28.12.1987
Neðri deild: 38. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3308 í B-deild Alþingistíðinda. (2322)

181. mál, stjórn fiskveiða

Albert Guðmundsson:

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir athugasemdir sem hv. 2. þm. Austurl. hefur gert um stjórn þingsins. Ég held að það sé ekki boðlegt í neinni atvinnugrein. Ég verð að taka undir orð hv. 2. þm. Austurl. (Forseti: Ég biðst velvirðingar á því að ég var truflaður þannig að ég heyrði ekki orð hv. ræðumanns.) Ég er að endurtaka það og ég var kominn þar í mínu máli að ég lét þess getið að það væri ekki boðlegt í neinni atvinnugrein að fólk sé pínt til að vinna lengri vinnudag en það heilsu sinnar vegna þolir. Það þolir enginn maður það vinnuálag sem forsetar hafa í skjóli aukins meiri hluta má segja pínt minni hlutann til að taka á sig.

Það er ekki boðleg nokkrum manni slík framkoma sem hér hefur átt sér stað og síst af öllu þegar sá meiri hluti sem á þennan hátt notar forseta til að kúga minni hlutann til að vera hér og taka þátt í umræðum er að mestu leyti sofandi heima. Það gengur ekki, virðulegur forseti. Ég veit ekki hvað skeður ef borgaraflokksmenn fara nú heim að sofa eins og meiri hlutinn af meiri hlutanum hefur löngu gert vegna þess að þá er hér varaforsetalaust. Ég bið hæstv. forseta um að stytta þessar umræður á þeim forsendum sem komu fram hjá hv. 2. þm. Austurl. Að öðrum kosti sé ég ekki að mælendaskrá sé lokuð. Það eru þrír á mælendaskrá. Þessum umræðum verður ekkert lokið á þessum fundi. Það er alveg ljóst. Ef forseti ætlar að storka minni hlutanum áfram verður minni hlutinn að skilja þau skilaboð.

Og að ætla sér að taka söluskattsmálin á dagskrá eftir það mál sem nú er rætt — ja, ég veit ekki klukkan hvað og á hvaða degi. Við skulum hætta að tala um klukkuna og fara að tala um almanakið og vita hvort við verðum að koma í kapp um hvort forseti þolir að vaka lengur en við hinir. Slík vinnubrögð eru ekki boðleg neinum og ég bið virðulegan forseta um að átta sig á því hvað hann er að framkvæma í valdi meiri hluta sem ræður ekki við minni hlutann. Hann ræður ekki við minni hlutann þegar kemur til kasta tímalengdar í sambandi við fundahöld.

Ég bið virðulegan forseta um að setja mig á mælendaskrá í þessu máli.