21.12.1987
Neðri deild: 35. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3111 í B-deild Alþingistíðinda. (2187)

179. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. 1. minni hl. sem er prentað á þskj. 402 og jafnframt þeim brtt. sem ég flyt og eru á þskj. 403.

Það hefur verið unnið ágætt starf miðað við aðstæður í fjh.- og viðskn. Nd. við að skoða frv. Við höfum notið þar góðra krafta hv. þm. Kjartans Jóhannssonar sem er málinu kunnur eftir að hafa leitt milliþinganefnd um staðgreiðslu skatta, hv. 4. þm. Reykn. svo að hann sé nú rétt ávarpaður, og það nýttist auðvitað nefndinni vel að hafa slíkan fagmann og kunnáttumann við hendina. Engu að síður má víst segja um þetta mál eins og fleiri að einhverjir hefðu nú kosið að hafa meiri tíma til að fara yfir það, enda komu í ljós ýmis atriði sem nauðsynlegt var að lagfæra og brtt. nefndarinnar og meiri hl. og minni hl. vitna um.

Það skal strax tekið fram að ræðumaður og flokkur hans eru hlynntir staðgreiðslukerfisbreytingunni sem slíkri og hafa reynt að greiða götu þess máls, bæði nú og fyrr. Sú milliþinganefnd sem hefur unnið að málinu undanfarna mánuði er tilkomin vegna tillögu þáv. formanns flokksins, hv. þm. Svavars Gestsonar, við lokaafgreiðslu málsins hér á Alþingi sl. vetur. En það var þá eins og stundum áður og síðar tilfinning manna að málið væri ekki svo fullkomlega af mönnunum gert að ekki þyrfti þar í neinu úr að bæta. Því var talið ráðlegt með tilliti til þess að gildistökutíminn var ekki fyrr en um þau áramót sem í hönd fara að nýta þann tíma með því að vinna að endurskoðun laganna. Hér eru því á ferðinni lög sem ekki hafa enn öðlast gildi en þegar er lagt til að breyta þar sem eru lögin sem samþykkt voru á Alþingi 18. mars 1987 og eru breytingar við lög um tekju- og eignarskatt nr. 75 frá 1981. Þetta gerir það að verkum að ekki hefur verið prentuð sérútgáfa af tekjuskatts- og eignarskattslögunum í heild sinni. svo breyttum, enda hafa þau lög sem þeim áttu að breyta ekki enn tekið gildi. Þetta þurfa menn að hafa í huga þegar þeir skoða þær brtt. sem hér eru til meðferðar, að þar þarf að skoða saman bæði gildandi lög um tekju- og eignarskatt, lög nr. 75 frá 1981, og lög nr. 49 sem samþykkt voru á Alþingi 18. mars 1987.

Þær breytingar sem lagðar eru til á þskj.199, 179. máli, eru í flestum atriðum samhljóða niðurstöðu milliþinganefndarinnar og í samræmi við ábendingar hennar. Þó er þar ekki farið að öllu leyti eftir því sem milliþinganefndin lagði til. Síðan hafa menn orðið ásáttir um það að enn þurfi að gera betur og nú eru fluttar brtt. við frv. sem átti að breyta lögunum sem ekki eru enn farin að hafa áhrif. Ég held að þessi staðreynd sýni mönnum kannski ofurlítið að menn hafa þurft margar atrennur að því að reyna að gera þetta kerfi sæmilega skammlaust og framkvæmanlegt.

Nú er staðan sú, virðulegur forseti, að ég hygg að ríkisbókhaldið ætli sér að tölvukeyra launamiða almennings, opinberra starfsmanna í landinu, næstu nótt á grundvelli m.a. þessa frv. sem hér er til umfjöllunar og ekki er enn orðið að lögum. Þegar launabókhaldið verður keyrt út á næsta sólarhring, næstu nótt, eiga að vera inni í því skattprósentur og álagningarákvæði sem ættu að vera samkvæmt gildandi lögum um tekju- og eignarskatt. Og megi þetta verða mönnum nokkurt umhugsunarefni um það hvernig þessi staða er.

Það er rétt að hafa það líka í huga að í nefndinni, hv. fjh.- og viðskn. Nd., var fullt samkomulag um að taka málið út á fyrsta fundi sem formaður lagði til að það yrði gert. Ég vil að þetta sé skráð í þingtíðindunum, herra forseti, þannig að það sé öllum ljóst, vegna ýmissa ógætilega ummæla sem falla þessa dagana, að a.m.k. með þeim hætti hefur ekki verið tafið fyrir því að þessi kerfisbreyting næði fram að ganga. Hins vegar hefur hv. fjh.- og viðskn. deildarinnar ekki fjallað um frv. núna í nokkra sólarhringa og er þar auðvitað við þann sem verkum stýrir að eiga.

Ég geri nú, herra forseti, nokkra grein fyrir mínu nál. og mínum brtt. og skal reyna að gera það í sem stystu máli með tilliti til aðstæðna þar sem líður að lágnætti. En þeir sem þetta nál. skoða sjá að það er allítarlegt og í því er að finna miklar upplýsingar um þá útfærslu þessa kerfis sem við alþýðubandalagsmenn leggjum til. Þar er í fyrsta lagi nál. sjálft, það er í öðru lagi fskj. I sem er sérálit Ragnars Árnasonar, fulltrúa Alþb. í milliþinganefnd um staðgreiðslu skatta, og þar er í öðru lagi fskj. 11 sem er athugun Þjóðhagsstofnunar á tillögum Alþb. um skattstiga og persónuafslátt sem var gerð í þeirri ágætu stofnun að ósk minni. Þetta bið ég menn að hafa í huga og þetta geta menn nýtt sér ef þeir vilja kynna sér nánar þá útfærslu á staðgreiðslukerfinu og tekju- og eignarskattsalagningunni sem við leggjum til.

Ég hygg, herra forseti, að það sé málinu mest til framdráttar og skýringar að ég lesi fyrst mitt nál. þar sem það hefur ekki legið á borðum hv. þm. nema í 10–15 mínútur eða e.t.v. rúmlega það og renni síðan yfir brtt. í framhaldinu sem að nokkru leyti skýrast og eru rökstuddar í nefndu nál. Með leyfi hæstv. forseta:

„Í frumvarpi þessu felast ýmsar lagfæringar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt sem tengjast gildistöku staðgreiðslu skatta um næstkomandi áramót. Eru þar í flestum tilfellum á ferðinni breytingar sem milliþinganefndin lagði til að gerðar yrðu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt og staðgreiðslu skatta og eru til bóta.

Skattkerfisbreyting sú, sem í frumvarpi þessu felst og fylgifrumvörpum þess, felur í sér verulega einföldun álagningar og staðgreiðslu skatta. Þessum meginmarkmiðum er þingflokkur Alþb. samþykkur og hefur áður lagt slíkt til með flutningi frumvarpa og tillagna. Þar skilur þó á milli stefnu Alþb. og ríkisstjórnarinnar að Alþb. vill láta eitt yfir alla ganga og hefur lagt til hliðstæðar breytingar á skattlagningarreglum fyrirtækja.

Því miður er ljóst að þær breytingar, sem nú verða á staðgreiðslum einstaklinga, leiða ekki til skattalækkana hjá launafólki í heild. Þvert á móti munu þær álagningarprósentur, sem ríkisstjórnarmeirihlutinn leggur til, leiða til verulega þyngri skattbyrðar einstaklinga í heild miðað við tekjur á greiðsluári. Kemur hún til með að nema allt að 25% milli áranna 1987 og 1988. Þar með er einnig ljóst að það markmið að lækka eða afnema tekjuskatt af almennum launatekjum er enn jafnfjarri sem fyrr.

Tillögur þær, sem þingflokkur Alþb. hefur lagt fram á Alþingi í skattamálum, bæði í formi frumvarpa og breytingartillagna við einstök skattafrumvörp og fjárlög, fela í meginatriðum í sér eftirfarandi:

Skattbyrði er færð af fólki með meðaltekjur og lægri yfir á fólk með hátekjur og eignamenn og fyrirtæki.

Skattbyrði einstaklinga í heild er lækkuð um nálægt 1500 milljónir króna með hækkun persónufrádráttar og breytingum á skattstiganum. Sú hækkun er borin uppi af auknum skattgreiðslum eignamanna, fjármagnseigenda og fyrirtækja.

Frádráttarheimildir fyrirtækja eru afnumdar, komið í veg fyrir að einkaeyðsla og risna sé færð a kostnað fyrirtækja og tekjuskattsprósenta fyrirtækjanna hækkuð til samræmis við hátekjuskattþrep einstaklinga.

Skattfrelsismörk einstaklinga hækka og skattbyrði léttist miðað við tillögur ríkisstjórnarinnar á tekjum upp að rúmlega 100 þúsund krónum á mánuði. Útgjöld vísitölufjölskyldunnar eru nú áætluð nálægt 110 þúsund krónum á mánuði.

Skattar á tekjum yfir 110 þúsund krónum á mánuði hækka með sérstöku hátekjuskattþrepi, en samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar mundu skattar lækka á hæstu tekjur frá því sem verið hefur.

Auk þess felast í tillögum Alþb. fjölmargar leiðréttingar og úrbætur í skattamálum, svo sem ákvæði um virkara eftirlit, ákvæði sem tryggja eiga hagsmuni leigjenda, sem ríkisstjórnin ætlar að setja út á klakann, og síðast en ekki síst má nefna frumvarp um sérstakan skattadómstól.

Á sérstöku þingskjali flytur 1. minni hl. breytingartillögur um nokkrar helstu lagfæringar sem hann telur óhjákvæmilegt að gera á frumvarpi ríkisstjórnarinnar og lögum um tekjuskatt og eignarskatt, þ.e. þau ákvæði sem snerta skattlagningu einstaklinga. Um rökstuðning fyrir þeim tillögum vísast til þess sem að framan er rakið, til sérálits Ragnars Árnasonar í skýrslu milliþinganefndar um staðgreiðslu skatta sem birt er sem fylgiskjal með nefndarálitinu og að lokum í útreikninga Þjóðhagsstofnunar á tillögu undirritaðs fyrir hönd Alþb. sem birt er sem fylgiskjal II.

Tekið skal fram að athugun Þjóðhagsstofnunar nær einungis til þess mismunar sem er á tillögum undirritaðs og ríkisstjórnarinnar hvað varðar persónufrádrátt og breyttan skattstiga," þ.e. brtt. á þskj. 403 að öðru leyti en hvað þetta áhrærir voru ekki til sérstakrar athugunar Þjóðhagsstofnunar.

Svo mörg voru þau orð, herra forseti, í þessu nál. á þskj. 402 og tel ég ekki auðvelt að segja það á styttri tíma eða með færri orðum sem er í raun kjarninn í skattatillögum Alþb., bæði hvað varðar skattlagningu einstaklinga og birtist í þessu frv. og brtt. við það og einnig í öðrum till. sem við höfum flutt varðandi tekjuskatta fyrirtækja og varðandi fleiri frv. sem hér eru til meðferðar.

Í brtt. á þskj. 403 er í fyrsta lagi lagt til að á eftir 1. gr. frv. komi ný grein sem orðist svo:

Við A-lið 30. gr. laganna bætist nýr liður sem verði 4. liður — og 30. gr. laganna, A-liður, fjallar um, svo að allir þingdeildarmenn hafi það nú á hreinu, frádrátt manna frá tekjum utan atvinnurekstrar. Í lögunum sem samþykkt voru á Alþingi 18. mars 1987 er 30. gr. breytt þannig að eftir standa þar einungis þrír liðir. Það eru í raun einungis þrír liðir sem falla undir frádrátt manna frá tekjum utan atvinnurekstrar, útgjöld vegna móttekinna ökutækjastyrkja, launatekjur greiddar embættismönnum, fulltrúum og öðrum starfsmönnum hjá alþjóðastofnunum og tekjur sem skv. 4. tölul. A-liðar 7. gr. eru skattfrjálsar samkvæmt sérlögum eða ákvörðun fjmrh. 1. brtt. er að við þennan lið um frádrátt manna frá tekjum bætist: Helming greiddra meðlaga með barni sem er innan 18 ára aldurs.

Það er eins og kunnugt er af umræðum undanfarinna daga ljóst að stjórnarmeirihlutinn ætlar sér að fella niður þá heimild sem verið hefur í lögum um að heimilt sé að draga frá tekjum allt að helmingi greiddra meðlaga með börnum upp að 18 ára aldri. Ég sé ekki rök fyrir því að afnema þessa frádráttarheimild. Þau hafa að mínu mati ekki verið færð fram og við leggjum til að þessari heimild verði haldið.

2. brtt. fjallar í raun um sjálfan skattstigann og er svohljóðandi:

1. tölul. 67. gr. laganna orðist svo:

Af tekjuskattsstofni reiknast 26,75% á mánaðartekjur upp að 62 þús. kr. á mánuði en 38% á það sem er umfram 62 þús. kr.

3. brtt. tengist þessu beint og er svohljóðandi: 1. mgr. A-liðar 68. gr. orðist svo:

Persónuafsláttur manna sem um ræðir í 1. mgr. 67. gr. skal vera 188 þús. kr. á mánuði. Þetta hefur þau áhrif að í fyrsta lagi, eins og ég hef þegar rakið, léttist skattbyrði á miðlungstekjum og þar fyrir neðan ef svo má að orði komast. Þetta er við það miðað að skattbyrði léttist allt upp að þeim tekjum sem taldar eru nú nægja vísitölufjölskyldu til framfærslu eða nálægt þeim mörkum. Þessu er náð með því að hækka persónufrádrátt nokkuð og lækka lægra tekjuskattsþrepið af tveimur sem við leggjum til að notuð verði. Þetta þýðir svo á hinn bóginn að laun yfir þessum mörkum færast smátt og smátt yfir í hærra skattþrep, hátekjuskattþrep og þar af leiðandi taka þeir sem hærri hafa launin en þetta í vaxandi mæli á sig byrðar af þessum sökum.

Ég vil leyfa mér að halda því fram, herra forseti, að með þessu sé á engan hátt kastað á glæ því markmiði að hafa álagningarreglurnar einfaldar. Þvert á móti tel ég að þetta sé nokkurn veginn eins einfalt og það geti verið og sé ekki að menn færi haldbær rök fyrir því að einföldunarþráhyggja manna þurfi að vera slík að ekki sé hægt að útfæra réttlátan tekjuskattsstiga með tveimur skattþrepum eins og einu. Kostirnir eru ótvíræðir. Þá er hægt að létta skattbyrði á lægri og miðlungstekjum en bera það að einhverju verulegu leyti uppi með ívið hærri skattlagningu á hátekjur.

Sá augljósi ágalli er á tekjuskattsstiga hæstv. ríkisstjórnar eða meiri hlutans að við vissar aðstæður í fjármálum og við vissa efnahagsþróun getur orðið um umtalsverða skattalækkun að ræða á hæstu launum frá því sem verið hefur. Það er naumast markmiðið. Þó svo að jákvætt sé að þetta kerfi komi þeim til góða sem lægst hafa launin og um það sé ekki deilt að það sé æskilegt er það varla markmiðið heldur að lækka sérstaklega skattbyrðina á hæstu launum. Þetta þýðir auðvitað samþjöppun skattbyrðarinnar á miðju launabilsins og það er mín tilfinning að þar sé einmitt að finna margar þær fjölskyldur í landinu sem ná saman endum með mikilli vinnu og hafa ekki mikið afgangs þrátt fyrir allt og því sé það keppikefli og markmið í sjálfu sér að reyna að koma þessum breytingum þannig fram að ekki verði um skattþyngingu þeirra aðila að ræða í þessu kerfi fyrr en þá er komið a.m.k. upp í laun sem nægja vísitölufjölskyldu til framfærslu að því er talið er.

Ég vísa í úttekt Þjóðhagsstofnunar á þessum tillögum og bendi á að þar er sýnt fram á að skattbyrðin er lægri samkvæmt tillögum Alþb. allt upp að því marki að laun fara yfir 110 þús. eða vel yfir 100 þús. á mánuði eða yfir 1300 þús. kr. á ári. Svo að dæmi séu tekin þýðir þetta að af launum upp á 1 millj. kr. greiðast skattar samkvæmt tillögu ríkisstjórnarinnar upp á 162 þús. kr. en samkvæmt tillögum Alþb. 135 þús. kr. Af launum upp á 1500 þús. kr. greiðast skattar upp á 285 þús. kr. samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar en 342 þús. kr. samkvæmt tillögum Alþb. Af launum upp á 3,5 millj. kr. greiðast skattar upp á 988 þús. kr. samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar en 1190 þús. kr. samkvæmt tillögum Alþb. Þessi dæmi ættu að nægja mönnum til að skilja hvernig tekjuskattsstiginn snýst þarna við og bilið breikkar eftir því sem launin hækka milli tillagna Alþb. og ríkisstjórnarinnar enda markmiðið í sjálfu sér að þeir sem hærri hafa launin beri meira af þessum byrðum en aðrir.

Ég ætla þó að taka fram að að sjálfsögðu er ekki endilega um hið endanlega réttlæti að ræða í þessum viðmiðunarmörkum eða þessum skattstiga og það er feimnislaust af minni hálfu að viðurkenna að ég sem einstaklingur hafði ekki afl né aðstöðu til að vinna þessar tillögur og útreikna jafnítarlega og ég hefði gjarnan viljað, enda við ramman reip að draga þar sem er fjmrn. og allt það batterí sem að baki ríkisstjórnarfrv. stendur. en ég vil þó leyfa mér að halda því fram að hér sé á ferðinni heiðarleg tillaga að útfærslu sem gefi sanngjarna og réttláta dreifingu skattbyrðarinnar.

Auðvitað er hér lagt til að skattabyrði launamanna í heild léttist og það verulega, eða um 1500 millj. kr., en þau útgjöld höfum við hugsað okkur að taka inn með öðrum hætti og höfum þegar gert ítarlega grein fyrir því.

Ég minni á markmið sem hér var samþykkt á Alþingi og allir flokkar til skamms tíma tóku undir, að stefna að því að afnema í áföngum tekjuskatta af almennum launatekjum. En eins og fram kemur í tillögum hæstv. ríkisstjórnar er það markmið í raun að fjarlægjast með þeim álagningarprósentum sem frv. ríkisstjórnarflokkanna gengur út á.

Það væri einnig æskilegt ef unnt væri að sýna fram á með grafískum hætti þann mun sem er á þessum tillögum og hefði verið gaman að fá sérfræðinga til að keyra fleiri útgáfur af þeim mismun sem getur verið á eins og tveggja þrepa skattstiga með því að byggja hann upp á þennan hátt.

Herra forseti. 4. brtt. er við 8. gr. frv., C-liðinn, þar sem fjallað er um húsnæðisbætur. Ég tel, og vísa í sérálit Ragnars Árnasonar, að lausn húsbyggjenda eða þeirra sem eiga þegar húsnæði og skulda umtalsvert í því sé ekki nógu góð í niðurstöðu meiri hl. Ég óttast því miður að vaxtafrádráttarákvæði og þessar húsnæðisbætur muni duga skammt til að létta undir með því fólki sem nú ber mikla bagga vegna skuldasöfnunar í íbúðarhúsnæði og hefur, margt hvert, síðustu árin haft fyrir augunum í skattalögum frádráttarakvæði sem í mörgum tilfellum gátu gefið umtalsverðar hagsbætur fyrir þessa hópa. Það er að vísu umdeilt hversu lengi mönnum hafi að meðaltali nýst þessar hagsbætur í formi gömlu reglnanna um vaxtaafslátt en hitt þarf væntanlega ekki að útskýra fyrir hv. þm. að vegna þess hversu skammt er liðið frá verðtryggingu lána almennt og vegna þess að lán hafa lengst er ástæða til að ætla að vaxtafrádrátturinn hefði nýst mönnum, tilteknum hópum, lengur en ella ef horft er til fortíðarinnar og því er varasamt að nota fortíðina í þessu efni sem spá um framtíðina.

Ég er því líka ósáttur við að sett sé þak á vaxtaafsláttinn og um það fjallar næsta brtt. En mín tillaga, 4. brtt., a-liður, gengur út á það að C-liður 69. gr. laganna orðist svo:

Húsnæðisbætur skulu vera 50 þús. kr. á ári fyrir einstakling sem kaupir eða byggir íbúðarhúsnæði skv. 1. mgr.

Í frv. er gert ráð fyrir að sú breyting verði upp tekin að húsnæðisbæturnar fylgi einstaklingum í stað íbúðar og verði 38 þús. kr. á ári á einstakling í stað 55 þús. kr. á íbúð eins og menn höfðu fyrr hugsað sér. Ég skil þær röksemdir sem færðar eru fram fyrir því að það einfaldi málin að færa húsnæðisbæturnar yfir á persónulegan grundvöll, láta þær fylgja einstaklingi og koma til einstaklings einu sinni á ævi. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að við ættum að skoða þá leið víðar, til að mynda almennt í húsnæðislánakerfinu. Það leysir mörg vandamál að binda slíka fyrirgreiðslu, sérstaklega ef hún stendur hverjum og einum einstaklingi til boða einu sinni á ævinni, þá við einstaklinginn en ekki fasteign eða eitthvað annað. Þess vegna er ég í sjálfu sér ekki andvígur þeirri hugsun að menn færi þarna til. En ég bendi á að með því að lækka þessa tölu jafnmikið og raun ber vitni er í raun verið að ívilna sambýlisfólki og hjónum en minnka stuðninginn við einstaklinga. Út af fyrir sig er það ágætt og allt gott um það að segja en þannig er það nú orðið í æ vaxandi mæli í okkar þjóðfélagi að einstaklingar þurfa líka að búa í íbúðum og þær eru oft og tíðum ekkert sjáanlega ódýrari en þær sem par eða sambýlisfólk býr í. Ég tel því ósanngjarnt að lækka þessa tölu jafnmikið og raun ber vitni og legg til að hún verði 50 þús. kr. á einstakling eða ívið lægri en áður hafði verið hugsað að hafa á hverja íbúð.

Og b-liður 4. liðs brtt. er svohljóðandi:

Við C-lið bætist ný mgr. sem verði 10. mgr. og orðist svo:

Rétt til húsnæðisbóta eiga og þeir sem sannanlega greiða húsaleigu vegna leigu á íbúðarhúsnæði til eigin nota.

Ég bar fram það sjónarmið í fjh.- og viðskn. Nd. að það væri með öllu órökrétt og ósanngjarnt að ætla að taka allan stuðning við leigjendur út úr skattalögum á sama tíma og verið væri að festa í lögum umtalsverða aðstoð við húsbyggjendur og þá sem bera skuldir vegna öflunar íbúðarhúsnæðis. Ég tel að með þessu sé verið að mismuna húsnæðisformum í landinu á ósanngjarnan og óskynsamlegum hátt. Ég held að leigjendur og það að fólk einhvern hluta ævi sinnar leigi húsnæði sé fullkomlega eðlilegur hlutur. Aðstæður manna krefjast þess oft að þeir leigi sér húsnæði en festi ekki á því kaup um tíma a.m.k. Og við skulum heldur ekki gleyma þeim sem kjósa sér það húsnæðisform fremur að leigja og eiga þá hugsanlega einhverja fjárfestingarmöguleika aðra á móti. Ég er því ekki sammála og sætti mig ekki við að það ákvæði sem í lögum hefur verið um frádrátt vegna húsaleigu verði fellt niður með öllu og ekkert komi í staðinn.

Ég tek það fram að sú brtt. sem ég flyt gengur að sjálfsögðu lengra en ég hefði hugsanlega getað sætt mig við ef menn hefðu verið til viðræðu í hv. fjh.- og viðskn. um eitthvert samkomulag að þessu leyti. Ég hefði að sjálfsögðu verið til viðræðu um samkomulag um það að leiga yrði eftir sem áður, þó ekki væri nema að hluta til, frádráttarbær frá skatti, jafnvel með einhverjum takmörkunum um árafjölda. Ég sætti mig hins vegar ekki við að leigjendur séu með öllu settir út úr þessum lögum og hvergi sé þá að finna í samanlagðri löggjöfinni sérstakan stuðning við þann hóp sem kýs eða verður að leysa húsnæðismál sín með þeim hætti annaðhvort hluta ævinnar eða allan tímann. Ég tel það verulega miður að ekki náðist um þetta eitthvert samkomulag og þó að það sé kannski að bera í bakkafullan lækinn og maður hafi stundum verið bjartsýnni en einmitt þessa allra síðustu sólarhringa að beina tilmælum til hæstv. ríkisstjórnar og höfða þar til sanngirni ætla ég að leyfa mér að gera það einu sinni enn. Ég ætla að leyfa mér einu sinni enn að beina tilmælum til hæstv. ríkisstjórnar, höfða til almennra sanngirnissjónarmiða og spyrja: Er ekki hugsanlegt, m.a. í ljósi þess að menn vilja greiða götu þessara kerfisbreytinga hér í gegnum þingið og þarf nokkuð til, hæstv. fjmrh., þar sem starfsmenn þínir þurfa að fara að keyra launabókhald ríkisins út seinni part næsta dags ef vel á að vera á grundvelli nýrra laga um tekju- og eignarskatt, að hæstv. ríkisstjórn skoði aðeins í vasa sína um það hvort unnt sé að koma eitthvað til móts við leigjendur áður en þessu lagafrv. verður lokað? (Gripið fram í.) Já, menn geta flissað ef það er af þessu tilefni og ef ekki þá óska ég mönnum til hamingju með brandarann sem örugglega hefur verið góður. En mér er full alvara. Ég held að það vefðist ekki tæknilega fyrir okkur ef hér væri fyrir því pólitískur vilji að koma þó ekki nema í litlu væri til móts við leigjendur að þessu leyti. Og ég spyr um rök fyrir því að taka þá pólitísku ákvörðun hér og nú við afgreiðslu þessa tekjuskattafrv. að setja leigjendur endanlega og með öllu út úr fyrirgreiðslu eða stuðningi hvað þetta varðar í löggjöf. Er það sem sagt pólitísk niðurstaða hæstv. ríkisstjórnar að yfirgefa það form með öllu með þessum hætti og láta þar við sitja?

Ég ætla ekki að fjalla með sambærilegum hætti um neinar aðrar brtt. mínar þó að ég telji þær reyndar allar góðar og þær þyrftu auðvitað helst allar að ná fram, en ef það skyldi auka eitthvað þunga minna tilmæla læt ég duga að höfða til þessara sanngirnissjónarmiða í tengslum við þennan eina hóp.

Í 5. brtt. er fjallað um það, eins og ég reyndar áður vék að, að það þak sem til hefur staðið og meiningin er samkvæmt frv. að setja á vaxtafrádráttinn, þ.e. þann árafjölda sem vaxtafrádrátturinn verði takmarkaður, nánar tiltekið við sex ára tímabil, verði fellt brott. Nú skal ég að vísu fúslega viðurkenna, herra forseti, að ég hef ekki lesið vandlega í gegnum endanlegar brtt. meiri hl. fjh.- og viðskn. en það ég best veit er ekki tillaga um að fella þessa áratakmörkun í burtu. Og ef ég fer þar rétt með — (Gripið fram í. ) — legg ég það að sjálfsögðu til að þessi árafjöldi verði takmarkaður, verði felldur brott. Hvers vegna? Vegna þess að ég sé ekki ástæðu til að takmarka þetta með þessum hætti ef mönnum kynni að nýtast vaxtafrádrátturinn lengur en í sex ár. Ef ekki þarf væntanlega ekki að hafa áhyggjur af því að ákvæðið standi inni í frv. Það gerir þá engum mein, eða hvað, þó það stæði þarna lengur. Ég held ekki. Það sem ég veit að hv. 4. þm. Reykn. er vís til að segja hérna á eftir, er að það séu sex ár til stefnu að setja þá framlengingu inn, er auðvitað hárrétt hjá honum. En mér finnst skemmtilegra að ganga frá löggjöf eins og maður trúi því sjálfur að maður sé að vanda vel til þess sem lengi eigi að standa og búi sér ekki til tilefni af því tagi að taka lögin upp aftur innan sex ára. Ég flyt því þessa brtt. og stend við hana.

Í öðru lagi flyt ég brtt. um að 4. mgr. 1. bráðabirgðaákvæðis falli brott. Mér til mikillar ánægju er þar á ferðinni sambærileg tillaga frá meiri hl. fjh.- og viðskn., enda var reyndar ágætis samkomulag orðið um að afnema það þak sem upphaflega stóð til að setja sérstaklega á vaxtafrádráttinn, nýtt þak sem ekki var í gildandi lögum.

Enn legg ég til að bætt verði við bráðabirgðaákvæðin í 13. gr. og að þessu sinni við IV. bráðabirgðaákvæðið og það er síðasti liður, c-liður síðustu brtt. sem er nr. 5. Það er á þá leið að við IV. bráðabirgðaákvæðið bætist ný mgr. er orðist þannig:

Heimilt er ríkisskattstjóra jafnframt að lækka tekjuskattsstofn eftirtalinna aðila samkvæmt nánari skilyrðum og reglum er settar verði: 1. Námsmanna á fyrsta starfsári að loknu langskólanámi. 2. Manna sem eru að ljúka störfum fyrir aldurs sakir eða verða fyrirsjáanlega að hætta störfum vegna varanlegrar örorku.

Hér er á ferðinni tilraun eða viðleitni til að koma til móts við tvo hópa sem ég tel að fari nokkuð ómaklega út úr þessum breytingum eða ég óttast að hlutur þessara hópa sérstaklega verði ekki eins góður og skyldi. (Gripið fram í: Hvers vegna?) Hvers vegna? Jú, vegna þess að námsmenn hafa í gildandi lögum haft ákveðna aðstoð við að koma undir sig fótum á fyrstu starfsárum eftir að langskólanámi lýkur. Þar á ég við þann námsmannafrádrátt sem verið hefur í gildi og undirritaður nýtur m.a. góðs af enn þann dag í dag, svo merkilegt sem það nú er, enda innan við fimm ár síðan hann lauk sínu langskólanámi.

Í öðru lagi minni ég á að nú er felld út heimild til að lækka skattgreiðslur ungmenna sem stofna til heimilis. Í gildandi lögum var jafnframt ákvæði sem heimilaði skattstjóra að taka tillit til þess. Þannig gat það tvennt farið saman hjá ungu fólki sem var að ljúka námi og var að stofna heimili að það gat bæði notið námsmannafrádráttar sérstaklega og aðstoðar á því ári sem til heimilis var stofnað.

Um seinni liðinn, menn sem eru að ljúka störfum fyrir aldurs sakir eða verða fyrirsjáanlega að hætta störfum vegna varanlegrar örorku, þarf í raun og veru ekki að segja margt. Mönnum er kunnugt um það að í gildandi lög voru komin ákvæði um að heimilt væri að fella niður skattgreiðslur manna sem voru að ljúka sinni starfsævi og það þó að þar væri um eftirágreiðslukerfi að ræða þannig að viðkomandi einstaklingar hefðu í upphafi notið skattfrelsis á fyrsta starfsári. Þar með var í raun fallist á og í reynd létt sköttum af mönnum bæði við upphaf starfs, fyrsta árið í eftirágreiðslukerfi skatta og við starfslok þannig að þar var í raun og veru á ferðinni tvöföld aðstoð að þessu leyti sem ég tel ýmsar sanngirniskröfur mæla með. Ég veit að vísu, vegna þess að ég er orðinn sæmilega kunnugur lögunum um tekju- og eignarskatt, að 66. gr. þeirra laga heimilar ríkisskattstjóra ákveðnar ívilnanir til aðila sem vegna ellihörleika, slysa eða mannsláts hafa verulega skert gjaldþol, til manna sem hafa foreldra eða vandamenn sannanlega á framfæri sínu o.s.frv. Þar er sem sagt liður sem heimilar skattstjóra nokkrar ívilnanir í sérstökum tilfellum af því tagi, en þar er ekki á ferðinni almennt ákvæði sem dugar skattstjóra til að gera ráðstafanir gagnvart heilum hópum eins og þeim sem eru að ljúka sinni starfsævi eða verða fyrir slysum eða óhöppum eins og brtt. fjallar um.

Það er nú svo að auðvitað er það kostur og ágætt markmið í sjálfu sér að stefna að því að skattkerfið sé sem einfaldast. Ég tek að sjálfsögðu undir það. En fyrir mér er það ekki aðalatriðið. Ég er ekki haldinn slíkri einföldunarþráhyggju að ég fórni á altari hennar félagslegum sjónarmiðum og sanngirnissjónarmiðum sem ég tel mig hér hafa mælt fyrir. Skattkerfi er ekki gott þó það sé einfalt nema það sé líka sanngjarnt og réttlátt. (Gripið fram í.) Já, ég tek þetta til greina. Þetta er góð ábending. En einföldunarþrá manna getur gengið út í öfgar, það er alveg ljóst, ef hún er á kostnað allra sanngirnissjónarmiða, hv. þm. Eggert Haukdal. Er það ekki rétt? Já. Og þess vegna tel ég að þó að menn séu vissulega að leitast við að hafa þessi ákvæði sem einföldust og skýrust þá megi þeir ekki missa sjónar á hinu að þau þurfa líka að vera réttlát og sanngjörn. Það getur vel verið að við þurfum að enda tekjuskattskerfi okkar einu sinni á 25 ára fresti vegna þess að við hneigjumst til að taka inn ákvæði og undanþágur sem smátt og smátt geri það veikbyggðara og erfiðara í notkun. En það er vegna þess að við erum sanngjörn í eðli okkar og viljum reyna að hafa skattakerfið réttlátt og gott. Þess vegna tel ég að það sé varasamt að láta einföldunarþrána leiða sig á villigötur.

Herra forseti. Ég ætla með tilliti til aðstæðna sem ég þarf ekki að hafa um mörg orð ekki að hafa þessi orð mín lengri. Ég hefði gjarnan viljað ræða þetta frv. allmiklu ítarlegar og ég hefði gjarnan viljað eiga hér ánægjulega næturstund í samræðum við hæstv. fjmrh., m.a. um kosti þess og galla að vera með eins eða tveggja þrepa álagningu á tekjuskatti. En ég ætta að geyma mér það til betri tíðar því að ég hef það einhvern veginn á tilfinningunni að það geti verið að við hæstv. fjmrh. eigum eftir að ræða skattamál oftar á ævinni.

Ég ætla þá bara að lokum að ítreka einu tilmælin sem ég hef beint úr þessum ræðustóli til hæstv. fjmrh. og þar sem ég höfðaði til sanngirnisraka og réttlætissjónarmiða.