30.12.1987
Efri deild: 45. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3396 í B-deild Alþingistíðinda. (2374)

54. mál, útflutningsleyfi

Frsm. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. (Svavar Gestsson):

Hæstv. forseti. Ég hafði óskað eftir því að hæstv. utanrrh. svaraði nokkrum spurningum sem ég bar fram fyrir hann fyrr í dag í þessu máli. Mér þætti vænt um ef forsetinn gæti hlutast til um að hæstv. ráðherra kæmi og legði orð í þennan belg þannig að umræðan geti gengið áfram með eðlilegum hætti.

Þarna er ráðherrann mættur þannig að það er vonandi. (Utanrrh.: Ég hef ekki orðið var við neinar spurningar til mín. ) Ekki var við neinar? Þá er best ég endurtaki þær, ef ég má, forseti, við þingskapaumræðu, en ég skal vera fljótur. (Forseti: Já, forseti leyfir að þessar spurningar verða endurteknar til að greiða fyrir málum á þingi.)

Virðulegur forseti. Spurningin var í fyrsta lagi sú hvort ráðherrann telur að útgáfa reglugerðar nr. 64 1987 sé í samræmi við anda stjórnarráðslaganna miðað við þær forsendur sem lágu fyrir þegar þau voru sett samkvæmt þeim upplýsingum sem ég var með upp úr ræðum og grg. frá þeim tíma þegar lögin voru sett, úr ræðum Bjarna Benediktssonar og Ólafs Jóhannessonar.

Í annan stað vildi ég spyrja hæstv. utanrrh. hvort hann telji ekki óeðlilegt að fráfarandi forsrh. breyti verkaskiptingu viðtakandi ríkisstjórnar og hvort hann geti nefnt nokkur dæmi um það. Ég teldi æskilegt að fá það upplýst. Jafnframt vildi ég spyrja hann: Ef hægt er að breyta stjórnarráðsverkaskiptingunni með reglugerð eins og hann gerði í sumar hverju er þá ekki hægt að breyta? Er þá í rauninni ekki hægt að flytja flesta málaflokka á milli ráðuneyta eins og mönnum sýnist ef pólitískur vilji stendur til þess?

Ég get svo bætt því við til að stytta umræðuna hér: Er hæstv. ráðherra tilbúinn að skoða þær athugasemdir, sem ég gerði áðan, núna yfir hátíðarnar með tilliti til þess hvort ríkisstjórnin mundi vilja fara þá leið frekar að taka breytingarnar, sem voru ákveðnar með stjórnarskrárreglugerðinni, í gegnum lög en reglugerð?