22.12.1987
Neðri deild: 37. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3146 í B-deild Alþingistíðinda. (2222)

Vinnuálag á Alþingi

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Eftir því sem ég sé í gegnum hálfopnar dyr yfir í Ed. er hún í þann veginn að ljúka atkvæðagreiðslu um kvótafrv. og þá mun væntanlega vera næsta verkefni þeirrar deildar að taka fyrir frv. til l. um tekju- og eignarskatt þannig að það felst í sjálfu sér ekki annað í tilboði hæstv. fjmrh. en það sem væntanlega gerist hvort eð er næstu mínúturnar.

En hvað það varðar að slíta í sundur umræður um það frv. sem hér liggur næst fyrir og er á dagskrá þessarar deildar og þegar var búið að ræða allítarlega í gær, þá sé ég ekki að það þjóni neinum sérstökum tilgangi að taka upp framsögu fyrir öðru dagskrármáli og fresta þá væntanlega þeirri umræðu þannig að hér liggi í deildinni tvö hálfkláruð mál. Mér finnst það óskipulegt verklag og ég legg frekar til, án þess að ég ætli að fara að hlutast til um störf forseta, að við höldum okkur við að halda áfram þeirri umræðu sem hér stóð í gær um söluskatt.