28.12.1987
Neðri deild: 38. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3281 í B-deild Alþingistíðinda. (2316)

181. mál, stjórn fiskveiða

Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir:

Hæstv. forseti. Það hefur nú þegar komið fram að minn flokkur er á móti frv. eins og það liggur fyrir. En þar sem hér hafa komið fram svo margir, og það úr röðum stjórnarliða, sem hafa lýst því yfir að þeir séu einnig á móti ætla ég ekki að fara hérna út í langa ræðu, heldur bíða þess hvað kemur úr sjútvn.

Það er hins vegar rétt að gera í stuttu máli grein fyrir því hvers vegna ég er á móti því. Það er fyrst og fremst vegna 10. greinarinnar. Þessi grein, ef samþykkt verður óbreytt, hlýtur að hafa í för með sér byggðaröskun og það er þegar orðin nóg byggðaröskun í landinu. Hún hefur í för með sér að fjölskyldur missa sitt lífsviðurværi. Það er eins og það sé alveg lokað fyrir hæstv. sjútvrh. að það eru fleiri hundruð manns sem sækja allt sitt lífsviðurværi í þessa atvinnugrein. Þetta eru engir sportveiðimenn hingað og þangað úti um landið. Þetta eru menn sem lifa á þessu. Alþingi hefur ekkert leyfi til þess að eyðileggja þeirra lífsviðurværi.

Sjómenn hafa alla tíð verið miklir vinir mínir, eða í mínum vinahóp eru margir sjómenn. Sjómenn eru kjarnyrtir og geta gjarnan látið sína skoðun í ljós þannig að það sé auðvelt fyrir alla að skilja. Ég hef verið að glugga hér í ýmsar ræður á öryggisráðstefnu sjómanna og þar á meðal í ræðu sem fulltrúi Landssambands smábátaeigenda hélt. Það væri freistandi að lesa hana alla því að þessi ræða er hrein snilld að mínu viti. Ég ætla að láta duga að lesa lítinn kafla og mér þykir nú vænt um að hæstv. sjútvrh. er kominn og heyrir hann. Ég ætla að lesa þetta upp, með leyfi hæstv. forseta:

„Allt tal um bann á sjósókn smábáta á þessum eða hinum tíma eða með þessu eða hinu veiðarfærinu er frá sjónarhóli trillukarlsins, sem hefur haft þetta starf að atvinnu, harla fáfengilegt. Skulu menn þá vera þess minnugir að því fleira sem bannað er í einu landi því nær er viðkomandi þjóðfélag að glata sjálfu sér. Uppistaðan í smábátasjómönnum eru úrvalssjómenn og að því leyti er öryggi þeirra í lagi ef svo má að orði komast. Sjómenn sem alist hafa upp á smábátum eru mjög margir í flotanum. Þeir hafa í æsku lært að bera tilhlýðilega virðingu fyrir höfuðskepnunum og eru að jafnaði farsælir í starfi. Að því leyti stuðlar uppeldi sjómanna á smábátum að auknu öryggi í flotanum.“

Þessir sjómenn, sem hafa byrjað sitt sjómannauppeldi á smábátunum, fara oft á tímabili á togarana. Margir af þeim trillusjómönnum sem ég hef verið að tala við núna síðustu daga hafa jafnvel verið í nokkur ár á togurum. En fjölskyldumenn þreytast á togaralífi og í samráði við sínar fjölskyldur hafa þeir farið í að stunda trillusjómennsku. Ýmsir af þeim eru að eignast báta. Ef það á að svipta þá þeim möguleikum að fiska nema einhvern ákveðinn og lítinn kvóta missa þeir þessi skip. Það þýðir ekkert fyrir hæstv. sjútvrh. að brosa að því. Þetta er staðreynd. Þeir missa þessi, skip. Og ég vil ekki stuðla að því á einn eða annan hátt.

Það er greinilegt á öllu, sem hér hefur komið fram, að hæstv. sjútvrh. er ráðríkur maður. Það er að mörgu leyti ágætt. Hann þarf að vera ráðríkur í þessu starfi. En ég held samt sem áður að það væri alveg óhætt fyrir hann að láta drottin ráða öðru hvoru. Hvað trillukarlana snertir passar hann upp á að þeir séu ekki of marga daga á sjó á ári. Ég býst við að ráðherra hafi farið í gegnum það, a.m.k. í sínu byggðarlagi, hvað marga daga þeir hafa orðið að vera í landi vegna veðurs. Ætli það sé ekki alveg nóg? Ég gæti vel trúað því.

Ég hef ekki í hyggju að lengja mál mitt meira í nótt en geyma heldur það sem ég hef að segja þar til málið er komið úr nefnd.