22.12.1987
Sameinað þing: 37. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3194 í B-deild Alþingistíðinda. (2237)

1. mál, fjárlög 1988

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra samgöngumál, tala ég hér fyrir nál. samvinnunefndar um samgöngumál og fyrir þeim brtt. sem nefndin forseti. Í fjarveru hv. þm. Karvels Pálmasonar, sem er formaður samvinnunefndar um flytur.

Ég leyfi mér að mæla fyrir brtt. samvn. samgm. við frv. til fjárlaga fyrir árið 1988.

Samvn. samgm. hefur að venju fjallað um erindi þau sem Alþingi hafa borist um framlög á fjárlögum til stuðnings við rekstur flóabáta vegna vöru- og fólksflutninga á einstökum svæðum. Farsvæði þessara báta eru á Faxaflóa, á Breiðafirði og Ísafjarðardjúpi og á leiðinni frá Þorlákshöfn til Vestmannaeyja. Enn fremur eru flutningar styrktir á Eyjafirði og milli Mjóafjarðar og Neskaupstaðar.

Jafnframt hefur nefndin tekið fyrir og rætt erindi sem borist hafa um flutninga á landi, svo sem um rekstur snjóbifreiða eða um mikinn snjómokstur, þar sem erfitt reynist fyrir viðkomandi byggðarlög að standa straum af þeim kostnaði sem þau verða að bera samkvæmt snjómokstursreglum Vegagerðar ríkisins. Enda þótt reglurnar hafi verið rýmkaðar á síðustu árum verða íbúar í snjóþungum héruðum fyrir verulegum kostnaði umfram aðra þegna þjóðfélagsins við að halda uppi nauðsynlegum samgöngum. Til að minnka eitthvað þennan aðstöðumun hafa verið veitt á fjárlögum hvers árs framlög til þeirra aðila sem að dómi nefndarinnar eru verst settir að þessu leyti.

Halldór S. Kristjánsson, skrifstofustjóri samgönguráðuneytisins, og Guðmundur Einarsson, forstjóri Skipaútgerðar ríkisins, mættu á fundum nefndarinnar og veittu henni margvíslegar upplýsingar sem komu að verulegu gagni. Færir nefndin þeim sérstakar þakkir fyrir störf þeirra í hennar þágu.

Á undanförnum árum hefur í framsögu fyrir tillögum nefndarinnar verið gerð nákvæm grein fyrir einstökum þáttum þeirra, sérstaklega varðandi hin stærri verkefni, þ.e. flutninga á sjó. Þar sem þessum þáttum eru gerð ítarleg skil í áliti nefndarinnar sé ég ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um einstaka báta heldur vísa til nefndarálitsins.

Ég vil taka það fram að með flestöllum umsóknum fylgdu greinargóðar upplýsingar um viðkomandi verkefni og á þetta einkum við um flutninga á sjó. Enda þótt þeir aðilar sem styrks til landflutninga njóta hafi einnig sent nefndinni greinargóðar upplýsingar um rekstur og annað er umsóknina varðar er í nokkrum tilvikum misbrestur á því að reikningar fylgi umsókn og voru nefndarmenn sammála um að styrkur yrði ekki greiddur á næsta ári fyrr en reikningar bærust samgrn. fyrir yfirstandandi ár.

Ég mun nú víkja að tillögunni og þeim breytingum sem nefndin er sammála um að gera á fjárframlagi til þessa málaflokks á fjárlögum fyrir árið 1988.

Nefndin leggur til að framlag til flóabáta og vöruflutninga verði 92 millj. 719 þús. kr. á næsta ári. Samsvarandi upphæð á fjárlögum yfirstandandi árs er 74 millj. 10 þús. kr. Hér er um að ræða 25,3% hækkun á milli ára.

Til flutninga á landi er lagt til að verja 14 millj. 289 þús. kr., en í ár er til þess liðar varið 10 millj. 635 þús. kr. Hækkunin nemur 34,4%.

Til reksturs flóabáta og skyldra verkefna leggur nefndin til að framlagið verði 78 millj. 430 þús. kr. en samsvarandi framlag í ár er 63 millj. 357 þús. kr. Hækkunin er 23,8%.

Nefndin leggur til að veittur verði styrkur til 56 verkefna vegna flutninga á landi eða tveimur fleiri en eru á fjárlögum í ár. Af þessum liðum leyfi ég mér að gera að umtalsefni lið nr. 56, Óráðstafað, en um hann er það að segja að hann er fyrst og fremst hugsaður sem sjóður sem hægt yrði að grípa til í neyðartilvikum þegar samgöngur teppast og grípa þarf til dýrari flutningstækja. Slíkir flutningar yrðu síðan greiddir skv. reikningi og hefur verið farið fram á það við Halldór S. Kristjánsson, skrifstofustjóra í samgrn., að hann annist greiðslur slíkra reikninga í samráði við formenn samgn. Alþingis. Eitt slíkt tilfelli liggur þegar fyrir þar sem gert er ráð fyrir að aðflutningsgjöld af varahlutum til snjóbifreiða á Oddsskarði verði endurgreidd af þessum lið.

Í nefndinni hefur verið rætt um að þar sem ákveðið hefur verið að fella úr 6. gr. fjárlaga heimildir til endurgreiðslu á aðflutningsgjöldum og söluskatti af kaupum á snjóbílum og tækjum til þeirra kæmi til álita að nota þetta fjármagn að einhverju leyti til þess að greiða slíkan kostnað.

Til reksturs flóabáta og skyldra verkefna leggur nefndin til að styrkir verði veittir til níu aðila eða einum færri en er á fjárlögum í ár. Styrkur til Hnúksnesbáts fellur niður, enda hefur ferðum bátsins milli Stykkishólms og Hnúksness verið hætt.

Herra forseti. Ég mun þá samkvæmt venju víkja að brtt. þeirri sem samvn. samgm. hefur sett fram á þskj. 422. Ég veit ekki, herra forseti, hvort rétt er að lesa hér lið fyrir lið þessa brtt. Ég efa satt best að segja að það sé nauðsynlegt. Ef til vill rekur marga í rogastans með það hvað upphæðir eru sums staðar litlar og má ljóst vera að ekki verður mikið fyrir þær gert, en ég vil þó fullyrða að þessar upphæðir margar hverjar sætta menn við það að þurfa að bíða í nokkur ár og í sumum tilfellum allmörg ár enn eftir því að vegasamband verði viðunandi við nærliggjandi svæði. Ég hygg að það eina aðalatriði sem rétt er að vekja athygli á sé það að í 6. gr. fjárlaga á seinasta ári var heimild til að semja um skuldir við ríkisábyrgðasjóð. Þessi heimild var handa fjmrh. vegna Skallagríms hf. en hann rekur eins og menn vita Akraborgina. Þessi heimild var nýtt og þar voru veittir verulegir fjármunir, um 45 millj. kr. Ég ætla nú að víkja frá þessu málefni og víkja að tveimur atriðum í 6. gr. fjárlaga sem ég tel rétt að ræða hér dálítið.

Annað atriðið fjallar um mjög opna heimild til ráðherra vegna þess að eftir að menn höfðu áttað sig á hvaða fjárhæðir voru settar í heilsugæslu þá vildu sumir aðilar ekki við una. Auðvitað er það svo að það má lengi deila um hve mikið fjármagn þjóðin á að leggja í sjúkrahús og uppbyggingu á aðstöðu fyrir aldraða, en satt best að segja hygg ég að þetta sé einn af þeim málaflokkum engu að síður sem við Íslendingar erum komnir lengra áleiðis með en velflestar aðrar þjóðir. Nú er það svo að það kann að mínu viti ekki góðri lukku að stýra að þegar menn ná ekki fram því sem þeir vilja í 4. gr. fjárlaga, þá sé stefnt að því að koma málinu á framfæri í 6. gr. og ef það tekst ekki þá reyna menn gjarnan að fara með það inn á lánsfjárlög. Auðvitað er það svo með þetta eins og fleira að það eru takmörk fyrir því hvað það er skynsamlegt að hafa heimildir opnar og hvað það getur haft í för með sér ef sú venja verður upp tekin að hafa svo rúmar heimildir að sveitarstjórnarmenn af landinu öllu eltist við ráðherra fram eftir öllu sumri til að fá hann til að fara af stað með framkvæmdir sem ella hefðu orðið að bíða til næsta árs. Ég tel, herra forseti, að hér sé of langt gengið. Ég mun þó ekki greiða atkvæði gegn þessari heimild en ég treysti mér ekki til að fylgja henni.

Hitt atriðið, sem ég tel að sé þess eðlis að um hrein mistök sé að ræða af hálfu ríkisins, vildi ég gera hér að umræðuefni. Það er nú svo að þó að gott árferði sé nú hefur oft verið harðæri í þessu landi. Harðærið hefur haft þær afleiðingar að heil héruð hafa stundum mátt búa við grasleysi og mikla erfiðleika. Til þess að reyna að draga úr því að mikil búseturöskun hlytist af þessum ástæðum höfum við á undanförnum árum verið að reyna að koma okkur upp sterkari stöðu til að framleiða fóður hér á landi. Það er svo að við kunnum okkur kannski hóf í fáu og niðurstaðan af þeirri uppbyggingu varð sú að við vorum búnir að byggja upp of margar graskögglaverksmiðjur. Þær voru of margar og of smáar. Það hefði verið betra að hafa þær stærri en mun færri. Ein af þessum graskögglaverksmiðjum er á Flatey í Skaftafellssýslu. Þar hagar svo til að mikið landrými er til staðar. Flatlendi mun vera eitthvað um 2200 hektarar fyrir utan það að jökullinn hefur heldur hopað og landið stækkar af þeirri ástæðu. Þarna hafði verið byggð graskögglaverksmiðja og stendur í dag. Þar hefur ekki verið slegið í sumar og geymslan á þessum stað er með miklum birgðum af graskögglum. Þessi graskögglaverksmiðja liggur þannig við landfræðilega að hún hentar betur sem varaaðstaða fyrir Norðausturland en nokkur önnur graskögglaverksmiðja.

Auðvitað er það svo að þegar góðæri koma eins og nú er ekki mikil þörf á því að selja grasköggla. Þá þarf að stöðva framleiðsluna. Það er ekkert um annað að ræða. Hitt er aftur á móti spurning hvort skynsamlegt sé að láta af hendi þær eignir í húsum, vélum og verkfærum og verksmiðjunni sjálfri ásamt landinu að ekki verði hægt ef árferði kólnar að setja þarna af stað starfsemi.

Ég hef ekki þá trú að auðvelt sé að skapa fyrir því vilja á nýjan leik að byggja upp á öðrum stað ef þetta verður í burtu tekið. Mér virðist að gætt hafi verulegs fljótræðis við þá ákvörðun að selja þessa graskögglaverksmiðju. Nú er það svo að það land sem ég nefndi áðan, 2200 hektarar, er að mínu viti ekki allt selt. Ég hygg að það sé verið að selja 700–800 hektara, er þó ekki nógu kunnugur til að átta mig á því gjörla samkvæmt þeirri merkjalýsingu sem hér fylgir með. En miðað við það svæði sem þarna er ræktað og mér hefur verið sagt frá að selt hafi verið ætla ég að þetta sé nálægt réttri stærð.

Svona til gamans svo að menn átti kannski á stærðinni á spildum: Ef lagt var af stað um áttaleytið til að slá passaði til að menn kæmu í kaffi þegar þeir voru búnir að keyra í kringum spildu sem menn voru að glíma við að slá og lögðu undir í einu. Allar stærðir á ræktuðu landi á venjulegu bóndabýli eru náttúrlega hreint skop miðað við þá landsstærð sem þarna er verið að tala um.

Þessu fylgja vélar og verkfæri og mín skoðun er sú að verðið á þeim sé ekki undir 20 millj. kr. En heildarverðið á þessari eign eins og hugmyndin hefur verið að selja hana er 201/2 millj. kr.

Nú er það vitað að hæstv. fjmrh. fór í ferðalög um þetta land og spurði: Hverjir eiga Ísland? Ekkert var óeðlilegt við þessa fundaherferð eða þessa fyrirspurn. Hins vegar munu menn spyrja eftir söluna á þessu landi: Hvað metur þú dýrt þetta land?

Ég skora á hæstv. fjmrh. að vinna að því að þetta verði fellt úr heimildargreininni og menn hiki við, endurskoði þessa ákvörðun og hugleiði það hvort ekki er hægt að hafa á þessum stað einhverja starfsemi aðra en graskögglaframleiðslu. Þarna er íbúðarhús og stórt starfsmannahús með það mörgum herbergjum að það mætti reka þar sumarhótel og gönguferðir inn í dalinn fyrir ofan þar sem grösugt svæði er gætu verið ágæt afþreying fyrir gesti á staðnum. Verði aftur á móti sú ákvörðun tekin að selja þetta hef ég litla trú á því að rekstur á hreinni graskögglaverksmiðju á staðnum muni verða til langframa. Ég hygg að góðærin muni drepa þann rekstur og menn taki upp á einhverju öðru, sem er ekki óeðlilegt ef einstaklingur á þetta, sem skili vissulega arði en komi gjörsamlega í veg fyrir að hið upprunalega markmið, að velja einn af bestu stöðum þessa lands til að koma þar upp möguleikum til að hafa forðabúr fyrir hinar harðbýlli sveitir þegar veðrátta væri á þann veg að þar væri erfitt um heyöflun.