í samsetningu neyslu viðkomandi fjölskyldu.

Forseti Alþýðusambandsins segir: Ef við hækkum matarliðinn úr 20% í 30% getum við reiknað með að þar með sé komin kjaraskerðing upp á 2–4% hjá viðkomandi fjölskyldu. Ég tek mark á þessum tölum. Þegar forseti Alþýðusambandsins, sem situr í kjararannsóknarnefnd og er með fróðustu mönnum á landinu um þessa hluti, setur þetta fram, að vísu með fullum fyrirvörum sem ég vil líka halda til haga, vegna þess að hvorki Alþýðusambandinu né öðrum hefur gefist tóm til þess að gera á þessu neinar marktækar kannanir, neinar ítarlegar kannanir eða útreikninga. En þetta eru viðbrögð studd reynslu og þekkingu á þessum málum.

Það er einmitt þetta, herra forseti, sem á ekki að láta hæstv. fjmrh. komast upp með, að fara sífellt í kringum eins og köttur sem fær heitan graut í skál vegna þess að það eru meðaltöl og meðaltöl og meðaltöl og aftur meðaltöl sem hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórn byggir allan sinn málflutning á. Það er meðaltalsfjölskyldan, það er meðaltalsneyslan, það er fólk sem notar nógu mikið af varalitum og nógu mikið af vídeótækjum og nógu mikið af öllu því sem nær jöfnu en einungis það fólk.

Þessar staðreyndir við þessar skattkerfisbreytingar, herra forseti, verða ekki faldar. Þær eru ljósar hverjum einasta hugsandi manni í landinu, enda sýna viðbrögð almennings það við matarskattinum að fólkið skilur þetta betur en hæstv. fjmrh.

Hæstv. ráðherra hefur gert dálítið úr því að það sé nauðsynlegt til samræmingar, að manni skilst á einhverjum alþjóðlegum grundvelli, að taka hér upp eitt söluskattsstig og væntanlega eitt virðisaukaskattsstig þegar þar að kemur. Ég hef ekki heyrt annað frá talsmönnum hæstv. ríkisstjórnar en að meiningin sé að hér verði eitt flatt stig, skattprósenta, í virðisaukaskatti. Þetta er heimskulegt og ég ætla að fara um það nokkrum orðum.

Það er bull og þvættingur hjá hæstv. fjmrh. að það sé eitthvert samræmingaratriði við aðra aðila úti í heimi að taka upp eina skattprósentu hvort sem heldur er í söluskatti eða virðisaukaskatti. Staðreyndin er sú að þær eru margar í mörgum nágrannalöndum og að innan Efnahagsbandalags Evrópu er þróunin öll í þá átt að taka upp tvö skattstig í virðisaukaskatti. Í þeim löndum þar sem verið hafa mörg stig eru prósenturnar núna yfirleitt að draga sig saman í tvö skattþrep, lágt þrep og hærra þrep. Þá eru vörur flokkaðar upp með tilliti til þess hversu nauðsynlegar eða brýnar þær eru almenningi og lenda í flokkum út frá því. Ég hygg að hæstv. ráðherra ætti sjálfur eða þá að láta sérfræðinga sína kynna sér þróun mála í þessum efnum, ekki bara innan Efnahagsbandalags Evrópu heldur líka hjá hinum Norðurlandaþjóðunum sem eru að undirbúa samskipti sín við hinn stóra sameiginlega markað Evrópubandalagsins. Það er glapræði og heimska að láta glepjast af ummælum hæstv. fjmrh., séu þau ekki studd betri rökum en hingað til hafa fengist um þessi efni.

Ég tek fram að ég ætla ekki að fara að gera mig að sérfræðingi í skattamálum Evrópubandalagsríkja, en þær upplýsingar sem ég hef aflað mér benda í fyrsta lagi til þess að yfirgnæfandi líkur séu á því að samkomulag verði um það innan Evrópubandalagsins að menn sameinist um tvær skattprósentur í virðisaukaskatti. Svíar og jafnvel Norðmenn eru þegar farnir að undirbúa breytingar í sínu skattakerfi til að taka á móti þessari þróun. Svíar hafa gefið um það yfirlýsingu að þeir séu tilbúnir að grípa til býsna róttækra ráðstafana í sínu efnahagslífi, í sínu skattakerfi til að „harmónera“ við hinn stóra sameinaða evrópska markað sem er í stofnun.

Svo kemur hæstv. fjmrh. uppi á Íslandi og ætlar að nota það sem rök fyrir einni skattprósentu, hvort sem heldur er í söluskatti eða virðisaukaskatti, að það sé eitthvert samræmingaratriði. Þetta er fjarri öllu lagi. Hæstv. ráðherra er í raun og veru að viðurkenna það með verðandi 12% skatti sínum á ýmsa þjónustu að það er ekkert auðveldara en að hafa þetta með mismunandi hætti, hafa þetta í tveimur eða jafnvel fleiri þrepum.

Vissulega er það rétt hjá hæstv. ráðherra að það er lengi hægt að gera tilveruna einfaldari, en er það alltaf keppikefli að gera alla hluti endalaust einfaldari, burtséð frá allri sanngirni og öllum rökum að öðru leyti? Er t.d. því fórnandi á altari þessarar einföldunarþráhyggju að leggja 25% skatt á matvöru? Ég segi nei. Auðvitað ekki. Auðvitað erum við Íslendingar ekki þeir bjálfar, úr því að aðrar þjóðir geta byggt upp virðisaukaskattskerfi með þrepum þar sem neysluvaran er flokkuð lægra en ýmis annar varningur, að við getum þá ekki líka smíðað svoleiðis kerfi, ekki nokkur vandi. Það er vissulega ekki eins einfalt og þetta þráhyggjukerfi hæstv. ráðherra, en það getur verið fyllilega skilvirkt og miklu réttlátara og það er mergurinn málsins.

Ég hygg að það vanti upplýsingar á íslensku um þróun mála í Efnahagsbandalaginu og annars staðar í nágrannalöndunum, á Norðurlöndunum og jafnvel í Norður-Ameríku, til að nota til grundvallar í þessari vinnu. Ég hef spurst fyrir um hvað liggi fyrir um þetta efni. Í Alþýðusambandi Íslands fékk ég þær upplýsingar að þar væru til, að vísu á dönsku og sænsku, skýrslur um aðgerðir hinna Norðurlandaþjóðanna á þessu sviði og áform. En þær hafa ekki verið þýddar enn þá vegna þess að Alþýðusamband Íslands hefur ekki endilega bolmagn til að sjá um alla upplýsingaöflun þar sem ríkisstjórnin bregst. Ég fór að athuga bók sem Öryggismálanefnd gaf út um Ísland og Evrópubandalagið. Þar er vissulega að finna gagnlega hluti þessu tengda. En það vantar þá ítarlegu umfjöllun um skattkerfis- og efnahagsmálahlið þessara hluta sem við þyrftum að hafa í höndunum á íslensku áður en hæstv. ráðherra fer að fullyrða jafnmikið og hann gerir um þetta efni.

Ég hef að vísu áður vitnað til skýrslu í umræðum á Alþingi um nátengt mál þar sem er tollastefna Evrópubandalagsins. Mér tókst að komast yfir skýrslu á miðju sl. sumri, leyniplagg frá efnahagsmálanefnd Evrópubandalagsins. Hún hefur ekki verið þýdd enn þá, a.m.k. ekki af minni hálfu. Þessa skýrslu fékk ég hjá útflytjendum sjávarafurða í landinu sem eru af eigin rammleik að reyna að afla sér upplýsinga og fylgjast með þessum málum og gera að mínu mati oft og tíðum betur en hæstv. ríkisstjórn og stofnanir hennar. Alla vega kom þessi skýrsla ekki í mínar hendur frá viðskrn. eða Þjóðhagsstofnun eða fjmrn. Nei, hana fékk ég hjá Sölusambandi íslenskra fiskframleiðenda.

Í þessari skýrslu eru mjög mikilsverðar upplýsingar um markvissa tolla- og skattastefnu Evrópubandalagsins sem hafa stórpólitískan tilgang að baki sér, þann tilgang að ná ítökum og áhrifum í fiskveiðilögsögu þriðju ríkja, ríkja utan bandalagsins eins og Íslandi. Og ekki bara með því að senda þangað skip til að veiða. Nei, vegna þess að það er erfitt í framkvæmd. Nei, með því að ná hráefninu af þessum fiskimiðum óunnu inn í Evrópubandalagið. Ef hæstv. ráðherra kemur hér með fullyrðingar um samræmingarþörf og ætlar að fara að tala efnislega um þessa hluti skulum við fara ofan í þá. Þá skulum við brjóta þetta til mergjar. Og ekki bara söluskattsprósentur, hvort það sé nauðsynlegt að hafa eina söluskattsprósentu á Íslandi í einhverju alþjóðlegu samhengi. Við skulum líka fara yfir tollamálin, fara yfir tollamálin og skattamálin á þessum stóra markaði sem við skiptum mjög mikið við, flytjum yfirgnæfandi af okkar vörum frá og flytjum til í mjög vaxandi mæli ár frá ari. Við skulum hugleiða, og er ágætt að muna eftir því í tengslum við þessar skattkerfisbreytingar og þessa uppstokkun alla, að það geta gerst mikil tíðindi á næstu þremur til fimm árum í samskiptum okkar við Evrópubandalagið, t.d. þau tíðindi að Noregur boði inngöngu sína í bandalagið á allra næstu árum. Það mun gerast snöggt, segja fróðir menn, vegna þess að almenningur í Noregi er enn lítt hrifinn af hugmyndinni, en upplýsingar benda til þess að forustumenn í stjórnmálalífi og viðskiptalífi Noregs séu orðnir því mjög hlynntir að keyra Noreg inn í Evrópubandalagið á næstu árum. Það eru tíðindi sem Íslendingar skulu hyggja grannt að og undirbúa sig fyrir ef þau er í vændum. Svíar hafa gefið út um það yfirlýsingu að þeir séu þrátt fyrir sitt hlutleysi og sína þekktu sjálfstæðu stöðu reiðubúnir að grípa til umfangsmikilla ráðstafana í sínu skattakerfi og efnahagslífi til að auðvelda sambúðina og samskiptin við Evrópubandalagið á næstu árum.

Ég fer þá fram á það, herra forseti, úr því að hæstv. fjmrh. er að láta liggja að ýmsu í sambandi við samskipti okkar við erlenda aðila í tengslum við þessa skattkerfisbreytingu, að hann tali eins og hann hefur vit til um þessi mál og tali út um þau. Við skulum þá ræða þetta efnislega. Ég vil t.d. fá að vita hvaða upplýsingar hæstv. ríkisstjórn hefur í höndum um þessa hluti. Hvað skýrslur liggja þar fyrir og er hægt að fá þeim dreift? Allt eru þetta mikilsverðir hlutir sem skipta okkur miklu máli. Við skulum líka gá að því að við erum að fjalla um, ekki síst með afgreiðslu tolla- og vörugjaldsfrv., mjög mikilsverða þætti sem snerta samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs. Þar sem verið er að uppstokka allt tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs og alla skatta landsmanna erum við nánast á öllum sviðum að grípa inn í þessi mál, sbr. þá miklu umræðu sem varð um frv. um launaskatt á útflutningsgreinar sem nýlega er orðið að lögum illu heilli.

Nei, herra forseti. Það duga ekki hálfkveðnar vísur eða stóryrði í þessum efnum. Við skulum þá ræða þetta efnislega og fá svör frá hæstv. fjmrh. og reyndar hæstv. forsrh. sem vill svo til að er í raun yfirmaður efnahagsmála í ríkisstjórninni hvort sem menn gera sér grein fyrir því eða ekki. Ég býst ekki við að hæstv. forsrh. afneiti því að á hans herðum hvíli sú mikla ábyrgð í raun og veru. Þrátt fyrir hið mikla rykti hæstv. fjmrh. er það þó þrátt fyrir allt forsrh. sem er hinn eiginlegi efnahagsmálaráðherra landsins og hefur með höndum samræmingu þeirra mála milli ráðuneyta, milli viðskrn. og bankamálanna, milli fjmrh. og milli atvinnumálaráðuneytanna. Þannig væri engin goðgá þó hæstv. forsrh. kæmi hér og talaði nokkur orð a.m.k. um þessi mál. Það væri engin goðgá að ætlast til þess.

Ég hef í hyggju að fara nú að stytta mál mitt, herra forseti, enda tel ég að ég hafi komið kannski að stærstu efnisþáttum þessa máls núna í fyrri ræðu, sem ég flyt við þessa umr. Ég tel að að því loknu að hafa heyrt svör hæstv. fjmrh. muni mig langa til að ræða við hann ofurlítið nánar. En ég vona að svör hans verði efnisleg, hæstv. fjmrh. — Ef hæstv. iðnrh., sem hefur hugsað sér að taka þátt í umræðum á eftir, gæti látið hæstv. fjmrh. í friði smástund gæti sá síðarnefndi e.t.v. fylgst með umræðunum. (Iðnrh.: Við fylgjumst vel með báðir.) Já, ég tel að það sé óæskilegt að hæstv. iðnrh. sé að trufla hæstv. fjmrh. Það er ekki á það bætandi. Hæstv. fjmrh. veitir ekki af allri sinni athyglisgáfu til að fylgjast með þessum umræðum. (Iðnrh.: Ég er að reyna að aðstoða við það.) Já.

Ég vil bæta einu við og það er spurningin um hvort eða hvort ekki er söluskattur á mjólk og á kjöti og þeim vörum öðrum sem með niðurgreiðslum er meiningin að strika út. Auðvitað er söluskattur á þessum vörum. Er það ekki ljóst, hæstv. fjmrh.? Hann er bara niðurgreiddur. Mjólk og kjöt er ekki undanskilið í undanþágugrein frv. Nei, það er rétt. M.ö.o.: það er söluskattur á þessum vörum. Rétt. Og hvað er þá verið að segja? Það á að niðurgreiða hann. Hvernig? Með sérstakri fjárveitingu á fjárlögum á hverju einasta ári. Hvað þýðir það? Það þýðir að þegar við næstu fjárlög getur hæstv. ríkisstjórn krukkað í þessar niðurgreiðslur, komið andaktug fram fyrir þjóðina og sagt: Ja, því miður. Nú er hart í ári, nú er erfitt í búi, kassinn bara tómur og við höfum ekki efni á að niðurgreiða þetta nema 15%. (Mundu kannski segja 18 í fyrsta tilhlaupi.) Þeir sem hafa sett traust sitt á að landbúnaðarvörurnar innlendu mundu fljóta á því að niðurgreiðslurnar mundu vega upp söluskattinn, hvaða tryggingu hafa þeir í höndunum? Enga, enga nema takmörkuð loforð ríkisstjórnar sem ég tel að þeir hafi ekki mikla ástæðu til að treysta. Og ég verð að segja að að því leyti sem þessi söluskattur, þessi matarskattur, bitnar ekki á neytendum tel ég þetta vera hina dökku hliðina á málinu. Það er dökka hliðin sem snýr að íslenskum landbúnaði og neytendum í leiðinni því þeir fá væntanlega að borga brúsann þegar niðurgreiðslurnar hrapa niður á næstu árum, alla vega ef þessi hæstv. ríkisstjórn og þessi hæstv. fjmrh. á að fara með ríkisfjármálin áfram.

Mig langar til að spyrja hv. þm. í Framsfl. og Sjálfstfl., ef þeir væru einhverjir hér, þessir bændagarpar í þessum flokkum: Eru þeir hæstánægðir með að það sé hæstv. núv. fjmrh., eftir allan sinn málflutning um landbúnað á Íslandi, sem þetta standi og falli með, ef þessi hæstv. fjmrh. á nú eftir að undirbúa þrenn fjárlög í viðbót? Við skulum segja að hann hefði það á bak við eyrað að afnema niðurgreiðslurnar á móti söluskatti eða virðisaukaskatti í þremur áföngum. Þá gætu það verið 15% og 7% og 0% eða eitthvað svoleiðis. Ekki rétt, hv. þm. Níels Árni Lund? Það væri fræðilega mögulegt. Ég verð að segja að það sé barnaskapur í þessu máli að gera sér ekki grein fyrir því hvernig hin pólitíska staða er í málinu og vitandi að það er mjög sterkur áróður gegn því að niðurgreiða landbúnaðarvörurnar og hefur verið lengi. Telja menn líklegt að í höndunum á fjmrh. Alþfl. verði staðið við þessi fyrirheit mörg ár í viðbót? Ég er ekki trúaður á það. Ég held að það þyrfti ekki að skipta ýkjamiklu máli þó að virðulegur ritstjóri Jónas Kristjánsson væri fjmrh. eða hvort hann heitir Jón Baldvin Hannibalsson. Svo hafa farið saman að mörgu leyti skrif þessa ágæta manns um landbúnaðarmál og talsmáti og málflutningur hæstv. núv. fjmrh. Hvað mikið er búið að tala hér um að skera landbúnaðarbáknið niður? Hvað með öll ræðuhöldin frá undanförnum árum? Ég hef að vísu sannað með dæmum að það er ekki endilega alltaf mikið að marka. Þó hæstv. fjmrh. hafi eina skoðun í dag er ekki víst að hún verði mjög lífseig hjá honum á morgun.

En ég leyfi mér samt að segja að það sé a.m.k. næstmesta blekkingin í þessu máli að reyna að láta líta svo út sem það sé ekki söluskattur á þessum mikilvægustu flokkum innlendu matvörunnar því það er söluskattur á þeim. Það eina sem er gert er að í augnablikinu eru niðurgreiðslur og aðrar ráðstafanir látnar vega þetta upp. En það er tímabundið ástand. Það getur breyst skjótar en hendi er veifað. Það getur t.d. breyst með því að niðurgreiðslurnar séu ekki verðbættar í verðbólgu, þær séu látnar standa í ákveðinni krónutölu. Með þeirri ráðstöfun einni getur innan árs orðið gífurleg lækkun á þessum pósti og hefur oft gerst. Hvað ef verðbólgan verður nú 30% og fer kannski í 40% á næsta ári en niðurgreiðslurnar sitja fastar við ákveðna krónutölu í frv.? Þær hafa reyndar lengi gert það og oft gert það, m.a. næstum því alla tíð síðustu ríkisstjórnar. Þá hrynur verðgildi þeirrar upphæðar og vörurnar hækka og söluskatturinn kemur einfaldlega inn í verðið smátt og smátt. Því miður er það það sem mun gerast og stendur ábyggilega til að gera — eða hvað tryggingar hafa menn? Hvað stendur til að gera gagnvart landbúnaðarvörunum þegar virðisaukaskatturinn kemur? Vill hæstv. fjmrh. upplýsa það? Vilja þeir gefa hér yfirlýsingu, hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh., um að meðan þessi ríkisstjórn situr verði séð til þess að raungildi niðurgreiðslna verði allan tímann þannig að söluskattsálagningin hafi ekki áhrif? Ég vil fá svör við þessu. Þetta er einfalt mál. Það er hægt að segja já eða nei.

Ég held að það mundi hafa umtalsverð áhrif víða um landið ef hæstv. ríkisstjórn, hæstv. forsrh. allra manna helst, gæfi slíka yfirlýsingu í tengslum við afgreiðslu þessa máls. Mér duga engar þokukenndar yfirlýsingar, ekkert holtaþokuvæl um þetta mál, næsta árið. Hér þarf að liggja fyrir einhver langtímastefnumörkun. Það er svo alvarlegt að taka upp söluskatt á alla innlendu matvöruna, sérstaklega á landbúnaðarframleiðsluna í ljósi þeirrar stöðu sem þar er, og auðvitað pólitísk og efnahagsleg heimska því hæstv. ríkisstjórn fær slíkt í hrygginn á sér vegna þeirra samninga sem hún hefur gert við bændur nema standi til að rjúfa þá eða breyta þeim.

Ég verð að segja alveg eins og er að þó að mér þyki viðbrögð verkalýðshreyfingarinnar í landinu ekki hafa verið nógu hvöss og markviss gegn hótanastefnu hæstv. ríkisstjórnar finnast mér blessuð samtök bænda ekki hafa tekið á móti þessu máli sem skyldi því þetta er í mínum huga örlagaríkt mál fyrir landbúnað á Íslandi ef af verður.

Herra forseti. Ég hef aðeins drepið á nokkur af stærstu atriðunum sem tengjast kerfisbreytingum á þessu söluskattsfrv. hér. Það væri margt fleira sem ástæða væri til að taka til ítarlegrar umræðu í þessum efnum og eins og menn hafa tekið eftir og heyrt hef ég ekki farið yfir frv. Ég hef ekki rætt þær undanþágur eða endurgreiðsluheimildir sem hér eru. Það væri vissulega eðlilegt að gera og vissulega þarft. Það er t.d. stór spurning hvort þessi flokkun er sanngjörn gagnvart ýmsum aðilum, hvort ekki er ástæða til að breyta og bæta við. Ég vek athygli á lið B 12, um sölu á vatni frá vatns- og hitaveitum ásamt mælaleigu svo og íssölu til fiskiskipa. Sama á við um rafmagn til hitunar húsa, laugarvatns, varmadælna og dælingar hitaveitna. Hér er um að ræða flokkun sem vissulega væri hægt að hugsa sér að væri öðuvísi þegar þessi svið eru undanþegin söluskatti. En ég ætla að bíða til betri tíma með að ræða þessa hluti í smáatriðum, m.a. sjá hvaða stefnu og hvaða skoðun þessi mál fá í nefnd, hvort það er meiningin að hv. fjh.- og viðskn. Nd. rétt líti á þetta eins og þetta sé hvert annað smámál.

Ég hef einhvern veginn á tilfinningunni að hv. þm. Páll Pétursson geti orðið óskaplega fljótur að fara yfir þetta mál. En í raun og veru er þetta stórmál og mætti hann gerst vita, bóndinn norðan úr Höllustöðum. En við skulum sjá til. Við skulum ætla hæstv. ríkisstjórn og þessum ágæta nefndarformanni allt hið besta og vonast til að þessi mál fái rækilega skoðun. Ekki stendur á mér að vinna að þessum málum í fjh.- og viðskn. þó það væri jafnvel jóladagana ef það eru þá ekki helgispjöll. Það gæti komið til greina að hæstv. kirkjumrh. gæfi okkur undanþágu, okkur hv. þm., mér og 1. þm. Norðurl. v., til að vinna í nefnd yfir jólin. Ekki stendur á mér.

En ég vil fá svör við þeim spurningum sem ég hef borið fram til að mynda um niðurgreiðslur á landbúnaðarvörum. Ég sætti mig illa við að fá einhverjar þokukenndar yfirlýsingar og ég tel að það sé óvirðing af ráðherrum að tæpa á efnisatriðum eins og þeim hvernig þessar skattkerfisbreytingar snerti stöðu okkar gagnvart erlendum þjóðum án þess að ræða þau mál af skynsenti og talsvert ítarlega. Það tel ég að eigi að gera. Hér eru ekki smámál á ferðinni. Mér hafa tjáð erlendir menn að efnahagsspekingar alþjóðastofnana og virtra tímarita, sem skrifa um þau mál, séu forundrandi yfir því sem er að gerast á Íslandi. Ritstjórar Economist og sérfræðingar hjá alþjóðastofnunum, OECD og fleiri slíkum, séu alveg gapandi yfir því sem er að gerast uppi á Íslandi. Þeir hafi aldrei vitað til þess fyrr að ein þjóð leggi út í það á einum og sama næstum að segja sólarhringnum að gjörbylta öllu tekjuöflunar- og skattlagningarkerfi sínu á einu bretti. Þetta vekur slíka athygli og undrun að hæstv. fjmrh. er sjálfsagt á góðri leið með að verða frægur að endemum úti í hinum stóra fjármálaheimi fyrir þann mikla garpskap að ætla að gera þetta allt næstum að segja eigin hendi á fáeinum sólarhringum.

Nú er það sjálfsagt tilfellið að menn hafa mikið traust víða í þjóðfélaginu á hæstv. fjmrh., ekki dreg ég það í efa, og ugglaust líta margir hv. þm. upp til hans, en ég leyfi mér samt að efa, og það er ekki illa meint gagnvart hæstv. fjmrh., að slík sé trú manna á hann og mátt hans og garpskap að mönnum finnist þetta traustvekjandi vinnubrögð. Það verð ég að segja. Og ég hef tilhneigingu til að taka líka mark á efnahagsspekingum, sprenglærðum ritstjórum (Gripið fram í: Erlendum.) og sérfræðingum alþjóðastofnana sem hafa sérhæft sig í því um árabil að fylgjast með efnahagslífi þjóða heimsins og skoða þær hræringar sem þar eru á ferðum. Ég leyfi mér að segja að ég skil að þeir séu hissa þegar menn ætla sér slíka hluti og hafa ekki meiri áhyggjur af því en raun ber vitni, eru jafnborubrattir, jafnvissir um að þetta sé allt í fínu lagi. Ja, það er nú það.

Herra forseti. Það verður fróðlegt að heyra svör hæstv. ráðherra.