21.12.1987
Neðri deild: 35. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3110 í B-deild Alþingistíðinda. (2186)

179. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm, meiri hl. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti meiri hl. fjh.- og viðskn. um frv. til laga um tekju- og eignarskatt. Nál. liggur fyrir á þskj. 400.

„Nefndin hefur athugað frumvarpið á mörgum fundum. Hún kvaddi til ráðuneytis Garðar Valdimarsson ríkisskattstjóra, Indriða Þorláksson, Snorra Olsen og Lárus Ögmundsson úr fjármálaráðuneyti. Þá komu á fund nefndarinnar Magnús E. Guðjónsson og Sigurgeir Sigurðsson frá Sambandi ísl. sveitarfélaga og Björn Ólafsson og Sturla Þorgilsson frá „Sigtúnshópnum“.

Nefndin varð ekki sammála um afgreiðslu málsins. Meiri hl. leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem fluttar eru á sérstöku þingskjali.“

Undir þetta rita stjórnarliðar í fjh.- og viðskn., þ.e. Geir H. Haarde, Kjartan Jóhannsson, Guðmundur G. Þórarinsson, Matthías Bjarnason og Páll Pétursson.

Brtt. þær sem við flytjum eru á þskj. 401. Ég ætla að fara örfáum orðum um þessar brtt.

1. brtt. fjallar um hver útgjöld séu undanþegin staðgreiðslu og þar þótti eðlilegt að útvíkka þá grein nokkuð, enda er útlagður kostnaður ekki eðlilegur skattstofn.

2. brtt. er umorðun á frádráttarheimildum þar sem í frv. er gert ráð fyrir annarri viðmiðun en í brtt.

3. brtt. er nákvæmari tilvísun.

4. brtt. fjallar um það að það þurfti að ráðstafa 320 millj. aukalega vegna barnabóta og barnabótaauka og breytast tölur í samræmi við það. Enn fremur er teygt úr tekjubilinu sem barnabótaauki greiðist á, þ.e. barnabótaauki við fjórða barn verður við tekjur upp á 1 millj. 450 þús. en ekki 900 þús. eins og er í óbreyttum lögum. Í 4.d eru réttari tilvísanir.

5. brtt. er breytt orðalag allrar greinarinnar og efnisbreyting reyndar líka, að 35% verða nú 20%. Jafnframt er í þeirri grein fjallað um það að lífeyrisþegar og eftirlaunaþegar sem dveljast erlendis en taka lífeyri frá Íslandi hljóta sömu skattalegu meðferð á lífeyri og eftirlaunum eins og ef þeir byggju hér á Íslandi.

Í 6. brtt. er fellt niður þak sem var á vaxtaafslætti.

7. brtt. er einungis breyting á ártölum.

8. brtt. er við bráðabirgðaákvæði IV, þannig að „lækkun skattstofns kemur því aðeins til greina að dvalartími erlendis hafi ekki verið lengri en 6 ár," segir í frv., en við komum okkur saman um að leggja til að þarna yrði um 10 ár að ræða.

9. og 10. brtt. eru leiðréttingar á röngum tilvísunum.

Það voru nokkur vafamál sem hafa verið hér á orði á milli manna í umræðu undanfarna daga og ég hef í höndum bréf frá Indriða H. Þorlákssyni til fjh.og viðskn. Ed. og vil kynna það hér. Það fjallar um vasapeninga frá Tryggingastofnun ríkisins í staðgreiðslu. Bréfið hljóðar svo:

„Í reglugerð þeirri um laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu er út verður gefin á næstu dögum verða dagpeningar frá Tryggingastofnun ríkisins felldir inn í efni 2. gr. sem tiltekur hvaða greiðslur falli ekki undir staðgreiðslu.“

Í Ed. kom fram einhver tortryggni um að það væri einungis verið að fresta skatttöku af þessum fjármunum, en dagpeningagreiðslur fær ekki nema fólk sem er á mjög lágum tekjum hvort sem er og þess munu ekki vera neinar líkur að það beri skatta á annað borð.

Menn hafa líka rætt um skattalega meðferð á sveiflukenndum tekjum, t.d. listamanna. Þar er ekki fyrirhugað að breyta þeim praxís sem verið hefur. Ég vil leyfa mér að lesa 61. gr. skattalaganna. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Skattstjóri getur heimilað þeim sem atvinnurekstur stunda eða sjálfstæða starfsemi og selja þjónustu að miða tekjuuppgjör rekstrarins við innborganir vegna seldrar þjónustu í stað þess að miða við unna og bókfærða þjónustu í þeim tilvikum sem vinnuþáttur hinnar seldu þjónustu er almennt yfir 70%.“ Og síðan: „Enn fremur getur hann heimilað þeim sem hafa mjög breytilegar tekjur milli ára af framleiðslu og sölu eigin verka, svo sem listaverka, að telja þær tekjur til skattskyldra tekna á fleiri en einu ári. Einnig er skattstjóra heimilt að leyfa sams konar dreifingu á skattlagningu björgunarlauna sem áhafnir skipa annarra en björgunarskipa hljóta.“

Við leggjum sem sagt til í meiri hl., herra forseti, að þetta frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem prentaðar eru á þskj. 401.